Leita í fréttum mbl.is

Sannleikurinn er sagna bestur.

Ég rakst á grein eftir Hannes Hólmstein frá 30 mrs.sl. Fyrir þá sem ekki hafa lesið þetta set ég þetta hér inn:

"Sú hugsun sækir sífellt fastar að mér, að íslenska bankahruninu megi helst líkja við grískan harmleik, þar sem engu varð um þokað og allir voru leiksoppar örlaganna þrátt fyrir góðan ásetning flestra. Hvað sem því líður, má sjá, að tveir aðsópsmiklir þátttakendur í þjóðlífinu misserin fyrir hrun áttu sér hliðstæður í fornum, grískum sögum.

Davíð Oddsson var — eins og Guðmundur Andri Thorsson benti raunar einu sinni á — Kassandra, sem var dæmd til að sjá allt fyrir, en enginn trúði. Árin 2003–2004 reyndi hann að veita auðjöfrunum viðnám, en fjölmiðlar (flestir í eigu auðjöfranna), álitsgjafar (sumir á launum hjá auðjöfrunum), stjórnmálamenn (sumir á vænum styrkjum frá auðjöfrunum) og jafnvel dómarar lögðust á hina sveifina og réðu úrslitum. Og árin 2005–2009, á meðan Davíð var seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við útþenslu bankakerfisins og óeðlilegum ítökum auðjöfranna, þótt hann yrði stöðu sinnar vegna að tala varlegar opinberlega en á einkafundum, en þá átti hann til dæmis sex um yfirvofandi hættur með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur árið fyrir hrun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vitaskuld Pandóra. Hún sagði raunar sjálf hlæjandi í Kastljósi Sjónvarpsins 30. desember 2002: „Nú verð ég að fara að opna mitt pólitíska Pandórubox.“ Líklega kunni hún ekki söguna um Pandóru, sem opnaði af forvitni kistu eina (ekki box, eins og Ingibjörg Sólrún sagði á vondri íslensku) þrátt fyrir bann við því. Út úr kistunni stukku margvíslegar plágur, sem herjuðu síðan á mannkyn. Þetta gerðist svo sannarlega á Íslandi. Ingibjörg Sólrún flutti sína Borgarnesræðu vorið 2003 og dylgjaði um, að lögreglurannsókn á auðjöfrunum væri af óeðlilegum hvötum runnin. Þegar hún settist síðan í ríkisstjórn, daufheyrðist hún við viðvörunum Davíðs og átti það áhugamál eitt eftir hrun að reyna að hrekja hann úr stöðu seðlabankastjóra.

Ein versta plágan, sem stökk upp úr kistu hinnar íslensku Pandóru, var skefjalaus auðmannadýrkun. Baugsfeðgar og aðrir auðmenn gera mikið gagn (eins og ég þreyttist seint á að segja á fyrri tíð), þegar þeir keppa sín í milli um að fullnægja þörfum almennings vel og ódýrt. En góðir þjónar geta verið vondir húsbændur. Þótt kapítalisminn þurfi á röskum kapítalistum að halda, verður að halda þeim — eins og stjórnmálamönnum — í skefjum.

Einu má þó ekki gleyma. Pandóra Sólrún opnaði í fákænsku sinni kistuna, og upp stukku plágurnar, ruku í allar áttir og herjuðu á fólk. En samkvæmt grísku sögunni varð vonin eftir á kistubotninum. Er eftir það sagt, að ekki sé öll von úti.

Íslendingar geta vissulega vonast eftir betri tíð. Þjóðin er vel menntuð og snögg að nýta sér ný tækifæri, og þótt Ísland sé ekki frjósamt land eða gjöfult, nægja auðlindir þess ríflega þeim þrjú hundruð þúsundum, sem það byggja. Ekki er öll von úti."

Ógæfu Íslands verður allt að vopni. Ég er sannfærður um að sú ríkisstjórn sem nú situr og situr þrátt fyrir getuleysi á öllum sviðum, framlengir píslir fólks til jafnlengdar. Hún er auðvitað sjálfskaparvíti að öllu leyti. En það er kominn tími til að fólk horfist í augu við hvað áframhaldandi seta hennar þýðir.

Sannleikurinn er sá að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt til þess að gagnast fólkinu í landinu. Hún hefur logið öllu og svikið allt sem hún lofaði nema að sækja um inngöngu í ESB.

Og sannleikurinn er sagna bestur.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Sæll Halldór. Fyrir fáeinum áratugum varð ég þess aðnjótandi að vinna eitt sumar hjá þér í Steypustöðinni. Hvort mér var sagt upp þegar vinna dróst saman um haustið eða ég hætti sjálfur vegna annarra verkefna um veturinn, (held nú að svo hafi verið) þá minnist ég vart betri og skemmtilegri vinnustaðar. Þar unnu margir kjaftforir og harðir naglar, en baknag eða óþverraháttur gegn vinnufélögunum var ekki til, og þótt hnútur og skammir hafi stundum gengið á milli endaði það alltaf með því að allir voru farnir að hlæja og vinnuandinn, sem var mjög góður, varð jafnvel enn betri en fyrir snerruna. 

Síðar er ég fór að rekast á greinar eftir þig í blöðum, varð lestur þeirra eitt af því fáa sem ég las alltaf með athygli. Vel skrifaðar af manni sem augljóslega hafði mikla þekkingu á viðfangsefnunum.

Skrif þín í sambandi við prófkjörið í Kópavogi ullu mér hinsvegar vonbrigðum. Þar var hin réttsýni, rökhugsandi greinahöfundur horfinn og spillingarmeistari lofaður vegna gamallar vináttu og góðra mola sem líklega hafa til þín hrotið af veisluborðinu.

En nú keyrir um þverbak ef þú ert gengin til liðs við HHG. Annar eins rökvillu-prófissor er vart til og aumkunarverðar tilraunir hans til hvítþvottar Guðs síns undanfarið, eru bara grátlegar.

Orðið of langt, svo allar þær gloríur sem Davíð gerði og fyllilega ættu að nægja til að svipta hann öllum eftirlaunum frá Seðlabanka bíða í bili, enda þekkja þær flestir sem hafa augu og hug opinn.

Dingli, 8.5.2010 kl. 04:59

2 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Áhugaverð greining hjá þér Halldór. Þakka þér fyrir.  Ráðlegt er samt að gefa núverandi ríkisstjórn lengri tíma og ekki breyta um stjórn í miðju þvottaprógrammi. Gera amk ekki breytingar fyrr en eftir vindingu og skolun.

Guðmundur Pálsson, 8.5.2010 kl. 10:24

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Já doktor Guðmundur,

Þjóðfélagsvélin er stödd í þvottaprógramminu og ekki komin á suðuna ennþá þannig að greiningin er líkast til rétt hjá þér. Stjórnin er ekkert á förum þannig að það eru harðir tímar framundan.Íslenskt efnahagslíf verður ekki til í þeirri mynd sem við eigum að venjast. En við skulum ekki gleyma því að vöruskiptajöfnuðurinn er bullandi jákvæður og fellur saman við eymd almennings, sem getur ekkert keypt. Seðlabankinn getur borgað Gunnarslánið  næsta ár. Lengra ná ambisjónir ríkisstjórnarnnar ekki nema að skrifa undir Icesave til að geta fengið meiri lán til að borga af eldri lánum.

Díngli minn, ég átta mig ekki á því hver þú ert, hvað heitirðu svo ég geti rifjað það upp. Ég held að þú ættir nú að átta þig á því að það komu fleiri að hruninu heldur en Davíð einn. Og Hannes er bráðskarpur maður og fjörmikill það hlýturðu líka að sjá ef þú setur upp sanngirnisgleraugun.

Halldór Jónsson, 8.5.2010 kl. 13:00

4 Smámynd: Elle_

Ekki get ég nú séð að mikið þvottaprogram sé í gangi og finnst að ætti að stinga Icesave-stjórninni beint inn í þvottavélina og stilla á langa suðu enn lengri og öflugustu vindingu. 

Og fyrir þá sem ekki enn vita, voru Davið og Hannes bara ekkert einir í heiminum fyrir fall bankanna og eru ekki enn.  Og ekki voru þeir í glæpaklíkunum sem ryksuguðu bankana að innan og fluttu ryksugupokana í ókunn lönd fulla af peningum landsmanna.  

Elle_, 8.5.2010 kl. 14:30

5 Smámynd: Elle_

- - stilla á langa suðu og enn lengri og öflugustu vindingu. 

Elle_, 8.5.2010 kl. 14:32

6 Smámynd: Dingli

Hannes er bráðskarpur maður og fjörmikill það efast ég ekki um. Fyrrum nemandi hans sem ég þekki og spilar á vinstri kantinum segir hann að auki bráðskemmtilegan. En blessaður kallinn hefur tekið Trú, og síðast í gær birtist rannsókn sem sýndi að heili trúaðra á það til að starfa skringilega.

Davíð á mikla sök. Hann plægði akurinn fyrir skipulagðar svikamillur. Undir lokin þegar hann var sjálfur orðinn hræddur við skrímslin sem hann sleppti lausum, var það um seinan og þau átu allt.

Burt séð frá banka eða fisk stuldi, þá vil ég Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson í gapastokkinn fyrir stríðsglæpi. Í það minnsta 500,000 karla, konur og börn  er búið skjóta, brenna og sprengja í tætlur undir því yfirskini að Saddam hafi verið vondur kall. Þeir félagar gerðu mig, þig og alla þjóðina samseka í fjöldamorðum.  

Dingli, 8.5.2010 kl. 14:42

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Sagt er að tíu milljón manns

séu myrtir í gamni utanlands

Sannlega mega þeir súpa hel

ég syrgi þá ekki fari þeir vel

Svona orti Nóbelsskáldið um Ísland og umheiminn Díngli.Eftir á að hyggja er ég sammála um það, að Írakar geta ekki lifað nema undir slíku illmenni sem Saddam var. Írakar eru ekki þjóð heldur ættbálkasamfélag , óþroskaður múslimalýður sem skilur ekkert annað en reiddan vönd. Þetta helvítis stríð var tóm vitleysa en ég finn ekki til neinnar sektar vegan þess. Dabbi og Dóri voru bara að reyna að kaupa framlengingu á keflavík og Kanagróðann með því að vera með. Heldurðu að Bush hefði látið þessi peð stoppa sig úr því að hann var með Blair og alla stóru kallana með sér ?

Halldór Jónsson, 8.5.2010 kl. 20:51

8 Smámynd: Dingli

Hengja ætti hana þrjá

Hussein, Dóra,Bubba

Þegar hittast himni á

Hannes fer að gubba.

Dingli, 8.5.2010 kl. 21:26

9 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Seint verða þeir nú settir í tölu dýrðlinga þeir félagar Davíð og Hannes Hólmsteinn.... Og svo var íslenski hlutabréfamarkaðurinn "fake" frá upphafi og þeir sem þar sátu við stjórnvölinn, hljóta ásamt bankaefirliti, Seðlabankastjórum, bankastjórum viðskiptabankanna og helstu fjármálastofna, svo og pólitíkusar sem létu þetta viðgangast, allir sem einn að enda á bak við lás og slá. Það þarf að hefjast handa hið fyrsta við að stækka fangelsið á Kvíabryggju til að hýsa þessa menn auk þess sem það þarf að auka við gistirými í Grundarfirði og koma þar upp öflugri þjónustu svo aðstandendur geti heimsótt þessa menn og haft við þá einhver samskipti næstu 10 árin. Þetta þarf að verða "svona gerir maður ekki" lexía fyrir fjármálamenn og pólitíkusa þannig að mönnum detti aldrei aftur í hug að haga sér með þeim hætti sem þessir auðvisar gerðu.

 Það verða mikil tækifæri fyrir félags- og sálfræðiþjónustu í Grundarfirði næstu 1 - 2 áratugina.....

Ómar Bjarki Smárason, 8.5.2010 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 3421153

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband