Leita í fréttum mbl.is

Requiem in aeternam

dona eis Domine.(Veittu þeim hina eilífu hvíld Drottinn)

Fyrir tilviljun komst ég á miðnæturtónleika í Langholtskirkju á þriðjudaginn var þar sem 80 manna Óperukórinn ásamt einum 20 hljóðfæraleikurum og okkar bestu einsöngvurum fluttu Requiem Mozarts undir stjórn Garðars Cortezar.

Ég er nú ekki mikið latínufróður. En Requiem er orð sem virðist geta táknað sálumessu fyrir hinum dauðu. Latínu textinn virðist vera bæn um eilífa hvíld frá píslum þessa heims og líklega annars heims líka. En ég næ ekki alveg landi með orðið sjálft.

Garðar flutti gott inngangserindi um Mozart og tilurð sálumessunnar og hvernig hann lauk henni fársjúkur og sorgmæddur og dó í beinu framhaldi þess að vinir hans fluttu hana í fyrsta sinn heima hjá honum.

Síðan var verkið flutt. Ég hafði ekki heyrt það áður en undraðist að vonum hvernig Mozart gat heyrt alla þessar raddir og hljóma inni í höfðinu á sér og komið þeim á pappír til þess að ég gæti notið þeirra. Og í stuttu máli eru þeir undursamlegir og heilablásandi(mind-blowing). Og listamennirnir allir unnu þrekvirki í þvílíkri samhæfingu sem flutningur svona verks er. Stórkostlegt, dásamlegt. Takk fyrir allt þið góða fólk að gera þetta og leyfa okkur að njóta.

Þegar ég fór að rýna í textann sem fylgdi með í skránni, þá sýnist manni að þetta sé trúarverk Mozarts svipaðs eðlis og Passíusálmar séra Hallgríms. Hvorutveggja ort í skugga Dauðans. En báðir þessir menn trúðu á Guð og Jesús og líklega bæði á himnaríki þeirra feðga og hugsanlega helvíti og þann vonda til viðbótar. Hugsun Mozarts virðist hugsanlega vera nær óttanum um refsingu annars heims heldur en hjá Hallgrími sem virðist setja traust sitt á sælli tíð. Enda var "lebenið" á Mozart ekki alltaf til fyrirmyndar að því að sagt er og kannski mórall í kallinum þessvegna.

Ég fór að velta því fyrir mér í framhaldi hvort trúarbrögð hafi kannski gert meira til að valda mönnunum þjáningu en gleði? Þessi stöðuga útmálun helvítis, sem enn stendur yfir, setti hroll að fleirum en gamla Páli. Menn þjáðust af dauðans angist alla ævi yfir því hvað tæki við hinum megin. Og svo er víst útbreitt ennþá. Sífelldar áhyggjur yfir því hvað við taki eftir dauðann?

Sagt er frá manni í Sturlungu sem fékk skriftir áður en hann skyldi höggvinn. Hann bar þvílíkar sakir á sig í skriftum að menn komu til Þórðar Sturlusonar, bróður Snorra, og sögðu að maðurinn væri ekki dræpur þess vegna. "Hengið þér hann þá fyrst" sagði Þórður og var það gert. Það virðist hafa verið einhver hermennskuheiður að því að vera höggvinn en smán að vera hengdur sem þjófur og er víst svo enn. Og Hermundur Hermundarson bað hneppa hári sínu svo eigi yrði blóðugt og sá í loft upp er Geirmundur þjófur hjá hann. Ég er varanlega móðgaður út í Einar Kárason að láta þennan töffara skæla alla nóttina í kirkjunni fyrir aftökuna í bók sinni Óvinafagnaður. Tel þetta til hreinna meiðyrða um Hermund sáluga sem víðar kemur við sögu sem algerlega kúl gæi eins og sagt er.

Þessir gömlu vígamenn okkar og þjóðhetjur allir voru mjög trúaðir og báðu mikið fyrir sér við manndrápin. Við syngjum hér sálm í kirkjunum eftir fjöldamorðingjann Kolbein Tumason sem brenndi fjölda saklausra menn inni með bestu lyst. Líklega hefur hann bænt sig vel á eftir þó að hann sé nú í rauninni ansi tilætlunarsamur við Drottinn í textanum ef út í það er farið...Ryð þú röðla gramur... o.s.frv.

Var það hugsanlega nauðsyn fyrir þá ríku að halda trúarbrögðum að þeim fátæku til að halda aftur af þeim í mögulegri viðleitni sinni til að jafna kjörin sín með því að stela? Ná af þeim verðmætum, landskuldum og tíund með hótunum um píslir annars heims? Sagði ekki Lenín að trúin væri ópíum fyrir fólkið?

Menn héldust á vegi dyggðarinnar af þrælsótta við hýðingar og bál hinu megin. Veit einhver hvort illmenni hafa fengið aðra meðferð í himnaríki en hinir dyggðugu? Hvort Þorbergur hafði rétt fyrir sér þegar hann snéri dæminu við fyrir Drottni allsherjar?

Á mörgum sjónvarpsrásum prédika Íslamistar um réttmæti þess að drepa alla vantrúaða í þeim löndum sem hafa skotið yfir þá skjólshúsi. Enginn afsláttur er gefinn fyrir slíkan vinskap þar, þeir vantrúuðu skulu deyja og lönd þeirra falla til Múhameðs. Í Ameríku prédika moldríkir biflíuboxararnir yfir lýðnum í sjónvarpi og raka saman fé af fátækum sem gefa látlaust meðan prédikarinn öskrar og steytir hnefana að áhorfendum.


Hérlendis hafa menn stofnað hugsjónafélög og hafið starfsemi til að græða skattalega sjálfir og fá upp í eigin rekstrarkostnað. Allt í nafni trúar og göfugra málefna en undirliggjandi er eigin gróðasjónarmið. En fæstir þora að finna að þessu þar sem að Drottinn á einhvern hlut að máli eða ómælt göfuglyndi.

Svona afvegaleiðist maður út úr göfugum hugsunum niður fyrir tærnar á sér.

En Requiem eftir Mozart er eitthvað sem enginn skyldi láta óhlustað fram hjá sér fara frekar en að reyna að lesa Passíusálmana með dýpri skilningi.

Ég þakka öllum flytjendum fyrir mig og mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þakka þér fyrir þessa yfirreið Halldór.

Fyrst auðvitað þína miklu hrifningu á verki eftir snillinginn Mozart.

En svo er það þetta með Víti. Í gærkvöldi var ég einmitt að lesa bókina “Home with God” , “In a life that never ends”, eftir Neale Donald Walsch.

Ef þú þekkir ekki höfundinn þá er hann stórfrægur fyrir ritröðina “Samtal við Guð” (Conversation with God) á frummálinu. Hann er svo tengdur að geta varpað fram spurningum við Höfuðsmiðinn, og hann notar tækifærið til að spyrja um margtalaða Vítisvist.

Neale D. Walsch hefur eftir Guði að það sé algjör reginfyrra að slíkt sé til. En það er auðvitað til í huga fólks, sem það þá skapar með hugsanaorku sinni.

Það er nefnilega frjálst að hugsa í Guðs ríki!

En svo talar þú um Lenin og að trúin sé opíum fyrir fólkið.

Því miður hafa ýmsir sem fylgt hafa stefnu Lenins tekið einnig með í arf að vera á móti trúarbrögðum, sem er algjört vindhögg.

Þessir forustumenn sem þykjast vera vinir alþýðunnar, eru það ekki fyrir fimm aura. Þeir eru meira að segja engra vinir, nema sjálfra sín. Má þar nefna til sögunnar Hitler, Stalín, Pol Pot og endalausa röð ráðamanna yfir lýðnum.

Sannleikurinn er sá að manngæska og mildi fer ekkert eftir stjórnmálaskoðunum, vegna þess að þeim eiginleikum er dreyft um allt þjóðfélagið án slíkrar niðurröðunar.

Í trúarbrögðum og í stjórnmálum þá sér maður allt litrófið.

Það eru til hófsamir trúmenn, og einnig til ofsafengnir.

Meira að segja eru til hófsamir trúlausir menn og einnig ofsafengnir.

Við höfum séð marga trúlausa fara um netheima með miklum látum, þar sem þeir eira engu.

En annars býð ég þig velkominn í hóp okkar sem komnnir eru með jólaskapið!

Því ég sé á skrifum þínum að Requiem Mozarts hefur vakið þitt mikla jólaskap til lífsins!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.12.2012 kl. 15:02

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Herlufsen

Ég þekki ekki þennan mann sem hefur beint samband við hann Guð.Ég held að góðir menn séu góðir af sjálfum sér án þess að einhver segi þeim það. Vondir menn eins og þú nefnir örfáa eru bara vondir og ekkert sameinginlegt með okkur sem viljum yirleitt vel án þess að spekúlera í einhverjum trúmálum. Ég nenni ekkert að rífast um trúmál við neinn og kæri mig ekkert um að afkristna kristið fólk meðan það lætur mig í friði.

Ég vona að þú finnir jólaskapið þitt. En ég er nú oftar jólafúll sagður og lítill jólakall.

Halldór Jónsson, 6.12.2012 kl. 15:56

3 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Hugblásandi Halldór- frekar hugblásandi en heilablásandi (mind - brain). En svona enskuþýðingar eftir orðanna hljóðan eru ógurlega hallærislegar og þú Halldór, sem skrifar oftast svo lipran og góðan texta, ættir alveg að sleppa þeim og skrifa bara þessa blæbrigðaríku, kjarnyrtu íslensku sem þú, framar flestum, ert fær um.

Óttar Felix Hauksson, 6.12.2012 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband