Leita í fréttum mbl.is

"Sá sem býst við sanngirni

á ekki að vera í pólitík". Þetta voru spakleg ummæli hjá Óla Birni Kárasyni í Hrafnaþingi á ÍNN rétt áðan.

Þetta var eftir að umræðan hafði snúist um nauðsyn þess að Sjálfstæðisflokkurinn  yrði leiðandi afl í Borginni og myndi stjórna henni af ábyrgð og festu eins og var í gamla daga. Allt er þetta auðvitað nú gott og blessað og háleitt markmið. Það var líka talað með nostalgíu um þá gömlu góðu daga þegar fólk hélt tryggð við sitt tryggingafélag og kaus sinn flokk. En slíkir tímar eru liðnir sagði Gulli og það réttilega. Fólk er ekki fast í farinu sínu eins og var í gamla daga.

En þarna var Borgarstjóraefni Ingva Hrafns, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir,  að tala um nauðsyn samvinnu fólks í Borgarstjórn. Af öllum frambjóðendum til prófkjörsins þá er hún þarna ein frambjóðenda í stjörnuhlutverki þátt eftir þátt.  Hvað veldur því vali Ingva Hrafns að Þorbjörg Helga  höfð alltaf á Hrafnaþingi eins og aðrir frambjóðendur i prófkjöri séu ekki til? 16 talsins.  Er ekki svarið bara Haganlegt?

Þorbjörg Helga er stjórnmálamaður sem staðið hefur fyrir meiri klofningi í röðum Sjálfstæðimanna en margir aðrir. Verið ófeimin að yfirgefa oddvita sinn og ganga til óvinanna. Gengið gegn vilja meirihluta Reykvíkinga með því að fylgja Aðalskipulagi Jóns Gnarrs og Dags Bé sem miðar að því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Bandamaður  Hönnu Birnu sem nú er komin í ráðuneyti í ríkisstjórn sem hefur gert með sér sjórnarsáttmála. Var hún sérstaklega formannsholl síðasta vor? Þá sagði Friðrik Friðriksson af sér.

Nú tekur Hanna Birna nýja stefnu í málum sem búið var að innsigla í stjórnarsáttmála um málefni Reykjavíkurflugvallar og skrifar undir nýjan samning um sundrung og ósamlyndi næstu árin með því að kyssa á skipulagsvönd Jóns Gnarrs og sýna með því 70.000 undirskriftum puttann. Fórnar einkaflugi og kennsluflugi blákalt og skipar Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi ráðherra í vinstristjórninni sem leið, til að leita að flugvallarstæði í fjórða sinn.  Kýs nokkur svona Sjálfstæðisflokk?

Óli Björn var búinn að benda á það Sjálfstæðisflokkurinn yrði að tala einni röddu í Borgarmálefnum. Er útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni gera það?  Engu svaraði Þorbjörg þar um. Flokkur sem getur ekki ákveðið sig um Vatnsmýrina og fyrirséð er að margir frambjóðendur í prófkjöri ætla ekki að tala einni röddu þar.  

Dettur Þorbjörgu Helgu í hug að hún geti farið fram í kosningar með þetta mál óuppgert? Nær flokkurinn árangri þannig? Verða menn líka ekki að hafa unnið sér traust sem  flokksmenn með störfum sínum áður en þeir hljóta endurkjör?  Hefur  Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarstjórn gert það með margar skoðanir í einstökum málum undanfarin kjörtímabil? Hver er þáttur Sjálfstæðisborgarfulltrúanna í velgengni Besta flokksins að undanförnu? Enginn?

Eru  kosningarnar ekki bara fyrirfram tapaðar ef kjósendur hafa tapað trausti? Trausti á að menn eigi eftir að sýna hvort eitthvað búi í þeim?  Á það bara að ráða valinu hversu hinir flokkarnir séu hræðilegir? Sem þeir eru svo að auðvitað, að ekki ætti nokkrum manni að detta í hug að kjósa þá.  Því Gulli sagði réttilega að flestir Íslendingar væru sjálfstæðismenn í hjarta sínu. Flokkurinn næði bara ekki til þeirra. Og það er verkurinn. Skortur á einlægni.

Detti kjósendum Sjálfstæðisflokksin í hug að velja fólk á listann sem sýnt hefur og sannað að þeað getur ekki starfað saman að einni stefnu, þá er til lítils að gera sér væntingar um að kjósendur muni sýna flokknum traust og veita honum brautargengi. Ef flokkurinn ætlar ekkki að segja kjósendum fyrirfram hvaða stefnu hann hefur í skipulagsmálum, lóðamálum eða öðrum málaflokkum, þá getur hann sparað sér þetta prófkjörsbrölt. Ef framboðssveitin verður fyrirfram dæmd úr leik vegna fyrri afreka þá verða menn ekki trúverðugir þegar þeir segjast ætla að skipta um skoðun. Gísli Marteinn hætti þegar hann sá að honum yrði ekki trúað til sinnaskipta þó svo hann yrði að gera svo til að eiga möguleika.  Hann er maður að meiri í mínum augum eftir. Stefnufastur og lét sannfæringu sína ráða yfir framavonum í pólitík. Það má taka ofan fyrir slíkum mönnum því þeir eru ekki of margir.

Spyrjið frambjóðendur Sjálfstæðisflokkinn fyrst að því hvað þeir ætli að gera í málefnum flugvallarins og Vatnsmýrarbyggðar?  Það verður að fá hrein og klár svör fyrir hvað frambjóðandi stendur. Það er ekki hægt að kaupa kjósendur með sjónvarpsþáttum þar sem falleg bros, föt og hárgreiðsla og einhverjar almennar umræður eiga að leysa grunnpólitíkina af hólmi.

Það verður  nefnilega engin sanngirni sýnd í kjörklefanum ef fólk ekki trúir því að frambjóðendur séu hreinir og beinir flokksmenn sem fylgja stefnu flokksins. Og stefnan verður að vera skýr og klár eins og Gísli Marteinn gerði sér ljóst. Þorbjörg Helga verður ekki Borgarstjóri Ingva Hrafns án þess að tala skýrt. 

Ég held að ég nenni ekki að horfa á fleiri Hrafnaþing í bili. Ingvi Hrafn er búinn að ganga fram af mér  með síðustu þáttum sem eru teknir upp í gegnum trekt frá Florida og sýna goðið mitt hann Ingva Hrafn alltof  líkan Kermit froski til að mér finnist það skemmtilegt.  Enda hlýtur þeim að fækka sem nenna að mæta í svona framboðsþætti sem ekki ná því að teljast umræðuþættir. Fyrri gestaráðherrar eru líka farnir nema Gulli. Finnst mér enda lítið leggjast fyrir kappann að taka þátt í svona framboðsþáttum.

Og er ég þá  bara ekki  nokkuð sanngjarn?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 3418308

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband