Leita í fréttum mbl.is

Er einhver á línunni?

spyr Pétur á Sögu stundum þegar menn eru lengi að ræskja sig.

Gylfi Arnbjörnsson hefur nú blásið í herlúðra og stefnir landslýð til dýrðlegra verkfalla og taxtahækkana innan skamms. Veirð getur að honum sé mál á að reka af sér nokkurn yfirstéttarsvip sem færst hefur yfir ASÍ í hans amtstíð og slái því á frumskógartrumburnar frá velmektardögum Allaballans.

Bjarni Benediktsson  fjármálaráðherra gerir tilraun til þess að ná eyrum fólks með því að koma með röksemdir ríkisstjórnarinnar gegn því að hér verði að efna til verðbólgustryjaldar til að bæta kjörin eins og það kallast. Hvað segir Bjarni athyglisverðast í þessu sambandi?(bloggari feitletrar að vanda)

" Athugasemdir Alþýðusambands Íslands vegna aðgerða stjórnvalda til að bæta hag heimilanna standast ekki skoðun.

 

Ríkisstjórnin hefur tekið á skuldavandanum, lækkað tekjuskatt og styrkt velferð. Ábyrg ríkisfjármálastjórn hefur tryggt hærri tekjur um leið og skuldasöfnun ríkisins hefur verið stöðvuð. Allt þetta ásamt réttlátari skattastefnu hækkar ráðstöfunartekjur og gerir fólki auðveldara að ná endum saman. Að slík stefna sé nefnd aðför að launafólki eru hrein öfugmæli.

 

Förum yfir nokkrar staðreyndir:

 

1. Lækkun á miðþrepi tekjuskatts

 

Tekjuskattur 130 þúsund launþega hefur verið lækkaður. Miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækkaði úr 25,8% í 25,3% eða um 0,5% prósentustig, auk þess sem neðri viðmiðunarmörk þrepsins hækkuðu um tæpar 49 þús. kr. eða í 290 þús krónur.

 

Um 90% skattgreiðenda nutu góðs af lækkun miðþreps tekjuskattsins. Það er fráleitur málflutningur að kalla skattalækkanir sem ná til alls meginþorra launþega aðför að launafólki líkt og ASÍ hefur gert.

 

Þá lækkaði skattur sérstaklega hjá tekjulágum þar sem fleiri greiða nú eingöngu skatt í neðsta þrepinu með hækkun á lægra viðmiðunarmarki miðþrepsins. Skattur lækkaði á þá einstaklinga sem höfðu tekjur á bilinu 241.475-290.000 kr. á mánuði úr 40,22% í 37,3%, eða um tæplega þrjú prósentustig.

 

Skattkerfið er eftir sem áður með þeim hætti að vegna áhrifa persónuafsláttarins eru þeir sem greiða eingöngu skatt í lægsta skattþrepinu með minnstu skattbyrðina. Það er mikilvægt að vinda ofan af nýlegum skattahækkunum vinstristjórnarinnar á langflesta launþega, alla þá sem greiða skatta í milliþrepinu. Með þessu var fyrsta skrefið tekið.

 

2. Afnám auðlegðarskatts

 

ASÍ gagnrýnir að auðlegðarskattur hafi runnið sitt skeið á enda. Skatturinn er ósanngjarn eignaskattur þar sem ekkert tillit er tekið til tekna. Auk þess er rétt að benda á að það var fyrri ríkisstjórn sem lagði skattinn á tímabundið. Sú ráðstöfun er látin standa.

 

Tekjulágir eldri borgarar voru stór hluti greiðenda auðlegðarskattsins. Sýnt hefur verið fram á að um þriðjungur greiðenda var 65 ára og eldri og tveir þriðju þeirra með undir fimm milljónum króna í árslaun. Er því ljóst að margir hafa ekki getað greitt skattinn nema ganga á eignir sínar.

 

Þetta kallar ASÍ að "afsala" sér skatttekjum. Ríkisstjórnin vinnur ekki samkvæmt þeirri hugmyndafræði að lækkun skatta feli í sér afsal á réttmætum tekjum ríkisins. Stefnan er að halda sköttum lágum og veita einstaklingum svigrúm til athafna.

 

Þá fela tekjuaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki í sér tekjutap fyrir ríkið. Heildaraðgerðir ríkisstjórnarinnar leiða til hærri tekna þar sem undanþágur slitabúa frá bankaskatti hafa verið afnumdar og skatturinn hækkaður.

 

Fjármálafyrirtæki og slitabú borga nú hærri skatta. Þeir sem vinna borga lægri skatta. Það er réttlæti. Ekki aðför að launafólki.

 

3. Höfuðstólslækkun húsnæðisskulda

 

Gagnrýni ASÍ á aðgerðir ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra skulda heimilanna í landinu er sú að aðgerðirnar muni frekar nýtast tekjuhærri heimilum en þeim tekjulægri. Hið rétta er að fjögurra milljóna króna hámark á skuldaniðurfærslu á hvert heimili tryggir innbyrðis jafnræði milli ólíkra tekjuhópa og að skuldaniðurfærslan nýtist sem flestum.

 

Í 110% leiðinni tóku um níu þúsund heimili þátt. Þau skiptu 45 ma.kr. á milli sín og fékk tekjuefsta tíundin mest til sín með þeirri leið. Um 69 þúsund heimili taka þátt í núverandi skuldaniðurfærslu og skipta 73 ma.kr. á milli sín. Yfir 100.000 manns munu með beinum hætti njóta góðs af aðgerðunum sem mun létta greiðslubyrði lána og eru þá ótaldir allir þeir sem nýta sér skattfrelsi lífeyrisiðgjalda í séreignarsparnaðarleiðinni.

 

Þetta er ekki aðför að heimilunum. Það er verið að aðstoða fólk við að eiga og eignast heimili.

 

4. Virðisaukaskattur og vörugjöld

 

Breytingar á virðisaukaskatti og afnám vörugjalda skilar heimilunum um 3,5 milljörðum í auknar ráðstöfunartekjur á næsta ári. Þá tekur ASÍ í gagnrýni sinni ekki með í reikninginn að beinar aðgerðir í formi 13% hækkunar á barnabótum munu skila sér að fullu til tekjulægri barnafjölskyldna.

 

Áhyggjur ASÍ snúa að því að breytingarnar muni ekki skila sér til heimilanna, en áhrif þeirra til hækkunar á ráðstöfunartekjum hafa verið metin 0,5% og lækkun verðlags um 0,2%. Hagsmunaaðilar launþega og neytenda hafa í þessum efnum hlutverki að gegna enda mikilvægt að tryggja sem best eftirfylgni og eftirlit með breytingunum.

 

Nýlegar auglýsingar frá verslunum, sem boða 17-20% lækkun á ýmsum heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda, gefa sterka vísbendingu um að íslensk fyrirtæki, sem ekki eiga einungis í samkeppni á innlendum markaði heldur einnig við verslun erlendis, ætli sér að skila þessum lækkunum að fullu til neytenda.

 

5. Breytingar á lífeyrisgreiðslum

 

Árið 2009 voru leiddar í lög ýmsar breytingar sem juku tekjutengingar greiðslna almannatrygginga til aldraðra og öryrkja. Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að ráðast í breytingar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja og afturkalla þessar skerðingar vinstri stjórnarinnar og því er gagnrýni ASÍ á breytingar á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga í hæsta máta furðuleg.

 

Á árinu 2014 hækkuðu greiðslur ellilífeyristrygginga um 3,6% og á næsta ári munu þær hækka um 3,5% en það eru meiri hækkanir en breytingar á verðlagi gefa tilefni til og í takt við kaupmáttaraukningu launa að undanförnu. Samtals hafa lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hækkað um 8,8 milljarða króna á tveimur árum. Í því sambandi er vert að hafa í huga að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga voru ekki skertar á árunum eftir hrun eins og raunin var með greiðslur sem skertar voru vegna lífeyrissjóðsréttinda.

 

Hvað skiptir mestu máli?

 

Eðlilega eiga stjórnvöld von á því að aðilar vinnumarkaðarins hafi uppi ýmis ólík sjónarmið hvernig best sé að bæta kjör fólks. Á sama tíma er gerð sú krafa að tekið sé tillit til þess árangurs sem náðst hefur og skilar sér í auknum ráðstöfunartekjum allra í landinu.

 

Verðbólga er sögulega lág, ný störf eru að verða til og kaupmáttur launa eykst. En það er ekki sjálfgefið að slíkur bati haldist og ábyrgðin hvílir ekki á stjórnvöldum einum.

 

Ríkisstjórnin mun áfram vinna að hag allra landsmanna, bættum lífskjörum og réttlátara samfélagi og býður öllum til samstarfs sem leggja vilja því verkefni lið. "

Mér finnst hér skörulega og einarðlega skrifað af manni sem trúir því sem hann er að segja. Spurning er hvort ASÍ trúi því staðfastlega sem þeir eru að segja, að við þessa ríkisstjórn sé ekkert meira að tala.

Þegar maður er orðinn eins gamall og ég þá hættir maður að vera eins brennandi í andanum eins og maður var í den. Maður er líka hættur að dýrka einhverja leiðtoga eins og áður. Þetta eru bara venjulegir menn sem eru stundum að reyna að gera eitthvað af viti.

Lítandi yfir efnahagssögu Íslendinga er fremur fátt sem stendur upp úr í huganum af skynsamlegum ákvörðunum hvers tíma. Þjóðarsáttin 1990 trónir efst í mínum huga. Aldrei gleymi ég honum Einari Oddi hvenrig hann entist til að fara með sömu rulluna upp aftur og aftur um hvernig skynsemin gæti ein unnið sigur fyrir launafólk og að eintómar taxtahækkanir færi lóðbeint út í verðlagið. Og við hlið hans sat sjálfur Jakinn og brýndi fyrir fólki að nóg væri reynt af því gamla, það væri rétt að reyna eitthvað nýtt. Guðmundur J.hafði mikinn sannfæringarkraft þegar hann lagði áherslu á grunnatriðin og hristi tóbaksdósina til áherslu.  

Þeim félögum tókst að ná þjóðinni saman um að reyna nú að beita skynsemi samstigni.  Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum að nauðsynlega samstaða náðist sem leiddi okkur út úr kreppunni sem þá stóð sem hæst til lengsta samfellda hagvaxtarskeiðs þjóðarinnar sem endaði ekki fyrr í hruninu.

Á Davíðstímanum var hér algert viðskiptafrelsi og allir máttu eiga erlendan gjaldeyri að vild á reikningum íslenskum bönkum og taka lán í öðrum myntum í stað verðtryggingarinnar sem fer í taugarnar á ýmsum eftir hrunið. Hrunið var ekki Davíð né Geir að kenna né heldur krataskömmunum sem voru með þeim í stjórn. 

Nú stefnir é mannskætt verkfall lækna sem fyrsta útspil í hinni göfugu baráttu. Miklar stundir í læknisfræði eru framundan. Og afleiðingarnar verða keðjuverkandi og ekki verður neitt við ráðið. Dollarinn svífur upp á við og allt fer í ringulreið. Öll baráttan frá hruni glatast frá nýju hruni hefst ný barátta. Hvernig henni lyktar mun ég hugsanlega ekki sjá.

Kannski lyktar henni heldur bara aldrei. Erum við öll ekki  bara fiskar á færi í djúpum hyl sem einhver er að reyna að draga? 

Er einhver á línunni? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég er á línunni.

Þakka fyrir gott yfirlit,

Bjarni Ben hefði betur sett þetta svona fram um leið og hann lagði fram fjárlagafrumvarpið. Þá hefði fólk verið heldur rólegra.

Það er rétt hjá þér að Davíð og Geir ollu ekki hruninu, en hafa verður í huga að þar sem þeir vissu af því fyrirfram, eins og Davíð marg lýsti yfir, þá hefðu þeir átt að koma í veg fyrir að leggðist svona þungt á þjóðina.

kveðja frá gömlum sjálfstæðismanni.

Sigurjón Jónsson, 3.10.2014 kl. 10:52

2 Smámynd: Kristmann Magnússon

Halldór minn

þetta er allt of mikil langloka til að menn nenni að svara þessu en finnst þér bara allt í lagi með 2,8% hjá ASÍ og semja síðan við ýmsa aðra hópa hjá ríki og bæ um 20-35% hækkanir og bjóða læknum t.d. núna 2,8% Það er bara ekki heil brú í þessari dellu

Kristmann Magnússon, 4.10.2014 kl. 00:56

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Rétt hjá þér Sigurjón. Sumu Sjálfstæðismönnum finnst að Bjarni sé ekki nógu ástríðufulur pólitíkus eins og Davíð var. Enda má nú kannski á milli vera. En Davíð var líka allstaðar yfir og undir og allt um kring og að sögn þorði helst aldrei nótt að heiman eins og Geir í Eskilhlíð því hann var svo hræddur um að hinir ráðherrarnir gerðu einhverja vitleysu. Sem var auðvitað hárrétt því enginn var sem Davíð- eða þannig.

Já Mannsi minn, ég veit nú ekki hvað ég á að eyða miklu púðri á þig í pólitík, þú ert svo sérstakur. En mála sannast hef ég sagt að það dugi ekkert í baráttu við verkalýðsfélögin nema að bjóða þeim sjálfdæmi en án samningsskyldu. Þetta eru í mínum huga allt saman bófafélög sem ræna menn at gunpoint, Ekki hótinu betri en Jesse James eða Pablo Escobar.

Halldór Jónsson, 4.10.2014 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 108
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband