Leita í fréttum mbl.is

Hanna Birna

stendur í stórræðum þessa dagana. Ekki vegna málefna Reykjavíkurflugvallar sem hún setti í klókindalega bið fyrir vinstri flokkana fram yfir kosningar með skipan Rögnu-nefndarinnar heldur annarra mála óskyldra.  

En deilan um Reykjavíkurflugvöll hefur hvergi nærri vikið frá þó að þessi biðleikur hennar fyrir Vallaróvini, hafi vikið henni frá um stund. Annar kaleikur er henni boðinn af DV og nú skal víst drukkið í botn að hætti Reynis Traustasonar.

Leifur Magnússoon skrifar að öðrum mönnum ólöstuðum manna skynsamlegast um flugmál. Nýtur hann þar auðvitað langrar reynslu sinnar af störfum í þeim geira auk eigin ágætis. Í Morgunblaðinu í dag  fer hann skipulega yfir það sem vinir Reykjavíkurflugvallar hafa að mótstöðumönnum og víkur nú óvenjulega en kannski nú óhjákvæmilega að áhrifum stjórnmálamanna á allt það ferli..

Leifur segir:(bloggari feitletrarar að eigin vali

"Allann seinni helming síðustu aldar var meðal lykilverkefna samgönguráðuneytis, Flugráðs og Flugmálastjórnar Íslands að stuðla eftir mætti að þróun flugsamgangna á Íslandi, og í því skyni byggja hér upp og reka flugvelli og tilheyrandi öryggisþjónustu. Í núverandi breyttri stjórnsýslu ríkisins eru arftakar þeirra innanríkisráðuneytið, Samgöngustofa og Isavia ohf.

 

Á vefsíðu innanríkisráðuneytis sést að »flugmál« eru nú aðeins eitt af 44 verkefnum þess ráðuneytis. Samgöngustofu er ætlað að »annast stjórnsýslu og eftirlit með flugi, siglingum og umferð og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og leiðsögu«. Isavia er opinbert hlutafélag sem á að reka flugleiðsöguþjónustu, flugvelli og tengda starfsemi og fer fjármála- og efnahagsráðherra með hlut ríkisins í félaginu. Tvö langstærstu verkefni Isavia felast nú í rekstri Keflavíkurflugvallar, flugstöðvar hans og fríhafnar og rekstri alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík samkvæmt samningi við ICAO. Þá er hætt við að ýmis önnur hefðbundin verkefni, eins og rekstur annarra flugvalla, hljóti eitthvað slakari athygli.

 

Á áratugnum 2002-2011 fengu íbúar Reykjavíkur að kynnast forystu samtals átta borgarstjóra. Þá kom fram að einn þeirra væri eindreginn stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og annar studdi flugvöllinn oftast, en þó ekki alltaf. Hinir sex höfðu að yfirlýstu markmiði að flugvellinum ætti að loka sem fyrst til þess að borgarstjórnin gæti þá úthlutað byggingarlóðum á svæði hans og þar með bætt stöðu sína í samkeppni um íbúa við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Ekki svo að segja að þessir sex væru andvígir flugsamgöngum sem slíkum. Nei, - en flugvöllurinn ætti bara að vera »á einhverjum öðrum stað«.

 

Af þessum sex borgarstjórum eru tveir hættir afskiptum af opinberri stjórnsýslu. Eftir feril sem þingmaður og ráðherra réð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sig til starfa erlendis og Jón Gnarr ákvað í vor að gefa ekki aftur kost á sér í framboð til borgarstjórnar. En hvað varð um hina fjóra borgarstjórana sem allir voru á móti flugvellinum, Þórólf Árnason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Dag B. Eggertsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur?

 

Hanna Birna tók við embætti innanríkisráðherra í maí 2013 og varð þar með æðsti yfirmaður íslenskra flugmála. Steinunn Valdís hefur nú verið ráðin sem sérfræðingur til innanríkisráðuneytisins og er í fréttatilkynningum þess stundum einnig sögð vera »sérstakur fulltrúi ráðherra«. Í sveitarstjórnarkosningunum 2014 féll borgarstjórn þeirra tveggja framboða í Reykjavík, sem stýrt höfðu borginni undanfarið kjörtímabil og m.a. lagt fram meingallaða tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þau tvö framboð fengu hins vegar snöggan stuðning tveggja annarra lítilla framboða til framlengds umboðs til að stjórna borginni næsta kjörtímabil og kusu sér síðan Dag B. sem sinn borgarstjóra.

 

Þann 4. mars sl. var í Ráðhúsi Reykjavíkur efnt til kynningarfundar þáverandi borgarstjórnar og fasteignafélaganna Valsmenn hf. og Hlíðarfótur ehf. til að viðra hugmyndir þeirra um uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu norðaustur af flugvellinum. Ein af grunnforsendum slíks er að flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Meðal þeirra sem þá stigu í pontu var Þórólfur Árnason, þáverandi stjórnarformaður Isavia ohf., sem m.a. rekur Reykjavíkurflugvöll. Þar lýsti hann því yfir að hann gerði enga athugasemd við tillögu um lokun flugbrautarinnar.

 

Væntanlega hefur honum þá ekki verið efst í huga að lokun flugbrautarinnar myndi lækka nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar úr 98,2 í 93,8%, samsvarandi 16 daga árlegri viðbótarlokun flugvallarins, og þá með augljósum alvarlegum afleiðingum fyrir áætlunarflugið og sjúkraflugið til Reykjavíkur. Þá væri nothæfisstuðull flugvallarins, skilgreindur og reiknaður samkvæmt ákvæðum reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007 og alþjóðlegum flugtæknireglum ICAO Annex 14, einnig kominn niður fyrir það 95% lágmark sem þar er krafist.

 

Réttum mánuði síðar, 3. apríl sl., á aðalfundi Isavia ohf., var Þórólfur ekki endurkosinn í stjórn félagsins eftir að hafa verið stjórnarformaður þess undanfarin fjögur ár. Nú hefur Hanna Birna innanríkisráðherra hins vegar ákveðið að bæta bærilega úr þessum meinta skavanka fjármála- og efnahagsráðherra og skipað Þórólf sem forstjóra Samgöngustofu til næstu fimm ára.

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gerir ráð fyrir að N-S aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað strax árið 2022, þ.e. eftir aðeins átta ár. Við það ógæfuskref verður flugvöllurinn strax ónothæfur fyrir áætlunarflugið. Í samgönguáætlun 2011-2022, sem Alþingi samþykkti 19. júní 2012, er gert ráð fyrir »að teknar verði upp viðræður milli ríkis og Reykjavíkurborgar og tryggt að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt«. Þá verður nú heldur betur heppilegt, þegar andi samræðupólitíkur svífur yfir vötnum, að báðum megin borðs sitji einungis núverandi og fyrrverandi borgarstjórar, - og allir á móti flugvelli í Vatnsmýri. "

 

Hanna Birna ráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs gerði einstæðan svikasamning við Jón Gnarr um að hleypa byggingum inn á svæðið undir neyðarbrautinni. Þvert á málefnasamning ríkisstjórnarinnar. Sigmundur Davíð sem var viðstaddur neitaði þó að að vottfesta það samkomulag sér  til sóma og happs fyrir Framsóknarflokkinn svo sem síðar kom fram með Sveinbjörgu Vallarvini í Borgarstjórnarkosningunum .

Bæði vegna þessarar gerðar og fyrri afstöðu í skipulagsmálum hefur  Hanna Birna unnið sér til óhelgi í röðum okkar flugvallarvina. Síðustu gerðir hennar sem felast í því að skipa Þórólf  Árnason, óvin Reykjavíkurflugvallar,sem yfirmann Samgöngustofu og ráða Steinunni Valdísi, sömuleiðis Vallaróvin,  sem sérstakan aðstoðarmann, festa hana ekki beinlínis í sessi sem sérstakan vin Reykjavíkurflugvallar  og þeirra 70.000 sem skrifuðu á varnarskjalið.

Nú þegar Hanna Birna á í vök að verjast vegna annarra mál sem við Vallarvinir höfum hvergi nálægt komið, þarf hún ekki að biðja okkur um að gráta með sér.  Það verða þeir vinir Hönnu Birnu, Dagur B., Þórólfur Árnason,  EssBjörn,  Jón Gnarr, Steinunn Valdís og hvað hann heitir  Píratinn að annast fyrir hana.

Verða tár hugsanlega líka vandfundin í Garðabæ eftir fundinn þar með formanninum sællar minningar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband