Leita í fréttum mbl.is

Hið ólýsanlega

sorglega flugslys á Akureyri er rifjað upp á 365 miðlum sem birta myndband af því á vef sínum. Ég læt vera að dæma um hvort þetta sé æskilegt eða ekki. En allt of lengi hef ég þjáðst af ranghugmyndum um þetta atvik. Með áfellisdóma. Þetta myndband hjálpaði mér.

Maður verður auðvitað að beita sig hörðu til að horfa á þennan sorgaratburð þar sem ungir menn í blóma lífsins láta lífið. Óskiljanlegt er manni hvernig einn þeirra kemst lífs af þessum hrikalega viðburði. Og hversu mikli mildi er að enginn skyldi verða fyrir vélinni.

Þetta dró hinsvegar ský frá mínum augum varðandi slysið. Mér létti sem flugmanni. Eg get ekki séð annað en að þetta sé hreint óhapp þegar vélinni er flogið á fullu afli yfir svæðið enda ekki við öðru að búast þegar vanir menn eru að heilsa upp á félagana með lágu yfirflugi eða lópassi eins og það er kallað. Slíkt yfirflug við flugsamkomur er alltaf það sem allir áhorfendur þrá mest og heillast mest af.

Vélin þarna er ekki í neinu afbrigðilegu flugi, ofrisi eða slíku, heldur aðeins í hættulitlu lágflugi. Sem vanir flugmenn geta auðveldlega framkvæmt eins og til dæmis er alsiða á flugsýningum.  Auðvitað stendur í öllum reglum að menn skuli ekki fljúga lágt eða hægt , hvað þá hvorutveggja. Þarna er ekki verið að fljúga hægt sem er hættulegast. Þarna er bara flogið örlítið of lágt.

En flugmenn eru flugmenn og verða víst alltaf flugmenn. Þeir vita yfirleitt hvað þeir eru að gera. Þeir vita það líka þarna á traustum farkosti.  En þarna grípur Drottinn inn í atburðarásina. Regluverk mannanna breyta þarna engu um.  Það sem á ekki að  gerast gerist. DC10 var flogið inn í Mount Erebus af því að menn gleymdu sér við að horfa á ómerkilega sprungna peru. Það eru margar litlar þúfurnar sem hafa velt þungu hlassi. 

Augnabliks óaðgæsla flugmannanna leiðir til þess að vængurinn snertir jörðina. Þetta er alltaf möguleiki í svona flugi og þessvegna kitlar lágflugið alla flugmenn. Í svona flugi þenjast taugarnar og menn eiga að vera spenntir til hins ítrasta. Eftir því sem reynslan er meiri getur einbeitingin slaknað. Ég hef flogið svona svipað með reyndum flugstjórum og orðið skíthræddur, jafnvel togað í stýrið. þega mér ofbauð. Sá reynsluminni er yfirleitt meira strekktur á taugum en sá vani.   

Slysið verður ekki af vanhæfni flugmannanna eða vankunnáttu. Þetta er óhapp í öllum skilningi. Auðvitað hrikalega sorglegt. En við skulum ekki dæma einn eða neinn fyrir þetta. Flugvélin flýgur eins og henni er lagið og er bersýnilega vel flogið. Það vantar skyndilega örfáa sentímetra til að allt fari vel. En þeir eru ekki í boði að þessu sinni. Forlögin eru skyndilega hérna og enginn má sköpum renna.

Þannig er flugið og hefur alltaf verið. Manni er allt í einu neitað um smáræði eins og nokkra sentimetra, örlítið skyggni, eða sekúndubrot. Allt smáræði  sem skilur hárfínt á milli lifs og dauða. Hafandi verið heppinn og farsæll með allt fram að þessu augnabliki þá er þér neitað um smáræði. Hversu mörg eru ekki slysin og hversu mörg eru ekki tilvikin þegar slysum forðað fyrir tilviljun eða heppni. Í fluginu er stundum ekki boðið upp á endurtekningu.

Ég sendi öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hugsum hlýtt til allra sem þessu tengjast. Þetta var ólýsanlega sorglegt slys. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rannsókn er ekki lokið. Það er aðalatriðið. Þó sést að vélin hallar minnst 70 gráður, hvernig sem því stendur. Í þeirri stöðu getur hún ekki haldið hæð nema á 250 mílna hraða (400 km) sem er alger hámarksflughraði vélarinnar.

Ómar Ragnarsson, 6.1.2014 kl. 18:28

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi.

Ef lyftikraftur vængsins fylgir cosínus af halla vængsins þá jafngildir 70° halli því að hann sé kominn niður í um 35%.  Það gefur auga leið að vélin missir hæð nema hraðinn sé mikill.

60° halli jafngildir því að lyftikrafturinn er kominn niður í 50%  og 45° jafngildir því að lyftikrafturinn sé kominn niður í um 70%.

Ég sé ekki betur á myndbaninu en að þetta sé skýringin á því að vélin missir hæð.

Ágúst H Bjarnason, 6.1.2014 kl. 19:01

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Vélin er ekki í neinni stöðu sem ekki er hægt að fljúga henni útúr. HHún stefnir hinsvegar niður í beygjunni.Of lengi.Smáleiðrétting og ekkert hefði gerst.Hún er á gríðarlegri ferð. Skrokkurinn svo flýgur líka og skapar lyftikraft, þessvegna er hægt að fljúga hnífsegg. Vélin missir ekkert hæð sem ekki er hægt að endurheimta á augnabliki, hvorugur vængurinn er stollaður held ég. Spyrjið Magga Norðdahl

Halldór Jónsson, 6.1.2014 kl. 21:03

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Talaði við Magga. Hann er nokkuð sammála mér um að vélin sé fljúgandi en ekki á réttri stefnu

Halldór Jónsson, 6.1.2014 kl. 23:54

5 Smámynd: Þorkell Guðnason

Þótt ég sé þér ekki sammála...

"Halldór Jónsson verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari -ekki góður í neinu af þessu-"

...tel ég hæfa að hafa fá orð um þennan sorgaratburð. Eitt vil ég þó segja: Nafnbirting og umfjöllun fjölmiðla um manninn sem lifði af, en enga ábyrgð bar á slysinu, tel ég fádæma tillitsleysi, ef ekki hreinlega glæpsamlegt athæfi.

Annars er tímabært að flugsinnar kveiki á perunni:

Hvað skyldi liggja að baki óvenju mikilli umfjöllun íslenskra fjölmiðla undanfarna daga, þar sem neikvæðum atburðum í flugi út um allan heim eru gerð ítarleg skil og jafnvel vegið að flugi með andúð og óhróðri?

Það skyldi þó ekki eiga að styrkja andstöðu við BIRK?

Þorkell Guðnason, 7.1.2014 kl. 00:38

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þegar lóðréttur lyftikraftur vængjanna er vegna halla flugvélarinnar orðinn minni en lóðréttur kraftur vegna þunga flugvélarinnar getur hún ekki annað en lækkað flugið. Kraftarnir eru ekki lengur í jafnvægi eins og í venjulegu flugi. Það er einföld flugeðlisfræði.

Þegar flogin er hnífsegg eða skrokkurinn notaður sem vængur þarf að auka áfallshornið á hann svo hann fái lyftikraft, en það er ekki hægt öðru vísi en með hliðarstýrinu sem fær þá hlutverk hæðarstýrisins. Það vita allir listflugmenn, en það krefst mikillar þjálfunar að gera það rétt og ólíklegt að venjulegir flugmenn fái þjálfun í slíku. Aðeins þannig, og með nægu vélarafli, er hægt að koma í veg fyrir að flugvélin missi flughæð þegar hallinn er orðinn svona mikill.

Það er "í lagi" að gera svona æfingar í löglegri 300  metra hæð (ef menn kunna það) og munar þá ekkert um þó vélin sigi um 30 metra, en það er ekki í lagi að gera það í 30 metra hæð.


Ágúst H Bjarnason, 7.1.2014 kl. 07:51

7 Smámynd: Skeggi Skaftason

Það vantar skyndilega örfáa sentímetra til að allt fari vel.

Þetta segir mér svart á hvítu að þarna var verið að taka töluverða áhættu.

Skeggi Skaftason, 7.1.2014 kl. 09:36

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Gústi frændi,

Vélin er á braut sem stefnir niður. Svona eins og orrustuvél í ásrásarflugi. Þetta er enginn spírall sem hún kemst ekki út úr. Hún er ekkert að detta eða beygjustolla. Smá aileron og/eða rudder til hægri lyftir vængnum samstundis og vélin flýgur upp, gæti farið lóðrétt upp þessvegna vegna hraðans. Þetta er bara sorglegt "Act of God". Það er klárt að þetta atriði er ekki samkvæmt reglugerðum eða handbókum og þýðingarlaust að velta slíku fyrir sér eins og Skaftason er að hugsa um og skiptir engu héðan af.

Tilgangslaust að setja fleiri reglur eða fjölga skoðunum.

Keli, ég trúi ekki að neinn sé vísvitandi að ófrægja flug í póitískum tilgangi.

Ómar, hvað gerir þú í svona beygju?

Halldór Jónsson, 8.1.2014 kl. 17:25

9 Smámynd: Þorkell Guðnason

Dóri, sá sem þarna stýrði hafði kunnáttu, reynslu og þjálfun og ætlaði sér örugglega engan að meiða. Það er ekki til sóma að fílosófera í allra áheyrn um um þetta slys. Ég ætla að halda mig við að hafa um það sem fæst orð.

Ef þú gripir niður í játningaskrif Össurar, fengir þú líklega smjörþefinn af því hvernig plott einmitt þessara fara fram.

Þorkell Guðnason, 8.1.2014 kl. 23:05

10 Smámynd: Þorkell Guðnason

Þarna hurfu greinaskil á versta stað. Þau áttu að vera á undan: Ef þú gripir niður í ...

Þorkell Guðnason, 8.1.2014 kl. 23:08

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Halldór frændi

Menn eiga auðvitað ekki að vera að deila um svona slys opinberlega, en þú skrifar "Vélin er á braut sem stefnir niður. Svona eins og orrustuvél í ásrásarflugi. Þetta er enginn spírall sem hún kemst ekki út úr. Hún er ekkert að detta eða beygjustolla. Smá aileron og/eða rudder til hægri lyftir vængnum samstundis og vélin flýgur upp, gæti farið lóðrétt upp þessvegna vegna hraðans."

Þetta er ekki alveg rétt.  Það er ekkert til sem heitir samstundis í þessu máli. Það tekur kraftana frá stjórnflötunum ákveðinn tíma að vinna og breyta stefnu flugvélarinnar uppávið, á meðan heldur hún stefnu niðurávið í nokkra stund. Þetta vita allir sem kunna smávegis í eðlisfræði.  Vélin þarf ekkert að stolla, hún er einfaldlega að gera æfingar allt og nærri jörðu, nema eitthvað hafi bilað.  Vélin er á braut sem stefnir niður í nokkurra metra hæð, það er vandamálið.

Þegar ég skrifaði "Það er "í lagi" að gera svona æfingar í löglegri 300  metra hæð (ef menn kunna það) og munar þá ekkert um þó vélin sigi um 30 metra, en það er ekki í lagi að gera það í 30 metra hæð" átti ég einmitt við þetta.

En eðlisfræðinni verður ekki breytt, skriðþunginn  sér til þess að krafturinn sem útslag stýriflatanna orsakar (sem er takmarkaður) þarf að verka í ákveðinn tíma þar til stefnunni hefur verið breytt. Hefði flugvélin verið í 1000 feta eða 300 metra hæð, þá hefði þetat auðvitað ekki verið neitt mál.


Ágúst H Bjarnason, 9.1.2014 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419715

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband