Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fól í nóvember í fyrra þeim Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra og Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, að gera áætlun um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og uppræta hana þar sem hún sé óæskileg. Niðurstaða þeirrar vinnu var kynnt á blaðamannafundi í umhverfisráðuneytinu í gær. Einnig var fjallað um plöntuna skógarkerfil sem eins og lúpínan reyndist útbreiddari á hálendinu og friðlýstum svæðum en áður var talið. Skýrsluhöfundar leggja til að setja þessum tegundum strangar skorður til að takmarka neikvæð áhrif þeirra en jafnframt nýta lúpínuna á völdum svæðum til landgræðslu og ræktunar.
Meðal annars er lagt til að gerð verði lagabreyting þannig að ræktun lúpínu verði algerlega bönnuð í yfir 400 metra hæð yfir sjó í stað 500 metra áður. Skipa á sérstaka aðgerðastjórn vegna baráttunnar við þessar plöntur sem fyrst voru fluttar til Íslands í kringum árið 1900 og eru nú farnar að drepa niður annað plöntulíf.
"Á ári líffræðilegrar fjölbreytni þarf að huga sérstaklega að þeim þeim þáttum sem varða ágengar tegundir. Þar hefur farið fremst í flokki alaskalúpínan," sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Sigurður H. Magnússon frá Náttúrfræðistofnun Íslands sagði áhrifaríkustu leiðina til að eyða lúpínu vera að úða hana með eitri. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sagði aðspurður á fundum að sú aðferð væri ítarlega rannsökuð og myndi ekki valda skaða ef rétt væri staðið að verki. Sauðfjárbeit og sláttur lúpínunnar eru tvær aðferðir sem einnig voru nefndar. Báðir vildu Sveinn og Sigurður þó fyrst og fremst höfða til almennings að vera meðvitaðan um óæskileg áhrif lúpínunnar.
"Lúpínan hefur alltaf fengið blóðið til að renna í fólki, einhverra hluta vegna," svaraði Svandís spurð hvort hún ætti jafnvel von á pólitískum deilum vegna hinnar nýju stefnu ráðuneytisins. "Bæði náttúruverndarsinnar og landgræðslusinnar hafa haft á þessu miklar skoðanir - eðlilega vegna þess að þarna er um mjög kraftmikla plöntu að ræða sem er frábær landgræðsluplanta en um leið mjög ógnandi við náttúrulegt umhverfi. Það sem ég er að freista þess að gera með þessari vinnu og þessari skýrslu er að leiða þessi sjónarmið saman og leita leiða til að stemma stigu við lúpínunni þar sem hún á alls ekki heima."
Þetta er ekki fyrsta atlaga sem fólk af vinstra vængnum gerir atlögu að þeirri jurt sem frekar en nokkur önnur verðskuldar nafnið þjóðarblóm Íslendinga. Nýbúinn, Alaskalúpínan, sem Hákon Bjarnason flutti til landsins eftir seinna stríð hefur klætt örfok þessa lands gróðurteppi. Himinbláar breiður bylgjast í blænum þar sem áður voru hrjóstur ein. Mýrdalssandur er orðin hættulaus bílum þar sem sandurinn hefur verið bundinn af þessari einstöku jurt. Á Haukadalsheiðum hefur sandfok stórlega verið minnkað á sama hátt. Engin rök hafa komið fram af hálfu landeyðingarmanna um skaðleg áhrif lúpínu. Allur málatilbúnaður ráðherrans og skósveina hans er því ómerkur og staðlausir stafir. Meint tjón er aðeins huglægur smekkur sérvitringa en ekki vísindaleg rannsókn.
Það er illt til þess að vita að Jón Gunnar Ottósson skuli standa að frásögn um að lúpínan hafi verið flutt inn um 1900 án þess að geta fóstra síns Hákonar Bjarnason. Sjaldan launar kálfur ofeldið. Hernaður Svandísar gegn framfaramálum þjóðarinnar er orðinn ærinn og það tjón sem hún er þegar búin að valda þó að hún ráðist ekki líka fram til að vinna spjöll líka á gróðurfari landsins. Nóg var samt.
Ég er ekkert viss um að lúpínan kæri sig mikið um að vaxa fyrir ofan 400 metra hæð eða 500. Að undirbúa eiturefnahernað gegn landinu á boðaðan hátt fyrir skattfé almennings yfirgengur mann gersamlega. Ingibjörg Sólrún sendi útrýmingarsveitir í Öskjuhlíð fyrir skattfé Reykvíkinga til að rífa upp lúpínu. Ingibjörg Sólrún er orðin pólitísk þátíð en lúpínan er fegurri en nokkru sinni fyrr. Bráðum verður Svandís líka orðin þátíð í íslenskum stjórnmálum, því fyrr því betra, og þessi vitleysa verður gleymd og grafin. Lúpínan mun lifa hana af og halda áfram að klæða landið.
Lúpínan er ekki ræktuð nema rétt fyrst þegar hún er flutt á nýjan stað.Síðan ræktar hún upp landið. Hún víkur af sjálfu sér fyrir skógi og öðrum gróðri þegar hún hefur skapað jarðveginn.
Það er auðvelt mál að gera átak í því að dreifa fræjum þjóðarblómsins yfir klungur þessa lands sem allra víðast. Ég er fús að starfa að slíkum málum. Ég held að eiturmenn og upprífarar muni tapa þeirri baráttu fyrir vinum landsins ef þeir færu að beita sér. Það verður aldrei nóg af gróðri í þessu landi sem ætti að höfða til kolefnisjöfnunarsinna eins og maður hélt að kommatittirnir væru flestir. Þeim mun meiri gróðurþekja, þeim mun meiri útblástur þolum við samkvæmt þeirra Kyotoreikningsbókum.
Stöndum vörð um Alaska-lúpínuna Íslendingar ! Þetta er góður nýbúi landsins sem það þarf svo skelfilega mikið á að halda til að bæta fyrir misgerðir og rányrkju feðranna á fósturjörðinni í 1100 ár. Heiðrum minningu Hákonar Bjarnason skógræktarstjóra sem færði okkur hana.
Leggjumst ekki í eiturefnahernað gegn himinbláum breiðum Alaskalúpínunnar. Hún er sannkölluð þjóðargersemi.
Sannkallað þjóðarblóm Íslands.
Athugasemdir
Tek undir með þér en hjá sumum er það náttúruvernd að láta landið fjúka á haf út.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 21:36
Ágengar tegundir, ég hefði gaman af að renna í hlað í Gunnarsholti,svona að heilsa upp á landgræðslustjóra. Ef mig misminnir ekki var Lúpínan í uppáhaldi hjá bæði Páli og Sveini,föður hans,þegar ég vann þarna þá var Sveinn lítill ponni.
Helga Kristjánsdóttir, 12.4.2010 kl. 02:23
Sæll frændi
Mér brá fyrst þegar ég las frétt um þessa furðulegu ákvörðun umhverfisráðherra. Datt í hug að brátt færu flugvélar að úða Roundup á Haukadalsheiði.
Síðan fór ég í huganum á leita að svæðum þar sem lúpínan vex í yfir 400 metra hæð. Það er varla víða. Ég notaði Goggle Maps til að skoða útbreiðsluna á Haukadalsheiði þar sem við þekkjum báðir til og sá mér til léttis að þar hefur lúpínan engan áhuga á að vaxa svona hátt. Það er nefnilega auðvelt að sjá hve hátt landið liggur með þessu forriti, og skoða um leið útbreiðslu gróðursins.
Þjóðarblómið okkar er því ekki í neinni hættu, þrátt fyrir þennan vitleysisgang. Menn ættu því að einbeita sér að skógarkerflinum því hann er mjög hvimleiður og leggur jafnvel undir sig fallegar lúpínubreiður.
Auðvitað er óþarfi að sá lúpínu alls staðar, en hún er frábær landgræðsluplanta þar sem hún á við.
Lúpínan lengi lifi!
Ágúst H Bjarnason, 12.4.2010 kl. 07:04
Takk fyrir þetta frændi, þarna bendir þú á einfalda leið fyrir áhugasama til að kynna sér málið. Ætli hún hafi lækkað mörkin úr 500 í 400 á grundvelli þessara staðreynda. Mest er ég hissa á hvernig hún fær "Jón Pöddu" , sem ég hélt að væri einlægur gróðrarvinur til að skrifa svona skýrslu fyrir sig.
Lúpínan stjórnar sér ágætlega sjálf í náttúrunni. Þetta ágæta fólk ætti að ganga um á Bergstöðum með honum Þórarni Benedikz og fá hjá honum sýnikennslu í því hvernig lúpínan hjálpar til að koma nytjaskógum á fót þar sem áður voru klungur og klapparholt. Ég man landið ágætlega árið 1966 þegar lúpínan kom þangað og munurinn núna eer ótrúlegur. Þarna í nábýli eru bláberjamóar og mosar sem lúpínan lætur alveg í friði.
Þetta er allt fyrir neðan 200 metra hæð þannig að eitursprengjuvélar Svandísar og Landgræðslunnar koma væntanlega ekki þangað til árása.
Halldór Jónsson, 12.4.2010 kl. 07:59
Leiðrétt,, á að vera Runólfi föður hans.
Helga Kristjánsdóttir, 12.4.2010 kl. 13:06
Hjartanlega sammála !
Lúpínan er falleg og nytsöm jurt.
Fegrar landið og skapar jarðveg fyrir næstu kynslóð. Hún er sannkallaður brautryðjandi.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 15.4.2010 kl. 14:09
Sælir félagar!
Ég dáist að fegurð lúpínunnar og ekki síður dáist ég að þeim eiginleika hennar að víkja um set, þegar hennar hlutverki er lokið, sem er að auka gróðurmátt jarðar. Mér finnst leitt, að á stöðum eins og á Mógilsá skuli hún víkja jafnfljótt og raun ber vitni fyrir skógarkerfli. Þá er það huggun harmi gegn, að Sigmundur Guðbjarnarson, fyrrverandi Háskólarektor, telur sýnt, að úr kerfilnum megi vinna náttúrulyf (síðar kannski "læknislyf"), sem dragi úr eða hindri vöxt krabbameinsfruma. Skv. náttúruverndarlögum má ekki gróðursetja "framandi tegundir" hærra en í 500 m hæð yfir sjó. Síðan hefur verið gefin út reglugerð, væntanlega samin í fílabeinsturni við Hlemm, þar sem skilgreint er, hvaða tegundir séu íslenskar. Ef loftslag hlýnar um 2-4°C fyrir aldarlok, gæti náttúran hafa endurskoðað þessi lög, ef menn bera ekki gæfu til að gera það fyrr. En að ætla að hefja eiturefnahernað gegn lúpínu á eyðimörkum ofan 400 m hæðarlínu og ennþá neðar á eyðimörkum, sem eru háðar boðvaldi Umhverfisstofnunar, sýnir, að oft var þörf en nú er nauðsyn á að senda sumt fólk í andlega endurhæfingu. Því miður stunda sumar deildir háskólasamfélagsins á Íslandi innrætingu í anda svartrar náttúruverndar. Fátt í málflutningi sumra háskólamanna minnir á akademíska umræðu. Ég vil hér með kynna til sögunnar nýtt orð. Það er orðið "náttúruhyggja". Hún skal eiga við um skoðanir, sem byggja á trúarlegri afstöðu til náttúrunnar, þar sem vísindarannsóknir víkja fyirr tilvitnunum í paragröf í alþjóðlegum samningum, sem íslenskir ráðamenn hafa einhvern tímann undirritað ólesna. Náttúruhyggjan kallast á við náttúruvísindi á svipaðan hátt og stjörnuspekin við stjörnufræðina.
Sigvaldi Ásgeirsson, 29.4.2010 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.