Leita í fréttum mbl.is

Aðvörunarorð utan Sjálfstæðisflokks

koma í leiðara Fréttablaðsins í dag. Hörður Ægisson skrifar svo:

"Skattheimta á Íslandi er ein sú mesta á meðal þróaðri ríkja. Af umræðunni að dæma í aðdraganda kosninga mætti samt halda annað. Í stað þess að kosningarnar snúist um glórulausar hugmyndir um að auka verulega ríkisútgjöld á toppi hagsveiflunnar, með tilheyrandi skattahækkunum á almenning, væri fremur tilefni til að ræða um hvernig megi sýna meiri ráðdeild og sparnað í ríkisrekstri. Því fer hins vegar fjarri.

Flestir flokkar keppast um að yfirbjóða hver annan í óábyrgum útgjaldaloforðum. Fyrir liggur að tveir stjórnmálaflokkar – Vinstri grænir og Samfylkingin – hafa lagt til að útgjöld ríkissjóðs aukist árlega um 50 til 75 milljarða 2018 til 2022. Öllum má vera ljóst að útgjaldaaukning af slíkri stærðargráðu, sem nemur öllum greiddum tekjuskatti fyrirtækja, verður ekki fjármögnuð nema með umtalsverðum skattahækkunum. Þetta á ekki að þarfnast útskýringa.

Sömu flokkar hafa hins vegar að mestu látið hjá líða að gera grein fyrir því hvaðan fjármunirnir eigi að koma – nema þá aðeins að ekki standi til að hækka skatta á almenning. Þess í stað eigi að hækka útgjöldin með sérstakri skattlagningu á ríkasta og tekjuhæsta hópinn í samfélaginu. Ekki er þetta trúverðugur málflutningur.

Hversu miklu gæti upptaka hátekju- og auðlegðarskatta skilað?

Í greiningu sem birtist í Markaðnum í vikunni var sýnt fram á að 48 til 76 prósenta hátekjuskattur á þá sem hafa meira en 25 milljónir í árslaun myndi auka skatttekjur ríkisins um 159 milljónir til 2,7 milljarða á ársgrundvelli. Þá gæti auðlegðarskattur sem lagður yrði á hreina eign að virði 150 milljónir skila 5,1 milljarði upp í allt að 10,2 milljarða, eftir því við hvaða skatthlutfall er miðað.

Þessar tölur eru hins vegar án efa mikið ofmat.

Fólk og fyrirtæki bregðast við skattahækkunum með því að draga úr vinnuframlagi og fjárfestingum. Þá er raunveruleikinn sá, núna þegar höft hafa verið afnumin, að fjárfestar geta fært eignir sínar úr landi, kjósi þeir svo. Ísland er ekki lengur eyland.

Forsvarsmenn flokkanna reyna nú að draga í land og gera lítið úr fyrri málflutningi sínum um að til hafi staðið að fjármagna kosningaloforðin einkum með hátekju- og eignasköttum. Þannig benda þeir á að það sé einnig hægt að sækja fjármuni með auknu skattaeftirliti, enn meiri álögum á sjávarútvegsfyrirtæki og arðgreiðslum úr bönkunum.

Sjávarútvegsfyrirtæki greiða nú þegar um fjörutíu prósent af hagnaði sínum í opinber gjöld og því vandséð að hækkun veiðigjalds geti skilað miklum tekjum til ríkissjóðs. Á komandi árum verður svigrúm fyrir sérstakar arðgreiðslur úr bönkunum til ríkissjóðs en þeim verður samt að ráðstafa til niðurgreiðslu skulda og fjárfestinga í innviðauppbyggingu og þannig skapa grunn að hagvexti framtíðarinnar.

Það væri glapræði við núverandi efnahagsaðstæður að ætla að nýta einskiptistekjur til að standa undir auknum ríkisútgjöldum. Staðreyndin er sú að tillögur um að stórauka útgjöld ríkissjóðs um tugi milljarða á hverju ári, án þess að ráðast í skattahækkanir á millitekjufólk, standast enga skoðun.

Tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal þróaðri ríkja en á Íslandi sem er einmitt ástæða þess að jafnvel mjög hár hátekjuskattur myndi skila afar litlum viðbótartekjum í ríkissjóð. Um þetta er óþarfi að deila. Kjósendur eru ekki fífl og þeir munu sjá í gegnum þann blekkingarleik sem sumir stjórnmálaflokkar hafa kosið að bjóða upp á. "

Það er líklega ekki mikill fögnuður innan Samfylkingarinnar sem blaðið hefur nú heldur þjónað en hitt yfir þessum leiðara Harðar.En Hörður segir aðeins sannleikann. Og þarna kemur hann ekki frá Sjálfstæðisflokknum heldur beinlínis aðeins útfrá heilbrigðri skynsemi. Þeir sem ekki nenna að velta þessum staðreyndum fyrir sér áður en þeir hlaupa eftir upphrópunum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um stóraukna skattheimtu og greiða þessum flokkum atkvæði eiga ekki betra skilið en að fá að gjalda fyrir heimskuna.

Þessi aðvörunarorð eru ekki að koma frá Sjálfstæðisflokknum heldur frá heilbrigðri skynsemi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við verðum að muna að peningur er aðeins bókhald, og reka banka og fjármálakerfið eftir því.

Peningar, seðlar. 

Þarna vil ég geta stýrt stafa stærðinni, og notað náttúruna alla, til dæmis litina.

Flokkurinn hefur lent í þessu áður, og við vitum af hverju.

Ég hef skrifað um það áður, en það virðist vera falið.

Ef við segjum sjálfum okkur ekki satt, þá sitjum við í súpunni.

Egilsstaðir, 20.10.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 20.10.2017 kl. 12:18

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

 Undir rós.

Jónas Gunnlaugsson, 20.10.2017 kl. 12:25

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er eins og þessir skattlagningarflokkar beri ekkert skynbragð á orsakasamhengi skattlagningar. Auknar álögur á fyrirtæki og banka verða alltaf fyrir rest sóttar í vasa almennings með hækkuðu verði. Ofurskattlagning eykur líkur á undanskotum, fjármagns og fyrirtækjaflótta auk þess að draga úr framleiðni og lækka kaupmátt í báða enda.

Auknir skattar á þá tekjuhæstu skila litlu frá þessum takmarkaða hóp öðru en því að refsa fólki fyrir að efnast og sýna dugnað og frumkvæði.

Við borgum líkast til hæstu skatta á norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Inni í skattprósentum norðurlandanna eru lífeyrissjöðsgjöld en hér er þetta aðskilið til að fela skattpíninguna. Ef við leggðum þessa þætti saman, þá fyndum við út rétta skattprosentu til samanburðar við nágranna okkar. Hér yrðu uppþot ef samakonar breytur væru taldar inn í skattprósentuna, því þá sæi fólk hversu geggjað þetta er. 

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2017 kl. 13:05

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Flokkshestar (og hryssur) villta vinstrisins skilja ekki gangverk efnahagslífsins og halda, að töflureiknir Indriða H. Þorlákssonar gefi þeim áreiðanlega niðurstöðu, en hún er mikilli óvissu háð.  Ísland á í samkeppni við nágrannalöndin um hæfileikafólk, og það mun ekki láta bjóða sér arðrán illa gefinna stjórnmálamanna.  Breytingin frá tíð síðustu vinstri stjórnar er, að nú hafa fjármagnshöft verið afnumin að mestu, nokkuð, sem aldrei hefði gerzt undir vinstri stjórn, svo að nú er hægt að mótmæla með fótunum.  Vanhugsaðar skattahækkanir ofan á eina mestu skattheimtu í OECD, mun engu skila, nema spekileka.  Loforðaflaumurinn er ófjármagnaður og verður aldrei fjármagnaður.  Ríkisstjórn vinstri grænna, samfylkinga og pírata mun þess vegna valda kjósendum þessara flokka miklum vonbrigðum og tómu tjóni. Að gefa skít í efnahagslögmálin og sjálfsbjargarviðleitni "homo sapiens" kann ekki góðri lukku að stýra.

Bjarni Jónsson, 20.10.2017 kl. 22:10

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hörkufínn pistill hjá Herði og sennilega það besta sem þrykkt hefur verið á prent hjá Fréttablaðinu í langan tíma.

 Í aðdraganda kosninga fáum við að sjá Jekill og Hyde í flestum frambjóðendum. Flestum, ekki öllum. 

 Ef skattpíningartvíeykið, Samfylking og Vinstri Grænir, komast til valda eftir kosningar, liggur ljóst fyrir að landflótti ágerist, á sama tíma og fjölmenningin hefur innreið sína. Fjölmenningardraumur sem fjármagna skal með skattgreiðslum úr tómum hyrslum þeirra sem byggt hafa þetta land, í yfir þúsund ár. Megi allar góðar vættir forða okkur frá slíkum örlögum.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 21.10.2017 kl. 01:26

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Menn skyldukanski líka taka eftir því að VG er orðinn ESB flokkur að miklu leyti. Og hver er þá munurinn á þeim og Samfó? Steimgrímur laug  blákalt fyrir kosningarnar 2009 um að hann ætlaði aldrei í ESB, haninn gól ekki þrisvar áður en hann sveik það og sótti um inngöngu. Hann gerir það aftur án þess að hika.

Halldór Jónsson, 21.10.2017 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418219

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband