Leita í fréttum mbl.is

Nátttröllið

er ÁTVR sem fær umfjöllun í grein Arnars Sigurðssonar í Mbl.í dag.

"    Salisbury lávarður, fyrsti forsætisráðherra Breta á 20. öldinni, var beðinn af Viktoríu drottningu að íhuga umbótatillögur var svarið: »Breytingar? En yðar hátign, eru hlutirnir ekki nógu slæmir fyrir eins og þeir eru?«

 

Þegar nýlegt frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á sölureglum ÁTVR kom fram, þótti undirrituðum einsýnt að eina breytingin sem gæti samrýmst hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um viðskiptafrelsi, yrði að leggja einokunarstofnunina niður. Varla getur verið til verra verslunarfyrirkomulag heldur en ríkisstofnun sem byggir á einokun eða hvað? Hinsvegar virðist sem lengi geti vont versnað því hér á að herða einokunarlög og það sérstaklega gegn innlendum framleiðendum bjórs sem og innlendum fjölmiðlum á þeim forsendum að þeir fyrrnefndu framleiði óáfengan pilsner í umbúðum sem eru »keimlíkar« þeim sem notaðar eru undir áfengan bjór.

Þrískipting ríkisvaldsins virðist frumvarpshöfundum ámóta fjarlægt fyrirbæri og tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar því óhikað á að fela ÁTVR að refsa þeim sem gerst hafa brotlegir um s.k. keimlíkindaglæpi og mun það vera nýlunda að refsivaldi sé útvistað til verslana.

Ef lög um ÁTVR eru lesin kemur í ljós að stofnunin er í raun nokkurs konar kleifhugi sem á að takmarka aðgengi að áfengi en jafnframt að veita góða þjónustu til að laða að viðskiptavini. Svo virðist sem stjórnendur félagsins hafi ekki hnotið um 4. greinina í lögum um stofnunina þar sem skýrt er kveðið á um hvert sé nafn hennar og hafa endurnefnt verslanirnar »Vínbúðin« og það í eintölu, þó eru verslanirnar nú orðnar 48, sem líklega er til að uppfylla markmiðin um »takmarkað aðgengi«. Eitthvað hefur svo löggjafinn ruglast á lýðheilsusjónarmiðunum því að álagning er ákveðin 18% á léttvíni en einungis 12% á hin enn hættulegri sterku vín!

 

Þó að markmið og skýringar í umræddum lögum séu um margt grátbrosleg lesning er þó líklega enn furðulegra það sem ekki kemur fram. Þar má nefna skort á rökstuðningi fyrir því að ríkisvaldið telur einkaaðilum ekki treystandi til að sjá um heildsölu tóbaks. Svo undarlega vill hinsvegar til að smásölu á hinu hættulega fíkniefni er aftur hvergi betur borgið heldur en í almennum verslunum. Dæmið snýst svo við þegar kemur að smásölu áfengis þar sem löggjafinn treystir einkaaðilum fyrir heildsölunni en einungis félagsmenn í BSRB fá að taka við greiðslukortum í verslunum.

 

Stofnunin hefur svo sett sér þau háleitu markmið að einungis einn af hverjum 10 undir lögaldri fái afgreiðslu. Þetta er það sem kallað er í lögunum »heildstæð stefna«.

 

Þó svo að ÁTVR flytji inn ámóta mikið af söluvörum og Þjóðminjasafnið í meðalári, þurfa starfsmennirnir mikið að ferðast til útlanda starfs síns vegna og fer starfsmaður í flugferð tæplega einu sinni í viku árið um kring. Reisurnar eru þó ávallt í göfugum tilgangi í nafni samfélagslegrar ábyrgðar. Undir liðnum »Sjálfbærnistjórnun« í ársskýrslu fyrirtækisins er »Loftslag í flugi innanlands og erlendis« talið þjóna hagsmunum samfélagsins eins og það nú heitir, en bréfritari skilur því miður ekki.

Nú hljóta flestir, þ.m.t. viðkomandi fagráðherra, að geta séð að hér sé um hreinræktaða sjálftöku á almannafé að ræða. En til að bæta gráu ofan á svart er svo spillingunni kolefnisjafnað skv. kolefnisbókhaldi með tilheyrandi aukakostnaði!

 

Staðreyndin er að meginhluti rekstrarkostnaðar ÁTVR er til kominn vegna sölu áfengis en lunginn úr s.k. hagnaði fyrirtækisins kemur hinsvegar frá heildsöludreifingu tóbaks sem er ámóta rökrétt fyrirbæri og einokunarverslun með eldspýtur sem stofnunin hafði með höndum áður fyrr."

Það er lögnu vitað að uppröðun vörutegunda í vínbúðunum 48 hefur áhrif á sölu einstakra tegunda. Eftir hvaða lögmálum skyldi vera farið í þeim efnum? 

Nú er í landinu stjórn sem menn voru að vona að myndi hafa snerpu til að breyta því sem þarf að breyta. Hjá okkur á svona forneskja eins og blasir við hjá ÁTVR fremur heima í þjóðsögunum en ekki meðal okkar nútíma manna.

Blasir ekki við að ÁTVR er einskonar náttröll frá nítjándu öld sem jafnvel Salisbury hefði ekki látið afskiptalaust. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband