Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Orrustan um Ísland

stendur sem hæst í kvöld.

Fái geislafræðingar sínum kröfum framgengt í kvöld þá er orrustan töpuð. Ríkisstjórninni hefur þá mistekist að koma böndum á efnahagslífið með þjóðarsátt. Framundan eru þá  kjaraleiðréttingar sem fara munu sem eldur í sinu um þjóðfélagið sem lyktar með því að þeir lægst launuðu munu fá minna en ekki neitt meðan hinir fá tímabundinn afrétting.

Ef ríkisstjórnin kemur ekki með djarflegt útspil núna sem þjóðin sættir sig við  þá hefur henni mistekist í meginatriðum að vinna orrustuna um Ísland.  


Stjórnkerfið

okkar er löngu komið út um víðan völl. Allt of mikil völd eru komin á sjálfstýringu í þjóðfélaginu með allskyns innfluttu reglugerðarbulli sem við gleypum gagnrýnislaust frá Evrópu. Þetta tel ég vera árangur af sífelldri moldvörpustarfsemi kratískra elementa í þjóðfélaginu  um áratugaskeið. Öllum er kunnug sú firnaáhersla sem þeir leggja á að afsala fullveldi landsins til erlendra ríkja og koma Íslandi í ESB.Meðan það ekki tekst hafa hægri menn látið nota sig í að þrykkja þessu hér inn um bakdyrnar með EES samningunum og Schengen sem Sjálfstæðisflokkurinn lofsöng á síðasta landsfundi.

Leiðarhöfundur Morgunblaðsins lýsir þessu í hnitmiðuðum orðum í dag: Grípum niður:

 "...... Framhjá því verður ekki horft að fleiri skref af því tagi þýða að svigrúm einstaklinganna er takmarkað að sama skapi. Stór hluti jarðarbúa býr við þær aðstæður að það er aldrei spurt um slíkt framsal valds og takmörkun á frelsi. Þar er einfaldlega hrifsað með þeim röksemdum sem koma úr byssukjafti eða glampa á sverðsegg. Íslendingar hafa síðustu öldina verið í hópi með þeim minnihluta í veröldinni sem hefur meira um sín mál að segja en meirihluti jarðarbúa um sín.

Aukið vald hins opinbera hefur því oftast komið til með samþykki kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, á þingi þess eða í sveitarstjórnum. Fyrir aðeins mannsaldri voru fundardagar Alþingis miklu færri en þeir eru núna. Samt þykir sumum nóg um fjarveru þingmanna sinna úr fundarsalnum, þar sem þeir rétta upp höndina ótt og títt (nota nú aðeins einn putta á takka) og samþykkja það sem fyrir þá ber, frá stofnunum eða ráðuneytum, en þó í vaxandi mæli utan úr buskanum í Brussel. Þann bunka, sem stækkar ört, er opinbert leyndarmál að enginn þingmaður les: »Enda þýðir það ekkert,« eins og viðbáran hljómar, og er því miður bæði sönn og rétt. Það er í raun niðurlægjandi að vera þingmaður í slíku hlutverki....

 

 .... Mjög æskilegt væri að fækka þingdögum verulega og draga úr prófarkalestri nefnda og þar með afgreiddum málum. Tími til raunverulegrar stjórnmálaumræðu yrði rýmri og þingmenn ættu fleiri stundir með fólkinu í landinu. Þá gæti hægt á skerðingum á réttindum fólksins í landinu, svigrúmi þess til athafna og óþörfum íþyngjandi reglusetningum af hvers konar tagi. ....

.....Ef t.d. er horft til þess hvernig eftirlitsiðnaður hefur belgst út á undanförnum áratugum á meðan þrengt hefur verið að hinni almennu löggæslu getur enginn efast um að þar er öfugþróun. Eftir sífellda fjölgun höfum við nú her manns í að þýða tilskipanir frá Brussel á sama tíma og eini raunverulegi neyðarherinn í þessu landi, lögreglan, er skorinn niður við trog.

Stofnun eins og Samkeppnisstofnun hefur um háa herrans tíð virst ganga erinda eins helsta einokunaraðilans og teygt sig með ævintýralegum hætti til að réttlæta þá sérkennilegu þjónustu. Hugmyndin með slíkri stofnun er ekki fráleit, en reynslan sýnir að hún mætti að skaðlausu hverfa.

Fjármálaeftirlitið hefur verið þanið út þótt ekkert í uppbyggingu þess nú bendi til þess að það hafa meiri burði til að andæfa þróun bankakerfis í bóluátt en var á meðan þar var mun fámennara. Tugir manna starfa nú við að semja smásmyglisspurningar og svara þeim, án þess að þær hafi nokkra efnislega þýðingu varðandi þróun og réttlæti að blása eftirlitið út með þeim hætti sem gert var.

Framkvæmdastjóri verslunarinnar Kosts hefur birt hér í blaðinu reynslu sína af viðskiptum við opinbera stofnun sem snýr að honum. Þar er um Matvælastofnun að ræða. Lýsingar framkvæmdastjórans eru líkastar því að koma úr revíu. Opinberar stofnanir sem jafnt og þétt hafa fengið ríkari valdheimildir hafa margar sýnt að þær kunna ekki með þær að fara. Þær gæta ekki meðalhófs. Þær svara ekki eða eins og út úr kú athugasemdum þolendanna, sem eru hluti almennings í landinu. Gerðar eru óbilgjarnar kröfur til þeirra sem í myllu stofnananna lenda, en síðan er dregið á langinn að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Eins og bent hefur verið á, þá virðist iðulega út frá því gengið að í samskiptum við slíkar stofnanir hafi sönnunarbyrðinni heimildarlaust verið snúið við.

Gagnslausar stofnanir, eins og Umboðsmanns neytanda (sem virðist ein umsvifamesta framboðsskrifstofa landsins) eða Neytendastofa eru bein dæmi um ömurlega sóun almannafjár. Eftirlitsiðnaðurinn verður að skilja að hann er þjónustustarfsemi í eðli sínu en ekki búrókratískur yfirgangsiðnaður. Því miður er þess ekki að vænta að mikil breyting verði í þessum efnum á þessu kjörtímabili. "

Hér er talað tæpitungulaust og af þekkingu. Það veldur því furðu þegar Jón Hákon Magnússon skrifar neyðaróp í sama blað um að Íslendingar lokist út í kuldanum ef ESB og USA geri fríverslun.Ekkert er fráleitara. Þvert á móti mun ESB verða að slaka á vitleysunni varðandi efnin sem eru að drepa Sullenberger og fleiri og Bandaríkjamenn að samræma eitthvað já sér. Við njótum góðs af hvoru tveggja. Ég held að HJörtur Gíslason hafi komist nær þessu efni í grein í Mbl. á síðasta laugardag.

Kratískur undirlægjuháttur Íslendingavið upptöku fyrirskipana frá embættiskerfinu í Brüssel, sem enginn kaus eins og Farage benti á frægri ræðu, er löngu orðin della. Við eigum sem fullvalda þjóð einungis að nýta það sem okkur passar eins og Ögmundur gerði við Núpó en Hanna Birna snéri við í forundran landsmanna. Nú má Núpó kaupa það sem hann vill en Íslendingur má ekkert kaupa í útlöndum vegna gjaldeyrishafta.

Niður með óþarfa stofnanir Íslendinga sem flestar eru hvort sem er kratabæli. Foringinn okkar hann Björgvin Jónsson í Vaðnesi sagði oft í Sundlaugunum fyrir svona tveimur til þremur áratugum þegar efnahagsmálin bar á góma: " Minnkum ríkisböllinn, lokum Háskólanum!" 

Hefur eitthvað breyst þó eftirlitskerfin og Háskólarnir hafi tútnað út sem aldrei fyrr?

 


Loks kom Bjarni

Benediktsson fromaður Sjálfstæðisflokksins fram í sjónvarpi í kvöld og tjáði sig um þann hrikalega vanda sem nú blasir við þjóðinni vegna kjarasamninganna sem framundan eru.

Efti óskiljanlegt útspil Kjararáðs stefnir að óbreyttu í mikinn vanda í kjarasamningum í haust. Bjarni sagði að vísu að ekki stæði til að kalla Alþingi saman vegna málsins. Hugsanlega væri líka til lítils að fara að hlusta á ræður Steingríms J. Sigfússonar og hans nóta við þetta tækifæri. Hér þarf aðgerðir og þær fljótt.

Vandi landsmanna er svo hrikalegur að nú þarf þjóðin á öllu sínu þreki að halda. Vaxtagreiðslur ríkisins eru meiri en 73 milljarðar í ár og stórir  gjalddagar í vændum. Gjaldeyrir virðist ekki skila sér frá ferðamönnum að þessu sinni þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar ferðaiðnaðarins um gjaldeyrisþýðingu sína hvað sem veldur. Kauphækkanir upp á tugi prósenta við þessar aðstæður er bara ávísun á eitt sem allir vita.

Það þarf núna að sýna forystu og fá menn til að  fallast á skynsemi . Mikið má vera ef ekki þarf að taka rösklega á þeim mistökum sem búið er að gera eins og Ólafur Ragnar varð að gera við þjóðarsáttina fyrri. Annars sætta menn sig ekki við fórnir eins og verður að færa núna. Þurfum við hugsanlega að stórhækka verð á áfengi til að ráða við fylleríisvandann í löggæslumálunum og minnka álagið á sjúkrahúsin? Ekki eru til peningar að leysa þau mál.

Það vekur vonir að sjá Bjarna Benediktsson á skjánum og tala af yfirvegun til okkar allra um þann vanda sem við blasir. Við viljum sjá forsætisráðherrann okkar, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, koma og tala við okkur. Ríkisstjórnin verður að  grípa til þeirra ráðstafana sem óhjákvæmilegar eru eigi ekki illa að fara.


Skipulagsmál í Reykjavík

eru viðfangsefni Örnólfs Hall arkitekts og leiðarahöfundar Morgunblaðsins í dag. 

Örnólfur dregur saman mikinn fróðleik um Geir hinn góða Vídalín biskup sem vert er að taka eftir.

Hann kemur svo inná líka, eins og  leiðari Morgunblaðsins líka, hver áhrif umbylting skipulagsins á vegum Samfylkingar og Gnarristanna eru:

Örnólfur segir:

 

..."Mönnum hefur orðið tíðrætt um nýja deiliskipulagið á Landssímareitnum og menningarverðmætin þar, Víkurkirkjugarð og legstaði. - Samkvæmt þessu skipulagi fær Víkurkirkjugarður svokallaða hverfisvernd sem á að vera sama eðlis og gildir fyrir Hólavallakirkjugarð (þ.e.a.s. vernd frá sjónarmiði menningarsögu, minningarmarka og skipulögð vöktun sérstaks trjágróðurs).

 

Við lagningu símalína (undir gangstéttum) umhverfis garðinn, á 6. áratugnum, virðist lítil nærgætni eða virðing (grafarhelgi) hafa verið viðhöfð. Mannabein, leggir og jafnvel höfuðbein lágu á víð og dreif í uppmokstrinum eins og fram kemur í fréttum á þeim tíma.

 

Þór Magnússon, fv. þjóðminjavörður, skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið fyrir nokkru undir fyrirsögninni: Hver á kirkjugarðinn? Þar segir Þór meðal annars: »Nú er boðað að breyta eigi Landsímahúsinu í hótel og viðbygging skuli ná út að Kirkjustræti. Ef að líkum lætur mun það stórhýsi fara verulega út í kirkjugarðinn. Þá má spyrja: Hver á kirkjugarðinn? Mega skipulagsyfirvöld ráðstafa kirkjugarðsstæði, legstöðum, eftir sinni þóknan?«

 

Rétt er að árétta orð Þórs í greininni: »Ástæða er til að fara sér hægt, kanna mörk hins gamla kirkjugarðs og ganga síðan frá honum eins og kirkjugarði sæmir.«

 

Hver er aðkoma biskupsembættis og viðkomandi sóknarnefndar að þessu skipulagi?

 

Hvað varð um tillögu um fornleifagröft á svæðinu sem lögð var fyrir borgarráð fyrir rúmum áratug? "

Svo mælir Örnólfur Hall. 

Leiðari Morgunblaðsins talar svo tæpitugulaust um það skipulagsslys sem í uppsiglingu er í Reykjavík.

 

"..... Bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Kjartans Magnússonar, markar vonandi þau tímamót að um tillöguna hefjist nægar umræður til að borgarbúar geti áttað sig á eðli hennar og tilgangi tillöguflytjenda.

 

Tilgangurinn kemur skýrt fram í svari borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar við bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og sjálfsagt er að benda á hann hér. Í bókun Besta flokks og Samfylkingar segir að tillagan marki tímamót »að því leyti að með henni er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi«.

 

Þessi framsetning, að bílar borgarbúa séu með einhverjum hætti andstæðir hagsmunum þessara sömu borgarbúa og valdi þeim ama og óþægindum og þess vegna verði að þrengja að bílunum í skipulagi borgarinnar, er vitaskuld fráleit. Bílar aka ekki mannlausir um götur borgarinnar heldur eru þeir ferðamáti sem fólk hér á Íslandi hefur af ýmsum og skiljanlegum ástæðum valið sér. Þessi andúð á einkabílnum er grunnstefið í aðalskipulagstillögunni og út frá þeirri andúð er hún unnin. Það að aðalskipulagstillaga höfuðborgarinnar snúist um svo sérstök sjónarmið er verulegt áhyggjuefni og þess vegna er mikilvægt að tillagan fáist rædd og að borgarbúar fái tækifæri til að kynna sér hana og taka til umfjöllunar.

 

.... Að ýmsum þeirra er vikið í fyrrnefndri bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og þar segir meðal annars: »Skipulagið lýsir þröngsýnum viðhorfum þar sem val um búsetuform er ekki til og fjölbreytileiki borgarinnar er kæfður niður. Öllum er ætlað að búa eins - á þéttingarreitum í vesturborginni. Verði skipulagið samþykkt munu ungar fjölskyldur í ríkara mæli leita til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu enda er með þessu skipulagi ekki verið að skapa þeim aðstæður til að hefja sinn búskap í borginni. Reynslan sýnir að barnafjölskyldur eru ekki kaupendur íbúða á þéttingarreitum vegna þess að þær íbúðir eru óhjákvæmilega dýrar þar sem lóðarverð er hátt.
 
Á öllu skipulagstímabilinu er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í nýju hverfi í útjaðri borgarinnar en þau hverfi hafa í áranna rás verið eftirsóttustu byggingarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu.« Ennfremur er í bókuninni bent á að ekki sé gert ráð fyrir því að ný einbýli rísi í borginni fram til ársins 2030, sem er auðvitað með miklum ólíkindum.

 

Þá segir í bókuninni að í samgöngumálum borgarinnar sé byggt á samningi ríkis og borgar um að horfið verði frá framkvæmdum við samgöngumannvirki næstu tíu árin. Mislægum gatnamótum, vegstokkum og öðru sem eldra aðalskipulag hafði gert ráð fyrir til að liðka fyrir umferð sé fækkað verulega í nýja skipulaginu. Í bókuninni segir að skipulagshöfundar beinlínis leggist gegn samgöngumannvirkjum í Reykjavík, sem kemur út af fyrir sig ekki á óvart miðað við afstöðu þeirra til bifreiða og þeirra sem þær eiga og nota.

 

Þá er bent á að aðalskipulagstillagan byggist á því »að flugvöllurinn fari og uppbygging muni hefjast á flugvallarsvæðinu eftir þrjú ár«. Þetta sé óraunsætt, enda sé flutningur flugstarfseminnar ekki einkamál borgarinnar.

 

Fjandskapurinn við Reykjavíkurflugvöll er annað meginstef aðalskipulagstillögunnar og tengist hinu aðalstefinu, andúðinni á einkabílnum. Hvoru tveggja er stefnt gegn hagsmunum og vilja borgarbúa, sem þurfa að komast leiðar sinnar um greiðfærar götur og hafa ítrekað sýnt að þeir vilja hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er.
 

 

Almennt eru tillögur að skipulagi ekki það sem fólk telur tíma sínum best varið í að kynna sér eða hafa áhrif á. Sú tillaga sem hér um ræðir er hins vegar svo fjarri hagsmunum borgarbúa að full ástæða er til að hvetja þá til að kynna sér hana og segja skoðun sína á henni. "

Það er óskiljanlegt  hvernig slík forneskja ríður húsum í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar. Allt stefnir afturábak eins og að reynt sé að endurvekja tíma Geirs Vídfalíns í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. Útrýma einkabílum og flugumferð með þessu gamaldags Kvosarbulli.

Þetta fólk skilur ekki að borg er lifandi samfélag og umgjörð utan um líf og starf manna. Miðbærinn er löngu fluttur burt frá búllunum og túristunum vegna þess hv ersu slæmt aðgengi einkabílsins er orðið þarna niður í Kvosinni. Það er flugvöllurinn sem heldur lífi í borginni en ekki öfugt.

Þessi beitarhúsahugsunarháttur skipulagsfræðinganna í Reykjavík er úr takti við nútímann.

 


Hælisleitendur

má sem hægast geyma í sérstökum búðum á Keflavíkurflugvelli. Þar er húsnæði fyrir hendi og hægt að gæta öryggis þeirra.

Mér finnst rangt að beita þessu fólki, sem enginn þekkir,  á almenning eins og nú á að gera. Er ekki nógu lengi búið að hrjá Suðurnesjamenn með ágangi þessa fólks sem nú fjölgar sem aldrei fyrr?

Mun það ekki líka draga stórlega úr aðsókninni ef vitað er hvað bíður þess sem ætlar að gerast hælisleitandi á Íslandi ? Ekkert elsku mamma.  Einfalt og öruggt. Og heimilt.

Þá höfum við nógan tíma til að messa yfir málum hvers og eins hælisleitanda. 


Liberté, égalité, fraternité

var kjörorð byltingarinnar í Frakklandi á sinni tíð.

Við ræddum um það eitt síðkvöldið ég og vinur minn, að tímarnir núna í Evrópu væru um margt líkir tímunum þegar Napóleon mikli var bara lágt settur liðsforingi. Það var upplausn í Frakklandi og atvinnuleysi meðal almennings. Hann hafði gert uppreisn gegn kónginum, kirkjunni  og aðlinum og trúað því að vinir alþýðunnar mynu færa honum velsældina sem hann þráði. Fallöxin sá um að senda óvini fólksins til betri heima.

En gull og silfur hvarf líka úr umferð og var sumpart grafið ofan í bakgarðana þar sem síður var hætta á stuldi. Enn í dag vantreysta Frakkar öllum yfirvöldum og bönkum  og hafa sama hátt á með varasjóði sína. Ráðamenn kvarta sáran yfir því að ná ekki í þetta falda fé alþýðunnar og segja þetta slæmt fyrir hagvöxtinn og þá auðvitað sjálfa sig líka að geta ekki stolið því.

Kirkjujarðirnar í Frakklandi voru gerðar upptækar til fólksins . En það vantaði peninga í umferð og viðskipti gegnu því treglega. Þá fann einn snillingurinn upp peningaseðilinn sem var kallaður  Assignatinn.  Hann var prentaður á fallegan pappir og settur í umferð.

 Á bak við Assignatinn var 1. veðréttur í kirkjujörðunum. Allt gekk vel um stund. En svo fór að vanta meiri peninga svo alþýðuvinirnir gætu gert það sem þá langaði til. Þeir prentuðu þá bara meira og viti menn, allt tók við sér aftur. En svo fór vélin að hiksta aftur og þá var enn prentað. En nú fór fólkið fór að pískra um að það væri ekki mikið traust í þessum seðli.  Þá var prentað meira og nú varðaði það fallöxi að neita að taka við assignatinum sem greiðslu. Nú var hoggið og prentað sem aldrei fyrr. Verðbólgan æddi upp og atvinnuleysið magnaðist.

Þar kom að alþýðuvinirnir létu brjóta prentvélina í allra augsýn til að sýna fólkinu að þeir væru hættir að prenta. En þetta var of seint. Hvað átti að gera við alla atvinuleysingjana?

Napóleon vissi það. Sauma úniforma og framleiða byssur. Síðan var farið í stórkostlegustu ránsferðir sem heimurinn hafði séð. Þýskaland , Spánn, Austurríki og  Ítalía urðu  skattlönd Frakka og fallbyssudrunurnar skóku heimsbyggðina. Napóleon var mikill eljumaður og hans eina og hálfa áratug gleymir enginn.

Hvað á nú að gera við milljónirnar í Evrópu sem hafa enga atvinnu og enga von ? Er hægt að prenta handa þeim Evrur endalaust? Dettur engum í hug að fara í ferðalög?  Friða Arabalöndin og koma skikki á Afríku? Hvar er hægt að stela einhverju?  Pour l´gloire de.... ?

Þarf ekki að kenna einhverjum democrazy? Liberté, égalité, fraternité ! 


Hann var Jói



í Bónus og ég var bara ég.
 
Mér var alltaf innst inni hlýtt til hans frá því að ég hitti hann fyrst líklega 1988 eða 1989. Þá var hann var að undirbúa opnun fyrstu búðarinnar. Við tókum tal saman um verslun og viðskipti  og maðurinn var svo skemmtilegur og skarpt hugsandi að ég gat aldrei orðið mjög vondur út í hann næstu 24 ár. Það urðu auðvitað ýmsar sviptingar í okkar lífum og ekki var ég alltaf hrifinn af tiltækjum hans. En mér var alltaf samt fremur hlýtt til hans Jóa eftir okkar fyrsta samtal. Hann var þá svo einlægur og blátt áfram að ég gleymdi því aldrei.

Þetta var einstakur maður með kosti og bresti, styrkleika og veikleika. Og það sem hann áorkaði í raun var mikið að vöxtum. Úrspilið var svo annað mál og til eru þeir sem segja að afslátturinn í Bónus hafi allur verið á kostnað þjóðarinnar þegar upp var staðið. En hann gerði þetta sem hann gerði. Hann breytti allri verslun í landinu eins og hann Pálmi í Hagkaup gerði líka. Þessir tveir menn breyttu aldarhættinum.

Ég man að hann ræddi um það við mig þarna í fyrsta samtalinu að hann ætlaði sér ekki að eiga verslunarhúsnæði sitt. Hann sagði að gömlu kaupmennirnir hefðu steypt sig fasta og ekki fylgt þeim kúnnum sem keyptu mest út í úthverfin, barnafólkinu. Hann vildi bara leigja sér pláss og einbeita sér að því að versla án þess að láta steypuskostnaðinn spila inn í vöruverðið. Það þyrfti enga heildsala á þeim tímum sem væru að renna upp, hann ætlaði að versla við beint umheiminn  og færa fólkinu milliliðakostnaðinn. Og víst er að heildsölum fækkaði umtalsvert um hans daga.

Mér fannst þessi maður einstakur með dökkt alskegg og fjörglampa í augunum. Við sáumst ekki mjög oft síðar meðan skeggið gránaði. En allltaf var hann Jói elskulegur við mig þó að ég skrifaði kannski ekki alltaf sem honum líkaði best. Mér verður innst inni alltaf hlýtt til hans Jóhannesar Jónssonar.
 
En hann var líka Jói í Bónus og ég er bara ég.

Sjáið hana Biggu Bardot!

sem við ungir stúdentar flykktumst í bíóin í den til að fá að sjá þann eina örugga kvenmannsbossa sem okkur bauðst fyrir vægt gjald í myndum Roger Vadims.Þær klikkuðu aldrei. Við kölluðum hana Biggu þó hún héti Birgitte.

Nú er hún Bigga orðin kerling á svipuðum aldri og við þessir gömlu stúdentar vitum varla lengur hversvegna....?

Hún er þó líklega hressari en við. Hún býður ofureflinu byrginn. Öllu bákninu!

Fyrst djöflaðist hún gegn selveiðum Grænlendinga svo það varð kreppa í Ammasalik og Kúlusúk sem ég horfði á og varð alvarleg.Nú stendur hún keik gegn  besserwisserunum og menningarvitunum í sínu landi , allri vinstri elítunni í Frakklandi, tilsvarandi Samfó og VG hérna.

Hún vill ekki selja föðurland sitt af hendi til óþjóða.

 "French former film star Brigitte Bardot went on trial on Tuesday for insulting Muslims, the fifth time she has faced the charge of "inciting racial hatred" over her controversial remarks about Islam and its followers.

Prosecutors asked that the Paris court hand the 73-year-old former sex symbol a two-month suspended prison sentence and fine her 15,000 euros ($23,760) for saying the Muslim community was "destroying our country and imposing its acts".

Since retiring from the film industry in the 1970s, Bardot has become a prominent animal rights activist but she has also courted controversy by denouncing Muslim traditions and immigration from predominantly Muslim countries.

She has been fined four times for inciting racial hatred since 1997, at first 1,500 euros and most recently 5,000.

Prosecutor Anne de Fontette told the court she was seeking a tougher sentence than usual, adding: "I am a little tired of prosecuting Mrs Bardot."

Bardot did not attend the trial because she said she was physically unable to. The verdict is expected in several weeks.

French anti-racist groups complained last year about comments Bardot made about the Muslim feast of Eid al-Adha in a letter to President Nicolas Sarkozy that was later published by her foundation.

Muslims traditionally mark Eid al-Adha by slaughtering a sheep or another animal to commemorate the prophet Abraham's willingness to sacrifice his son on God's orders.

France is home to 5 million Muslims, Europe's largest Muslim community, making up 8 percent of France's population.(25000 manns á Íslandi til samanburðar. Hversu margir þrá það?)

"I am fed up with being under the thumb of this population which is destroying us, destroying our country and imposing its acts," the star of 'And God created woman' and 'Contempt' said.

Bardot has previously said France is being invaded by sheep-slaughtering Muslims and published a book attacking gays, immigrants and the unemployed, in which she also lamented the "Islamisation of France". "(allt nema inskotin mín sem eru auðþekkt)

Já það er aldeilis kjaftur á henni Birgitte Bardot sem við elskuðum sem hana Biggu! 

Við sem munum Biggu í blóma lífsins tökum ofan fyrir henni.Við sjáum að hún er greinilega meira en bossinn á henni var okkur um tíma.En hann var okkur þá ærin ástæða  í árdaga lífsins fyrir því að fara í bíó fyrir DM 1.80 í Sperrsitz með eina Rolo stöng, eða jafnvel aðra.

Nú  sjáum við hvað hún Bigga hefur i hausnum. 

 


Nú er Núpo leiðin létt

til landakaupa,

Hólsfjöll verða hefluð slétt,

hressist öll vor bændastétt.

Kínamenn kotin kaupa.

Össur og aðrir sannfærðir landsölumenn hefði ekki geta  gert það glæsilegra en Hanna Birna. Ömmi gerður ómerkur með sín gamaldags þjóðvarnarsjónarmið.

Hananú Hanna Birna !

Núpó-Létt.

Nú er Núpó leiðin létt. 

 

 


RUV og skyldan

er ofarlega í umræðu núna. Er sérkennilegt að fylgjast með afstöðubreytingunni hjá útvarpstjóranum Páli Magnússyni sem fyrrum starfaði hjá samkeppnisaðilanum Jóni Ásgeiri. Núna er ekkert athugavert við þá skipan mála sem honum þótti stórmæli áður.

Valdimar Kjartanson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar svo um þetta mál:

" Ríkisútvarpið er enn og aftur í umræðunni og núna vegna skorts á hlutleysi. Einhverra hluta vegna er það talið sjálfsagt og eðlilegt að fá Hallgrím Helgason, rithöfund og samfylkingarmann, til að vera með reglulega pistla í útvarpi »allra landsmanna« og gefa honum tækifæri til að tjá skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar. Hallgrímur á að sjálfsögðu rétt á því að tjá sig eins og aðrir, en ef Ríkisútvarpið á að vera vettvangur fyrir pólitískan áróður er eðlilegt og sanngjarnt að öll sjónarmið fái aðgang að hljóðnemanum í Efstaleiti. .....

 

.....Í sjálfu sér er mér nokkurn veginn sama hvaða stefnu Ríkisútvarpið tekur í sinni dagskrárgerð svo framarlega sem ég hafi val um það hvort ég greiði gjöld til stofnunarinnar eða ekki. Dagskrárgerð Ríkisútvarpsins hefur aldrei heillað mig og ég spyr því eðlilega af hverju ég eigi að greiða fyrir dagskrárefni sem ég hlusta ekki á né horfi á? Ég kaupi ekki áskrift af Stöð 2 þar sem kostnaðurinn vegur ekki upp á móti dagskrárefninu sem ég myndi hugsanlega gefa mér tíma til að horfa á. Hins vegar kaupi ég áskrift af Stöð 2 Sport í þeim tilgangi einum að horfa á umfjöllun um íslenska knattspyrnu, þannig virkar frjáls markaður. Um Ríkisútvarpið gilda hins vegar einhver allt önnur lögmál á óljósum forsendum um sérstakt hlutverk stofnunarinnar.......

.... Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur ráði hvort þeir greiði í Ríkisútvarpið eða eitthvað annað eins og t.d. til björgunarsveita landsins."

Máttu trúlausir ekki einu sinni velja hvort þeir greiddu til kirkjunnar eða Háskólans? Hvað hefur breyst í hugarheimi Sjálfstæðismanna eins og Þorgerðar Katrínar? 

Gunnlaugur Sigmundsson veltir ummælum Boga Ágústssonar fyrir sér:

"...Nýlega var haft eftir fréttamanninum Boga Ágústssyni að hann hafi brugðist við gagnrýni á RÚV frá ritstjóra Morgunblaðsins með því að segja upp áskrift að Morgunblaðinu. Bogi skrifar af þessu tilefni: »Ég borga fólki ekki fyrir að skrifa lygaþvætting, óhróður og níð um mig, vinnufélaga og vinnustað.«

 

Bogi velur að stinga höfðinu í sandinn og lýsa vandlætingu sinni með því að segja upp áskrift að blaði sem hann getur hvort eð er lesið ókeypis í vinnunni. Þessi viðbrögð Boga vekja spurninguna, hvað með okkur hin sem erum ósátt við vinnubrögð fréttastofu RÚV? Við viljum ekki frekar en Bogi borga fyrir »óhróður og níð« að ógleymdu bullinu og gildishlöðnum frásögnum frá svokölluðum »fréttaritara« RÚV í London. Bogi Ágústsson getur sagt upp áskrift að Morgunblaðinu af því honum líkar ekki skoðanir blaðsins en þegar RÚV á í hlut erum við hin neydd með lögum til að greiða.

 

Bogi Ágústsson hefur verið starfsmaður RÚV í marga áratugi, þótti geðþekkur á skjánum, talinn vel lesinn og með á nótunum. Þetta var fyrir tilkomu internetsins þegar fréttalesarar höfðu enn það hlutverk að segja okkur hvað var að gerst úti í hinum stóra heimi. Með tilkomu internetsins er þörfin fyrir fréttastofur og menn sem endursegja fréttir frá Reuters minni en áður. Flestir eiga tölvu og fólk hlustar og horfir á BBC, CNN og Sky um leið og fréttnæmir atburðir eiga sér stað. Þetta breytir þó ekki því að vegna fyrri vinsælda er Bogi enn eitt af andlitum RÚV. ."

Ég verð að segja að ég varð hugsi yfir tilvitnuðum ummælum Boga Ágústssonar á sinni tíð. Gunnlaugur segir enn:

"...Ekki þarf að vera sammála skoðunum ritstjórans til að hafa gaman að lestri Reykjavíkurbréfs, Staksteina og leiðara blaðsins sem oftar en ekki eru gædd meitluðum texta og skýrri sýn á menn og málefni.

Í ritstjórnartíð Davíðs Oddssonar, gamals skólafélaga okkar Boga, er blaðið orðið svo skemmtilega skrifað að réttlætir fyllilega áskrift hvort sem mönnum líka skoðanir blaðsins eða ekki.

Ekki þarf að vera sammála skoðunum ritstjórans til að hafa gaman að lestri Reykjavíkurbréfs, Staksteina og leiðara blaðsins sem oftar en ekki eru gædd meitluðum texta og skýrri sýn á menn og málefni.."

Ég hef orðið var við að meðal einstakra starfsmanna RÚV eru mjög harðar skoðanir uppi gagnvart Morgunblaðinu og ritstjóra þess. Allt að því ofstæki.

Þá er kominn tími til að spyrja: 

Af hverju er RÚV orðið skylda? 


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband