Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2019

Orð af viti?

held ég a hafi hrokkið út úr Loga Má í Silfrinu þegar veggjöld voru til umræðu og þær flækjur sem upp geta komið við endurteknar ferðir um sama spottann.

Ég heyrði ekki betur en að maðurinn spyrði um kílómetragjöld í staðinn?

Um árabil hafa trukkar greitt þungaskatt eftir nafmæli á hjóli.

Af hverju ekki fólksbílar? 

Það er alveg hægt að borga í jarðgöng og brýr fyrir utan það.

Er þetta kannski loksins orð af viti frá Samfylkingunni?


Stefnum Trump

fyrir að hringja til Ukraínu! Hann er svikari sem við Demokratar skulum setja af! Jafnvel þó að Senatið sé á móti því.

En Joe Biden sem fékk milljónir í kosningasjóð sinn frá Ukraínu og Hunter sonur hans sem er þar orðinn milli?  Nei það er engin ástæða til að vesenast út af því eða hvað?  Það sjá allir réttsýnir og frjálslyndir Demokratar.

Það þarf bara að negla h....... hann Trump, sem tekur ekki einu sinni kaup fyrir að vera forseti, og stefna honum til embættismissis.


Þjófagóss?

en ekki ríkiseignir? Eru bankarnir ríkiseignir en ekki bara þjófagóss sem var stolið af eigendum sínum án þeirra löggerninga sem ná yfir gjaldþrot?

Ég var hluthafi í Landsbankanum.Hann átti hús í miðbænum með viðarinnréttingum og málverkum á veggjum. Hver á þetta núna og hvernig fékk sá eigandi þetta til sín? Ég á víst ekkert í þessu lengur eftir að Steingrímur Jóhann fullfjármagnaði hann eins og hann sagði án þess að tiltaka nánar hvernig hann gerði það.

Fór Landsbankinn í gegn um lögbundið gjaldþrotaferli þar sem eigur eru seldar og búinu skipt upp milli kröfuhafa? Ég varð ekki var við það heldur allt í einu á og ræður fjármálaráðherra þessum banka og öllum hans eigum. Sama gildir um hina bankana. 

Einhver kona út í bæ er orðin forstjóri Landsbankans. Þessi banki er núna orðinn svo ríkur að hann er að byggja milljarða höll yfir þessa konu á dýrasta stað í Reykjavík.

Björgólfur Thor er með ríkustu mönnum heims og pabbi hans við bestu heilsu. Ég fékk ekki neitt nema fékk að borga allt upp í topp og fékk ekkert afskrifað né heldur fékk ég að flytja skuldirnar yfir í einkahlutafélag sem fór svo á hausinn. 

Ég átti líka í Kaupþingi og Glitni. Allt farið og ég á ekki neitt þó allar gömlu eignirnar séu á sínum stað. Nú á að finna nýja Björgólfa, Jóna Ásgeira og Ólavíusa til að einkavæða þetta allt aftur. Stofna svo þjóðarsjóð með eigum Landsvirkjunar held ég sem þeir fá svo að stýra?

Hver á þessa banka? Þó ekki þjóðin er það? Er einhver von til þess að þjóðin fái sendan einhvern hlut í þessum gersimum? Var  ekki Sjálfstæðisflokkurinn einhvern tímann með hugmyndir um að þjóðin gæti átt einhverja hluti í þjóðareignum eins og fiskinum í sjónum eða orku fallvatnanna? Hver á þetta allt núna? Ekki ég.

Hver á annars bankana? Símann og Sjóvá? 

Eða er þetta kannski bara ekki allt saman þjófagóss?

 


Silfrið

var að enda.

Sigurður Ingi var í viðtali við Egil. Hann komst vel frá öllum spurningum hans. Margt athyglivert kom fram hjá ráðherranum.

Sérstaklega hvernig 50.000 Færeyingar með 200.000 gesti leysa sín samgöngumál. Danir kosta þau ekki eins og margir halda.

Þeir stofna félag með 20% ríkisframlagi og það félag grefur göng eða byggir brýr fyrir lánsfé sem notendur síðan borga með notkun. Þegar framkvæmdin er uppgreidd lækka gjöldin en falla ekki niður eins og hér.

Sigurður útilokaði ekki að greiða ætti gjöld í öll jarðgöng á Íslandi sem rynni í þær framkvæmdir.Menn greiddu gjöld í nýframkvæmdir vega þegar framkvæmdum væri lokið. Menn eru hinsvegar ekki sammála hvernig gjaldtöku af nýframkvæmda í stofnbrautum. 

Fjarðarheiðargöng eru á loksins á dagskrá. Við getum byggt slík göng eins og Færeyingar.

Sigurður sagði að Borgarlína ætti ekki að taka akrein af bílaumferð heldur ætti sérstök akrein að þjóna henni og hugsanlega samnýtingarumferð líka hvernig sem útfærslan væri. Hann taldi að lágbrú fyrir Sundabraut myndi þjóna fleiri  markmiðum, svo sem gangandi og hjólandi en jarðgöng.

Sigurður benti á að niðurfelling gjalda á rafbíla hefði numið 3 milljörðum síðasta ár og rafbílar borguðu ekkert til vegakerfisins. Þetta gæti ekki gengið lengur.

Þátturinn byrjaði með viðtali við Eyþór Arnalds, Loga Má, Sigmund Davíð og Þorgerði Katrínu.

Það vottaði vel fyrir skynsemi og rökvísi hjá Þorgerði nema að hún virðist heilaþveginn loftslagstrúarsinni.

Málflutningur Sigmundar Davíðs fannst mér afskaplega skynsamlegur og var ég sammála öllu sem fram kom hjá honum varðandi samgöngusáttmálann sem honum fannst vera sem kosningaprógramm fyrir Dag B. Eggertsson sem auðvitað Logi vildi ekki samþykkja. 

Sigmundur kvað þennan samning sem væri aðeins sáttmáli en ekki samningur vera afskaplega takmarkaðan. Ausa ætti fé í Borgarlínu sem enginn vissi hvernig ætti að útfæra og göngu og hjólastíga. Eyþór benti á að miklu minna fé rynni til umferðarmála höfuðborgarsvæðisins heldur en færi út á land. Umferðarástandið í Reykjavík eru í klessu. Jákvætt er að hleypa eigi einhverjum framkvæmdum af stað. En ríkið væri aðeins að auka við einum milljarði frá því sem verið hefði.80% á að koma frá óútfærðri gjaldtöku.Sundabraut væri ekki inni og ekki væri vilji til að leysa hana með því að ýta hafnarstarfsemi út.

Sigmundur sagði að með áætluninni væri verið að festa nítjándu aldar hugmyndir í samgöngum í sessi á tímum tæknibreytingum.

Umferðarmál á Stór-Hafnarfjarðar-svæðinu eins og Þorgerður vill kalla höfuðborgarsvæðið væru í megnu ólestri eftir að búið væri að dæla milljörðum í Borgarsjóð til að efla almenningssamgöngur með núll árangri.Það þyrfti að gera margt til að bæta úr þar með til dæmis snjallvæðingu umferðarljósa sem Dagur B. er hinsvegar nýbúinn að fella í Borgarstjórn sem Logi var tilbúinn að styðja.

Sigmundur Davíð ræddi loftslagsmálin og vildi nálgast þau af skynsemi og vísindum.  Undir það tók Eyþór Arnalds sem sagði að mikilsvert væri að skapa hleðslustöðvar í fjölbýlishúsum til að lyfta undir orkuskiptin sem myndi bæta loftgæðin í Borginni. En Eyþór benti á það að fimmti hver Selfyssingur stundaði vinnu á Reykjavíkursvæðinu sem mér finnst segja augljósa sögu úr Borgarstjórn. Sigmundur benti á tvöfeldnina sem ríkti þegar menn kæmu á 1600 einkaþotum til Davos til að ræða loftslagsmál.

Logi Már sagði lítið sem mér fannst vera vit í og elti ekki ólar við það.Þó varð ég sammála honum um eitt atriði sem ég man nú ekki lengur hvað var. Hann gagnrýndi samt að Alþingi hefði ekki verið kallað að málinu og vildi skoða kílómetragjald í stað rukkana í gjaldhliðum.

Eyþór og Sigmundur Davíð voru mínir menn í þessum þætti og stóðu sig báðir frábærlega vel og rökvisst. Það er vel þess virði að hlusta á þennan Silfurþátt Egils.


Trúverðugleiki

stjórnmálamanna er ekki sá sem hann var fyrir samþykkt

1-3.Orkupakkanna. Það eru ekki allir sem trúa því lengur að þeim sé alvara með yfirlýsingum gegn aðild að Evrópusambandinu.Enginn frýr þeim vits en fremur séu þeir grunaðir um græsku.

Gamli róttæklingurinn Ögmundur Jónasson skrifar í Morgunblaðið um helgar. Niðurlag hans í síðustu greininni er svofellt:

"Ja, það er nú það. Landeigandi á Norðausturlandi, sem segist eiga Dettifoss skrifar grein í Morgunblaðið nýlega og segir augljóst að eftir friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum verði höfðað skaðabótamál á hendur ríkinu fyrir að svipta landeigendur réttinum til að virkja og þar með tekjumöguleikum.

Þegar orka Norðmanna var komin í hendur auðmanna upp úr aldamótunum 1900 settu þeir lög sem kölluð hafa verið Hjemfallsloven. Þau gengu út á að orka og orkuver í eigu einkaaðila skyldu ganga til almannavaldsins að tilskildum tíma liðnum. Einni öld síðar kærði Norsk Hydro ríkið fyrir mismunun. Og viti menn, Efta-dómstóllinn reyndist sammála Norsk Hydro og sagði að ef rétturinn ætti að ganga til baka fyrir einkaaðila þá yrði hið sama að gilda um félög í opinberri eigu; síðan gætu aðilar bitist um bitann á jafnræðisgrundvelli. Síðustu ár hefur mál þetta verið að velkjast í kerfinu.

En varðandi litlu „bændavirkjanirnar“ sem iðnaðarráðherrann sér fyrir sér að muni fjölga, þá held ég að sá draumur sé að verða að veruleika, nema kannski ekki rétt að kalla alla fjárfestana þar að baki bændur, þaðan af síður að þarna sé á ferðinni margfrægt „fé án hirðis“ því þarna verður hið gagnstæða uppi á teningnum, nefnilega að þessir fjárhirðar koma til með að passa upp á að féð gefi vel af sér. Ef fer sem horfir verður haldið með raforkuna og raforkuverin lengra inn á markaðstorgið, auðmenn fá óáreittir að kaupa upp Ísland, áhugi á vatnsbólum og orkulindum mun oftar en ekki ráða fjárfestingum þeirra og þá mun það gerast sem þegar hefur gerst með kvótann að allur þessi auður kemur til með að streyma ofan í vasa gráðugasta hluta mannkynsins.

Væntanlega mun þá koma að því að almenningur rís upp og dustar rykið af gamalli þjóðnýtingarstefnu.

Nema nú verður hún ný: hvorki meira né minna en krafa 21. aldarinnar!

Þessu væri að sjálfsögðu hægt að afstýra með fyrirbyggjandi aðgerðum. En þeirra er varla að vænta frá þeim sem sofa á verðinum."

Er það virkilega svo að einkavinavæðing þeirra sem þóttust upphátt vera hugsjónalegir hægri menn eigi eftir að breyta einhverjum okkar í nýþjóðnýtingarsinna í ljósi reynslunnar?


Stjórnarskrárbreytingar

virðast ekki  liggja þungt á hinum venjulega Íslendingi.

Björn Bjarnason veltir þessu fyrir sér og segir m.a.:

"...rúmum 10 árum eftir að skipulagðar árásir á stjórnarskrána hófust kynnir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands niðurstöður skoðanakönnunar þar sem aðeins 8% þátttakenda eru „mjög óánægð“ með gildandi stjórnarskrá. Sögðust 19% svarenda frekar óánægð með stjórnarskrána.

Samtals eru því 27% svarenda óánægð eða frekar óánægð með stjórnarskrána. Þá voru 37% svarenda ánægð eða mjög ánægð með hana en 36% segjast hvorki ánægð né óánægð..."

Eina gagnið sem ég tel mig hafa haft af stjórnarskránni var þegar Ólafur Ragnar Grímsson fór ótroðna slóð í Icesave deilunni og tók sér vald sem enginn hafði trúað að væri til staðar.  Þetta valt þá greinilega á því hver skipaði forsetaembættið.

Vigdís lagði ekki í að að gera þetta þegar EES samningurinn kom á dagskrá. Margir hafa haldið því fram að sá samningur hefði þá verið felldur í þjóðaratkvæði.Sem hefði verið þjóðinni fyrir langsamlega bestu þegar horft er til baka á vitleysuna sem hefur fylgt.

Stjórnarskráin sjálf hefur ekki nein áhrif í máli eins og Orkupakkamálinu sem margir héldu að væri svo.  Sömuleiðis myndi umsókn um aðild að ESB sigla sína leið án hennar. Það er alltaf nóg framboð af mönnum ofan úr Háskóla sem eru tilbúnir að gefa lögfræðiálit til að bakka upp hvaðeina sem þingmönnum dettur í hug að keyra í gegn.

Niðurstaða mín er því að mér komi stjórnarskráin ekkert sérstaklega við. Hún breyti engu hvað hér gerist vegna þess að þingmennirnir gera það sem þeim sýnist í hverju máli. Hún hefur nú verið þarna síðan 1944 að mestu og allt gengið sinn gang án stóráfalla.

Ef þingmenn vilja sölsa undir sig náttúruauðlindir eða eigur ríkisins  hafa þeir sýnt að þeir geta alveg gert það. Og þeir munu sýna það eðli sitt aftur hvernig einkavæðing gengur fyrir sig þegar bankarnir verða framseldir til einkavina þeirra, Landsvirkjun seld og þjóðareigur sendar úr landi til ávöxtunar í umsjá vina þeirra.

Eina  vörn hins venjulega manns gegn hinu illu innræti þingmanna er hversu gersamlega ósamstæður hópur þeir eru og frámunalega deilu-og dellugjarnir þannig að hávaðinn er það  eina sem fælir þá frá því versta sem þeim í hug kemur. Þeir óttast helst illt umtal en láta þó það ekki hindra sig í verkum sínum hvað svo sem þeir segja annað.

Mér er því nákvæmlega sama þó að stjórnarskráin verði látin í friði og jafnvel þó Sturla bílstjóri verði kosinn forseti. Ég hef akkúrat ekkert gagn af einhverjum breytingum á henni úr því að nákvæmlega enginn vilji er til þess að atkvæðisréttur manna sé jafn en ekki flatarmálstengdur.

 


Götustokkar

á Miklubraut og Sæbraut skildist mér af viðtali við lækninn Dag B. Eggertsson myndu leysa umferðarmálin í Reykjavík samkvæmt samningi við dýralækninn Sigurð Inga sem myndu leysa umferðarvandann í Reykjavík og nágrenni.

Dagur er nýbúinn að eyða hundruðum milljóna á Miklubraut við Klambratún þar sem voru byggði grjótgarðar meðfram götunni sem breikkaði ekkert. Göngubrautarljósin fyrir ofan Lönguhlíð og niður við Klambratún eru hinsvegar óbreytt en þau stífla umferðina á Miklubraut niður á Grensásveg með reglulegu millibili sem hægt er að stilla klukku eftir. Sem allir sjá nema Borgaryfirvöld.

Dagur kynnti þá draumsýn sína að borgarbúar ættu að breyta ferðavenjum sínum og nota almenningssamgöngur sem yrðu í formi Borgarlínu sem hefur ekki verið skilgreind ennþá öðruvísi en að hún verði einskonar superstrætó sem gangi þétt ef ekki bara sporvagnar.

Borgaryfirvöld gerðu samning fyrir 7 árum við Vegagerðina um milljarðsframlag á ári í Borgarsjóð gegn því að engar gatnaframkvæmdir í stofnvegum yrðu gerðar, s.s. mislæg gatnamót(að undanskildum Bústaðavegsgatnamótum sem voru talin svo mjög hættuleg og yrðu byggð þá strax).

Í stað þessa skyldu almenningssamgöngur efldar og hlutdeild þeirra færð úr 4 % í 12 %. Nú 7 milljörðum seinna er hlutur þeirra enn 4 % en einkabílum hefur fjölgað mikið. Enda vita allir nema Dagur og hans félagar að venjuleg barnafjölskylda þarf 2 bíla til að geta lifað og starfað með öllu sem til þarf á víðlendu höfuðborgarsvæðinu.

Dagur lítur núna á milljarðinn sem tekjupóst sem ekki sé hægt að vera án.

Nú eru götustokkar það sem koma skal hjá læknunum. Hvað er götustokkur nema gryfja þar sem götunni er sökkt niður í. Þarna er slysahætta margföld, björgunarleiðir þarf að tryggja og svo þarf að dæla útblæstrinum upp í loftið. Þarna sér Dagur líklega að hann geti byggt blokkir ofan á götunni og rennt reiðhjólum yfir stokkinn á völdum stöðum. Þvílíkur umferðarsnillingur er þessi læknir sem nú eyðir miklu fé í Óðinstorg þar sem hann býr sjálfur.

Það virðist aldrei koma til umræðu hjá þessu vinstra og góða fólki að séu götur greiðfærar þá greiðast almenningssamgöngur ekki hægar en bílaumferðin. Fólkið hefur hinsvegar valið sér einkabílinn sem samgöngumáta. Dagur vill breyta þessu vali með þvingunum  og fá almenningssamgöngur upp í 12 %. Eftir stendur að 88 % velja einkabílinn jafnvel þó að Degi yrði að ósk sinni. 

Auðvitað blasir við á Miklubraut hvað þarf að gera til að umferðin flæði eðlilega og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Svipuðu máli gegnir auðvitað um Sæbraut og Sundabraut þarf að koma þó Dagur vilji hana ekki.

En götustokkar eru áreiðanlega dýrasta lausn umferðarmála sem hægt er að hugsa sér þar sem nægt land er fyrir hendi og himininn hár.Allstaðar annarsstaðar en í Reykjavík  eru byggðar brýr í umferðarmannvirkjum og gæti Dagur séð slíkt í Florida ef hann færi þangað.

Borgarlínan er þvílíkt utanlegshugarfóstur frá upphafi að vinna þarf að því að kveða þær hugmyndir allar niður áður en meira tjón hlýst af. En það er verkurinn að það er ekki hægt að stöðva þetta fólk með nokkru móti frá því að neyða ranghugmyndum sínum upp á borgarana sem kusu þá frá í síðustu kosningum en kusu óvart annað fólk sem kom því óvænt til bjargar. Þannig er pólitíkin því miður oft ófyrirséð og það er langt í næstu kosningar.

Samgönguáætlunin sem þeir læknarnir kynntu er því miður ekki líkleg til að  leysa neinn aðkallandi umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins en mun skapa mörg vandamál með boðuðum götustokkum.


8 Gigaton

af kolum brenna í  kolakyntum raforkuverum heimsins á ári. Hvert tonn myndar 2.86 tonn af CO2 sem fer út í andrúmsloftið.Nærri 23 Gigaton af þeim 37 sem heimslosunin er sögð af mannavöldum.Náttúrlega uppstreymið af CO2 er áreiðanlega ekki minna en sú tala.

Íslendingar blása út 0.007 Gigatonnum af þessu byggingarefni lífsins á jörðinni sem CO2 er og hefur ekki verið lægra hlutfall af því í andrúmsloftinu á 600 milljón ára tímabili.Bara upp úr Kötlu stíga dag hvern 20 þúsund tonn af CO2 eða jafnmikið á ári og allir Íslendingar losa á ári hverju í sinni lífsbaráttu.

Er ekki Katrín Jakobsdóttir stórkostleg að leggja á okkur kolefnisskatta í því skyni að berjast við hamfarahlýnun jarðarinnar? 

Litla Ísland gengur fram fyrir skjöldu í baráttu hennar og trúarvísindanna með Grétu Thunberg gegn heimshlýnuninni. Umhverfisráðherrann okkar sem enginn kaus vill moka ofan í Flóaáveituna og aðra skurði til að styðja þessa baráttu.

Sagði ekki Bruno á bálinu: Oh, Sancta Simplicita.

Flytur ekki Steingrímur Jóhann bara hundraðmilljón kíló af kolum til Húsavíkur þar sem þeim er brennt án hreinsibúnaðar?

Maður verður vitlaus af öllum þessum núllum. En eru 8 Gt.ekki   8.000.000.000.000 kg af kolum ekki klumpur sem er í það minnsta kílómetri á kant eða slagar upp í Esjuna?

Hvað eigum við að borga fyrir 8 Gigatonn af kolum sem aðrir en við brenna alla daga?


Sá einhver?

telepromptera á þingi Sameinuðu Þjóðanna þegar Trump talaði?

teleprompterUNHvernig fer hann að þessu?


Þörf ádrepa

er leiðari Morgunblaðsins í dag.

Hann fjallar um þá hnignun lýðræðisins sem er að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi þar sem upphlaupshópar hafa hrifsað til sín æ meiri völd til niðurrifs.

Smáflokkakraðakið og Píratasiðferðið á hér hlut að máli með sleggjudómum sínum og siðlausum upphrópunum.

Leiðarinn hljóðar svo þar sem ekki allir lesa Mogga:

"Það er heldur ólíklegt að almenningur viti út á hvað upphlaupið gagnvart ríkislögreglustjóra gengur. Jafnvel þeir sem fylgjast betur með helstu fréttum en aðrir og fá borgað fyrir það sjá enga glóru.

Það hefur ekkert komið fram í öllum þessum fréttum um að þessi embættismaður hafi brotið af sér. Þeir sem hafa lotið agaviðurlögum af hans hendi neita því ekki að slík tilefni hafi verið fyrir hendi. Og fjarri er því að viðurlögin sýnist hafa verið úr takti við tilefnin. Einu efnisatriðin sem að öðru leyti hafa verið nefnd í umræðunni snúast um búninga og aldur og viðhald bifreiðaflota.

Nú er það svo að ríkislögreglustjóri, aðrir yfirmenn lögreglumála og talsmenn lögreglumanna hafa hvað eftir annað vakið athygli á því að niðurskurður á framlögum til öryggisgæslu borgaranna hafi gengið allt of langt og niður fyrir hættumörk.

Upp á síðkastið hafa komið fram jákvæð ummæli frá fjárveitingavaldinu sem jafna má til fyrirheita um að bætt verði úr í áföngum á næstu árum. Það er vissulega gott og blessað þótt taka hefði mátt fastar á en þetta um svo mikilvægan þátt.

Hin fámenna hugrakka íslenska lögregla réði úrslitum í „búsáhaldabyltingu“ um að tryggja að múgurinn bryti ekki niður lýðræðislegar stofnanir þjóðarinnar. Sú hetjudáð lifir í minningunni en jafnframt framkoma nokkurra kjörinna fulltrúa á Alþingi sem lögðu fjandmönnum lýðræðisins lið gegn lögreglunni.

Íslandi tókst á fyrstu vikunum eftir áfallið að koma sínum málum í farveg sem aðrar þjóðir, sem lentu í samkynja hamförum, fundu ekki eða gátu ekki nýtt vegna þess að þær höfðu afsalað sér lokaorðinu. Og í framhaldinu skipti mestu að íslenskar hetjur í lögregluliðinu komu í veg fyrir að vel skipulögðum öflum með stuðningi fjársterkra manna sem höfðu sumir verið helstu leikendur í spilinu sem felldi fjárhags landsins, tækist að laska lýðveldið varanlega.

Það er sérstaklega minnisstætt og sárt að „öryggistækið RÚV“ ýtti undir sundurlyndi í landinu og hampaði æsingaröflunum. Sú stofnun hefur aldrei beðist afsökunar á fyrirlitlegri framgöngu.

Athyglin beinist nú að formennsku í þingnefndum. Það var í góðum tilgangi gert að treysta stjórnarandstöðu fyrir formennsku í nokkrum þingnefndum þótt þingstyrk skorti. Rökin fyrir þessum breytingum voru ekki endilega sterk. Áhrif kjósenda á þróun síns þjóðfélags minnka sífellt og minnkuðu enn örlítið við þessa tilgerð sem reynst hefur illa.

Ráðherrar verða sífellt máttlausari í ráðuneytum „sínum“ og koma oftar en áður fram sem blaðafulltrúar þeirra en ekki eins og þeir sem alla ábyrgð bera.

Embætti eins og það sem þó er kennt við þingið sjálft hefur breyst í að verða helsti talsmaður skrifræðis í landinu og fleira kemur til sem verður til að völd ráðherra minnka með degi hverjum. Og þar með minnka um leið þau óbeinu áhrif sem kjósandinn hefur með atkvæðum sínum.

Lagasetningarvaldið er að auki flutt æ oftar úr landinu í fullkomnu heimildarleysi og nú síðast var stigið risaskref í þá átt þegar nafnlausir embættismenn sannfærðu kjarkleysingjana í kringum sig um að framvegis mætti ekki hafna neinu því sem frá ESB kæmi í nafni EES-samningsins, þrátt fyrir grundvallarákvæði hans sjálfs. Þar með hefur verið ákveðið að fara bakdyramegin inn í sambandið.

Mannaval „kerfisins“ hefur smám saman verið tekið úr höndum ráðherrans og fært að sögn til alviturra excel-skjala. En þau eru í höndum manna af holdi og blóði rétt eins og ráðherrann er, en hafa ólíkt honum ekkert raunverulegt umboð frá fólkinu í landinu og bera enga ábyrgð á sínum ákvörðunum sem þó eru sagðar endanlegar!

Stjórnmálamenn eru fjarri því að vera hvítskúraðir englar. En það er hættuspil að kaupa þá ofsatrú á að excel-skjölin séu guðlegir pappírar eða öllu heldur þeir sem undir þau skrifa.

Þar sem kosningar hafa sífellt minni lýðræðisleg áhrif og flokkar skipta þess vegna æ minna máli er það röng nálgun að sleppa því líka að láta kosningar, úrslit þeirra og meirihlutamyndun, ekki endurspeglast í formennsku í þingnefndum. En verði stjórnmálamenn nútímans spurðir um þetta þá munu þeir leita eftir svörum frá „fagmönnum“ og fá þau á disk eða spólu og ýta á „play“ og það verður lokasvarið af þeirra hálfu."(leturbreytingar eru bloggarans)

Því miður er bitur sannleikur fólginn í þessum orðum. Það má líka minnast þeirra ungu hetja, sem stilltu sér upp fyrir framan hina úrvinda lögreglumenn og buðu kommaskrílnum byrginn sem einskis sveifst í árásum sínum á lýðveldið Ísland.

Skrifara líður ekki úr minni þegar þekktur rithöfundur á ríkisframfærslu lamdi bíl forsætisráðherra að utan afmyndaður af hatri í framan með morðglampa í augum.

Það voru illir tímar þegar þetta var og allt að því meira en búsáhaldabylting í lofti. Vonandi verður langt í slíka atburði aftur þegar einkavæðing ríkisbankanna hafði sýnt sig og sannað.Það er því skiljanlegt að margir hafi andvara á sér gagnvart endurtekningu slíkra hugsjóna og setji sama sem merki milli einkavæðingar og einkavinavæðingar.

Stjórnmálin og tiltrú fólksins slösuðust illa við þessa atburði og hefur virðing Alþingis ekki náð sér á strik síðan. 

Þessi leiðari Morgunblaðsins er þörf ádrepa til þeirra sem hana eiga skilið.


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband