Leita í fréttum mbl.is

Þarfir Íslands

eiga ekki að ráða vali á innflytjendum til landsins að því að fram kemur í máli ýmissa yngri manna svo sem nýlegt viðtal við heilsuhagfræðinginn Gylfa Ólafsson bar með sér.

Í Fréttablaðinu í dag er leiðari sem kemur inn á þetta:(bloggari feitleitrar)

" Í gær skaut svonefndur draugur upp kollinum á netinu; gamalt myndband af Sir Nicholas Winton í sjónvarpssal BBC. Án þess að vita af því situr hann í fullum sal af gyðingum frá Prag, fólki sem hann bjargaði frá nasistum þegar þau voru börn. Þetta er áhrifaríkt myndband og sá sem þetta skrifar er nú ekki meiri harðjaxl en svo að hann komst við þegar það bar fyrir augu. Nicholas þessi Winton vann sér það til frægðar að hafa á árunum 1938-1939 bjargað alls 669 börnum frá nær öruggum dauða. Afrek hans varð reyndar ekki almennt á vitorði fólks fyrr en 50 árum síðar þegar konan hans komst í dagbækur Wintons og sagði af þrekvirki manns síns.

 

Nicholas bjargaði börnunum og kom þeim í fóstur hjá fjölskyldum víðs vegar um Bretland. Hann hélt skrá yfir börnin og hvert þau fóru. Þessa skrá komst konan hans svo í og tók að senda fólkinu bréf sem endaði svo í fyrrnefndum sjónvarpssal. Þetta einstaklingsframtak minnir okkur á hvað við flest gerum í raun lítið til að hjálpa bræðrum okkar og systrum. Víst er að ekki skortir verkefnin og tækifærin til að drýgja hetjudáð og bjarga börnum frá óöld.

Við Íslendingar teljum okkur í þessu samhengi vilja fólki almennt vel en gleymum því oft þegar á hólminn er komið. Í vor tilkynnti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra reyndar að við ætlum að taka á móti tíu til fimmtán manns frá Sýrlandi, helst börnum, en því miður kemur sú viljayfirlýsing okkur seint á blað yfir sannkallaða mannvini. Miðað við höfðatölu er þetta sambærilegt því að Svíar tækju á móti ríflega fjögur hundruð flóttamönnum. Það gera þeir ekki. Þeir hafa síðustu tvö ár tekið á móti 26 þúsund manns frá Sýrlandi. Ef við Íslendingar vildum standa jafnfætis Svíum þyrftum við að taka á móti 900 flóttamönnum til viðbótar við þessa tíu eða fimmtán. Við rétt klórum upp í 1,6 prósent af því sem Svíar hafa afrekað á þessu sviði. Og þeir virðast hvergi nærri hættir.

 

Yfir milljón sýrlensk börn eru á flótta en átökin í föðurlandinu hafa nú staðið yfir í um þrjú ár. Talið er að í heild séu um þrjár milljónir barna í verulegum vandræðum á þessu svæði. Þau búa ekki við öryggi og matur og lyf eru af skornum skammti. Við getum auðvitað ekki bjargað þeim öllum. Við getum heldur ekki leyst úr vandræðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Kannski getur enginn mannlegur máttur leyst úr þessari flækju og það er eðlilegt að upplifa mikinn vanmátt þegar hugað er að hörmungum í heiminum. En við getum samt gert betur en að bjóða tíu eða fimmtán manns hæli á Íslandi.

 

Flugfarþegum er kennt af flugþjónum að setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfa sig og því næst á börn sín, á þeirri forsendu að farþegar geri lítið gagn falli þeir í ómegin. Vissulega verðum við að huga hér að innviðum og stefna að því að vera í stakk búin til að geta rétt út hjálparhönd. Aðstæður flóttafólks eru hins vegar slíkar, borið saman við þá velmegun sem við búum við hér, að það má heita ómerkilegt að blanda umræðu um hjálparstarf sem þetta saman við þjóðarstolt og þjóðerniskennd. Jaðrar við mannvonsku. Við ættum hæglega að geta tekið á móti nokkur hundruð börnum frá Sýrlandi þótt margt megi betur fara á Íslandi. Því verður nefnilega seint trúað að það sé eitthvað í fari Íslendinga sem geri okkur minni manneskjur en Svía eða Sir Nicholas Winton. "

Nú verður ekki ráðið af greininni hvort höfundur er að tala um börn eingöngu og þá til ættleiðingar hér á landi. Eða hvort fullorðið fólk frá sama stað á að fylgja með? Hvort er þá um að ræða að velja á milli fólks samkvæmt þörf Íslendinga eða hvort slembiúrtak á að ráða för. Hvort höfundur vill ættleiða börn eða hvort hann vill fá flóttafjölskyldur hingað með börnunum.

Víst er að ættleidd börn á vegum sir. Wintons hafa auðveldlega aðlagast bresku samfélagi. Sýrslensk börn uppalin á Íslandi myndu aðlagast okkur. En stríðsþreyttir bardagamenn súnnita eða sjíta? 

Hversvegna eiga aðrar þjóðir að glíma við vandamál innanlandsátaka hvar sem er í heiminum? Ber ekki að loka fremur landamærum þeirr ríkja og hindra þannig alla umferð vopna og fólks um landamæri heldur en að hafa þau opin?  Hverjar eru ástæður borgarastyrjalda? Um hvað er barist? Völd og peninga? Einhverjar hugsjónir sem okkur koma við?

Ætlum við Íslendingar ekki að móta okkur neina innflyrjendastefnu sem er eitthvað í takt við vilja meirihluta þjóðarinnar?  Eða eiga aðeins nokkrir útvaldir að ráða henni? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband