Leita í fréttum mbl.is

Meiri fáránleiki

birtist manni dag eftir dag við að hlusta á umræðurnar á Alþingi um skýrsluna.

Morgunblaðið lýsir þessu vel í leiðara sínum í dag:

 Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið er skýr um það að engar varanlegar undanþágur eða varanlegar »sérlausnir«, eða hvað annað sem menn vilja kalla undanþágurnar, eru í boði fyrir umsóknarríki. Þetta á sérstaklega við um sjávarútveg og landbúnað vegna þess að »[s]ameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum,« eins og segir í skýrslunni.

Þar er kafli sem heitir Möguleikar nýrra aðildarríkja á undanþágum varðandi landbúnað og sjávarútveg þar sem þetta kemur ótvírætt fram. Þar segir: »Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála.«

Svo er fjallað um tilraunir Norðmanna til að fá slíkar undanþágur vegna sjávarútvegs í norðanverðum Noregi: »Norðmenn kröfðust þess að fá undanþágur fyrir tiltekin hafsvæði í samningum sínum við bandalagið 1994. Kröfur Norðmanna fólu í sér að þeir skyldu áfram stjórna öllum hafsvæðum norðan 62. gráðu norðlægrar breiddar og að auki að allar fiskveiðiauðlindir í norskri lögsögu væru áfram tryggðar Norðmönnum. Norðmenn byggðu þessa kröfu m.a. á því að sjávarafurðir væru mikilvæg útflutningsvara og að sjávarútvegur hefði afgerandi þýðingu fyrir búsetu og atvinnustarfsemi á strandsvæðum Noregs. Þau sjónarmið voru viðurkennd af hálfu sambandsins. Niðurstaða aðildarviðræðnanna varð sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.«

Þetta gæti ekki verið skýrara. ESB viðurkenndi að sjávarútvegur hefði »afgerandi þýðingu« fyrir Norður-Noreg, en Norðmenn fengu samt engar varanlegar undanþágur. Og þetta var fyrir tuttugu árum, en síðan þá hefur afstaða ESB orðið enn eindregnari að þessu leyti. Þegar málið er jafn augljóst, hvernig stendur þá á því að aðildarsinnar halda áfram með sínar röngu fullyrðingar? Í samtali við Morgunblaðið í fyrradag segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, til að mynda: »Umsóknarríki geta náð fram lausn á brýnum hagsmunamálum í gegnum sérlausnir.« Dæmið sem hann nefnir máli sínu til stuðnings er það norska um 62. breiddargráðuna og hann dregur af því þá ályktun að »Íslendingar myndu einnig ná séríslensku fiskveiðistjórnunarsvæði umhverfis Ísland fram sem sérlausn.«

Getur verið að fyrrverandi utanríkisráðherra þekki reglurnar ekki betur en þetta og sé svo illa læs á skýran texta að honum hafi óafvitandi orðið á þau mistök að fara rangt með? Eða er þetta liður í þeim ósannindaspuna sem varð til þess að þingið samþykkti að sækja um aðild og hefur síðan verið notaður til að halda aðlögunarferlinu gangandi?

Nú getur hver svarað þessum spurningum fyrir sig, en við þetta má bæta, til að reyna að fyrirbyggja frekari útúrsnúninga og rangfærslur, að í skýrslunni er einnig talað um breytingar á reglum ESB í þágu einstakra aðildarríkja og tekið dæmi af landbúnaði norðan 62. breiddargráðu. Sú heimild sem veitt var um stuðning við landbúnað svo norðarlega »er bundin reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin setur,« segir í skýrslunni. Í reglunum eru skilyrði um heildarstuðning og tegund stuðnings og í skýrslunni er einnig bent á að stuðningurinn »getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins í landbúnaðarmálum.« Hann er sem sagt fjarri því að vera varanlegur og aðeins háður vilja ESB.

Reynslan fyrir og eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar var birt segir að ósannindin um undanþágurnar muni halda áfram. Smám saman munu þó fleiri átta sig á hvernig í málinu liggur og hvílíkum málflutningi hefur verið haldið uppi hér á landi af hálfu heitra aðildarsinna. Fyrrnefndur fyrrverandi utanríkisráðherra hefur ef til vill ekki áhyggjur af trúverðugleika sínum í framtíðinni, en einhverjir baráttufélagar hans hljóta að hafa það og ættu því að reyna að færa málflutning sinn nær sannleikanum. "

Hvernig geta sumir háttvirtir Alþingismenn haldið áfram að túlka niðurstöður fræðilegrar skýrslu um staðreyndir á annan hátt en í henni segir berum orðum? Engar undanþágur í fiskveiðum í tuttugu ár.

Og það sem meira er að ætlast til þess að við trúum þeim þeim mun meira sem fáránleikinn birtist skýrar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 3419867

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband