Leita í fréttum mbl.is

Sannleikurinn um lygina

um umhyggju stjórnmálamannanna fyrir eldri borgurunum kemur fram í grein séra Halldórs nafna míns í Holti í Mogga í dag.

Framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri SA opinberuðu aðkomu fulltrúa atvinnurekenda og stéttarfélaga að stjórn lífeyrissjóða í Morgunblaðsgrein 11. mars sl. undir fyrirsögninni: »Óvinafagnaður«, sem að þeirra áliti var þingmannafrumvarp um breytingar á kosningu til stjórna sjóðanna, þar sem fulltrúar eigenda kæmu að stjórn, en ekki þeir. Þeir segja á sinn hátt: Við sem stjórnum sjóðunum í dag eigum þá.

Orðrétt: »Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda vegna þeirra eru því tryggingariðgjöld en ekki fjáreign þeirra.« Síðan rekja þeir hvernig lífeyrissjóðir mynduðust í kjarasamningum milli ASÍ og SA með skyldugreiðslu í sjóðina 1969 og endurnýjuðum samningi aðila 1995. Þá minnast þeir á aðkomu löggjafans að þessum samningum þeirra á milli, sem löggjafinn hafi ætíð samþykkt. Loks segja þeir hversu lífeyrissjóðirnir séu vel reknir og hversu hátt framlag þeirra sé á móti greiðslum TR eða um 70% og því sé kerfið talið eitt það besta í heimi.

 

Í nágrannalöndum okkar er stuðningur ríkissjóðs og sveitarfélaga til ellilífeyrisþega frá um 60 til 80% á móti greiðslum lífeyrissjóða, en hér á landi um 30%. Gæti verið að það sé óvinafagnaður, sem snýr að lífeyrisþegum, sem voru skyldaðir til að greiða til lífeyrissjóða 1969 með þeirri fullyrðingu þá, að þetta væri þeirra sparnaður, þeirra eign, greidd frá þeim sjálfum og atvinnurekendum, í stað hækkaðra launa?

 

Lögbundnar greiðslur launþega til lífeyrissjóða eru hirtar með lögum frá Alþingi, til að greiða bætur almannatrygginga til þeirra sem verst standa. Nýlega kom fram að þessi greiðsla, sem ríkisjóður hirðir af lífeyrissjóðunum til að greiða eldri borgurum og öryrkjum lágmarks framfærslu, er samtals um 30 milljarðar á ári. Samhliða þessari eignaupptöku eru sett lög um síðustu áramót, að lífeyrisþegar í þessari fátæktargildru mega ekki vinna sér til lífsbjargar nema fyrir 25 þúsund kr. á mánuði, ella greiði þeir að viðbættum skatti 45% skerðingu á greiðslu TR. Hvað þá um þjófnaðinn, miðað við það sem lagt var upp með 1969, nú réttlætt með lögum og sagt að þessi millifærsla sé það besta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði undir stjórn þeirra, sem sannarlega eiga ekki réttindin og ættu því hvergi nærri að koma. Er þetta ekki óvinafagnaður?

 

Lífeyrissjóðirnir

 

Um 40 skráðir lífeyrissjóðir í dag, voru áður um 90, eiga tæpa 4000 milljarða með árlegan rekstrarkostnað um 10 milljarða að viðbættum mörgum milljörðum til þeirra, sem ráðleggja fjárfestingar. Margir sjóðir töpuðu fljótlega með lélegum fjárfestingum á kostnað eigenda og sameinuðust þá öðrum og þekkt er a.m.k. 600 milljarða tap þeirra í hruninu, eftir því sem þeir sjálfir létu rannsaka. Ríkissjóður og sveitarfélög töpuðu þar um 200 milljörðum af skattfé.

 

Árleg inngreiðsla til sjóðanna af launum var á síðasta ári um 195 milljarðar, þar af undanþegin skattgreiðsla með reglugerð um 72 milljarðar. Á þessu ári hækka þessar greiðslur með 3-4 % hækkun inngreiðslu til sjóðanna frá atvinnurekendum. Þessi undanþága var samþykkt 1969 og innleidd með reglugerð, en ákveðið 1988 með upptöku staðgreiðslu skatta að launþegi greiddi skatt af sinni greiðslu til síns lífeyrissjóðs, en greiðsla atvinnurekenda væri áfram undanþegin skatti. Í kjarasamningum 1995 var um það samið að iðgjöldin yrðu frádráttarbær að nýju, þ.e.a.s. að skattur ríkissjóðs væri greiddur til lífeyrissjóðanna, en sjóðirnir greiddu síðan út til lífeyrissjóðsþega að frádregnum skatti, þegar að því kæmi.

 

Þannig eru ellilífeyrisþegar í dag að greiða skatt af hluta lífeyrissjóðsgreiðslna sinna í annað sinn. Hvergi annars staðar í heiminum fá lífeyrissjóðir að höndla með skattpening ríkissjóðs. Er það ekki óvinafagnaður?

 

Tillaga varðandi

 

lífeyrissjóðina

 

Í kosningabaráttunni lagði Flokkur fólksins til að lífeyrissjóðirnir væru sameinaðir í einn deildaskiptan sjóð, sem yrði núllstilltur með lagabreytingu, þannig að ríkissjóður innheimti skatt við inngreiðslu í sjóðinn, en útgreiðsla úr sjóðnum væri skattfrjáls að ákveðnu marki, t.d. 300.000 kr. á mánuði, sem yrðu þá mörk skattleysismarka, sem allir nytu. Samhliða yrðu frítekjumörk og skerðingar afnumdar. Skattar yrðu þá hækkaðir í tveimur þrepum fyrir ofan skattleysismörkin, þannig að skattgreiðslur í þeim þrepum yrðu svipaðar fyrir og eftir breytingu.

 

Ef ríkissjóður innheimti skatt við inngreiðslu í sjóðinn, fengjust strax nokkrir tugir milljarða á ári til ríkissjóðs til að styrkja öll stoðkerfi landsins. Samhliða yrði reiknuð út inneign ríkissjóðs og sveitarfélaga á skattfé og þeim gert að greiða þá inneign upp á nokkrum árum, líklega um 1000 milljarðar bundnir í fjárfestingum.

 

Áhættan hlýtur að teljast talsverð með kaupum þeirra á öllum helstu fyrirtækjum landsins, - já oft með kaupum á hækkuðu hlutafé hver af öðrum, með sínum hliðaráhrifum. Rekstur lífeyrissjóðanna í dag, er að stórum hluta orðin gegnumstreymisgreiðsla með fullkominni óvissu um hverju eignirnar skili, þegar að því kemur, að innkoma með fjölgun ellilífeyrisþega verður lægri en útgreiðsla sjóðanna til þeirra. Er það ekki óvinafagnaður?"

Alþýðuflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir þáttöku í nýsköpunarstjórninni, sem sat að völdum 1944-1946 að sett yrðu lög um almannatryggingar. Áður hafði Alþýðuflokkurinn komið á alþýðutryggingum 1936. En Ólafur  Thors  forsætisráðherra  samþykkti tillögu Alþýðuflokksins og í ræðu um málið sem hann flutti sagði hann að almannatryggingarnar ættu að vera fyrir alla án tillits til efnahags. Með þessum aðgerðum gengum við framar í þessum efnum en aðrar þjoðir. Hugsunin var sú að þarna væri ekki um fátækraframfærslu að ræða heldur framfærslulífeyri. Hluti af eftirlaunum.

Af hverju er verið að láta þessa amatöra sem stjórna lífeyrissjóðunum án nokkurs umboðs frá eigendum fjárins höndla með skattfé ríkisins? Af hverju er þetta ekki tekið af þeim strax? Vantar ekki peninga í ríkiskassann? Hvar á þessi auðstjórn fáráðlinga að enda? Hverjir eiga Ísland þegar 10.000 milljarðar verða komnir í sjóðina innan 10 ára?

Þetta er sannleikurinn um lygina sem viðgengst hjá okkur í sjálfsblekkingunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halldór, einu sinni var þú partur af þessu liði innan SA  !

Hvað gerðir þú þá  ?

JR (IP-tala skráð) 17.3.2017 kl. 14:20

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Finnst að nýlega sé farið að brydda á skilningi manna á því hvernig þetta lífeyrissjóðakerfi okkar er alveg að reka uppá sker. Þetta er orðið eins og óseðjandi svarthol á þjóðinni og efnahagslífinu. Heimtar sín 3,5% í arðsemi á alla milljarðana sem hvergi er hægt að taka nema af fólkinu sjálfu og fyrirtækjunum í landinu. Þjónar öllum illa nema þeim fáu sem sitja við að véla með þessa óskaplegu fjármuni sem þarna liggja.

Þórir Kjartansson, 17.3.2017 kl. 15:33

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fá okkar voru að velta fyrir sér lífeyrissjóðsgreiðslum á besta aldri,enda skyldugreiðsla og talið á þeim tíma hið besta mál.

Einhversstðar á leiðinni til dagsins í dag hefur ráðríki stjórnenda farin að verða áberandi óþolandi,því ekki linnir gagnrýninni á þá.
Fyri nokkrum árum las ég fróðlega pistla hér um lífeyrissjóðina eftir Ragnar Þór Ingólfsson,sem nú er orðinn formaður V.R. Við eigum þá eftir að sjá breytingar til batnaðar.

   

Helga Kristjánsdóttir, 18.3.2017 kl. 03:42

4 identicon

Rsgnar mun ekki breyta neinu.  Þjóðin hefur ekki fengið nóg af ráðríki stjórnenda enda stendur hún dyggan vörð um ÁTVR og RÚV.  Þessi þjóð er illa gefin, illa innrætt og á allt vont skilið.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.3.2017 kl. 07:52

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Því miður á ég ekki von á því að Ragnar þór geti náð fram breytingum á þessu. Þar verður staðið fast á móti af þeim sem hafa hag af því að halda óbreyttu kerfi. Og á meðan stjórnmálamenn trúa því að við séum með besta lífeyriskerfi í víðri veröld er ekki breytinga að vænta.

Þórir Kjartansson, 18.3.2017 kl. 08:36

6 identicon

Einkennilegt með eldri borgara hvað þeir eru vanþakklátir.  Þeir hafa aðgang að hámenningu í sérflokki á RÚV og geta fengið sitt sérrí í ríkinu.  Ragnar Þór getur bara átt sig með sitt pópúlíska einstaklingsframtak.  

http://www.dv.is/frettir/2017/3/17/vid-erum-gleymd/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.3.2017 kl. 08:42

7 identicon

Krakkar.  Illugi verður með frjálsar hendur á RÚV í dag.  Hlustið.  Ræðið.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.3.2017 kl. 09:05

8 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Fá okkar voru að velta fyrir sér lífeyrissjóðs greiðslum á besta aldri, enda skyldugreiðsla og talið á þeim tíma hið besta mál.  Segir Helga Kristjánsdóttir.

Einu sinni var ég líka ungur og þá sögðu lífeyrissjóðs menn að við þessir ungu menn sem værum að byrja að greiða í lífeyrissjóð svona snemma á ævinni, myndum fá sem svaraði meðaltals launum yfir starfsævinna þegar að starfslokum hjá okkur kæmi.

Þetta er leiðindamál.  Því að það er búið að stela af okur þessu sem átti að vera kjölfesta okkar þegar við yrðum gömul. 

Þeir einu sem hafa hag af þessum sjóðum eru stjórnendur þeirra og starfsfólk og svo ríkissjóður.  Við sem með vinnu okkar byggðum upp  þessa peninga hauga, ráðum þar engu.  Þeir eru handa öðrum.

Hrólfur Þ Hraundal, 18.3.2017 kl. 10:09

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Það að að Ragnar var kjörinn, sannar fyrir mér að kerfið er ekki ókleyfur hamar. Já Hrólfur ég var búin að skrifa hálfgerða langloku um viðskipti mín við lífeyrissjóð trésmíðafélags RVk. en þurrkaði það svo út.En sauðþrá skildi ég við hluta þess svona,en  sagan var allt of löng,raunar endað upp í ráðuneiti þar sem fallist var á mín/okkar rök.

Helga Kristjánsdóttir, 18.3.2017 kl. 13:04

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Án vopna engin árangur, þess vegna þarf að benda þeim á sem enn hafa vopnin að virkja þau til að tryggja sína afkomu við starfslok. Því að við stafslok þá missa þeir þau. 

Eina leið okkar vopnlausu, er að fá snjalla menn til að undirbúa mál á hendur ríkinu þar sem það er kært fyrir valdníðslu og þjófnað.   

Hrólfur Þ Hraundal, 18.3.2017 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband