Leita í fréttum mbl.is

Eigi skal gráta Björn bónda...

heldur safna liði, sagði Ólöf ríka þegar ljóst varð að maðurinn hennar hefði hitt Englendinga  og kæmi því ekki í kvöldmatinn.

Liggur ekki við stundum að maður sé búinn að fá nóg af þessari stöðugu umræðu um hverjir gerðu hvað og hvað ekki í hruninu. Það eru núna tvö ár liðin og við erum enn upptekin við að kalla eftir lögum, reglugerðum og paragröffum sem eiga að hindra að svona hrun gerist aftur.Blind er trú margra á að lagafyrirmæli geti sagt fyrir um alla mannlega hegðun í stað hinnar almennu þekkingar sem lífsreynslan færi skynsömu fólki.  

"Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur" sagði fljóthuga framkvæmdamaður og brýndi sína menn til dáða. Þurfum við nokkuð að óttast það að samskonar atburðir gerist hjá okkur á næstunni? Ég held ekki. Við vitum allt um kennistærðir einkabanka. Þeir koma ekki aftur í bráð í því sósíalíska ríkisforsjárhagkerfi sem við nú búum í. Krosseignatengsl og skuldsettar yfirtökur, viðskiptavildarmargföldun og þar fram eftir götunum, verða ekki vandamál á næstunni. Það er hinsvegar vandamál að fá vinnu.  Það er vandamál númer eitt fyrir hinn venjulega mann. 

Þurfum við ekki að hætta að eyða orkunni eins og Alþingi er að fara að gera núna í umræðum um fortíðina. Það bíða nefnilega bráðaðkallandi mál. Fólkið okkar flykkist úr landi því að það er ekkert efnahagslíf á Íslandi utan sjávarútvegs og landbúnaðar. Uppboðsauglýsingum fjölgar dag frá degi og menn sjá að allt talið um lagfæringar voru mest orðin tóm. 

Það er eiginlega alveg sama hvaða vexti  bankarnir bjóða á lánum, það er enginn að taka lán. Stýrivextir Seðlabankans skipta venjulegt fólki engu máli þó að blaðurskjóður tali mest um þá á öllum rásum. Það þorir enginn að gera neitt því allt traust er horfið. Fólkið treystir ekki neinu lengur, því það veit ekki hvort það hefur vinnu eftir hálft ár.  Það trúir ekki á banka sem örugga stofnun fyrir sig þegar hann býður bara neikvæða ávöxtun á spariaurana. Það veit ekki hver á bankann en það veit bara að stjórnendur hans og skilanefndin hafa það gott. 

Þú treystir ekki stjórnvöldum lengur fyrir forsjá þinna mála. Þú trúir því ekki að þau geri yfirleitt nokkuð til að hjálpa þér í skuldabaslinu. Þú trúir ekki á ferðalagamátt Forsetans til Kína.   Þú trúir ekki lengur á Alþingi eða fólkið sem þar situr núna. Þér finnst það ekki vara að leysa neitt. Það sé bara upptekið af sjálfu sér, hefndarhug og fast í einhverri fortíðarstýringu. Þú ert meira að segja hættur að trúa því að nýjar kosningar myndu breyta einhverju. Getur ástandið nokkuð versnað með því að ganga í Evrópubandalagið?

Þessvegna ert þú  bara að bíða eftir að eitthvað gerist sem verður þér til framdráttar. Eitthvað tækifæri fyrir þig og þína. Eitthvað  gerist sem þú veist þó fullvel að hefur aldrei gerst fyrir fulltingi ríkisvaldsins eða skattheimtunnar. Framfarirnar hafa alltaf orðið til af einhverju í  huga fólksins og einstaklinganna. Þennan framkvæmdahug sem menn þekktu forðum.  Þennan framfaraanda sem þú myndir þekkja aftur ef þú mættir honum og myndi hugsanlega smita þig og koma blóðinu á hreyfingu.  En þessi hugur kemst ekki enn upp á yfirborðið. Neistinn er þarna falinn en hann þarf að fá eitthvað súrefni til að verða að því báli sem dugar.

Er ekki komið nóg af væli og voli og ákalli á að stjórnvöld geri þetta eða hitt? Eru þau vön að gera  eitthvað sem máli skiptir fyrir þig? Var það ekki þín vinnandi hönd sem gerði hlutina? Verður einhver framþróun þó að Ögmundur ráði sér tvo aðstoðarmenn í stað eins eða hversu mikið Steingrímur og Össur væla útaf ófrágengnu Icesave vegna væntanlegrar  Evrópubandalagsaðildar og AGS?  Skiptir eitthvað af þessu  máli fyrir þín vandamál í dag ? Er það ekki aðeins fólkið sem getur tekið til hendinni og  skapað eitthvað það sem ekki var til áður? Er það ekki sköpun verðmæta sem er hagvöxturinn sem Jóhanna og ríkisstarfsmenn þrífast á? 

Réttvísin hefur sinn gang og tekur sig af glæpamönnunum í fyllingu tímans.  Það er ekkert uppá daginn með það hvenær þeir koma ekki í kvöldmatinn.  En það liggur á í dag að fara að taka til höndum og vinna. Það er það sem skiptir mestu máli að nýta orkuna í hugum og höndum fólksins.

Allt hefur sinn tíma. En er ekki  bráðum búið að gráta Björn bónda nóg?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Tek undir það sem þú segir Halldór enda erum við að brenna út á tíma með mörg aðkallandi mál en allt púðrið fer í fortíðina. Ég vil að hætt verið viðræðum vegna ESB málsins en þá fyrst getum við dregið andann djúpt. 

Valdimar Samúelsson, 13.9.2010 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 3420155

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband