Leita í fréttum mbl.is

Frosti Sigurjónsson

flytur gagnmerka fyrirlestra um bankastarfsemi fyrir almenning. Ég hlýddi á einn hjá Sjálfstæðisflokknum í gær.

Ég ætla að stikla á stóru um þá hluti sem ég skildi en blanda svo í þetta eigin hugleiðingum svo menn mega ekki eigna Frosta margt sem hér fer á eftir því hann er orðvar maður og prúður.

Ég hef nú kannski ekki meðtekið allt rétt sem Frosti sagði um hvað gæti breytt bankastarfsemi okkar í stórum atriðum. En margt var auðskilið og ég er sammála honum um að bankakerfi okkar Íslendinga er orðinn alger óskapnaður og alltaf fyrirferðarmikið. En Frosti gerði mönnum ljósar ástæður þess hversvegna þetta kerfi er orðið svona stórt.

Það gerðist nefnilega að miklu leyti þegar bankarnir voru einkavæddir. Banki sem byrjaði með 3 milljarða gat umsvifalaust lánað út 27 milljarða miðað við 10 % CAD eða eiginfjárhlutfall sem honum er sett. Í rauninni keyptu kaupendur bankanna íslensku krónuna með í þessari einkavæðingu og notuðu hana síðan sem sína einkaeign. En þó með ríkisábyrgð að því leyti að hvaða vitleysu sem þeir myndu gera eftir þetta , þá þyrði ríkið aldrei annað en borga þá út úr fallíttunum af pólitískum ástæðum.

Seðlabankinn íslenski stjórnaði eftir þetta engu. Hann gaf að vísu út íslensku peningaseðlana sem eru bara 4 % af öllum krónunum. Hitt eru rafkrónur sem bankarnir hafa búið til sjálfir án þess að spyrja kóng né prest og allra síst Seðlabankann.Níföldun eiginfjár á hverju ári.

Frosti tók einföld dæmi sem sýndu áhrif þess að einkavæða íslensku krónuna eins og gert var þegar Björgólfur keypti Landsbankann( innskot mitt: var það ekki með láni úr Búnaðarbankanum en lagði sjálfur lítið sem ekkert til?) og Smokkurinn keypti Búnaðarbankann(innskot mitt:var það ekki með láni úr Landsbankanum og lagði lítið sem ekkert til sjálfur annað en kennitölusafn? Hitt voru svo svik og lygar um einhvern Hauch&Aufhauser frá vefurunum sjálfum og ámóta kónum)

Þessir bankar hófu útgáfu rafkrónanna og léku leikinn ár eftir ár og Seðlabankinn gerði lítið annað en hækka stýrivextina. Sem urðu auðvitað máttlausir þegar bankarnir fóru í útrás og fóru að slá lán og safna innlánum erlendis. Seðlabankinn stóð þá hjá og horfði á bankana lána út ólögleg lán með gengisviðmiðun til Péturs og Páls, horfði á snjóhengjuna, eða erlenda gjaldeyrinn, streyma inn í háu stýrivexti Seðlabankans, en gerði ekkert í að stöðva vitleysuna sem keyrði áfram bóluna. Sem hann gat auðvitað en gerði ekki. Sem er mér óskiljanlegt enn í dag hvað álit sem menn hafa á stjórnvisku bankans þá og enn í dag.

Frosti sagði sögu af enskum Lordi sem fór til Ítalíu að skemmta sér og sletta úr klaufunum. Hann svallaði í marga mánuði og borgaði innfæddum með ávísunum á banka sinn í Englandi. Ítalirnir sem bjuggu við óstöðugan gjaldmiðil vildu heldur þessar ávísanir Bretans heldur en eign peningaseðla.

Þegar rann af Lordinum og hann fór heim með móral, fór hann að spá í hversu mikið að hann yrði að selja af landareignum sínum þegar ávísanirnar kæmu fram í bankanum hans. Það leið og beið. Engin ávísun barst til Englands. Aldrei. Þær voru orðnar að lögeyri á Ítalíu sem menn vildu heldur eiga en lírur.

Ég gat ekki stillt mig og sagði söguna af því þegar við frændurnir í Steypustöðinni gáfum út steypukrónurnar hér um árið í óðaverðbólgunni og gengisföllunum. Einfaldar kvittanir sem tiltóku að menn gætu fengið afhenta framtíðarsteypu.Hiklaust afhentu menn okkur sparifé sitt í beinhörðum "Nordölum" gegn einfaldri kvittun frá okkur. Engin trygging önnur en það traust sem menn höfðu á Steypustöðinni hf sem átti 30 ára sögu að baki. Enginn spurði um eiginfjárstöðu fyrirtækisins sem var mjög lélega að mig minnir þá. Allir vissu að aðalhluthafinn í Steypustöðinni var Sveinn B. Valfells sem þá var fremstur í viðskiptalífi landsmanna og hafði ótakmarkað traust sem sá heiðursmaður og snillingur sem hann var. Hann myndi ekki láta strákana setja fyrirtækið á hausinn. Það var nóg fyrir alla.

Steypukvittunin ruddi Nordalnum allstaðar frá eins og ávísanir Lordsins á Ítalíu sællar minningar. Ég man ekki hvort allar þessar kvittanir komu inn aftur. En hitt man ég að sýslumenn tóku þær hiklaust upp í skattgreiðslur til ríkisins og maður vissi að þær skiptu oft um hendur. Við frændur keyptum fjölda af steypubílum umsvifalaust og mættum framtíðinni óhræddir með þeim. Samt kom nú að því að við þorðum ekki meira og urðum að snúa fjöldanum frá sem vildi ólmur afhenda okkur öll sín koffort af peningum. Ég hef ekki hugmynd um hversu mikið fé við hefðum getað fengið með þessum hætti en við þorðum bara ekki meira.

Frosti sagði að munur væri á innistæðum og innlánum. Í gamla daga hefði sumstaðar legið dauðarefsing við að banki lánaði út innistæður sínar og gæti ekki staðið skil á þeim. Hann mátti hinsvegar lána út veltiinnlán sín og græða á vaxtamun. Hér væri allt í graut og kostnaðurinn sem bankarnir legðu áíslenskan almenning vegna rekstrarkostnaðar síns næmi ekki undir 40 milljörðum króna árlega.(Samt byrjaði nú saga peninganna þannig að Rotschild bjó þá til) Þetta fé gæti þjóðin átt með því að flytja allar innistæður í Seðlabanka en láta bankana um veltiinnlán og þá væntanlega greiðslumiðlunina líka, kreditkortin osfrv. Til þessa yrðu bankarnir að fækka starfsfólki í miklum mæli.

Undirritaður hefur lengi talið að deila þurfi með pí í núverandi fjölda bankastarfsmanna til að fá hæfilegan fjölda. Sem þá væri í línu við fjölda bankastarfsmanna í USA. Nú viðrar Frosti svipaðar hugmyndir og færir rök fyrir sínu máli.

Erindi Frosta og fjörugar umræður skildu fundarmenn í Valhöll eftir þungt hugsi og opnaði augu margra fyrir því hvað er að gerast með krónuna okkar. Hún er í rauninni leiksoppur bankanna sem auka útlán á þensluskeiðum en draga saman í kreppum eins og nú er.Hver sem getur opnað banka á ekkert fyrir höndum annað en gróða og gósenlíf.

Fundarefnið var hvernig við gætum tryggt krónunni betri framtíð. Þær umræður féllu því miður í skuggann. En öllum er hollt að hugsa aftur til Davíðstímans þegar allir gátu átt allan þann gjaldeyri sem þeir vildu, erlendur gjaldeyrir lækkaði ár eftir ár eða stóð í stað, menn gátu sparað á verðtryggðum reikningum, borgað 10 % fjármagnstekjuskatt af vöxtum að sparifé sínu, flutt eigur sinar úr landi eða flutt erlendar eigur sínar inn.

Nú er komin hér kommúnistastjórn og sovét með höftum og bönnum, allt traust er farið veg allrar veraldar. Enginn treystir öðrum, enginn hefur trú á landinu og reynir að fjárfesta til framtíðar heldur notar flest tækifæri til að flytja burt. Erlend glæpagengi vaða hér uppi á meðan við getum hvorki borgað lögreglunni kaup né hugsað um aldraða og sjúka.


Krónan hefur samt bjargað okkur blessuð frá því versta. Við þurfum bara að hefja hana til vegs og virðingar aftur. Skapa þá tíma aftur að útlendingar vilji fjárfesta hér og leggja fé inn í íslenska hagkerfið. Og hætta að trúa hvaða vefara keisarans sem er.

Bankarnir eru í huga undirritaðs eftir að hlýða á þennan fyrirlestur stofnanir sem eru í rauninni fjandsamlegar almenningi og þjóðhagslega óhagkvæmir og þannig andstæðir öllum hagsmunum almennings. Þeir sjúga blóð úr þjóðarlíkamanum sem nemur milljarðatugum á hverju ári og við gætum auðveldlega náð til heildarinnar ef við bara vildum.

Einfalt væri að flytja allar innistæður í Seðlabanka og tryggja þær þar. Láta bankana um hitt og sníða sér stakk eftir vexti. Þeir væru með allan rekstur sinn í graut og skildu ekki á milli viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi enda myndi það engu breyta meðan þeir hefðu núverandi einrétt á krónunni.

Mér finnst að Frosti þyrfti að flytja þennan fyrirlestur í Sjónvarpi svo allur almenningur geti myndað sér skoðun og hugleitt hvað það er sem í raun og veru er að gerast í þessum fjármálaheimi. Sem bankarnir gylla í blekkingarskyni með því að auglýsa sig sem vini alþýðunnar.Sem þeir eru auðvitað alls ekki heldur hreinir óvinir og blóðsugur hvers og eins.

Takk fyrir mig Frosti Sigurjónsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Tvennt er að hér:

Bankakerfi sem eru ekki beinum í tengslum við hagkerfið sem það býr í (ávísnair Lordsins) munu alltaf deyja mjög hratt því "shadow bankakerfi" mun yfirtaka fjármálastarfsemina í landinu því það er ekki hægt að þjóna atvinnulífi hagkerfisins og almenningi með "Lord-ávísana-kerfi" - og allra síst er þar hægt að halda uppi anglox-sax pax americana lýðræði og handhefja fullveldi þjóðríkis. Þetta er að byrjá öfugum enda og hengja sjálfan sig enn frekar við hvert skerf sem tekið er niður í glötun. 

eða -

hagkerfið undir Lord-ávísunum verður sjálfrkafa Barter-trading kerfi (steypuúttektir), sem reyndar ennþá er hægt að gangsetja, sjái borgararnir ástæðu til að hefja barter-trading shadow bankakerfi sín á milli. En þá mun ríkið fara á hausinn, lýðræðið deyja og fullveldi leggjast af, eins og í fyrri málsgrein.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 9.5.2012 kl. 18:26

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Gunnar

Hvað segir þú um heljartak þessarra banka okkar á krónunni? Tveir í eigu útlendra vogunarsjóða,skítapakks og skuggbaldra af ýmsu þjóðerni og svo MP banki eini einkabankinn. Landbankinn ríkisbanki og á líklega að vera það áfram.

Hvað finnst þér um að minnka þetta bankakerfi sem við kölum svo með meiri starfsemi Seðlabankans? Hleypa loftinu úr því og hætta að láta þetta dót vaða svona uppi og sitja yfir hvers manns disk? Geta sett ökonómíuna á hausinn hvenær sem þeir vilja með rafkrónutilbúningi eftir eigin geðþótta?

Halldór Jónsson, 9.5.2012 kl. 21:25

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Við ættum að gera eins og þeir hafa gert í Bandaríkjunum, Hallór minn kæri.  

Það sjá allir nú að við þruftum á hinu desruktífa kompónenti anglo-sax kapítalismans að halda til þess að taka andskotans bankana niður og ganga frá þeim. Stjórnmálamenn hefðu aldrei gert það og aldrei getað það. En nú eru bankanir sem sagt down.

Krónan er ekki í heljargreipum neinna nema hugleysingja þeirra sem sitja hér við völdin og stýra hér öllu með leyndri dagskrá sem ber allt og alla að sama feigðarósi. 

Við eigum nóg af góðum stræðfræðignum sem geta búið til skattalegan geldingar-mekanisma vegna króunubréfa í erlendri eigu. "A speed & motion sensitive moving_average taxational castration algorithm" sem virkar eins og skammbyssa sem þrýstist fastar og fastar að haus erlendra krónubréfaeigenda og dælir síðan sivtadropum af enni þeirra í gjaldeyrisjóðinn um leið og skipt er um bleyjur á þeim.

Hér er ekkert að óttast nema hugleysið. Erlendir krónubréfa eigendur hafa frá byrjun reinknað þenna möguleika inn í áhættutöku sína. Þeir eru "forward looking" alltaf og er andskotans sama. Einnig væri hægt að bjóða þeim í kaffi og leyfa þeim að ganga í íslenskan saumaklúbb.

Svo þarf að láta Seðlabanka Íslands í té verkfæri sem gerir honum kleift að fara inn í fjármálaleg monster, búta þau í sundur og henda pörtum þess til aðila markaðrins. Eins og The Fed hefur fengið í hendur sínar núna.

Davíð gæti þetta líklega á einum degi

Gunnar Rögnvaldsson, 9.5.2012 kl. 21:50

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

En fyrst þar að taka Seðlabankann úr höndum hins upplýsta pakks. Og sökkul stofnunarinnar þarð að herða og meitla fastar inn í fullveldi þjóð-ríkis okkar, til jafns við sjálfan fánann. 

Gunnar Rögnvaldsson, 9.5.2012 kl. 22:16

5 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þú ert svo hraðfleygur og flúryrtur Gunnar að maður skilur ekki nema brot af því sem þú ert að segja. En skemmtileg er lesningin.

Steypukrónurnar voru mjög góðar og gott hefði verið ef fleiri hefðu fetað í fótspor Sveins og félaga.

Reyndar stundaði SÍS þetta með öðrum hætti þó, þ.e. með því að þvinga bændur til að leggja afrakstur vinnu sinnar inn á reikninga hjá SIS og geta aðeins keypt vörur af SÍS.

En hafa verður það í huga að peningar eru gjaldmiðill en ekki verðmæti í sjálfu sér. Verðmætin felast í getu þess sem gefur gjaldmiðilinn út til að láta önnur verðmæti í staðinn fyrir gjaldmiðil.

Þegar menn vilja fá þessi verðmæti greidd til baka eftir langan tíma, eins og t.d. sem lífeyri þá verða þeir að fara mjög varlega og ekki ætlast til of mikils af þeim sem á að varðveita þessi verðmæti.

Sérstaklega er óvarlegt að treysta banka eða stjórnmálamanni til að viðhalda verðmætum. Af þeirri einföldu ástæðu að bankar og stjórnmálamenn framleiða ekki neytt.

Þess vegna eru steypuávísanir miklu betri leið til að varðveita afrakstur vinnu sinnar en bankabók. Eina hættan er að einhver einn eignist of stóran hluta af ávísunum og ætli svo að innleysa þær allar í einu og byggja fyrir þær höll undir húsgögn.

En varkár ávísanaskrifari passar sig á að það gerist ekki.

Sigurjón Jónsson, 11.5.2012 kl. 12:11

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Gunnar,

Þú segir:"Bankakerfi sem eru ekki beinum í tengslum við hagkerfið sem það býr í (ávísnair Lordsins) munu alltaf deyja mjög hratt því "shadow bankakerfi" mun yfirtaka fjármálastarfsemina í landinu því það er ekki hægt að þjóna atvinnulífi hagkerfisins og almenningi með "Lord-ávísana-kerfi" - og allra síst er þar hægt að halda uppi anglox-sax pax americana lýðræði og handhefja fullveldi þjóðríkis. Þetta er að byrjá öfugum enda og hengja sjálfan sig enn frekar við hvert skerf sem tekið er niður í glötun.

eða -

hagkerfið undir Lord-ávísunum verður sjálfrkafa Barter-trading kerfi (steypuúttektir), sem reyndar ennþá er hægt að gangsetja, sjái borgararnir ástæðu til að hefja barter-trading shadow bankakerfi sín á milli. En þá mun ríkið fara á hausinn, lýðræðið deyja og fullveldi leggjast af, eins og í fyrri málsgrein.."

Ég held að þetta geti þrifist saman ef ekki alltof margir gera þetta. Verslunarfyrirtæki kaupa þjónustu rafvirkja með úttektarheimildum á föt eða annað það sem rafvirkinn getur séð sér nauðsyn á að eignast.

Bílaumboð lætur verkfræðing teikna fyrir sig með því skilyrði að hann taki bíl uppí. Þetta viðgegnst allstaðar til dæmis hjá félögum mínum í Þýzkalandi þar sem allt er samsúrrað í tengslanetum. Ef þú ert ekki í réttri Verbindung þá færð þú ekki bísness. Og þannig má lengi telja. Markaðsaðstæður stjórna öllu svona. Þú hlýtur að þekkja þetta frá Danmörku.

Það kom að því að engin eftirspurn varð eftir steypukrónum né öðru þegar rétt framboð varð af peningum. Þessvegna gengur svona Lorda-kerfi ef fólkið sér ástæðu til. Hinsvegar fengu menn fallexi ef þeir neituðu að taka greiðslu í assignatinum franska á sinni tíð þannig það er erfitt að stjórna mannlegri hegðun.

Halldór Jónsson, 13.5.2012 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband