Leita í fréttum mbl.is

Verslum við KOST !

Jón Gerlad Sullenberger skrifar í MBL. opið bréf til Jóns Ásgeirs.
Þá er ástæða til að vekja athygli á þessu bréfi og velta því fyrir sér hvað maður geti sjálfur gert í smæð sinni, til þess að vinna á móti því sem Jón lýsir.
Bréfið er hérna: 
"Opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar
SÆLL Jón Ásgeir. Það eru dapurlegir tímar á Íslandi núna þegar afleiðingar hrunsins eru að koma í ljós, langvarandi atvinnuleysi, niðurskurður á öllum...

Jón Gerald Sullenberger
SÆLL Jón Ásgeir. Það eru dapurlegir tímar á Íslandi núna þegar afleiðingar hrunsins eru að koma í ljós, langvarandi atvinnuleysi, niðurskurður á öllum sviðum velferðarkerfisins og stórfelld lækkun á lífeyrisgreiðslum til aldraðra. Félög eins og Baugur Group eru búin að ryksuga upp alla sjóði í íslensku bönkunum. Ekki má gleyma öllum þeim gríðarlegu fjármunum sem lífeyrissjóðirnir lögðu í ykkar félög sem nú eru öll gjaldþrota. Svona mætti lengi telja.

 

Nú þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir - gögnin skýr og staðreyndir tala sínu máli - er hin íslenska þjóð að vakna upp við vondan draum. Ég má til með að senda þér smá línu vegna pistils þíns sem birtist í dagblaði eiginkonu þinnar 22. apríl sl. Þar fjallar þú m.a. um vanlíðan þína yfir hruni Íslands og fullyrðir að þú munir gera allt til að bæta íslensku þjóðinni upp mistök þín og aðstoða við að byggja Ísland upp að nýju. Að vísu eru þetta nánast sömu orð og þú ritaðir í grein þinni í desember 2008, »Setti ég Ísland á hausinn?« Eftir þá grein var nú lítið um aðstoð frá þér og þínu fólki, þar sem allur tími þinn fór í að tryggja þér stóran hlut í verslunarveldinu Högum og skrá það á föður þinn, svo og að ná tangarhaldi á fjölmiðlaveldinu 365 og skrá það á eiginkonu þína, ásamt ýmsum öðrum »fléttum«. Þú talar í greininni um draum þinn að byggja upp fyrirtæki sem þú gætir verið stoltur af, og léti gott af sér leiða fyrir íslenskt samfélag, og lýsir hvernig þú hafir í 12 ár unnið dag og nótt til að ná því markmiði. Það er dapurlegt að þetta hafi mistekist því eins og allir Íslendingar vita stóð fyrirtækjanet þitt fyrst og fremst fyrir þau gildi sem þú minnist á: »Gjafmildi og gegnsæi.« Eða hvað?! Það var t.d. aðdáunarvert hversu örlátur þú varst að deila leiktækjum þínum með þjóðinni.

 

Til vitnis um það eru t.d. 3 þúsund milljón króna einkaþotan, 3 þúsund milljón króna 101 lystisnekkja ykkar hjóna, 2 þúsund milljón króna 101 Charlet skíðaskálinn ykkar í Frakklandi, og ekki má gleyma lúxusíbúðinni ykkar í New York sem kostaði vel yfir 3 þúsund milljón krónur. Þú segir í grein þinni að þú eigir enga peninga á aflandseyjum og gefur til kynna að þú sért þar með nánast eignalaus maður. Það er auðvitað skelfilegt. Ekki er lengra síðan en árið 2007 þegar þú fékkst Tinu Turner til að syngja svo eftirminnilega »Simply the best« í Mónakóveislunni frægu. »Í draumi sérhvers manns er fall hans falið« orti skáldið. Vonandi þarftu ekki að fara í biðröð eftir matvælum eins og þúsundir Íslendinga þurfa að gera í dag, ég vona alla vega að þú eigir fyrir Diet Coke. Og þá erum við komin að tilefni þessara bréfaskrifta. Nýlega birtust opinberlega tölvupóstar sem voru í stefnu Glitnis á hendur þér þar sem þú pirrast yfir því hversu seint bankastjóri Glitnis bregst við tilmælum þínum að afhenda þér um 1000 milljónir á einkareikning þinn. Orðrétt segir þú í póstum til bankastjóra almenningshlutafélagsins Glitnis: »Klára Goldsmith ef þessu 1 milljarði sem ég átti að fá greitt þarf 250 að fara til að borga yfirdrátt hjá GLB prinsip mál að vera ekki með persónulegar skuldir á mér. Rest get ég í raun geymt hjá GLB þ.e.a.s. 750 þannig að net cash út hjá GLB er 1,2 til PH.« »Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB.«

 

Þessir póstar gefa sterklega til kynna að þú hafir verið með litlar sem engar persónulegar skuldir í bankakerfinu, enda sagðir þú svo eftirminnilega i viðtali við Viðskiptablaðið nýlega: »Ég er ekki umvafinn persónulegum ábyrgðum. Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af mér.« Því langar mig að forvitnast hjá þér, Jón minn:

 

1) Arðgreiðslur til þín og fjölskyldu þinnar undanfarin 5 ár úr íslenskum eignarhaldsfélögum nema mörg þúsund milljónum króna - þetta eru raunverulegir peningar sem voru greiddir til þín úr íslenskum bönkum. Skv. seinasta ársreikningi Gaums nam innleystur hagnaður hluthafa Gaums (þ.e. þú og fjölskylda þín) þúsundum milljóna króna. Hvar eru þessir fjármunir í dag?

 

2) Arðgreiðslur úr eignarhaldsfélögum eiginkonu þinnar nema einnig mörg þúsund milljónum króna undanfarin ár. Í september 2008 - korteri fyrir hrun - greiðir bara eitt félaga hennar, ISP ehf., henni 300 milljón krónur í arð, skv. opinberum ársreikningi. Hvar eru þessir fjármunir?

 

3) Ertu tilbúinn að upplýsa hvaða eignir þú geymir í félögum þínum í Lúxemborg - þau skipta tugum en ég spyr þig bara um þessi til að spara plássið:

 

Purple Holding.

 

Piano Holding.

 

Epping Holding.

 

Gaumur Holding.

 

Er eiginkona þín tilbúin að upplýsa hvaða eignir hún geymir í Edmound Holding, en eins og þú veist flutti hún margvíslegar eignir þangað fyrir hrun, skv. ársreikningum félagsins.

 

4) Hvaðan komu 1,5 þúsund milljón krónurnar sem þú lagðir fram árið 2008 til að kaupa fjölmiðlaveldið 365? ´

 

5) Hvaðan komu 1 þúsund milljónirnar sem þú lagðir fram um daginn til að tryggja þér endanlega yfirráð yfir fjölmiðlaveldinu 365?

 

6) Hvaðan komu þær mörg þúsund milljónir króna sem þú varst tilbúinn að leggja fram í tilboði þínu til Arion banka vegna Haga?

 

7) Hvaðan munu peningarnir koma til að opna 3 nýjar Bónus-búðir í London, sbr. fréttir þess efnis nýlega?

 

8) Hvar eru þessar 1 þúsund milljónir sem Pálmi vinur þinn Haraldsson var svo almennilegur að millifæra á einkareikning þinn eins og frægt er og lesa má um í stefnu Glitnis?

 

9) Hvar er hagnaður ykkar hjóna af framvirkum hlutabréfasamningum og gjaldmiðlasamningum þar sem þið tókuð stöðu á móti íslensku krónunni sem nefndin minnist á í skýrslu sinni? Ljóst er að hann nemur þúsundum milljóna króna og veikti mjög íslensku krónuna vorið 2008 sem þjóðin er núna að súpa seyðið af.

 

Ætli ég láti þetta ekki duga að sinni en fagna þeim orðum þínum að þú munir gera allt sem í þínu valdi stendur til að bæta fyrir mistök þín og leggja þitt af mörkum til að byggja upp Ísland að nýju. En þá verða menn einnig að vera búsettir á Íslandi, Jón Ásgeir. Það kom fram í fjölmiðlum um daginn að þú og þín kona hafið ákveðið að flytja lögheimili ykkar til Bretlands og því er ljóst að hinar miklu skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sem og hinn stórfelldi niðurskurður á öllum sviðum íslensks samfélags mun ekki bitna á þér og þinni fjölskyldu. Eða mun »aðstoðin« eingöngu verða í formi »hugskeyta« til hinnar íslensku þjóðar?


>> Vonandi þarftu ekki að fara í biðröð eftir matvælum eins og þúsundir Íslendinga þurfa að gera í dag, ég vona alla vega að þú eigir fyrir Diet Coke. "
Hefur enginn velt því fyrir sér hversvegna þeir feðgar Jóhannes og Jón Ásgeir sleppa svona billega útúr umræðunum um hrunð ? Getur það ekki verið af því að þeir eiga flesta fjölmiðlana  og stjórna þeim ?
Ég hef áhyggjur af því að fólk athugi ekki að það getur látið álit sitt í ljósi með því að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem þeim eru þóknanlegri en aðrir. Maður er og kærulaus í þessum efnum. Sérhvert hár gerir skugga sagði vís maður.
Sullenberger er hundeltur af ríkisbankabankakerfinu sem lánar honum ekki krónu. Enda Samfylkingin sem stjórnar þeim í þágu hinna þóknanlegu. 
Verslum við Jón Gerald Sullenberger í verslun hans KOST við Reykjanesbraut !

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú er það komið í ljós að Þeir Baugsfeðgar komust upp með að blekkja þessa þjóð of lengi. Þeim tókst að ná samúð þjóðarinnar vegna meintra ofsókna og urðu fórnarlömb !

Ég byrja á því að biðja sjálfan mig afsökunar á því að gert mig að fífli með þátttöku í þessu leikriti. Ég hef litla möguleika á að snúa mínum viðskiptum til Kosts en sannarlega tek ég undir þessi tilmæli.

Árni Gunnarsson, 28.4.2010 kl. 10:22

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

     Ég bara las um landvinninga þar og hér,gætti þess að vera ekki talin öfundssjúk. Svo eru einhverjir að hæðast að gömlum gildum,sem eru í mínum huga heiðarleiki,vinnusemi og auðvitað svo margt. Ég hef nokkru sinni verslað í Kosti,það er heimilislegt og margt óvenjulegt að finna.

Helga Kristjánsdóttir, 28.4.2010 kl. 11:49

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

þetta var góð grein hjá Jóni Gerald í Mogganum.  Á mínu heimili borðum við kost sem keyptur er í Kosti.

Ágúst H Bjarnason, 28.4.2010 kl. 12:23

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta öllsömul.

Frændi Ágúst, ég held að Sullenberger ætti að fá þig sem slagorðasmið !

"Kauft nicht bei Juden !" stóð á skiltum nasistanna í þriðja ríkinu. Ekki hugnast mér slíkar aðferðir sérstaklega gegn Bónusi eða Hagkaup.  En ef fólk myndi hugsa sitt ráð, hverjum er hvað að kenna og hverjir eru enn að afflytja aðra til að draga athyglina frá sjálfum sér, þá væri margt öðruvísi.

Spillingin er á fullu í þjóðfélaginu. Hversvegna halda menn að bankarnir vilji ekki sjá  Sullenberger ? Er þeim ekki bara stýrt til þess ?

Síbyljan um spillingu Sjálfstæðisflokksins er orðin þvæld enda flokkurinn hvarvetna búin að missa völd og áhrif. En spilling núverandi valdhafa, Samfylkingarinnar og VG blasir við allstaðar í þjóðlífinu. Útrásarvíkingarnir eiga sé trausta fjölmiðlabandamenn. Og gleymum heldur ekki Forsetanum.

Halldór Jónsson, 28.4.2010 kl. 13:43

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Nýja hlutahafastéttin á Íslandi er þverpólitísk og 600.000 króna lámarkstekjur einkenna hana frekar en stjórnmálaskoðanir.

Hinsvegar sækist 80% neytenda eftir öryggi og stöðuleika. 80% lána hans eru að hans mati tryggð í verðlagi hans húsnæðis, er það grunnmælikvarði á hans verðtryggingar. Ekki áhættan sem fylgir neysluverðlags vísitölu skammtíma sjónarmiða. Ranglega tengd orðinu verðtrygging hér á landi.   

Íslendingum er best að skilgreina hvað rekstrarform teljast áhættu og hvaða rekstraform teljast stöðug og trygg. Innan ramma þeirra auðlinda sem þeir hafa öruggan aðgang að. 

Áhættuformin væri æskilegt að væru sem fæst og bundinn mjög ströngu regluverki og hagnaði haldið í lámarki í samræmi við áhættuna.

Öruggu formin ættu að  vera sem flest og öllu rekin á fjölskyldu og einkaformi. Til að styrkja efnaðan almennan neytenda markað. Ekki er verra að þau tengist miklum kostnaði á öllum sviðum, því hann reiknast sem raunverulegar öruggar innri þjóðartekjur á alþjóðamælikvarða.  

Á mælikvarða risa þjóða telur hluthafa stéttin til 20.000 á 2.000.0000- neytenda.

2.000 hluthafar á 2.000.000 neytenda.

Hér gildir svo sem í lágvöruframleiðu það sem kallast þröskuldur allra [hagnaðar] rekstraformúla. [lágmarksfjöldi tryggra neytenda: skipta meira málið en nafnið á gjaldmiðlinum].

300 hluthafar ganga ekki upp á 300.000 neytendur.

Þessum 300 hér er endilega vilja vera óábyrgir, gráðugir hluthafar er best að braska á netinu í alvöru kauphöllum á sína eigin ábyrgð.   

Hlutfallslegasti minnsti fjármálgeiri í heimi á neytenda hentar almennum Íslenskum neytendum best í áhættu laus samfélagi stefnu festu.

Því fleiri iðjusamir þegnar því betra. Stóriðju og lágvörusamfélög eru ekki nauðsynleg forsenda fyrir almennri velferð. Lámarkstekjur og jöfn tækifæri eru það. 

Samkeppni í verkmenntun  er góð fyrir testrón karla, best er að ráða þá ábyrgðarstöður er að samkeppni lýkur og þeir hafa hlaupið af sér hornin.

Samkeppni í þroskuðum rekstri kemur fram í gæðum og ánægju neytenda.

Gallinn við bóknám er kvað það skilar litlum þroska. Eins og heyra má af mæli hinna vanþroskuðu fræðinga.

Júlíus Björnsson, 28.4.2010 kl. 23:34

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Það verður enginn vitur af bóknámi þó það geti skilað titlum og góðum stöðum. En bóknám er auðvitað gagnlegt hjálpartæki fyrir vel greint fólk. Því miður hafa námskröfur á Íslandi verið færðar svo langt niður að það geta allir sem nenna lokið prófi og þegið titla. Þannig hefur mikið af vita gagnslausu fólki komist áfram í stjórnmálum og atvinnulífi, sbr. krakkaskarann í bönkunum undanfarin ár.

Jón Pétur Líndal, 29.4.2010 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband