Leita í fréttum mbl.is

Sannleikurinn um húsnæðismálin

kemur fram með óyggjandi hætti í grein eftir Sigurð Ingólfsson í Morgunblaðinu í dag. Þar sést hvernig sósíalíséring byggingamálanna er búin að leika unga fólkið okkar.

Einn ungur maður sem ég þekki til er langt kominn með að reisa sér einbýlishús með aðstoð fólksins síns vegna þess að honum var sagt að hann fengi aldrei greiðslumat til að kaupa litla íbúð sem ungur maður með ómegð í námi.Fólkið hans gat fengið nóg lán  sem félag sem þau áttu fyrir utan kerfið og reistu húsið með ótrúlega litlu fé það sem af er. En þrotlausri vinnu.Öðrum kostnaðarþáttum í töflu Sigurðar þurftu ungu hjónin að standa undir.Þau munu ekki skulda 50 milljónir eftir 5 ár eins og kemur fram hér að neðan.

Sigurður segir svo: 

launinþín 

Árið 1974 voru sett lög um að 10% af dagvinnulaunum almennra launþega skyldu greidd til viðurkenndra lífeyrissjóða. Þetta var fyrsta skrefið í afskiptum stjórnmálamanna af lífeyrissjóðum almennra launþega, en ekki það síðasta. Á næsta ári er þessi prósenta orðin 21,5%, að meðtöldum greiðslum í séreignasjóði og er þessi prósenta nú reiknuð af öllum launum, einnig yfirvinnu.

Á fjórum árum og átta mánuðum er hver launþegi þá búinn að greiða ein árslaun í lífeyrissjóð. Það merkilega við þessar gríðarlegu greiðslur er að launþegar hafa látið teyma sig út í foraðið og semja nú sjálfir um þessar greiðslur við sína viðsemjendur. Alþingismenn þurfa því ekki lengur að semja lög um þessar greiðslur, þeir fá skattinn upp í hendurnar. Því að skattur er þetta, eins og glöggt má sjá á tengingum á greiðslum sjóðanna við skattkerfi landsins.

Sjóðssöfnun þessi er nú í heild um 4.000 milljarðar króna að teknu tilliti til greiðslu úr sjóð- unum. Það er um 12 milljónir á hvert mannsbarn á landinu eða um 50 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta samsvarar góðri íbúð fyrir þessa sömu fjölskyldu. Er eitthvert vit í þessu?

Á meðan unga fólkið okkar flýr land þar sem það hefur ekki pening til að kaupa sér íbúð þá söfnum við í sjóði sem hella sér út í samkeppni við þetta sama unga fólk um þær íbúðir sem byggðar eru. Þannig eru 21,5% af laununum okkar notuð til að kaupa upp og byggja íbúðir, sem við höfum ekkert yfir að segja og sem við myndum annars sjálf kaupa eða byggja fyrir þessa sömu fjármuni.

Meðallaun á landinu eru í dag um 750.000 krónur á mánuði (voru 620 þúsund kr. 2016). 21,5% af þeim launum eru um 2 milljónir króna á ári. Eftir fimm ár eru það um 10 milljónir kr., sem væri ágætis útborgun í fyrstu íbúð. Það er hins vegar ekki kostur fyrir slíkan launþega.

Búið er að koma í veg fyrir það með samningum stéttarfélags hans og lagasetningu okkar hinna sem berum ábyrgð á lagasetningunni í landinu. Fyrstu fimm ár starfsævinnar greiðir launþeginn mánaðarlega 438 þúsund kr. í skatta og lífeyrissjóð og 200-250 þúsund kr. í leigu sem leigjandi og á þá eftir 62-112 þúsund krónur til að lifa af mánuðinn.

Varla leggur þessi launþegi fyrir til að safna upp í útborgun á íbúð eða hvað? Eftir fimm ár á hann því ekkert nema óljóst loforð um greiðslur við starfslok. Vilji hann þá kaupa sér íbúð á hann ekki fyrir útborguninni eins og áður kom fram og fær ekki lán þar sem hann á ekki veð fyrir því.

Veð má ekki vera hærra en 70-80% af verðmæti eignarinnar. Sé eignin 35 milljón kr. virði þarf hann því að eiga 7-10 milljónir króna, en þær á hann ekki, þær fóru í lífeyrissjóðinn.

Hann er því staddur á sama stað og í upphafi og heldur áfram að greiða sína skatta, sinn lífeyrissjóð og húsaleigu og reynir síðan að lifa á 62-112 þúsund kr. eftirstöðvum á mánuði.

Hvernig væri líf launamannsins án lífeyrissjóðs? Hefði launþeginn sjálfur ráðstafað 21,5% af laununum sínum í stað þess að greiða sömu upphæð í lífeyrissjóð þá væri staða hans töluvert önnur. Eftir fimm ára vinnu ætti hann þær 10 milljónir sem hann þarf fyrir útborgun í íbúðinni. Þá tækju við greiðslur af lánum sem í upphafi væri svipuð upphæð og hann hefði annars greitt í húsaleigu. Þær greiðslur mundu síðan lækka ár frá ári þar til íbúðin væri að fullu greidd. Ráðstöfunarfé launþegans væri þá orðið 312 þúsund krónur á mánuði í stað 62-112 þúsund kóna og hann ætti þá íbúðina að fullu.

Íbúðin er trúlega álíka verðmæt og þegar hann keypti hana. Hann sparar sér mánaðarlega íbúðarleigu að upphæð 75 milljónir króna á 25 árum og notar þá peninga til að kaupa sér íbúð sem kostar 35 milljónir. Mismuninn getur hann sparað, fjárfest eða notað til að eiga gott líf. Í stað þess að safna í sjóði öðrum til framfærslu og hugsanlega launþeganum sjálfum í ellinni að frádregnum fullum sköttum og að frádregnum opinberum greiðslum frá hinu opinbera.

Við gætum bætt hér við hugleiðingum um hvernig íbúðareigendur hugsa um eign sína og á móti hvernig leigjendur gera það, hvernig eigendur fjármuna fara með sína fjármuni og ávaxta þá og á móti hvernig sjóðsstjórar lífeyrissjóða gera það. Hvað utanumhald peninganna kostar í höndum eiganda á móti því hvað rekstur lífeyrissjóðanna kostar o.s.frv. Einnig hver munurinn er á skattgreiðslum á eigin fé og á greiðslum úr lífeyrissjóði á efri árum þar sem fullur skattur er reiknaður á bæði höfuðstól og vexti. Við erum hér að tala um fullorðið fólk sem flest getur séð fótum sínum forráð án misviturs stóra bróður. Látum af forræðishyggjunni og bjóðum unga fólkinu okkar að vera áfram hjá okkur."

17 milljarða taka stjórnendur sjóðanna í sinn spandans á ári. Tapi þeir á útlánum sínum borga eigendurnir. Þeir ekki neitt nema fá hærri laun og stærri jeppa.

Sósíalíséring og þjóðnýting húsnæðismála hefur ekki fært launþegunum hagsæld.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 3418288

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband