Leita í fréttum mbl.is

Að kjafta og ljúga.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins eru þessar línur:

  „…..Á síðustu áratugum hefur aðbúnaður eldra fólks, sem þarf á aðstoð að halda, breyst mjög til batnaðar. En það breytir ekki því, að margir þurfa lengi að bíða og fá takmarkaða aðstoð á biðtímanum.Ellefu aldirnar þar á undan var aðbúnaður aldraðra (sem voru mun yngri þá) ekki bara erfiður heldur í flestum tilvikum vonlaus.

 Á móti kom að lífið stóð stutt, eftir að halla fór undan fæti og sá sem »kominn var í kör beið sjaldnast lengi endanlegrar lausnar«. Kuldinn og »blessuð lungnabólgan« leysti málið. Það var fyrir daga penisilíns, upphitaðra húsa, aðgengis að hreinu vatni, fjölbreyttrar næringar og alls hins, sem við teljum sjálfsagða hluti í dag.

Fjöldi sjúkdóma er nú læknanlegur, allt frá botnlangabólgu upp í sumar tegundir krabbameina, einkum þeirra sem finnast í tíma. En þessi lukkulega þróun leiðir til þess að ellin er fjölmenn og það þarf úr mörgu að bæta af því sem óhjákvæmilega gefur sig við háan aldur.

En smám saman er að vakna skilningur á því að langlífið er ekki baggi á heildina. Ekki ef rétt er brugðist við. Þvert á móti. Þjóðfélagið þarf að nýta það afl sem býr í eldra fólki sem býr við bestu skilyrði.

 Ekki síst í löndum þar sem endurnýjun »stofnsins« dregst saman, eins og er fylgikvilli margra velferðarríkja. Þess vegna þarf að breyta umgengni hins opinbera við sparnað fólks, blása burtu hindrunum við því, að nýta krafta þeirra sem vilja starfa áfram að fullu eða hluta og svo fram eftir götunum.

 Sumir tala um skatta sem eign hins opinbera, sem sá, sem leitast við að nýta þá kosti sem lög leyfa til að halda eins miklu eftir og hann má, sé að ná með ólögmætum hætti. Auðvitað ekki lagalega í þessu tilviki heldur eftir einhverju siðalögmáli sem menn gefa sér að gildi, án þess að geta rökstutt það. Það er látið eins og sá sem leitast við með löglegum hætti að halda eftir hjá sér sem mestu af sjálfsaflafé sé að halda því frá hinu opinbera, sem fram að því hefur aldrei átt það og að lögum á það ekki enn.

 Menn búa til ambögur, orð eins og »skattasniðgöngu« og tönglast svo á þeim í umræðunni allt þar til að »almenningur« gerir engan mun á skattasniðgöngu og því að svíkja undan skatti.

  Að lögum er það þó þannig, að hægt er að innheimta skatt þannig að þeir sem leggja hann á og gefa innheimtumönnum fyrirmæli um að heimta hann inn með öllum þeim beittu úrræðum sem þeir ráða yfir, eru hinir raunverulegu lögbrjótar. Þeir eru »þjófarnir« en ekki skattgreiðandinn sem settur er í gapastokk þjófsins þegar hann er sakaður um skattasniðgöngu.

  Þegar skattheimta eða jaðarskattar koma í veg fyrir að maður með afl og vilja til starfs geti látið til sín taka, er of langt gengið. Eins þegar skattlagning felur í sér beina eignaupptöku, sem dómstólar hafa verið of huglausir við að stemma stigu við.

 Skattur verður ekki innheimtur nema með lögum. Ríkisvaldið getur ekki samtímis hagað löggjöf um skattlagningu með tilteknum hætti, sem það (löggjafarvaldið) ræður algjörlega, og haft svo uppi ásakanir gagnvart þeim sem ekkert hefur um skattalög að segja, umgangist hann löggjöfina þannig að hún skaði hann sem minnst.

 Það er eðlilegt að skattheimtumenn vilji hafa löggjöf um skatta sem einfaldasta. En það er ekki sjálfsagt að stjórnmálaleiðtogar séu endilega sömu skoðunar.

 Ef hægt er að greiða fyrir æskilegri þróun í þjóðfélaginu með því að hafa svigrúm í lagasetningu um álagningu skatta og annarra gjalda, þá á stjórnmálamaður, sem vill vera sannur leiðtogi, og um leið samferðamaður síns fólks, að huga að því, þótt embættismenn hans og búrókratar séu með aðrar meiningar.

 Íslenskir ráðherrar koma einmana inn í sín ráðuneyti. Þeir fá að hafa örfáa menn með sér inn í »bæli úlfanna«. Þeir ættu hins vegar að stilla sig um að velja sér aðstoðarmenn um sinn, uns þeir átta sig á því hvers konar fólk kæmi þeim að mestu gagni. Það er mjög undarlegt að sjá ráðherra koma glaðbeitta inn í ráðuneyti og hafa börn með sér í farteskinu til að hjálpa sér. Það fer ekki alltaf illa en er oftast gagnslítið eða minna en það.

 Í stjórnkerfinu eru ekki óvinir fólksins í landinu, fjarri því. En jafnvel þótt stór hluti þeirra sem þar vinna færist smám saman til vinstri í pólitíkinni vegna þess að svo margt »á markaðnum« snertir þá minna en þessa sem eru í hinu almenna umhverfi, þá hafa þeir nær allir þá tilfinningu að kerfið sé að gera sitt besta. Vinstri sinnaðir opinberir starfsmenn eru því iðulega mjög íhaldssamir í viðhorfum sínum til breytinga á kunnum veruleika.

 Þremur vikum fyrir hverjar kosningar vottar aðeins fyrir því að nokkur munur sé á viðhorfum almennra stjórnmálaflokka. Þá er ekki verið að tala um flokka sem hafa »niðurhal« á sínum oddi eða flokka sem sagðir eru hafa aukið fylgi sitt um eitt eða tvö prósent af því að þeir sögðust vera á móti búvörusamningunum sem enginn frambjóðenda virtist þó hafa lesið.

Kjósendur hér á landi eru farnir að sjá í gegnum þetta skoðanaleysi stjórnmálamanna nútímans. Þess vegna fer þeim fækkandi sem mæta á kjörstað og álitlegur hópur þeirra sem þó mætir sér ekkert að því að láta niðurhal ráða afstöðu sinni, enda sennilega átt við niðurhal og daðurdrós í sálmi sr. Matthíasar….“

Hér er fjallað um mikla meinsemd í okkar þjóðfélagi. Hún er sú að láta það hafa áhrif á greiðslu tryggingabóta og lífeyris hvort gamlingi vinnur  sér inn aðrar tekjur. Nú vantar þúsund manns suður á keflavíkurflugvöll. Það fæst ekki starfsfólk innanlands.

Margir aldraðir gætu áreiðanlega leyst mörg af þessum störfum af hendi. En þeir nenna ekki að svipta sjálfa sig þeim litlu bótum sem þeir nú hafa jafnvel  til lengri tíma vegna tímabundins starfa þó þjóðarnauðsyn beri til eins og nú.

Af hverju gerir enginn stjórnmálamaður neitt í þessum málum  nema kjafta og ljúga kortéri fyrir kosningar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki hægt að orða þetta betur.

Þessi refsigleði í skattheimtunni er óskiljanleg.

Laun þeirra sem komnir eru á besta aldur,

ættu að vera skattlaus.

Þá fyrst væri hægt að segja að fólk hlakkaði

til efri áranna.

Í dag er staðan sú að fólk kvíður fyrir

því að detta af vinnumarkaði og í framhaldi af því

að hafa varla í sig og á, á þessum skammarlegu

lúsarbótum.

M.b.kv.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband