"Stephan Stephensen Stephan Stephensen, kaupmaður, lést í Reykjavík hinn 23. október sl. Stephan var 6. í röð 10 barna þeirra síra Ólafs Stephensen frá Viðey og konu hans, Steinunnar Eiríksdóttur frá Karlsskála. Elstur barnanna var Magnús, f. 1891 á Mosfelli syðra, kvæntur Sigurbjörgu Björnsdóttur frá Karlsskála, Sigríður, f. 1893 á Mosfelli, ógift, Áslaug, f. 1895 á sama stað, gift Jóni Pálssyni dýralækni frá Tungu í Fáskrúðsfirði, Eiríkur, f. 1997 á Lágafelli í Mosfellssveit, kvæntur Gyðu Finnsdóttur, Thordarsen frá Ísafirði, Björn, f. 1898 á Lágafelli, kvæntur Sigurborgu Sigjónsdóttur úr Hornafirði, Stephan, f. 15.2. 1900 á Lágafelli, Helga, f. 1901 á Lágafelli, dó þegar Steinunn lá á sæng að Helgu, fæddri 1902 á Lágafelli, gift Stefáni Árnasyni úr Svarfaðardal, Elín, f. 1904 í Skildinganesi, gift Pétri Jónssyni frá Egilsstöðum, Ingibjörg, f. 1906, gift Birni Jónssyni frá Ánanaustum, og Ragnheiður, f. 1914 á Grund í Grundarfirði, gift Þorsteini Guðmundssyni frá Mosfelli í Grímsnesi.

Af þessum stóra systkinahóp lifa nú þær Elín og Ingibjörg einar eftir.

Svo sem sjá má á fæðingarstöðum barna þeirra prófastshjónanna, þá þjónaði og bjó séra Ólafur víðaum land. Hann var fjörmaður mikill, góður bóndi og annálaður fyrir ljúfmennsku og létta lund. Svo segir Eyjólfur frá Hvoli, að séra Ólafur hafi komið með hláturinn í sveitina, þegar hann varð prestur ungur að árum í Mýrdalnum, aðeins 22 ára. Þar í sveit hafði enginn hlegið fyrr í hans eyru og segir það sína sögu um aldarandann þar í sveit á þeim árum. Enda varð Eyjólfi litla svo bylt við hláturinn, að hann fór að háskæla.

Séra Ólafur Stephensen var sonur Magnúsar bónda í Viðey, Ólafssonar, sem kallaður var "sekreteri", Magnússonar "konferenzráðs", Ólafssonar stiptamtmanns Stefánssonar, sem nefndi sig fyrstur Stephensen.

Steinunn kona Ólafs var einnig glaðsinna og mikil atorkukona. Hafa þessir eiginleikar prófastshjónanna án efa gengið mjög í ætt afkomenda þeirra, því þar er hver maður öðrum kátari og mikið um dýrðir þá er það frændfólk hittist. Steinunn Eiríksdóttir hafði það eitt að segja aðspurð, hvort ekki hefði verið erfitt að eiga svo mörg börn. "Mér þótti nú aðeins verst að hafaekki fyllt tylftina." Foreldrar Steinunnar voru hinn annálaði dugnaðarforkur Eiríkur á Karlsskála og kona hans, Sigríður Pálsdóttir.

Stephan Stephensen, lengst af kenndur við verzlun sína Verðandi, sem hann rak í félagi við Jón Þorvarðarson, föður Guðmundar Jónssonar söngvara og þeirra systkina, var í þessu tilliti líkur í sína ætt, dugmikill og glaðvær.

Mér er það í barnsminni, hversu mér fannst þessi maður strax við fyrstu sýn vera mikill stórhöfðingi. Hann var hár og herðabreiður, rjóður í andliti og vel ljós-slétthærður. Hann hafði þægilegan, karlmannlegan málróm og orðfærið var þannig, að það var aldrei neitt minna en stórkostlegt að gerast í kringum hann. Hann virtist auk þessa sífellt vera í góðu skapi. Ég kynntist Stephan hægt og sígandi í gegnum tíðina, fyrst í hestamennsku með föður mínum. Síðar við ýmis fjölskyldutækifæri, þar sem við vorum allskyldir, af 3. og 5. lið frá Eiríki á Karlsskála, auk þess sem ég kvæntist svo frænku minni og systurdóttur hans.

Mér fannst það alltaf hátíðarstund, þegar ég hitti Stephan, sem við strákarnir kölluðum stundum okkar á milli Stebba Ste, þó að engum dytti í hug að ávarpa hann öðruvísi en með fullu Stephansnafni, þvílíkur höfðingi sem hann var að vallarsýn og öllum myndugleika. En því fór fjarri að Stephan væri ekki alþýðlegur í viðmóti við hvern sem var. Hann hafði þennan höfðingsskap aðeins við sig, fyrirhafnarlaust.

Og samræðurnar, - maður lifandi! Orðkynngin óþrjótanleg og lýsingarorð sjaldan notuð nema í hástigi. Og frægðarsögurnar, sem hann sagði af sér og sínum, voru stílfærðar þannig, að hið hárfína skopskyni hans beindist mest að honum sjálfum. Þessi frásagnarstíll er ekki nema á færi höfuðsnillinga. Stephani var hann næsta eðlilegur og þess vegna stafaði þvílíkum ljóma af samræðustundum við hann.

Heimurinn finnst mér öllu svipminni eftir, nú þegar maður mætir Stephani ekki lengur í sundlaugum eða á förnum vegi. Menn af hans sauðahúsi eru ekkert algengir nú á þessum staðaltímum meðalmennsku eða þaðan af verra. Þess vegna er það mikils virði að hafa átt kynni við slíkan mann.

Stephan var mikill hestamaður og fór vel með hesta sína. Hestarnir báru auðvitað stórkostleg nöfn, svo sem til dæmis "Roy", sem hafði tvö framsóknarvit að sögn Stephans, og svo "Gagarín, kallaður Gaggi". Hestar Stephans voru auðvitað svo sérstakir, að þeirra jafningjar fundust óvíða. Enda voru þeir yfirleitt ekki reyndir í kappreið við aðra, trúlega til þess að þeir síðarnefndu fengju ekki minnimáttarkennd, sem Stephan taldi slæmt fyrir hesta. En Stephan var mikill hestasálfræðingur og vissi gjörla hvernig hestar hans hugsuðu og fundu til. Ég man að hann setti eitt sinn ofan í við mig, þegar ég hafði ungur "misst" mikinn fjörhest föður míns á stjórnlítinn langan sprett og varð klárinn móður, moldugur, kjaftsár og sveittur. "Svona á ekki að fara með hesta," sagði Stephan við mig með áherzlu. "Maður á að fara vel með þá." Og það gerði hann sjálfur sannarlega.

Stephan sótti laugar svo lengi sem ég man eftir mér. Hann átti við ýmislegan krankleik að stríða á efri árum en bar sig jafnan þannig, að maður hélt ekki annað en þar færi fílhraustur maður. Hann taldi sundiðkun vera lífsnauðsynlega og yfirfærði þá sannfæringu sína líklega til mín. Við áttum margar góðar stundir saman þá er við hittumst við þau tækifæri.

Stephan kvæntist 25.5. 1929 Ingibjörgu Guðmundsdóttur Böðvarssonar úr Hafnarfirði, en þau Ingibjörg voru systkinabörn. Þau eignuðust einn son, Ólaf, forstjóra ÓSA, sem hefur verið frumkvöðull mikill á sviði auglýsinga og al mannatengsla. Ólafur er kvæntur Ágústu Klöru Magnúsdóttur úr Reykjavík og eiga þau 4 börn, Ingibjörgu, Stefán, Magnús og Ólaf Björn. Bjuggu þau hjónin, Stephan og Ingibjörg, lengst af við mikla rausn á Bjarkargötu 4, þangað sem gott var að koma.

Stephan var umsvifamikill og athafnasamur. Hann átti bæði Viðey, þar sem búið höfðu forfeður hans, og Grund í Grundarfirði, þar sem faðir hans bjó með hann ungan. Stephan stundaði búskap í Viðey um skeið. Eftir að því var hætt jókst ágangur spellvirkja á mannvirki þar, svo ekki varð rönd við reist. Nú hefur staðurinn verið endurreistur af nýjum eiganda sem er Reykjavíkurborg. Hygg ég, að Stephani hafi líkað vel að sjá höfuðból feðra sinna hafið til vegs og virðingar á ný. Verzlun Stephans í Verðandi var landsþekkt og þangað kom margur gestur og gangandi til þess eins að tala við Stephan og aðra þá sem þar unnu, sem margir voru með skemmtilegri mönnum. Var verzlunin mikill mótsstaður fyrir frændfólk utan af landi, þegar það var í kaupstaðarferð. Var því oft glatt á hjalla, margir vindlar reyktir og mikið hlegið í þeirri búð.

Ég nefndi það á sunnudaginn var við konu mína, að við ættum að líta inn til Stephans á spítalanum, þar sem hann hafði dvalið um hríð. Við vissum ekki þá, að það væri þegar of seint. Stephan Stephensen hafði andast í svefni þá nótt. Þau orðaskipti verða því að bíða betri tíma.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir það, að hafa fengið að kynnast Stephani Stephensen, þessum einstæða meistara samræðunnar, sem með glaðværð sinni lyfti manni uppúr hversdagsleikanum, þannig að maður fór léttari í spori af hans fundi. Slíkum mönnum kynnast fæstir oft á ævi sinni.

Ég og fjölskylda mín vottum frú Ingibjörgu einlæga samúð. Þessi missir er mikill á háum aldri hennar. En með þeim hjónum var mikið jafnræði alla tíð, og héldu þau heimili sitt með rausn til þessa dags. Ólafi, Klöru og börnum þeirra sendum við einnig hugheilar samúðarkveðjur.

Við munum öll ávallt njóta minninganna um Stephan Stephensen, þennan höfðinglega, glaðværa og góða dreng.

Halldór Jónsson verkfr."

Davíð Oddsson sagði mér frá því þegar Stephan bauð Reykjavík Viðey  til kaups og lék báðar persónurnar með tilþrifum.

Davíð var á gangi á Vesturgötu þegar hann mætir Stephani. Þeir ganga fram hjá hvor öðrum en allt í einu heyrir Davíð að kallað er á eftir honum: Halló þú þarna dengur minn, komdu hérna aðeins.

Davíð snarstansaði og trítlar hógvær til hins mikla manns með Derby hattinn á Harris Tweed jakkanum  sem segir:

Heyrðu dengur minn, viltu ekki kaupa Viðey af mér? 

Jú er það ekki  bara treystist Davíð loks til að segja eftir skamma umhugsun.

Gott segir þá Stefán og snýst á hæli.

Davíð snýr líka við og trítlar áfram. Þá er enn kallað: Heyrðu annars dengur minn.

Davíð trítlar til baka með alþekktar krullur sínar á beru höfðinu. 

Þá segir Stephan með áherzlu:

Heyrðu annars dengur minn, ertu ekki annars Borgarstjórinn í Reykjavík?

Reykjavík keypti Viðey af Stephani skömmu síðar.