Leita í fréttum mbl.is

Hvert fór byggðakvótinn

þegar Vísir lokaði útibúum sínum fyrir norðan og vestan og flutti starfsfólkið í blokk í Grindavík?

ÞessarÚtstöðvar VÍSIS úr Grindavík byggðu á byggðakvóta staðanna að því að ritsjóri DV skrifar í leiðara helgarblaðsins:

" Ömurlegir fólksflutningar eiga sér nú stað frá Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi þaðan sem tugir manna eru að flytja nauðugir viljugir til Grindavíkur. Ástæðan er sú að einn atvinnurekandi hefur tekið þá ákvörðun að hætta fiskivinnslu á þessum stöðum og flytja reksturinn í heimabyggð sína. Lokið er áralöngum rekstri þar sem blóð þorpanna knúði áfram myllu fyrirtækisins að sunnan. Einn góðan veðurdag eru svo ljósin slokkt og vélarnar þagna. Sumstaðar er fátt framundan.

Allt frá því fyrstu hugmyndir um kvótakerfið komu fram voru uppi varnaðarorð um að þorpin og bæirnir allt í kringum landið ættu engan rétt. Samfélög sem um aldir höfðu lifað og dafnað á veiðum og vinnslu á fiski voru skyndilega háð duttlungum markaðarins. Lifandi, óveiddur fiskur varð söluvara. Miðunum var lokað nema gegn gjaldi. Náttúruöflin voru ekki lengur helsti ógnvaldur sjómanna sem sóttu lífsbjörgina. Miskunnarlaus markaðsöflin tóku við og fólkið stóð eftir ráðalaust.

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, benti á þessa hættu sem steðjaði að fólkinu á landsbyggðinni áður en kvótakerfið var tekið upp í skugga svartrar skýrslu um ástand fiskistofna. Hann vildi taka upp kvótakerfi en tengja veiðiheimildarnar byggðunum til þess að ekki væri hægt að hrifsa lífsbjörgina frá fólkinu og svipta það rétti sínum og möguleika til að komast af í heimabyggð sinni. Einar Oddur Kristjánsson, seinna alþingismaður, varaði við því á fundi í Alþýðuhúsinu á Ísafirði að það blasti við að Vestfirðingum yrði komið fyrir í blokk í Reykjavík. Annar stjórnmálamaður og síðri lagði til í umræðu um vanda í tilteknu vestirsku sjávarþorpi að fólkið yrði flutt suður og ríkið keypi húseignir þess.

Í aðdraganda kvótakerfisins voru flestir sammála um að fólkinu í sjávarbyggðunum stæði ógn af fyrirbærinu. Því var gripið til þess að búa til svokallaða potta utan við kvótakerfið svo hægt yrði að bæta einstökum byggðum skaðann. Og það var á þessi mið sem sjávarútvegsfyrirtækið Vísir réri þegar hann kom sér fyrir á Þingeyri. Þorpið stóð í skugga þess að skip og veiðiheimildir voru farnar og eymdin ein blasti við. Frelsarinn reyndist vera í Grindavík. Forsvarsmenn Vísis stofnuðiu útbú vestra og fengu byggðarkvóta að launum. Árum saman hefur þetta fyrirkomulag gengið upp og fólkið á Þingeyri hefur haft vinnu. Vísismenn opnuðu útstöðvar á Djúpavogi og Húsavík undir svipuðum formerkjum. Almennt nutu þeir velvildar og fyrirtækið virtist dafna vel á meðgjöf ríkisins. Og þeir áttu traust og virðingu þeirra sem nutu góðs af veru þeirra.

Þær fréttir að Vísir hyggðist loka öllum þremur útstöðvunum komu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Þetta var reiðarslag fyrir Þingeyringha, Húsvíkinga og Djúpavogsbúa. Fyrir vestfirska þorpið blasti við reiðarslag. Langstærsti atvinnurekandinn fór sömu leið og gerðist á Flateyri nokkrum árum fyrr. Ein ákvörðun um lokun og afkoma þorpsbúa er í rúst. Aðkomumennirnir í Grindavík höfðu fengið sitt og þeir voru farnir. Og það ömurlega við þetta er að fagurgali um að koma af stað annarri starfsemi reyndist innantómur. Þess í stað' ákváðu þeir að bjóða fólkinu að yfirgefa heimabyggðir sínar og setjast að í fjölbýlishúsi í Grindavík þar sem aðeins einn íbúi hafði búið árum saman. Eftir standa hús fólksins í þorpum sem hafa verið svipt möguleikanum til að lifa af. Spádómur Einars Odds um að Vestfirðingar yrðu fluttir hreppaflutningum í blokk höfðu gengið eftir. Það sem hann á ekki fyrir á þeim tíma var að áfnagastaður hinna smáðu var Grindavík en ekki höfuðborgin.

Vandinn liggur í því að á Íslandi er engin virk byggðastefna. Kylfa ræður kasti og enginn hefur minnsti hugmund um það hvernig byggðaþróun verður á næstu árum. Á einni nóttu er hagur heillu þorpanna í uppnámi. Stjórnvöld verða að finna leið til þess að tryggja að fólk standi ekki á berangri eins og fyrrverandi skjólstæðingar Vísis nú. Með einhverjum hætti verður að verja fólkið fyrir markaðsöflunum. Sú leið að auka byggðarkvóta og binda hann enn frekar við sjávarplássin er möguleg. Aðalatriðið er að stjórnvöld geri sér grein fyrir því að mannvirki og þekking á fiskivinnslu þarf að vera til staðar um allt land. Það er engum til góðs að svipta fólk sjálfsvirðingunni með hreppaflutningum. "

Það er ömurlegt að það þurfi DV til að taka þetta mál fyrir og skoða ofan í kjölinn.

Eru þessar fréttir til þess að efla okkur kjósendur Sjálfstæðisflokksins í trú á hið mikla kvótakerfi þar sem engu má breyta? 

Verður ekki að fara að ræða gallana á kvótakerfinu jafnframt því að lofsyngja það? Hversvegna þorksaflinn hefur haldið áfram að minnka allan kvótatímann þrátt fyrir vísindaveiðar?

Og hvert fara svo þessir byggðakvótar? 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þörf hugleiðing, Halldór en maður er orðinn alveg úrkula vonar um að þetta manngerða óréttlætismál verði nokkurn tíma lagað af nokkru viti. Þessar smávægilegu mótvægisaðgerðir hér og þar gera ekkert annað en að gera kerfið flóknara og verra. Er það réttlætanlegt að gera fólk vítt og breitt um landið eignalaust vegna rekstrarlegra og hagrænna þátta í sjávarútvegi?  Hvar eru bæturnar til þess mikla fjölda fólks, sem fyrir þessu hefur lent?   Er það ekki forsendubrestur eins og sá sem nú er verið að bæta fólki með skuldalækkun?  Manngerður af Alþingi. Eitt skammarlegasta mál íslandssögunnar.

Þórir Kjartansson, 4.5.2014 kl. 11:03

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Flott hjá þér Halldór að átta þig loksins á alvarlegum afleiðingum ríkjandi fiskveiðistjórnarkerfis.  Á afleiðingarnar var bent strax í upphafi svo því sé haldið til haga. En á gagnrýni hefur aldrei verið hlustað og ómældum milljónatugum hefur verið varið í að treysta þetta skaðlega kerfi í sessi.  Fræðasamfélagið með Hafró í fararbroddi notað til að gefa gjafakvótakerfinu faglegan stimpil og fjölmiðlum eins og Morgunblaðinu og RUV miskunnarlaust beitt í þágu kvótagreifa innan LÍÚ.

EN sveitastjórnarmenn bera líka mikla ábyrgð.  þeir hafa þagað þunnu hljóði í 30 ár og með þögn sinni gefið samþykki fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað með sífellt meiri samþjöppun í eignarhaldi á kvóta og tilheyrandi byggðaröskunum.  Menn tala nú mikið um Vísi en vandinn byrjaði starx með sölu Guðbjargarinnar ÍS og gjaldþroti Norðurtangans á Ísafirði sem var undanfari veldis Guðmundar í Brim.  En þessu eru menn búnir að gleyma.  Og hvað með sölu á fyrirtæki Magnúsar Kristinssonar frá Eyjum?  Þar var maður að gambla með lífsafkomu 100 fjölskyldna og varla að neinn nennti að hneykslast.  Alla vega sá ég fáar bloggfærslur frá dyggum sjálfstæðismönnum þótt Elliði Vignisson hafi fyrir asiðasakir hreyft veikum mótbárum.  Og sams konar uppá koma varð í Hafnarfirði um síðustu áramót.  

En iðrandi syndurum ber að fagna og ef þessi grein er vottur um breytt hugarfar innan Sjálfstæðisflokksins þá ber að fagna því en er ekki staðreyndin sú að það er ekkert hlustað á gagnrýni hjá flokkseigendafélaginu?  Og með fullri virðingu fyrir þér þá ert þú ekki einn af þeim Halldór.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.5.2014 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband