Leita í fréttum mbl.is

Völlurinn fer ekki !

sagði ég við vin minn þegar hann gekk dapur í bragði yfir framtíð Reykjavíkurflugvallar af mínum fundi í gær. Við sem erum báðir flugdýr höfðum mæðst mikið yfir fjandskap vallaróvina allstaðar. En vinur minn var nánast sokkinn ofan í þunglyndi yfir veraldarinnar vonsku eins og hún birtist í borgaryfirvöldum í Reykjavík og var ekki í skapi til að taka við huggunarorðum frá mér. Hann sagði að heimsku þessa fólks væru engin takmörk sett né getu þess til illra verka.

Þessvegna var það mér mikil lyftistöng að lesa leiðara Morgunblaðsins og finna sannfæringarkraftinn sem þaðan streymdi. Þar segir :

 

" Í fyrradag héldu borgaryfirvöld kynningarfund vegna draga að aðalskipulagi og máttu viðstaddir sitja undir útúrsnúningi fundarboðenda, sem greinilega töldu sig hafa of slæman málstað að verja til að ræða umfjöllunarefnið málefnalega.

 

Helsta forsenda þessara draga að aðalskipulagi er að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni þó að öllum megi ljóst vera að flugvöllurinn er ekki á förum og að hann á af ýmsum ástæðum hvergi betur heima. Þegar spurt var um flugvallarmálið og furðu lýst á því að ætlunin væri að slíta tengingu landsbyggðarinnar við þungamiðju heilbrigðisþjónustu í landinu kaus Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar og formaður borgarráðs, að svara út í hött. Hann sagði að ekki hefði verið talað um að slíta þessa tengingu landsbyggðarinnar og heilbrigðisþjónustunnar og að hættulegt væri að reynt væri að leiða líkur að því að lífshættulegt væri að búa á landsbyggðinni.

 

Þetta er auðvitað alveg óboðlegur útúrsnúningur. Enginn heldur því fram að lífshættulegt sé að búa á landsbyggðinni, en finnst borgarfulltrúanum ekki eðlilegt að allir landsmenn eigi sem besta möguleika á að nýta sér þá öflugu heilbrigðisþjónustu sem byggð hefur verið upp í Reykjavík? Er málstaður þeirra sem bitið hafa í sig þann misskilning að losna þurfi við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni svo vonlaus að snúa þurfi út úr og gera lítið úr þörf allra landsmanna á aðgangi að heilbrigðisþjónustu?

 

Sennilega er það einmitt málið. Í öllu falli má ekki útiloka að þeir sem bera fram þessi mislukkuðu drög að aðalskipulagi átti sig á að þau eru algerlega óboðleg og óverjandi og að þess vegna sé gripið til þess ráðs að snúa út úr fyrirspurnum á upplýsingafundi og reynt að gera fyrirspyrjendur hlægilega.

 

Staðreyndin er sú að þau drög sem borgaryfirvöld hafa nú lagt fram byggjast á stórri grundvallarforsendu sem gengur ekki upp og þar með falla þau um sjálf sig og geta aldrei orðið annað en markleysa. Flugvöllurinn er ekki að fara úr Vatnsmýrinni og þar með verður Vatnsmýrin ekki helsta byggingarland Reykjavíkur á næstu árum og af þeirri ástæðu er tímasóun hjá borginni að ræða frekar þessi drög.

 

Þar með er líka fjarstæðukennt að halda því fram, eins og gert var á þessum upplýsingafundi, að drögin geti orðið að aðalskipulagi í nóvember á þessu ári. Auðvitað væri hægt ef borgarfulltrúar eru alveg heillum horfnir að samþykkja þessi drög sem aðalskipulag, en hver væri tilgangurinn með því? Hvers vegna að samþykkja aðalskipulag sem ekki er hægt að vinna eftir og borgarstjórn yrði að umbylta um leið og við tæki meirihluti sem ekki væri haldinn þeirri þráhyggju að flugvöllurinn megi ekki vera í Vatnsmýrinni? Til hvers er verið að sóa tíma og fjármunum borgarbúa með þessum hætti og koma um leið í veg fyrir að gert verði skipulag sem hægt er að vinna eftir og borgarbúar geta búið við? "

Mikil lifandis sannfæringarkraftur og skynsamleg yfirvegun og rökhyggja streymir þarna fram. Þetta með lokun Reykjavíkurflugvallar er þá bara ekki að gerast.Þessi vesölu borgaryfirvöld verða hreinsuð út innan tíðar og fólk með viti kemur í þess stað í næstu kosningum. Vonandi beitir Árni Johnsen sér duglega með okkur vallarvinum í þeirri góðu baráttu.

Það er hinsvegar ástæða til að vera á verði gegn þeirri Salami-aðferð Stalíns sáluga sem þetta lið beitir gegn flugvellinum. Það er nartað hér, skemmt þar á skipulegan hátt til að rýra völlinn ár frá ári til að gera hann verri. Sífellt kemur fram fólk með gömlu vitleysunar og illan hug aftur. En það er stórhættulegt ef það kemst upp með að ráðast sífellt að vellinum í gegnum sífellt sakleysislegt nart í skipulagsmálin sem stöðugt rýra notagildi Reykjavíkurflugvallar. Það verður að veita miklu harðvítugri mótspyrnu en nú er gert.  

Salami-sóknina verður að stöðva til þess að völlurinn fari ekki neitt eins og 82 % landsmanna vill. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér fannst verst að hlusta á ýmis firringarrök eins og þau að það væri framfaraspor að allir ækju fram og til baka á milli Akureyrar og Reykjavíkur, af því að það mengaði loftið minna en ef þetta fólk flygi!

Önnur rök voru þau að nú væri nýr samgöngumáti kominn til sögunnar, sem væru strætisvagnar Reykjavíkur, sem gætu komið í staðinn fyrir flugið.

Ég sé hins vegar engan mun á því þegar ég fór með rútu Sternu frá Hvolsvelli meðan það fyrirtæki hélt uppi ferðum og því þegar ég fór fyrir nokkrkum dögum með rútu, sem Strætó átti.

Hinir fáu farþegar voru í mun stærri, dýrari og meira mengandi rútu sem fór ekki vitund hraðar en litla rútan áður.

Frábært þetta með minnan mengandi einkabíla en flugvélar! Nú skulum við bara byrja að sigla aftur á seglskipum þegar við þurfum að skreppa til útlanda af því að það mengar minna en þoturnar.

Ein rökin voru þau að það, að miðstöð sjúkraflugsins er á Akureyri en ekki í Reykjavík sýni að það sé sama hvar sú miðstöð og miðstæð lækninga séu!

Sá, sem þetta sagði, veit sem sagt ekki, að sjúklingar í sjúkraflugi eru fluttir með sem skjótustum hætti frá landsbyggðinni til Reykjavíkur en ekki öfugt, og að Akureyri liggur því betur að meðaltali við þessum sjúklingum en Reykjavík.

Þeir sem kynntu aðalskipulagið gátu ekki svarað spurningu minni um það hvar miðjur íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi væru núna á höfuðborgarsvæðinu í heild.

En vitanlega er það slæm þröngsýni að gera aðeins aðalskipulag fyrir helming hinnar raunverulegu höfuðborgar, sem er eitt íbúa- og atvinnusvæði í raun.

Líkast til eru miðjurnar tvær nálægt eða rétt vestan við stærstu krossgötur landsins á línunni Smári-Smiðjuhverfi-Mjódd-Ártúnshöfði og allt tal um að sú þungamiðja þjónustu og verslunar sé eða geti verið 4-5 kílómetrum vestar úti á nesi er dæmi um það, að menn eru enn fastir í meira en hálfrar aldar ástandi, sem er löngu liðið.

Ómar Ragnarsson, 1.6.2013 kl. 12:15

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þakk þér fyrir Ómar hnitmiðaða athugasemd sem ég er algerlega sammála. Niðurlagið og niðurstaðan í síðustu málsgreininni hjá þér segir allt sem segja þarf. Þessi kvosardýrkun er rómantísk tímaskekkja frá horfnum tíma. Byggðin er farin annað af landfræðilegum etnografískum ástæðum.

Halldór Jónsson, 1.6.2013 kl. 13:30

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Völlurinn á auðvitað að vera þar sem hann er.

Sjálfur hef ég engra hagsmuna að gæta, hef einungis tvisvar á minni ævi, sem er nú komin nokkuð á sjötta tuginn, nýtt mér þennan völl. Annað skiptið þegar ég fór í skólaferðalag til Vestmanneyja, á lokaári í barnaskóla og hitt skiptið fyrir nokkrum árum þegar ég var að koma frá Kanada, með flugi. Þá var þoka á Keflavíkurvelli og eftir að hafa sveimað í á annan klukkutíma yfir Faxaflóanum, var ákveðið að lenda í Reykjavík. Ef þessi flugvöllur hefði ekki verið til staðar, hefði þurft að fljúga til Skotlands.

Hanna Birna, hinn nýji innanríkisráðherra, skilgreindi þetta vel í hádegisfréttum RUV, þar sem hún bennti á þá einföldu staðreind að engin alvöru umræða hefur farið fram um hvert skuli færa völlinn. Hólmsheiðin hefur stundum verið nefnd, en það er langt í land með að hægt sé að taka þá ákvörðun, hvað þá að byggja þar völl. Þá er spurning hver skuli fjármagna þá framkvæmd.

Það er talað um að vellinum verði lokað einhverntímann eftir 2020 en að loka eigi norður/suður braut 2016. Það eru allir sammála um að við lokun hennar er völlurinn ekki lengur hæfur til áætlunarflugs. Því má segja að tillögur Dags miði að því að vellinum verði lokað eftir þrjú ár.

Eitt er það sem fáir, ef nokkur, hefur nefnt, en það er hin merkilega saga þessa flugvallar. Þegar hafa verið rifnar burtu merkar menningarmenjar af svæðinu, sumum að vísu bjargað af hugsjónamönnum, eins og flugskýlið sem Egill á Hnjóti bjargaði frá glötum og flutti vestur. Þetta var á sínum tíma stæðsta hús á Íslandi.

Saga þessa vallar má ekki gleymast og henni er best gerð skil með því að halda vellinum opnum. Vel mætti hugsa sér að koma upp safni innan svæðisins, þar sem sögu hans væri haldið á lofti.

Reykjavíkurflugvöllur er í eigu þjóðarinnar, er á landi þjóðarinnar í höfuðborg þjóðarinnar. Því á þjóðin að eiga síðasta orðið um afdrif vallarins.

Gunnar Heiðarsson, 1.6.2013 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband