Leita í fréttum mbl.is

Hvaðan kemur biskupi fjárveitingarvald?

til að borga einhverjum fýldum konum 16 milljónir? Hvaða peningar eru þetta? Eru þetta ekki skattpeningar almennings? Aflað með sköttum. Er það víst að þær láti af fýlunnni þegar þær fá aurana? Var það þá peningafíkn fremur en réttlæti eftir allt?

Ef Alþingi samþykkir ekki aukafjárveitingu til biskups fyrir 16 milljónum, er þetta ekki bara  fjárdráttur sem biskup á að borga sjálfur til baka ?  Gildir ekki sama  um einhverja kalla hjá Isavia sem senda fé sfofnunarinnar til Sómalíu? Eiga þeir eitthvað með að ráðstafa ríkisfé? Eiga þeir ekki að borga þetta sjálfir nema Alþingi ákveði annað?

Það er félegt ef forstöðumenn ríkistofnana fá fjárveitingarvald til að senda út aura út og  suður í einhver gæluverkefni.  Nóg var að ráðherrarnir sukkuðu á þann hátt eins og þeir hafa gert til skammar fyrir land og þjóð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Grétar Sigurðsson

Sæll Halldór, já ég er sammála þér og er þetta alveg endalaust.  Gleynum ekki Steingrími J og  30 þúsund milljónir í Spar Kef (Sigmundur Davíð í dag: "Nú hefur komið í ljós að staða SpKef var mun verri en áætlað var þegar bankinn var sameinaður Landsbankanum. Eigið fé bankans var þá sagt neikvætt um 11,4 milljarða króna en er nú talið neikvætt um 30 milljarða þ.a. bæta þurfi 38 milljörðum í bankann til að hann uppfylli skilyrði um eiginfjárhlutfall. Ljóst virðist að sækja þurfi það fjármagn til skattgreiðenda eða frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum með því að nýta afskriftasvigrúm Landsbankans"), 20 þúsund milljónir í SJOVA, 20 þúsund milljónir (lán) til Saga Capital á 2% vöxtum og svo má örugglega lengi halda áfram.  Gleymum svo ekki þeim þúsundum milljóna sem  ríksistjórn  SJÁLFSTÆÐISFLOKKS og SAMFYLKINGAR settu í Sjóð 9 hjá Glitni  já svona mínótu fyrir hrun hans.  Hvað viltu byrja?

Ætli sérstakur sé ekki að skoða þessi mál svo við getum andað léttar.

Og svo mætir Steingrímur í hádegisfréttir í dag og talar um að hækka skatta til að stoppa í fjárlagagatið. Ég sé ekki að ríkisbubbar sem ráðstafa almannafé (sköttum almennings) séu að framkvæma skyldur samkvæmt fjárlögum og eru þá væntalega ekki að fara að lögum landsins.

Já ég spyr, eru þessu engin takmörk sett?

Jón Grétar Sigurðsson, 22.7.2011 kl. 22:21

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég spyrnú á móti: Er eitthvað sem réttlætir að ríkið hendi þreföldum rekstrartekjum landhelgisgæslunnar í metafýsískt ríkisbatterí til að halda uppi 110 drullusokkum sem hafa atvinnu af því að fara með staðlausa stafi.

6 milljarðar árlega þar takk. Væri ekki rétt að leggja apparatið ríkiskirkjuna niður miklu frekar?  Hún kostar okkur ekki bara meira en réttlætanlegt er fyrir ekkert heldur veldur hún skaða á heilbrigðri og gagnrýnni hugsun.

 Þú trúir væntanlega áhimnaríki og helvíti og getur bentá þau á korti býst ég við. Kannski líka á kraftaverk, engla og himnaspretti, upprisu dauðra og eilíft líf?  Kannski jafnvel á álfa og tröll, drauga og miðla?

Ég er með fréttir fyrir þig. Þetta er allt hugarburður. Ímyndun, þykistuleikur og liggaliggalá. 

Hvernig væri nú að vaxa andlega í takt við skrokkinn?

Jón Steinar Ragnarsson, 23.7.2011 kl. 02:11

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Grétar

Ríkið kom inní Glitnit þegar það tók hann yfir. Það var A. B. kom í ljós að þeir Jón Ásgeir undir vökulu auga og Illuga Gunnarssonar hafði sett skeinibréf í stað verðpappíar í Sjóð 9. Ríkið sem eigandi bankans varð að lagfæra þetta. Þetta er áður en hrunið svo kemur sem var C.

Svo kom búsáhaldabyltingin þar sem þú barðir bumbur og Steingrímur komst til valda. Þá lét hann milljarðatugi í bankana til að endurreisa þá sagði hann, svo í Sjóvá í sama rtilgangi, svo Húsamiðkuna, Pennann, ofrv. og svo Byr og Spkef. Þú ert ábyrgur fyrir þessu öllu með því að kjósa manninn til valda.

Jón minn Steinar,

Miðjarðarlínan á mér er langtum stærri en sálartetrið. Hann það er alveg óþarfi að halda að ég geti bent á himnaríki eða helvíti nema að bena á ennið á þér sjálfum kannski. Ég hef stutt ríkiskirkjuna af því að mér sýnist hún gera meira gagn en ógagn og heldur múslímeríunu frá og meirihluti þjóðarinnar vill hafa han til gifta og grafa, ferma og skíra. Ef prestarnir geta einhverntíman passað á sér besefann þá væri þetta skárra. En ekki troða á mér eins og ég trúi á þetta alltsaman kraftaverkin, upprisuna og allt það. Ef ég trúi á miðla þá trúi ég að 365 miðlar geri mikið ógagn í samfélaginu og meira en álfar og tröll. Og liggaliggalá!

Halldór Jónsson, 23.7.2011 kl. 11:49

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Halldór.

Ef á sð skilja á milli leigugreiðsla ríkisins ti Þjóðkirkjunnar, þá þarf þarf ríkið að skila Þjóðkirkjunni aftur jarðeignum þeim sem það tók og nýtir til þess að greiða prestum laun, eru Garðbæingar tilbúnir að skila Hofsstöðum til dæmis ?. Sá launapakki er lítill við hlið þeirra gæða sem ríkið fékk á móti á sínum tíma. Enginn leigusali á þessu landi, eða um veröld víða í hinum vestræna heimi myndi sætta sig við svo lága leigu sem þjóðkirkjan fær fyrir eignir sínar.

Vil leyfa mér að setja hér inn fróðlegan pistil Jóns Vals um málið fyrir ekki mörgum árum síðan og var birtur í Morgunblaðinu. Athuga ber að Jón Valur er kaþólikki eins og kunnugt er en kann að fara rétt með staðreyndir og gæta réttlætis (formálinn er úr bloggi Jóns Vals):

Jón Valur Jensson cand. theol.

"Sunnudagur, 30. desember 2007

Gegn árásum á Þjóðkirkjuna

Svo hét grein mín í Mbl. 19. des. 2002 þar sem fjallað var um mál sem oft ber hér á góma: eignamál kirkjunnar og rétt Þjóðkirkjunnar til framlags úr ríkissjóði til rekstrar síns. Afar harðar hafa þær árásir oft verið, sem trúleysingjar og afbrýðisamir veraldarhyggjumenn ýmissa flokka hafa haldið uppi, einkum frá og með Kristnihátíðarárinu 2000 og nú enn og aftur, þegar örfámennur hópur virkra trúleysisboðenda hellir sér yfir dagblöð og bloggsíður nánast daglega.

Margir láta sem Þjóðkirkjan eigi hér engan rétt – sniðganga þar með þinglýstar og skráðar eignarheimildir hennar í margar aldir, unz ákveðið var, að ríkið tæki alfarið við jarðeignum þessum gegn endurnýjun þess lagaákvæðis, að ríkið borgi laun presta og Biskupsstofu. Sumir (og raunar fáir) hávaðasamir veitast að kirkjunni fyrir ýmist meinta ágirnd eða sníkjulífi, á meðan aðrir (sjá t.d. umræðuna á þessari síðustu vefsíðu minni) virðast aldrei geta áttað sig á því, að við erum hér hluti af réttarríki, þar sem arfhelg réttindi, m.a. eignarréttur, eru síður en svo eitthvað sem brýtur gegn almennum mannréttindum, heldur eru þau einmitt einn undirstöðuþáttur þeirra.

Já, það er óumflýjanleg grunnforsenda þessa máls, að "kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga," eins og ég sagði í greininni gömlu, en ófyrndu, sem ég endurbirti nú hér á eftir.

Gegn árásum á Þjóðkirkjuna

FORMAÐUR Siðmenntar, Hope Knútsson, ritar grein í Mbl. 30.10. 2002: 'Hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju?' Þar sker í augu alger vöntun á umfjöllun um eignir kirkjunnar, eins og þær skipti engu í sambandi við þann "styrk" frá ríkinu sem Hope segir Þjóðkirkjuna fá og vill láta afnema. "Þjóðkirkjan nýtur hundraða milljóna króna styrks [svo!] árlega umfram önnur trúfélög," segir hún. Það er einfaldlega rangt. Ríkisvaldið tók kirkjujarðir (fyrir utan prestssetur) í sína umsjá 1907, innheimtir af þeim tekjur og greiðir í staðinn laun til presta.

Hvaðan komu þessar jarðir, 16% jarðeigna landsins 1907? Stór hluti tilheyrði kaþólskri kirkju á sínum tíma. Eins og sjá má af gjafabréfum eignafólks til kirkna og klaustra, áttu þær gjafir að styðja við Guðs kristni, helgast þjónustu við söfnuði hans. Eftir siðaskipti var ekki öðrum til að dreifa til kristnihalds en lútherskum klerkum sem framfleyttu sér, önnuðust viðhald kirkna og önnur útgjöld með þeim eigna- og tekjustofnum sem konungur lét óhreyfða þegar hann hrifsaði undir sig klaustra- og stólseignir. Var hitt þó ærinn skellur að sú menningar- og þjóðþrifastarfsemi sem fram fór í klaustrunum var í einu vetfangi aflögð, er konungur gerði eignir þeirra upptækar.

Kirkjan var á 14. öld langauðugasti landeigandi hérlendis og auðgaðist enn til 1550. Þá áttu biskupsstólarnir 14.119 hundruð í jarðeignum, sjöttung alls jarðnæðis. Síðar hafa margir býsnazt yfir auðsöfnun kirkjunnar, en eins og Björn Þorsteinsson sagnfræðiprófessor fræddi okkur nemendur sína um, var kirkjan leiguliðum sínum léttari í álögum en aðrir landsdrottnar. Að auki veitti hún fátækum og sjúkum ómetanlega hjálp. Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.

Fyrir þá, sem líta ekki á eign sem þjófnað eins og stjórnleysinginn Proudhon, ætti að vera sjálfsagt að skoða þessi mál af jafnaðargeði og réttsýni. Eðlilegri kröfu kirkjunnar að fá að halda tekjustofnum sínum verður ekki mótmælt í nafni trúfrelsis.

Ekki tilheyri ég Þjóðkirkjunni, er ekki þess vegna að verja hana ásælni. En vegna þrákelkni Hope í atsókninni finnst mér rétt að hún upplýsi okkur um fáein atriði:

Heldur hún að kristnir Íslendingar láti höggva undan sér þær efnalegu stoðir sem forfeður okkar reistu til að halda uppi kirkjum, helgihaldi og þjónustu í þágu safnaðanna?

Telur hún kristið fólk svo auðblekkt og geðlaust, að það standi ekki á eignarrétti sínum og eftirkomenda sinna?

Trúir hún í alvöru að hún geti biðlað til ríkisstjórnarflokkanna um stuðning við að ræna kirkjuna eignum sínum og/eða samningsbundinni réttarstöðu? M.ö.o.: Með hliðsjón af því, að ríkisstjórnin segir í stefnuskrá sinni að kristin trú og gildi hafi "mótað mannlíf í landinu og verið þjóðinni ómetanlegur styrkur," auk þess sem báðir flokkarnir eru því andvígir "að löggjafinn gangi of nærri friðhelgi eignarréttarins" eða "taki sér nokkurt vald sem stríðir gegn grundvallarréttindum," trúir Hope því, að flokkarnir gangi á bak þeirra orða? Hefur hún svo lágt álit á þeim að hún ímyndi sér að þeir fáist til þess í bráðræði að hafna þannig kjörfylgi fjölda kristinna manna?

Álítur hún mín lúthersku systkini þvílíkar gungur að þau láti rifta einhliða þeim samningi sem gildir milli ríkis og Þjóðkirkju um árlegt framlag til hennar úr ríkissjóði (sem er metið sem eðlilegt endurgjald fyrir þau 16% jarðeigna í landinu sem kirkjan lét af hendi við ríkið)?

Kæmi það henni á óvart að Þjóðkirkjan fengi (í Hæstarétti eða með því að leita til æðsta dómstigs í Evrópu) þann samning staðfestan eða jarðeignir sínar afhentar aftur, ef ríkið fremdi þau samningsrof að hætta að greiða þetta árlega afgjaldsígildi úr ríkissjóði?

Ef Hope ánafnaði Siðmennt eignir sínar, fyndist henni þá réttlætismál að einhver ríkisstjórn þjóðnýtti þær með einu pennastriki?

Af því að henni er tíðrætt um réttlæti, jafnrétti og trúfrelsi, er að lokum spurt: Yrði það í þágu réttaröryggis ef magnaðasta valdið, ríkisbáknið, gæti sölsað undir sig sameign frjálsra félagasamtaka?

Kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga. Ef ekki væri samstaða á Alþingi um lögin frá 1907 og 1997, ætti Þjóðkirkjan að taka við eignum sínum aftur og ávaxta þær á arðsaman hátt með nútímalegri fjármálastjórn til að tryggja, að hún geti staðið undir helgihaldi, viðhaldi kirkjuhúsa, hjálparstarfi og þjónustu til frambúðar. Ef hún hlypist undan þeirri ábyrgð (t.d. af hræðslugæðum eða í viðleitni til að þókknast öllum, umfram allt einhverri tízkuhugsun), væru það svik við köllun kirkjunnar, þá sem hafa stutt hana og við sjálfan þann sem sendi hana. Til þess hefur kirkjan þegið þennan arf að vinna úr honum til heilla fyrir íslenzka þjóð."

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 23.7.2011 kl. 13:06

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér sýnist þið nú skauta anski létt framhjá ví hvernig Staða-Árni og hans arftakar komust yfir allar þessar eignir. En það var með bæði, hótunum, og fortölum eða beinum ránsskap sem að bændur voru neddir af staðfestum sínum af því þeir höfðu byggt kirkjur. Voru það ekki Eiða-menn fyrir austan sem stóðu af sér áhlaupin með harðfylgi eiginlega einir bænda?

Kirkjan átti fátt annað en það sem hún "aflaði til búsins á vestfirsku" eins og Maga-Björn gerði á sinni tíð. Þessar hugleiðingar ykkar um eignir kirkjunnar Jóns Vals Prédikari góður gef ég nú ekki mikið fyrir að svo stöddu.

Halldór Jónsson, 23.7.2011 kl. 14:23

6 Smámynd: Gústaf Níelsson

Það eru auðvitað gömul og ný sannindi Halldór að reiðufé og góðar gjafir greiða fyrir sátt og friði. Furðulegt að mönnum, sem um þessi mál fjölluðu á fyrri stigum, skuli ekki hafa dottið þessi gamalkunna leið í hug áður en í óefnið stefndi.

Gústaf Níelsson, 23.7.2011 kl. 22:10

7 Smámynd: Halldór Jónsson

"Allar gjafir þiggja laun" sagði Árni heitinn Oddsson í Steypustöðinni stundum þegar rætt var um gildi vináttunnar, svipað og lýst er í Njálu Þú skilur ýmsa hluti Gústaf góður öðruvísi en boðið er réttrúuðum.

Halldór Jónsson, 23.7.2011 kl. 22:57

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Halldór minn, þegar kirkjustaðir höfðu verið gefnir Guði, þá átti kirkjan að réttu umráð þeirra, ekki höfðingjarnir.

Jón Valur Jensson, 24.7.2011 kl. 02:30

9 Smámynd: Halldór Jónsson

..."Staða-Árni og hans arftakar komust yfir allar þessar eignir. En það var með bæði, hótunum, og fortölum eða beinum ránsskap sem að bændur voru neddir af staðfestum sínum af því þeir höfðu byggt kirkjur..."

Jón minn Valur,

Það skiptir væntanlega einhverju hvernig gjafirnar eru "þegnar". Við þáðum ekki Icesave þó Steingrímur hafi margþegið fyrir okkar hönd. Áttum við bara að hlýða honum möglunarlaust af því hann var ráðherra?

Rænginn á ekki ránsfenginn þó að hann hafi hann undir höndum jafnvel lengi.

En stjórnmálamaðurinn er oft þeirrar skoðunar að hann eigi af því hann ræður sbr. máltækið, að eiga er sama og að ráða.

Halldór Jónsson, 24.7.2011 kl. 10:19

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Kirkjan á löggilda pappíra fyrir öllum eigum sínum og hefur eignarhald eða tilurð eignarhalds aldrei verið véfengt með neinum rökum eða staðreyndum. Þessar löggildu eignarheimildir liggja fyrir í þinglýsingarbókum sýslumannsembættanna. Þær eignarheimildir sem eldri eru liggja fyrir einnig og eru afrit þeirra í Fornbréfasafninu íslenska sem er til í yfir 30 bindum og frekar aðgengilegt hverjum þeim sem vill skoða.

Flestar eignir kirkjunnar runnu inn til konungs með þjóððnýtingu hansvið siðaskiptin eins og Jón Valur rakti í Morgunblaðsgrein sinni. Kirkjan keypti margar eignir um tíðina síðan. Sömuleiðis var sumur jarðarskikinn látinn af hendi sem greiðsla fyrir skólagöngu barna/barns viðkomandi. Klaustrin á sínum tíma fengu jarðir þeirra sem þeir önnuðust á sama veg og við þekkjum nú hjá Hrafnistu og öðrum öldrunarstofnunum, enda ekki um sjúkratryggingar að ræða sem greiða daggjöld eða velferrðarráðuneyti. Í þessum tilfellum kom auðvitað mikið verðmæti í staðinn af hendi kirkjunnar gegn slíkum gjöfum. Kirkjan annaðist um viðkomandi einstakling/hjón jafnvel um áratugi í fæði og húsnæði. Eða þá að annast var um í fæði og húsnæði og skólagöngu barna viðkomandi sem gaf jarðskika í staðinn.

Svo koma trúleysingjarnir sem ekkert hafa gefið af sér í neinu og öfundast út í eignir kirkjunnar og búa til sögur um þjófnað og ofríki því það hentar málflutningi þeirra illum - líkt Hildiríðarsona tali.

Það er ekki alltaf að marka upphrópanior og slagorð þeirra sem hæst belja, ekki hvað síst menn sem hæst hrópa um kirkjuna eins og Jón Steinar, doctore og slíkir á blogginu. Þeir nefna aldrei nein rök upphrópunum sínum til stuðnings. Þeir bara ausa út hróp sín rakalaus með öllu. Hefðu einhverjir át harm að hefna þá lægi það fyrir í bókum sýslumanna og fræðiritum eða þá dómum. Það er alveg öruggt að teldu erfingjar þess sem lét verðmæti af höndum til kirkjunnar að það væri ekki fengið með réttmætum hætti þá sæu þeir pottþétt til þess að rétta arfahlut sinn vegna þessa - það er alþekkt með erfingja að þeir berjast fyrir asrfi sínum til síðasta blóðdropa eins og þú þekkir vafalaust einhvers staðar frá - jafnvel í eignin ranni.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.7.2011 kl. 12:06

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Halldór, þú ert farinn að vitna í sjálfan þig eins og því til staðfestu, að þetta hafi átt sér stað með þessum hætti. Viltu ekki frekar vitna í raunverulegar heimildir um málið?

Svo svarar þú ekki stuttri ábendingu minni: Höfðingjar margir gáfu jarðir eða stað sinn Guði og til kirkjuhalds. Með þeim klókindum vildu þeir afla jörðunum skattfrelsis, sjálfum sér til ábata. En það, sem er gefið Guði, er ekki lengur höfðingjans, heldur kirkjunnar. Hættu því að tala um ránsskap um þetta.

Þar að auki var mikill meirihluti kirkjueigna við siðaskiptin (og enn 1907) til kominn með allt öðrum hætti en þessum frá tíma staðamála.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 24.7.2011 kl. 13:38

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Prédikari,

Þjóðnýtti kóngurinn ekki allt kirkjugóssið við siðaskiptin? Hvað átti kirkjan þá eftir?

Jón Valur minn góði bandamaður í öllu nema kaþólskunni; Hvað fékk kirkjan 1907?

Ég geri mér alveg grein fyrir að margir gáfu fyrir sálu sinni og þeað varð eign kirkjunnar þangað til að kóngurinn stal öllu af henni. En Staða-Árni fór í engu friðsamlega fram, var engu betri en Maga-Björn hvaðþað snertir.

Halldór Jónsson, 24.7.2011 kl. 18:47

13 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Eins og kemur fram í hinni fróðlegu Morgunblaðsgrein JHóns Vals sem ég birti fyrr á blogginu þínu Halldór þá hrifsaði konungur með ránshendi mestallar eigur kirkjunnar eins og hún var þá við siðaskiptin. Síðan spyrð þú um hvað gerðist 1907. Í grein Jóns Vals segir :

Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.”

Eftir siðaskiptin eignaðist kirkjan smátt og smátt eignir í stað ránsfeng konungs. Fram til samningsins við ríkið 1907 þá notaði kirkjan jarðir sínar til að ná inn fyrir rekstri sínum og launum starfsmanna eins og hún hafði gert um aldir. Fengu jarðirnar leiguliðum, sem prestarnir nýttu ekki sjálfir, og voru sanngjarnari á leigu en aðrir landeigendur leiguliðum sínum eins og kemur fram í grein Jóns Vals. Þar segir einmitt :

„Kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga. Ef ekki væri samstaða á Alþingi um lögin frá 1907 og 1997, ætti Þjóðkirkjan að taka við eignum sínum aftur og ávaxta þær á arðsaman hátt með nútímalegri fjármálastjórn til að tryggja, að hún geti staðið undir helgihaldi, viðhaldi kirkjuhúsa, hjálparstarfi og þjónustu til frambúðar. Ef hún hlypist undan þeirri ábyrgð (t.d. af hræðslugæðum eða í viðleitni til að þókknast öllum, umfram allt einhverri tízkuhugsun), væru það svik við köllun kirkjunnar, þá sem hafa stutt hana og við sjálfan þann sem sendi hana.”

Ríkisvaldið hafði lengi litið öfundaraugum á margar jarðeignir kirkjunnar og náði loks samningum um yfirtöku þeirra gegn leigu, sem Flugfreyjan og jarðfræðineminn hafa nú í tvígang svikið. Ef ekki væri um kirkjuna að ræða sem sýndi vangann, væri búið að krefja ríkið um jarðeignirnar aftur (sjötti hluti alls jarðnæðis á Íslandi) og senda í löginnheimtu það sem þau skötuhjú hafa svikist um í samningsbundnum greiðslunum eins og hver annar leigusali gerir. Þetta ættir þú að þekkja Halldór hjá þeim sem eru að leigja út eignir sínar.

Ef ríkið skilaði eignunum þá væri úr vöndu að ráða því margar þeirra eru stratistískt á svæðum sem erfitt væri um vik að skila þeim, samanber Hofsstaðir í Garðabæ. Það væri gaman að sjá svipinn á bæjarstjóra Garðabæjar þegar flugfreyjan og jarðfræðineminn segðu honum að skila .þessu landflæmi til kirkjunnar og semja síðan beint við Herra Karl Sigurbjarnarsin byskup um leigu á jörðinni.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.7.2011 kl. 21:35

14 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sem sagt samningurinn mikki ríkisins og kirkjunnar var árið 1907 og tók þá ríkið yfir eignirnar sem um ræðir - gegn þessu leigugjaldi sem menn eins og Jón Steinar og doctore kalla skattgreiðslur til kirkjunnar ranglega þar sem um leigugjald fyrir mikil verðmæti er um að ræða.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 24.7.2011 kl. 21:38

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Á vefsíðu, sem ég veit ekki hvort er treystandi (og jarðabækur mínar eru lokaðar í kössum), enda er hún með ýmsum ágöllum: Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar, segir svo: "Á fyrstu tveimur áratugum 19. aldar voru Hraunajarðirnar sunnar Straumsvíkur, Hofsstaðir í Garðabæ og fleiri bújarðir í hreppnum seldar úr konungssjóði aðallega til ábúenda eða efnamanna." - Þarna er fullyrt að Hofsstaðir (sem var landnámsjörð og merkar fornleifar þar) hafi verið konungsjörð -- sem sagt ekki kirkjujörð, en ekki ósennilega klausturjörð (t.d. Viðeyjaklausturs) eða Skálholtsstólsjörð.

Predikarinn og Halldór verkfræðingur ættu hins vegar að beina sjónum sínum að miklu alvarlegra máli: ásælni bæði ríkisins og vellríkra Íslendinga í kirkjueignir, ekki sízt á þessu sama svæði, í núverandi Garðabæjarlandi. Grein eftir séra Halldór Gunnarsson kirkjuráðsmann í Holti undir Eyjafjöllum ætti að hreyfa við einhverjum: Yfirtaka og sala ríkisins á nokkrum prestssetrum og hjáleigum þeirra (Mbl. 1. maí 2003, opin öllum til lestrar).

Þar segir m.a.: "Hinn 28. júlí 1992 gekk þáverandi landbúnaðarráðherra frá kaupsamningi um sölu 12 jarða úr Garðakirkjueigninni 410,06 ha, sem stjórnvöld kirkjunnar og kirkjueignanefndin, sem þá var í samningaviðræðum við viðræðunefnd ríkisins um meðferð kirkjueignanna, mótmæltu eins formlega og ákveðið eins og unnt var. Meðal annars lét þáverandi biskup Íslands þinglýsa mótmælum þjóðkirkjunnar með þinglýsingu kaupsamnings. Ótvíræð lagaákvæði voru þá í gildi um að þjóðkirkjan skyldi fá andvirði slíkra eigna, en fyrir allt þetta land fékk kirkjan kr. 49,2 millj., greitt með 5,2 millj. í útborgun og eftirstöðvar á skuldabréfi til 10 ára með 2% í fasta vexti á ári!" [óverðtryggt].

Raunverulegt verðmæti var öðrum hvorum megin við TVO MILLJARÐA!

Og finnið nú fleira út um málið.

Halldór, kirkjan fekk ekkert 1907 nema föst laun presta úr ríkissjóði frá því ári. Í staðinn fekk ríkið að nota (ekki eignast) kirkjujarðirnar, leigja þær út o.s.frv. og hirða af þeim arð, en einnig að halda þeim við. Þetta misnotuðu pólitíkusar mjög til bitlinga og atkvæðaveiða, ekki sízt, er lengra leið á öldina, fram undir hana miðja og fram yfir 1980 að minnsta kosti.

Þegar nálgaðist síðustu aldamót, áttu svo aðrar breytingar sér stað, en nú nenni ég ekki að rita meira, -- jú, þetta:

Þú spurðir líka Predikarann: "Þjóðnýtti kóngurinn ekki allt kirkjugóssið við siðaskiptin? Hvað átti kirkjan þá eftir?"

Nei, hann þjóðnýtti ekki neitt, heldur lagði undir yfirráð sín ... ekki þær sjálfseignarstofnanir, sem kirkjustaðirnir (beneficia) voru, og jarðir sem voru í eign þeirra (þetta eru eiginlegar kirkjujarðir), heldur öll klaustur landsins og góss þeirra og mörg hundruð jarða, sem klaustrin áttu. Og þetta nægði honum ekki, því að hann lagði undir sig ekki aðeins vissar biskupstíundir, heldur og stólsjarðirnar sjálfar, gríðarlegar eignir (t.d. átti Hólastaður hverja einustu jörð í Hólahreppi u.þ.b. árið 1709). Hann fekk af þessu afgjöld og skatta, í konungssjóð, en eftir móðuharðindin var farið að selja fjöldann allan af þessum jörðum (fram á öndverða 19. öld) -- þó ekki allar, og þær, sem ekki höfðu verið seldar, gengu við fullveldisheimt landsins 1918 ... ekki til Þjóðkirkjunnar, eins og einhver fordómafullur trúleysingi gæti ímyndað sér, heldur til íslenzka ríkisins.

Ef einhver aðili hefur fengið hér mikið ókeypis, er það íslenzka ríkið -- og billega (jafnvel nánast ókeypis) hafa svo ýmsir flokkadindlar fengið afnot eða jarðir bæði úr þessum sjóðum og af kirkjueignunum, eins og ég vitnaði til hér ofar (feitletrað, frá þeim margfróða sr. H.G.).

Góða nótt, en þið megið alveg bylta ykkur í bólinu yfir þessu, kirkjugramsarar sem lesa kunna!

Jón Valur Jensson, 25.7.2011 kl. 02:20

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég þakka ykkuf báðum vísu mönnum fyrir þessa sagnfræðilegu yfirferð. Ég sé að þið hafið marga punkta dregið fram um rétt kirkjunnar til eigna sinna. Enda hef ég stutt það að kirkjan sé áfram þjóðkirkja og gef lítið fyrir tillögur um annað.Og þið hafið margt fært fram til þess að sanna að kirkjan sé ekki ölmusuþegi eins og margir nútímaspekingar á stjórnlagaráði halda fram.

Halldór Jónsson, 25.7.2011 kl. 08:22

17 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þökk fyrir sömuleiðis Halldór.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 25.7.2011 kl. 10:37

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, kæri Halldór, og þér, Predikari.

Jón Valur Jensson, 25.7.2011 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband