Leita í fréttum mbl.is

Leiðari Morgunblaðsins 4.apríl 2012

er eitthvað sem ég vona að sem flestir lesi.Það er því ástæða til þess að hvetja þá sem ekki sjá það blað að renna yfir þetta skrif.Til þess að létta þeim ómakið birti ég leiðarann hér;

"Hinar nöturlegu niðurstöður skoðanakannana hafa sett stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar út af laginu. Aðeins einu sinni áður hefur fyrirlitning þjóðar á fyrirmennum sínum mælst önnur eins í sögu skoðanakannana. Og það gerðist við þær einstöku aðstæður, þegar barsmíðabyltingin stóð sem hæst. Eggjum, tómötum og grjóti rigndi yfir ríkisstjórn sem þegar var löskuð vegna innanmeins, Samfylkingar sem misst hafði kjark og fóta og var því á síðasta snúningi.

Mótmælin voru ekki aðeins úr ríki náttúrunnar. Hreinum óþverra var sturtað yfir þjóðþingið og sama eðlis voru stóryrðin sem glumdu um allan miðbæinn úr rándýru hátalarakerfi, sem »einhver« borgaði fyrir, kvöld eftir kvöld, helgi eftir helgi. Og helstu öryggisstofnun þjóðarinnar þóttu þessi ósköp ekki nægja. Hún útvarpaði hvaða sívirðingum sem hentaði yfir nafngreinda einstaklinga, sem komu engum vörnum við. Hún kom á framfæri skilaboðum frá »skipuleggjendum« um að fólk hefði með sér potta og pönnur að heiman svo gera mætti lífið nær óbærilegt fyrir þjóðkjörna fulltrúa að störfum og stefna öryggi, heill og heilsu fámenns lögregluliðs í mikla hættu. Og hún útvarpaði jafnvel tilkynningum »skipuleggjenda« um hvar embættislegir óbótamenn ættu heimilisfesti!?

Á meðan öll þess ógnarbylgja gekk yfir náði Gallup í eitt skipti að fá fram lakari mælingu en sú er sem nú er til vitnis um álitshnekki ríkisstjórnar, sem enn þá lífvana lafir í landinu. Sú ríkisstjórn kallaði sig í upphafi »forystusveit fólksins«, »norræna velferðarstjórn« og útnefndi sjálfa sig sem aflið sem slá myndi »skjaldborg um heimilin.«

Slík stjórn átti auðvitað upphafsreit í himnaríkisparadísarsælu skoðanakannana. En með ævintýralegum hætti tókst henni að slá hraðamet Adams, en eins og heimurinn veit var Adam ekki lengi í Paradís.
Og nú gefa forkólfar ríkisstjórnarinnar skýringar, eða öllu heldur skýringu, á því að útkoman sé orðin svo afleit. Einum rómi rymja þeir að í rauninni sé þetta næsta eðlileg niðurstaða. Ríkisstjórnin hafi staðið í erfiðum endurreisnarverkum og slíkt sé aldrei til vinsælda fallið.

Hvaða verkum? Ríkisstjórnin eyddi miklum tíma og fjármunum í fyrsta Icesavesamninginn. Um það mikla mál var fjallað í pukri og átti að keyra í gegn umræðulítið. Það var stöðvað og 98 prósent kjósenda sem að málinu komu höfnuðu því og komu í veg fyrir að endurreisnin færi ofan í niðurfallið. Ríkisstjórnin var komin upp á kant við 98 prósent kjósenda í öruggu úrtaki, þúsund sinnum stærra en nokkur skoðanakönnun.

Þó hafði Ríkisútvarpið og ósjálfstæður seðlabanki og hópur heiðurskonsúla Kúbu norðursins básúnað slíkan hræðsluáróður að annar eins hafði ekki heyrst. En ekkert dugði. Samt var reynt aftur! Og enn var ríkisstjórn rassskellt af fólkinu í landinu. Allt stjórnkerfið var í aðlögunarvinnu fyrir ESB-aðild, með miklum kostnaði, gegn vilja þjóðarinnar og með einstæðustu svikum íslenskrar stjórnmálasögu.

Næst var ráðist að sjálfri stjórnarskránni. Þátttaka í allsherjarkosningu um málið var svo slök að augljóst var að ríkisstjórnin væri ekki samferða þjóðinni í því fremur en öðru. Undirbúningur kosninganna var í skötulíki. Hæstiréttur Íslands neyddist til að ógilda kosninguna. Kostnaður við þessa atlögu að stjórnarskránni slagar þegar upp í einn milljarð króna. En samt var ekki hætt, heldur var hæstarétti landsins gefið langt nef rétt eins og Ísland væri siðlaust bananalýðveldi.

Aðalgrein íslensks efnahagslífs, sjávarútvegurinn, hefur legið undir samfelldum árásum frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, með ómældum skaða fyrir hann og þjóðarbúið.

Og hvað um heimilin og skjaldborgina? Hörmungarsaga um samfelld svik. Það eina sem dugað hefur fólki eitthvað eru ákvarðanir Hæstaréttar. En hverri lagasetningu stjórnarmeirihlutans af annarri hefur á hinn bóginn verið hafnað af dómstólunum.

Þegar alþingismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson lagði til vorið 2009 að samþykkt yrðu lög um flýtimeðferð mála sem snertu hagsmuni viðskiptavina bankakerfisins sem voru í uppnámi eftir hrun bankakerfisins, þá var sú tillaga svæfð. Nú, þremur árum síðar, ræða stjórnarliðar um nauðsyn þess að samþykkja slík lagafyrirmæli!

Þessi örfáu dæmi af ótal mörgum sýna að það er ekki bjargvættur heldur bölgróin ríkisstjórn sem var að fá sína einkunn. Og þau sýna einnig að síst er hún ósanngjörn."

Það er hollt að lesa þessa samantekt um stöðu mála eftir 3 ára slímsetu ríkisstjórnar sem er ekki hissa á óvinsældum sínum og telur þær stafa af því að hún hafi staðið í svo óvinsælum tiltketarmálum eftir íhaldið. Þó að maður reyndi til þrautar að finna þessu stað þá er mér að minnsta kosti það um megn.

Hinsvegar leiðir það hugann að því að það stefnir í það að þjóðin þurfi að þola aðgerðaleysi í atvinnumálum og vatnsaflsvirkjunum í heilt ár til viðbótar.nærri 400 daga án þess að minnsta viðleitni sé í gangi til að stöðva landflóttann og efla atvinnulíf í landinu, auka sókn í sjávarútvegi og efla stóriðju til landsins. Menn gætu rétt ímyndað sér hvernig ástandið væri hér án þeirra stóriðjuframkvæmda sem okkur þó lánaðist aðkoma á fót á síðustu hálfu öld eða svo mestan tíman í harðri andstöðu við þau öfl sem nú ráða för.

Í því ljósi sér maður hversu dýrmætir 400 glataðir dagar eru í raun og veru.

Leiðari Morgunblaðsins í dag er holl áminning fyrir þjóðina að tíminn er dýrmætur og það er ábyrgðargluti að fara illa með ævidaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Eina sem ég vil bæta við leiðarann er að það átti líka að keyra ICESAVE1 í gegnum löggjafarvaldið ólesinn.  En takk, Halldór.

Elle_, 9.4.2012 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband