Leita í fréttum mbl.is

Óli Björn enn á ferð

í Morgunblaðinu í dag:

"Það er merki um góða fjármálastjórn að Bjarni Benediktsson skuli annað árið í röð leggja fram frumvarp til fjárlaga þar sem gert er ráð fyrir afgangi af rekstri ríkisins. Þannig er fyrri lotan að vinnast en sú síðari er eftir; að greiða uppsafnaðar skuldir og hagræða í rekstri.

 

Ríkissjóður er hættur að safna beinum skuldum. Verkefnið á komandi árum er að greiða niður skuldir og skapa þannig raunveruleg tækifæri til að fjárfesta í innviðum samfélagsins allt frá heilbrigðisþjónustu, til samgangna og menntastofnana. Um leið er lagður traustur grunnur að lækkun skatta til frambúðar og samhliða því að auka möguleikana til að standa sómasamlega við bakið á þeim sem þurfa á aðstoð að halda.

 

Lækkun skulda og þar með vaxtagreiðslna er gríðarlegt hagsmunamál allra kynslóða. Fyrir ungt fólk er þetta spurning um lífskjör á komandi áratugum. Þung skuldabyrði verður ekki borin með öðrum hætti en með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera á öllum sviðum. Skuldsetning ríkisins og hins opinbera í heild ógnar ævikvöldi þeirra sem nú eru á miðjum aldri. Sligandi vaxtagreiðslur koma í veg fyrir fjárfestingu í innviðum og þjónustu heilbrigðiskerfisins ekki síst þegar kemur að öldrunarþjónustu. Lífeyris- og almannatryggingakerfinu er ógnað.

 

57% af skatttekjum

 

Í langtímaáætlun er ekki gert ráð fyrir að vaxtakostnaður ríkissjóðs lækki að nafnverði. Á næstu fjórum árum mun ríkissjóður því greiða í heild nær 340 milljarða króna. Þetta jafngildir liðlega 57% af öllum skatttekjum á komandi ári samkvæmt fjárlagfrumvarpinu.

 

Gangi áætlun fjármálaráðuneytisins eftir er ljóst að vaxtagreiðslur íslenskra skattborgara á tíu árum, frá 2009 til 2018, nema samtals liðlega 785 milljörðum á verðlagi hvers árs. Þetta þýðir að landsmenn »missa út« eitt ár og tveimur mánuðum betur - þ.e. allar tekjur ríkisins í 14 mánuði hverfa í greiðslu vaxta.

 

Nettóskuldir ríkissjóðs námu um 828 milljörðum króna í lok síðasta árs að teknu tilliti til krafna ríkissjóðs og handbærs fjár. Í heild námu skuldirnar hins vegar 1.459 milljörðum og við þær bætast ábyrgðir sem hvíla á ríkissjóði en þar vega þyngst skuldir Íbúðalánasjóðs og Landsvirkjunar. Þessu til viðbótar eru 408 milljarða króna lífeyrisskuldbindingar sem jafngilda um 69% af heildartekjum ríkissjóðs á liðnu ári.

 

Um 38 milljónir á fjölskyldu

 

Í heild nema skuldir, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar ríkisins um 3.092 milljörðum eða nær 38 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sem er ígildi 4-5 herbergja íbúðar á góðum stað á höfuðborgarsvæðinu.

 

Þetta eru vondu fréttirnar. Góðu fréttirnar eru þær að sameiginlega eigum við töluverðar eignir og við eigum mikla möguleika að reka ríkið með hagkvæmari hætti en nú er gert.

 

Eigið fé fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins nam í lok síðasta árs um 489 milljörðum króna samkvæmt ríkisreikningi. Í heild er verðmæti þessara fyrirtækja töluvert meira en bókfært eigið fé, þótt sum standi ekki undir því sem fært er til bókar. Þessu til viðbótar koma ýmsir beinir og óbeinir eignarhlutir í gegnum sjóði og stofnanir ríkisins. Þá eru ótaldar aðrar eignir.

 

Á meðfylgjandi yfirliti yfir fyrirtæki í eigu ríkisins sést að verðmætasta eignin, sé miðað við bókfært eigið fé, er Landsbankinn. Þar á eftir kemur Landsvirkjun en verðmæti hennar er a.m.k. helmingi hærra en bókfært eigið fé.

 

Hér er ekki lagt til að öll ríkisfyrirtæki verði seld að hluta eða öllu leyti. En það verður ekki hjá því komist að fram fari hreinskiptin umræða um hvaða eignir sé rétt að selja til að lækka skuldir.

 

Hvaða hag hafa landsmenn af því að eiga Landsbankann eða hluti í öðrum fjármálafyrirtækjum? Hlutur ríkisins í eigin fé banka og sparisjóða er um 265 milljarðar króna og söluverð er líklega töluvert hærra. Ríkissjóður skuldar 213 milljarða vegna þessara eigna.

 

Er ekki skynsamlegt að ræða kosti þess og galla að selja lífeyrissjóðunum helmingshlut í Landsvirkjun? Slík sala getur verið bundin þeim skilyrðum að ríkissjóður hafi einhliða kauprétt á hlutum lífeyrissjóðanna. Hagur lífeyrissjóðanna (landsmanna) styrkist, dregið er úr þenslu á eignamörkuðum, skuldir ríkissjóðs og þar með vaxtagreiðslur lækka og líklega mun lánshæfismat Landsvirkjunar hækka og þar með afkoman batna. Hverjir tapa á slíkum gjörningi?

 

Með þessum hætti á að fara í gegnum allar eignir ríkisins. Vega og meta þá kosti sem við stöndum frammi fyrir.

 

Enginn annar kostur

 

Þeir sem vilja ekki ræða hugsanlega sölu ríkiseigna eiga um tvennt að velja:

 

Þeir geta sætt sig við sligandi vaxtakostnað á komandi árum og áratugum og þar með skerta möguleika okkar til að byggja upp velferðarkerfið eða fallist á mikinn niðurskurð ríkisútgjalda, enda má öllum vera ljóst að ekki verður seilst dýpra í vasa einstaklinga og fyrirtækja á komandi árum (þvert á móti).

 

Hægt er að orða þetta með öðrum hætti: Sé það almennur vilji að byggja upp innviði velferðarsamfélagsins er enginn annar kostur en að lækka skuldir ríkissjóðs verulega. Það verður ekki gert nema með því að selja eignir og hagræða í rekstri. Þetta þurfa íslensk fyrirtæki og heimili að gera á hverjum degi.

 

Aðeins búskussinn reynir að velta vandanum á undan sér og neitar að horfast í augu við staðreyndir."

Margt þarflegt er í þessari grein sem vekur athygli á skuldastöðu ríkisins. Við eigum hinsvegar ekki aðeins um tvennt að velja.

Tillögur Óla Björns til lausnar eru hinsvegar sumar afleitar eins og hugmyndir að selja lífeyrissjóðum Landsvirkjun.  Miklu meira atriði er að lækka skuldir ríkissjóðs. Hluti af því er að ríkissjóður hætti að hlaða upp tugum  milljarða árlega af fé sínu í lífeyrissjóðunum. Það er búskussaháttur af ríkinu að selja lífeyrsisjóðunum eignir sínar gegn greiðslu í fé sem ríkissjóður á. Eða hvað? 

Ríki og sveitarfélög eiga þegar þúsund milljarða af fé lífeyrissjóðanna í formi framtíðarskattgreiðslna. Sjálfsagt þýðir ekki að stinga upp á þvíað það fé verði sótt. En byrjandi í dag má hætta að draga ekki staðgreiðsluna af framlagi launþega og atvinnurekenda  í lífeyrissjóðina. Á þeim forsendum til dæmis að þegar er komið nóg fé í sjóðina sem þeir eru í vandræðum með og er farið að valda usla í hagkerfinu og skekkingu og lýðræðishalla til langframa. Þetta er einföld aðgerð og skilvirk til að lækka skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga.

það er búskussaháttur að hirða ekki um eigur sínar þegar þörfin fyrir þær er augsýnileg. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Jónsson

Sú spurning, sem vaknar í mínum huga er, hvað þarf til að koma, svo lífeyrissjóðirnir sjá hag sinn í því að kaupa hlut í LV?

Verður arðsemin ekki að vera umfram ávöxtun á fjármagnsmarkaði?

Sé svo, er þá ríklissjóður ekki betur settur með því að eiga LV, fá arðgreiðslur, sem skila hærri ávöxtun en lánkjörin í stað þess að afhenda lífeyrissjóðum þann ávinning?

Ólafur Jónsson, 24.9.2014 kl. 11:14

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Nákvæmlega Ólafur, þetta dæmi þitt sýnir hversu afspyrnuvitlaus þessi hugmynd er. Bí,Bí,Dú,Dú

Halldór Jónsson, 24.9.2014 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband