Sú ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust hlaut yfirburðakosningu sem verstu viðskipti ársins. Dómnefndarmenn sem tilnefndu ákvörðunina eru á einu máli um að hækkun á verði hlutabréfa í Icelandair frá því að útboðið átti sér stað sé ekki aðalástæðan heldur það að stjórn LIVE hafi látið undan þrýstingi frá stjórn VR undir forystu Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns.

„Það að virði Icelandair hafi svo aukist eins mikið og raun ber vitni, og aðrir lífeyrissjóðir hafi innleyst á því verði, gerir ákvörðunina enn verri,“ nefnir einn af álitsgjöfum Markaðarins og vísar til þess að gengi bréfa Icelandair standi í 1,65 krónum samanborið við útboðsgengið 1. „En það er samt ekki röksemdin heldur það að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum skuli hafa látið undan þrýstingi.“

Nánari umfjöllun má finna í áramótablaði Markaðarins um það sem hæst bar í íslensku viðskiptalífi á árinu.


Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu 17. júlí síðastliðinn þar sem þeim tilmælum var beint til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að greiða atkvæði gegn þátttöku í hlutafjárútboði Ice­landair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Ice­landair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Tilmælin voru síðan dregin til baka.

Tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í útboðinu féll á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn á vegum atvinnurekenda greiddu atkvæði með og fjórir á vegum VR greiddu atkvæði gegn. Ef tillagan hefði verið samþykkt hefði Lífeyrissjóður verzlunarmanna verið með rúmlega 11 prósenta hlut í Icelandair í kjölfar útboðsins.

„Algjör skandall að svona molbúaháttur tíðkist enn á meðal stærstu íslensku fagfjárfestanna.“

„Málið snýr ekki bara að hækkun á gengi, þó að sjóðurinn eigi að horfa til þess í fjárfestingum sínum, heldur má bæta við því að standa ekki með félaginu sem þeir hafa fylgt í áratugi, né þeim fjölda sjóðfélaga sem unnu hjá félaginu, auk annarra þátta, svo sem samfélagsins í heild sinni. Þessi fjárfesting er ekki áhættumeiri en margar aðrar hjá þeim,“ segir annar álitsgjafi.

Í aðdraganda hlutafjárútboðsins sagði Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í samtali við Fréttablaðið að stjórn sjóðsins myndi meta þátttöku í útboði Icelandair með sama hætti og aðrar fjárfestingar. Sjóðfélagar gætu treyst því að stjórnarmenn létu ekki undan utanaðkomandi þrýstingi.

Dómnefnd Markaðarins telur hins vegar engan vafa leika á því að þrýstingur af hálfu Ragnars Þórs, formanns VR, hafi haft áhrif. Einn dómnefndarmaður tekur fram að mikil meðvirkni á meðal fjárfesta hafi einkennt útboð Icelandair og áhættan hafi verið mikil. Hitt sé þó verra að vita til þess að stjórnarmenn VR hafi haft áhrif á ákvörðunartöku Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um fjárfestingu í útboðinu undir því yfirskini að það væri of áhættusamt.

„Enginn trúði þeim. Ekki nokkur sála. Og þetta er fólk sem fer fyrir annarra manna fé. Sem betur fer erum við flest komin á annan stað þegar kemur að kröfu um heilindi og fagmennsku á þeim slóðum. Þess vegna er þessi ákvarðanataka alverstu „viðskipti“ ársins 2020.“

„Sem betur fer erum við flest komin á annan stað þegar kemur að kröfu um heilindi og fagmennsku á þeim slóðum. Þess vegna er þessi ákvarðanataka alverstu „viðskipti“ ársins 2020.“

Annar álitsgjafi tekur í sama streng. Ákvarðanir sem byggi á öðrum sjónarmiðum en skynsamlegri eignastýringu hljóti að rata ofarlega á listann yfir verstu viðskipti ársins. „Algjör skandall að svona molbúaháttur tíðkist enn á meðal stærstu íslensku fagfjárfestanna,“ bætir hann við.

Álitsgjafar Markaðarins fara nokkuð hörðum orðum um háttsemi Ragnar Þórs í aðdraganda útboðsins, „skuggastjórnun“ hans og pólitíkina sem einkenndi ákvörðunartöku LIVE.

„Sorglegt að sjá hversu miklum peningum margir lífeyrissjóðir eyddu í ráðgjöf í tengslum við útboðið, eingöngu til þess að láta verkalýðspólitík ráða ferðinni. Mjög dapurt og vond vinnubrögð,“ segir einn af álitsgjöfunum. Annar segir pólitík hafa ráðið meiru en hagsmuni sjóðfélaga LIVE, sem munu „sitja eftir með sárt ennið“. Þá er Ragnar Þór sagður vera kominn í hóp „meintra lífeyrissjóðaníðinga sem honum er gjarnt að fjalla um“.

Það er illt þegar persónulegt ofstæki einstakra manna fá að rýra hagsmuni jafn margra og á sér stað í verkalýðsfélögum.

Það þarf að losna við þessi skötuhjú úr forystu þessara stóru félaga.Þau eru hreinlega hættulegt fólk fyrir heildina.