Leita í fréttum mbl.is

Kanntu ekki annan Steingrímur?

heldur en það sem þú skrifar í nýjárskveðju til hersveita þinna. Allra 199 góðu dátanna og kannski fleirum líka.

Fyrir þá sem ekki eru á póstlistanum er ekki úr vegi að renna yfir aðalatriði textans:

......"Tvö undangengin ár, árin 2011 og 2012, hafa skilað Íslandi vel á veg efnahagslegrar endurreisnar, aukins stöðugleika og batnandi þjóðarhags....

.....Reynt er að halda því fram að bara með því að lækka skatta og þá væntanlega fyrst og fremst þeirra sem lagt hafa meira af mörkum að undanförnu, þá verði hér allt gott. Sem sagt, með því að lækka tekjur ríkissjóðs um segjum tvo-þrjá tugi milljarða í þágu hinna tekjuhærri og ríkustu, þá muni hér allt leika í lyndi....

.... Hvað er hér á ferðinni? Jú ekkert annað en nýfrjálshyggjan og hagfræðikenningar hennar afturgengnar í lítt duldum búningi.....

...Eru landsmenn tilbúnir í stórum stíl til að gleypa við þessum kenningum á nýjan leik, þeim hinum sömu og hér réðu ferðinni fram að hruni með skelfilegum afleiðingum? Því verður ekki trúað að óreyndu og um það ekki síst munu næstu kosningar snúast. VG er höfuð andstæðingur þessara kenninga í íslenskum stjórnmálum. Við erum eini flokkurinn, þó nýju framboðin séu talin með, sem boðar róttæka vinstri stefnu og fyrir henni höfum við staðið og af ábyrgð og festu undanfarin fjögur ár. Umbylting skattkerfisins í átt til stóraukinnar tekjujöfnunar og grænna áherslna eru til marks um það....

Valkostum á miðju íslenskra stjórnmála er greinilega að fjölga, en höfuðandstæðurnar eru hinar sömu - Vinstrihreyfingin grænt framboð til vinstri og Sjálfstæðisflokkurinn til hægri. Höfum þetta hugfast.....

Hvaðan komum við?
Nú við áramót 2012/2013 er ekki úr vegi að rifja upp ástandið á Íslandi fyrir fjórum árum, hvernig horfur voru og hvaða viðfangsefni blöstu við. Það hvernig ríkisstjórninni hefur tekist til við að leysa þau verkefni nú þegar styttist í fjögurra ára afmæli hennar er sanngjarn mælikvarði........ Rifjum upp áramótin 2008/2009:

-85% af fjármálakerfinu er fallið, hið nýja bankakerfi er ófjámagnað og gríðar flókið en um leið afdrifaríkt verkefni bíður; að ná niðurstöðu í uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Án starfhæfs og fjármagnaðs bankakerfis verður engin efnahagsleg endurreisn.

-Um 50% af lánum allra fyrirtækja eru í vanskilum. Heimilin eru tugþúsundum saman með sín fjármál í uppnámi.

-Gengi krónunnar er fallið um 40-50% og vextir og verðbólga nálægt 20%.

-Áhættuálagið á Ísland er 1.000-1.200 punktar.

-Í gildi er frysting íslenskra eigna í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga.

-Ísland er ofarlega á lista yfir þau tíu lönd sem líklegust eru talin til að lenda í greiðslufalli eða gjaldþroti.

-Seðlabankinn er nýorðinn gjaldþrota með um 200 milljarða kostnaði fyrir ríkissjóð.

-Ísland er komið í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, alþjóðlegir fjármálamarkaðir eru landinu harðlokaðir og fjármagnshöft komin á.

-Halli er orðinn á rekstri ríkissjóðs af stærðargráðunni 150-200 milljarðar króna, 10-14% af vergri landsframleiðslu.

-Atvinnuleysi er talið stefna í tveggja stafa tölu.

-Önnur lönd í Evrópu þar sem vandi steðjar að keppast við að fullvissa umheiminn um að þau séu ekki eins illa stödd og Ísland.

-Ríkisstjórn, Alþingi, Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og bankakerfi eru trausti rúin, orðspor landsins á alþjóðavettvangi hrunið og samfélagið á barmi upplausnar.

Verk að vinna!

Það var því verk að vinna þegar við Vinstri græn tókum þá djörfu ákvörðun að setjast í ríkisstjórn við þessar ógnarlegu aðstæður 1. febrúar 2009. Við völdum að axla ábyrgð þegar skyldan kallaði vitandi vel að framundan voru erfiðustu verkefni sem nokkur ríkisstjórn í sögu Lýðveldisins Íslands hafði staðið frammi fyrir. Í hnotskurn snerist verkefnið um að afstýra þjóðargjaldþroti og endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins. Til þess þurfti að gera margt í senn; verja raunhagkerfið sem eftir stóð, verjast hættunni á keðjuverkandi fjöldagjaldþrotum, tugprósenta atvinnuleysi og stórfelldum landflótta, en ekki síst að verja velferðarkerfið og tryggja eins og kostur var stöðu hinna lakast settu í samfélaginu.

Í júníbyrjun 2011 gaf Ísland út ríksskuldabréf á alþjóðlegum fjármálamarkaði fyrir 1 milljarð Bandaríkjadala á ásættanlegum kjörum og var talsverð umframeftirspurn eftir bréfunum. Þetta var svo endurtekið í ár. Í ágúst 2011 lauk samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með mjög jákvæðum umsögnum.

Meira en helmingur gjaldeyrislánanna sem tengdust samstarfsáætluninni hefur þegar verið endurgreiddur. Landsmönnum fjölgar nú þriðja árið í röð eftir lítilsháttar fækkun 2009, m.ö.o. hættunni á stórfelldum landflótta hefur verið bægt frá. Rekstur ríkissjóðs er því sem næst í jafnvægi samkvæmt fjárlögum næsta árs (hallinn 0,2% af VLF) og opinberar skuldir fara nú lækkandi á nýjan leik sem hlutfall af VLF. Atvinnuleysi er orðið minna en það var um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Hagvöxtur er um 2,5% tvö ár í röð og horfur um svipaðan eða meiri hagvöxt á næstu árum. Atvinnuvegafjárfesting stefnir upp fyrir sögulegt meðaltal strax á næsta ári.

Meginverkefnið hefur tekist !
Niðurstaðan af þessum stutta samanburði er skýr. Meginverkefnið hefur tekist, Ísland er á réttri leið. Það er a.m.k. mat umheimsins, þeirra sem fjalla almennt um efnahagsmál, alþjóðastofnana, greiningaraðila og markaðarins. ....

En áfram þarf af ábyrgð og festu að treysta batann í sessi. Afnám fjármagnshaftanna er vandasamt verkefni. Skuldum vafin heimili, einkum yngri kynslóðarinnar, munu áfram þurfa mikinn stuðning. Áfram þarf að hlúa að álitlegum vaxtargreinum atvinnulífsins, örva nýfjárfestingu og hvers kyns nýsköpun og þar skipta þær áherslur og þeir auknu fjámunir sem fylgja fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar miklu.

Við þurfum að halda vel utanum þann árangur sem hefur náðst, ekki síst á sviði ríkisfjármála. Það má ekki gerast að óábyrg öfl glutri niður þeim árangri þannig að allar þær fórnir sem það hefur kostað að komast þangað sem við erum komin verði til lítils eða einskis. Hugmyndir um að skerða tekjur ríkissjóðs með tugmilljarða skattalækkunum í þágu hinna tekjuhæstu og efnuðustu bera vott um tryllingslegt ábyrgðarleysi. Það síðasta sem landið þarf á að halda er ábyrgðarlaus kosningabarátta með yfirboðum og loforðum um að nú sé hægt að gera allt fyrir alla.

Óumflýjanlegt er að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti. Þar verður vilji þjóðarinnar sjálfrar að varða veginn úr því ljóst er orðið að ekki reyndist unnt að leggja málið í hennar dóm á kjörtímabilinu í formi atkvæðagreiðslu um samning eða efnislega niðurstöðu eins og til stóð. Að ákveða hvernig verður búið um málið til næstu mánuða og missera og hvenær og hvernig verður leitað leiðsagnar frá þjóðinni í þeim efnum er verkefni næstu vikna.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur þegar leyst úr eða lokið yfirgnæfandi hluta þeirra verkefna sem hennar biðu á kjörtímabilinu, þar með talið það stærsta, að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins. Með afgreiðslu fjárlaga og tengdra frumvarpa fyrir jól hefur ríkisstjórnin og sá kjarkmikli hópur þingmanna sem henni hefur fylgt að málum allt til enda t.d. lokið verkefnum þessa kjörtímabils á sviði ríkisfjármála. Þá má ekki gleyma þeim mikla árangri sem náðst hefur á fjölmörgum sviðum á kjörtímabilinu til hliðar við glímuna við afleiðingar hrunsins. Umbætur á sviði mannréttindamála, menningar- og menntmála, umhverfismála, mótun nýrrar atvinnustefnu sem byggir á fjölbreytni og nýsköpun og þar sem hinum skapandi greinum er gert hátt undir höfði, sóknaráætlanir landshlutanna o.s.frv. o.sfrv.

Vissulega eru nokkur stór mál enn til umfjöllunar á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar, en það breytir ekki því að nú undir lok kjörtímabilsins er hægt að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir því að ótrúlega miklu hefur verið áorkað. Tvær síðustu ríkisstjórnir sem gefist hafa upp og hrökklast frá völdum innan kjörtímabils á Íslandi voru leiddar af Sjálfstæðisflokknum, ríkisstjórnir Þorsteins Pálssonar og Geirs H. Haarde. Við erum hér enn eftir einhvern ævintýralegasta og erfiðasta tíma sem íslensk sjórnmálasaga geymir og erum hvergi nærri hætt.

Tilboð mitt um áframhaldandi endurhæfingu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu stendur.

Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og gæfu og gengis.

Steingrímur J. Sigfússon "

Hvað finnst fólki um þessa veruleikafyrringu? Maður sem er kominn með yfir 400 milljarða ríkissjóðshalla það sem af er kjörtímabilinu og sannar það með línuritunum sem fylgja bréfinu til flokkmannanna talar um að hann reki ríkissjóð hallalaust? Vita menn ekki hvað vantar augsýnilega í nýsamþykkt fjárlagafrumvarpið? Er það aðalárangurinn af hafa geta slegið 2 milljarða dollar í nýjum lánum á markaði? Geta þannig sléttað upp uppsafnaðan rekstrarhallann sinn? Og sitja enn við völd löngu eftir að ljóst er að ríkisstjórnin er patt og getur engu máli komið fram nema að kaupa stuðning af Þór Saari og hans nótum,

Og finnast það að hann verðskuldi endurkjör? Trúir maðurinn þessu sjálfur?

Mér dettur bara eitt í hug við að lesa bréfið:

Kanntu ekki annan Steingrímur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Halldór minn. Við getum víst tekið alla stjórnmálaflokka-elítuna í sömu gegnumlýsingar-gagnrýnina, sem þú setur réttlátlega fram hér. Og spurningin verður: kunnið þið ekki annan?

Það er, og hefur alltaf verið hertekinn skipstjóri í brúnni á íslensku þjóðarskútunni.

Þetta leikritaform hjá íslenskri stjórnsýslu og flokkaklíku-skiptinemunum er öruggleg jafn ógeðfellt fyrir þig eins og mig, og alla aðra íslandsbúa.

Það er kominn tími til að klippa á naflastrenginn á milli þeirra gömlu innmúruðu spillingar-kónganna ó-krýndu allsráðandi, og ungu fórnarlambanna.

Framtíðin getur ekki byggst á gömlu spillingar-uppskriftinni, með farsælum árangri fyrir almenning.

Þú ert skynsamur og lífsreyndur maður að mörgu leyti Halldór minn, og skilur hvað ég er að tala um. Það efast ég ekki um. Spurning hvort þú þorir að standa gegn gömlu klíku-flokka-öflunum, og með almennings-réttlætinu?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.1.2013 kl. 21:15

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Skattlagning verður seint hvati til uppbyggingar atvinnutækifæra og framfara þó sumum virðist erfitt að skilja.

Nú stefnir allt í það að hugsanlegur arður af olíuleit og e.t.v. vinnslu á Drekasvæði lendi hjá Norðmönnum. Þeir eru ekki að "hjálpa" okkur við þetta af einskærri góðmennsku. Norðmenn láta ekki fjármuni af hendi af neinni góðsemi því þeir halda fast um sitt. Og þar sem þeirra skattakerfi er vinveittara þeim sem vilja stunda olíuleit og -vinnslu þá gera þeir sér fulla grein fyrir því að olíuleitin og vinnslan verður stunduð af fyrirtækjum með aðsetur í Noregi og hugsanlega bara á Noregshluta Drekasvæðisins. Við gætum því endað með, ef ekki verða breytingar á hugarfari stjórnvalda hér, að hafa lítið annað en "kostnað og væntingar" upp úr olíukrafsinu!

Ómar Bjarki Smárason, 4.1.2013 kl. 23:45

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar Bjarki. Þetta er góð athugasemd hjá þér.

Olían var gulls-ígildi á síðustu öld. Lengra náði þekkingin ekki þá.

Það þarf að gera ráð fyrir kostnaði vegna mengunar af olíu-vinnslu. Hún er töluverð.

Það þarf líka að gera ráð fyrir kostnaðinum við að losa sig við olíu-úrgang.

Olíu-úrgangur er eitthvað sem enginn vill taka á sig, og kostar mikið að koma honum fyrir. Það krefst mikils eftirlits að passa uppá að ekki sé verið að svindla úrgangs-mengunarolíu, og mengunargjöldum á skattborgara Íslands, og jafnvel gífurlegu mengunar-úrgangsgjaldi í okkar mengunargjalda-ábyrgðar-radíus.

Ég er ekki að fullyrða að þetta sé endilega svona vandasamt.

En kapp er best með forsjá, og best að fá sem flest sjónarhorn á heildarmyndina. Það sögðu gömlu mennirnir viskumiklu, og okkur ber skylda til að taka mark á því sem þeir sögðu. Þeir voru ekki skóla-heilaþvegnir, heldur lífsreyndir viskubrunnar.

Viska er ekki kennd í nokkrum opinberum skólum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.1.2013 kl. 00:13

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Takk fyrir þetta, Anna Sigríður, og Gleðilegt árið!

Við skulum sjá hvernig Halldór tekur á þessum athugasemdum þegar hann vaknar úrillur í morgunsárið. Pistill Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu ætti þó að gleðja hann þennan morguninn!

Kveðjur,

Ómar Bjarki Smárason, 5.1.2013 kl. 01:57

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Jæja ég er vaknaður og búinn að lesa bæði leiðara og Reykjavíkurbréf Davíðs. Er því ekki vitund úrillur lengur.

GLEÐILEGT ÁR ! góðu vinir mínir og takk fyrir tryggðina við þetta auma blogg mitt.

Við fyrsta pistil Önnu vinkonun minnar vil ég bara að segja að hún verður að lesa þessar færslur foringjans. Þar kryfur hann til mergjar hvernig kjósendur geta brugðist illa við skynsemi eða látið plata sig eins og Anna telur.

Rosalegt var það þegar Verkamannaflokkurinn eftir stríðið 1945 birti myndir af Chuchill sem sögðu: Hyllið Churchill-kjósið Verkamannaflokkinn! Gekk eftir og Churchill var kosinn frá.

Menn muna ekki einu sinni nafnið á ráðherrum eða forsetum hvað þá hvað flokkarnir heita. Þessvegna verða menn pólitískt bitrir eins og hún Anna mín er stundum. Og kjósendur gera stundum ótútskýrða hluti.

Ómar Bjarki vinur minn. Auðvitað verðum vi að hafa samstarf við Nojarann og þurfum hann til að kenna okkur uppá olíu eins og Kaninn kenndi þeim, Báðir eiga að hagnast. En ég treysti illa okkar fremstu fjármálaafglöpum til að halda á okkar hlut gegn þeim og vísa til reynslunnar af Icesave og bankanna.

Ómar Bjarki vinur minn, ég set þér hérmeð fyrir að lesa áðurnefnd skrif svo að þú skiljir til fulls hvað ég er að fara.

Ég les ekki Fréttablaðið nema þegar ég rekst á það og pistla Þorsteins mér yfirleitt til lítillar hrifningar vegna augljósrar Evrópudýrkunar hans. Það er miði á póstkassanum mínum sem segir engan ruslpóst inclusive Fréttó. Sé til.

Halldór Jónsson, 5.1.2013 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband