Algengast er, að fyrst eftir að aðkvæðisréttur fæst, eftir harðfylgi, flykkist menn í gleði sinni á kjörstað. En svo dregur smám saman úr áhuga, uns svo er komið, að kosningarétturinn er jafnvel hafður í flimtingum. Ýmsar skýringar eru viðraðar á þessari óheillaþróun. Þær eru ólíkar og misvísandi og stundum litaðar af því, hver gefur þær.
Sú skýring heyrist stundum á pirringsstund í hjónabandi, að makinn, sem talað er til, taki hinn »eins og sjálfsagðan hlut,« meti ekki hjónabandsfenginn, eins og vert væri. Það er óþarft og varasamt í góðu hjónabandi að taka nokkuð eins og sjálfsagðan hlut. En það er hins vegar gott að búa í þjóðfélagi sem telur að kosningarétturinn sé algjörlega sjálfsagður. En það dregur ekki úr mikilvægi þess réttar.
Vafalítið þykir þeim, sem nýta kosningarétt sinn illa, eftir sem áður gott að vita af því, að valdsmenn verði að leita nýs umboðs á fárra ára fresti. En óneitanlegt er að »kjósandanum« þykir, þrátt fyrir þetta, sífellt minna til kjörseðilsins koma.
En rétt eins og þegar Jeppi á Fjalli viðurkenndi drykkjuskap sinn, sem var sjálfgefið, fylgja viðurkenndum staðreyndum gjarnan nýjar spurningar. »Jú, víst drekkur Jeppi. En af hverju drekkur Jeppi?«
Því verður ekki á móti mælt að kjörseðill í hendi hefur hríðfallið í verði. En hvaða skýringar eru á því?
»Af hverju kemur kvefið og hóstinn? Kemur af leti og því er nú verr,« var sungið. Kjósendur sem heima sátu segja iðulega að þeir hafi ekki nennt á kjörstað. En það er fyrirsláttur, leti getur ekki verið skýringin. Íslendingar þyrptust tugþúsundum saman á rútubílasýninguna við Umferðarmiðstöðina á sínum tíma, þótt ekki væri þar neitt að sjá annað en rútubíla, sem þeir höfðu, allir sem einn, margoft séð og sungið í. Það eru ekki letingjar sem halda þannig á helgidögum. Menn stóðu í biðröð til að fá að fara inn að framan og út að aftan, í eina rútu af annarri. Í þetta þarf harðduglegt fólk.
Á Íslandi eru kjörstaðir á næstu grösum, hvar sem því verður við komið, og ekki verður séð að í dreifðari byggðum, þar sem lengra er að fara, sé kjörsókn lakari, en þar sem aðkoma er þægilegust. Letiskýringunni er því endanlega hafnað. Hvað er það þá? Minnkandi kosningaþátttaka er alþjóðleg og Íslendingar hafa verið tiltölulega viljugir fram til þessa til að skokka á kjörstað. En sá vilji minnkar hratt.
Borgarbúar voru sagðir hafa tekið risaskref í átt til nútímalegra stjórnmála, er þeir völdu sér borgarstjóra sem lofaði að taka starf sitt ekki alvarlega og því síður að sinna því. Hann stóð við loforðin. En eftir að þessu kjörtímabili »umræðustjórnmála« þar sem úreltu verklagi var hent út í buskann, hrundi þátttaka í kosningum í borginni. Langtímaáhrifin af spauginu voru því ekki góð. En þau voru eðlileg. Þegar stjórnmálamennirnir telja óþarft að taka lýðræðið alvarlega er ástæðulaust að kjósendur geri það.
Þeir, sem spurðir eru um skróp sitt á kjördag, svara með keimlíkum hætti. Kosningar skipti engu máli. Þær breyti engu. Hróp stjórnmálamanna fyrir kosningar séu hrein látalæti. Helstu forystumenn stjórnmálanna séu hugsjónalausir og líklega stoltir af því. Hversu margir þeirra hafa ekki sagt daginn eftir kjördag »nú þegar kosningarnar eru frá, þá...«
Og þeir liðsmenn flokkanna, sem stundum skolar á þing, og eru ekki hugsjónalausir, koma engu fram. Stór mál, eins og aðild lands að Evrópusambandinu, eru höndluð með skammarlegum hætti og það af öllum stjórnmálaflokkum landsins. Sannarlega afdrifarík ákvörðun sem dæmin sanna að verður ekki aftur tekin. Kvöldið fyrir kosningar vorið 2009 segir formaður flokks, sem allir héldu að væri helsta andstöðuaflið við aðildarbrölt, að aðild að ESB komi aldrei til greina. Flokksmenn sínir muni aldrei samþykkja slíkt og því líkt. Daginn eftir myndar hann ríkisstjórn, undir málamyndaforystu annars, um það meginverkefni. Síðar var upplýst að handsalaður samningur lá fyrir um þetta þegar hinar hástemmdu yfirlýsingar um það gagnstæða voru gefnar alþjóð.
Ekki fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa miklu ákvörðun. Hún var afgreidd á undra skömmum tíma í þinginu. Það getur ekki gerst nema stjórnarandstaðan sé úti á túni eða spili í raun og veru með. En þegar bröltið loks ber upp á sker, þingmeirihluti er ekki fyrir aðild og þjóðin enn frekar andvíg og kosningar endurspegla það, þá er það sagt hrópleg svik að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um dánarvottorð fyrir líkið.
Og hvernig halda menn að þeim líði sem þó höfðu sig á kjörstað þegar þeir sem tóku við hafa ekki manndóm til að afgreiða þetta mál, með einfaldri þingsályktunartillögu. Það er réttilega sagt formsatriði. En sjálfsagt og bráðnauðsynlegt formsatriði, sem bar að afgreiða á fyrstu dögum nýs þingmeirihluta.
Atkvæðagreiðsla á Þingvöllum um stofnun Lýðveldisins Íslands var hreint formsatriði. Þjóðin hafði þegar sagt sitt. Nútímalegir stjórnmálamenn teldu sjálfsagt að af þeim ástæðum hefði bara mátt sleppa því.
Taki stjórnmálaforingjar sjálfa sig og samþykktir flokka sinna ekki alvarlega, þá er skrifað á vegginn, hvað gerist í framhaldinu.
Stjórnmálamennirnir í borginni hættu að taka sinn afkima lýðræðisins alvarlega og kjósendur hættu í framhaldinu að taka kosningar til borgarstjórnar alvarlega. Það voru rökrétt viðbrögð.
Kjósandi segir hátt og í hljóði að kosningar breyti engu og situr heima. Hann meinar væntanlega að þær breyti svo litlu að það taki því ekki lengur að fara á kjörstað og setja einmanalegt atkvæði í kassa.
Í löndum Evrópusambandsins koma sífellt fleiri tilskipanir frá andlitslausum og ólýðræðislegum kerfisróbótum, sem »ríkjunum« er svo gert að leiða í lög án þess að mögla. Breytingin úr tilskipunum í lög á það sammerkt að ekki nokkur maður les þau í hinum niðurlægðu þjóðþingum. En þau binda samt þjóðina alla.
Núverandi ríkisstjórn, nær ekki að afgreiða einfalda og sjálfsagða þingsáyktun um Evrópumál úr þinginu í tæp tvö ár. En hún fær hrós frá fyrrverandi utanríkisráðherra fyrir að afgreiða heyrnarlaus og blind hvað eina sem frá ESB kemur. Hún taldi fara best á því að gera mann að ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins sem svipti sjálfan sig kápu embættismanns í ofuráhuga á að troða Íslendingum óviljugum í Evrópusambandið. Í tvö ár hefur íslenska ríkisstjórnin ekki fundið tíma frá einhverju sem enginn veit hvað er en ætlar nú að keyra í gegn á fáum vikum matarskatt á lægst launaða fólkið í landinu, hvað sem tautar og raular. Eini ávinningurinn sem hægt er hugsanlega að sjá af því er að fá hrós bak við luktar dyr frá ótryggum embættismönnum fyrir að hafa einfaldað virðisaukaskattskerfið með því að fækka skattþrepum þess úr tveimur ofan í tvö.
Í stað þess að hætta við ruglið eru boðaðar dularfullar »mótvægisaðgerðir« sem er svo sannarlega ekki uppskrift að því að »einfalda kerfið.«
Í nafni »fagmennsku« hefur vald kjörinna fulltrúa í vaxandi mæli verið fært til hinna ókjörnu og ábyrgðarlausu. Kosningar hafa engin áhrif á þá. Enda væri það sagt »ófaglegt«, en að vísu mjög lýðræðislegt, sem er aukaatriði.
Einveldiskóngarnir um allan heim höfðu margir hverjir frábæra fagmenn en því minna lýðræði. Slóðin þangað er nú fetuð. Þeir fagmenn voru að vísu ekki ráðnir af Capacent, sem þykir fínt eða af nefndum kollega og klíkubræðra, eins og nú er gert, til að forða þjóðinni frá óhollum lýðræðislegum áhrifum.
Hvernig er þeim svarað sem »nenna ekki« á kjörstað og gefa framantaldar skýringar eða aðrar af sama toga? Hætt er við, að fátt verði um svör.
Síðasta vörn »stjórnvalda« gegn minnkandi kjörsókn er því sennilega sú, að reyna í lengstu lög að tryggja að kosningar og aðdráttarafl á borð við rútubíladaginn fari aldrei saman.
Líkur standa því miður til þess að margir mundu telja að gagnlegra væri að fara með alla fjölskylduna og skoða rútur. Þar séu einmitt álíka mörg sæti og í þingsalnum og betur skipuð, jafnvel í tómu rútunum. Og séu einhverjir í sætunum er sennilegt að þeir séu flestir snyrtilega til fara.
Það var raunar eitt úrræðið til að auka virðingu þingsins að miða klæðaburð í þingsal við það sem tíðkaðist í sæmilegri sjoppu.
En það snúnasta er í þessari samkeppni að ekki er vitað til þess að neinn hafi þóst fara illa svikinn frá rútubíladeginum. "
Hér er hressilega tekið til orða.Virðing Alþingis hefur dregist niður í hlutfalli við það lið sem þangað hefur skolað í skjóli ríkispeninga til smáflokka. Tilkoma þeirra hefur verið Íslendingum til stórrar bölvunar í öllum málum. Fyrsta skrefið til mótvægis væri að afnema með öllu ríkisframlög til stjórnmálaflokka og gera þeim að spjara sig sjálfa en ekki sú ormétna spilling sem í ríkisstyrkjunum felst.
Fagmennskukjaftæðið í vinstraliðinu, sem í raun þýðir ólýðræðisleg vinnubrögð hvar sem þeim verður viðkomið, hefur dregið úr virðingu stjórnmálanna og áhuganum á kosningum. Hinir andlitslausu Humpfrey-ar taka völdin og skrumskæla allt stjórnarfarið þannig að þeir kjörnu þora ekki að opna þverrifuna af ótta við að dúmma sig gagnvart "fagmennskunni" eins og Ministerinn í þáttunum góðu.
Hvað sem þessari ádrepu bréfritarans og andspyrnu Frosta líður, þá rauk fylgi stjórnarflokkanna upp um tíund. Auðvitað er Árni Páll sóttur fyrstur fram á völlinn til að hafa álit á þessu og segir þetta einskis virði og tímabundið enda sjálfur búinn að njóta góðs af leiðréttingunni. Þess þá heldur ætti nú stjórnin að nýta byrinn til að keyra aðildarmálið í gegn. En það fer sem fer.
Allavega hefur Reykjavíkurbréfið komið sínum skoðunum á framfæri.
Athugasemdir
Sæll Halldór.
Það kveður við harðann tón vonleysis í Reykjavíkurbréfi og kannski ekki undarlegt. En vandi ríkisstjórnarinnar er þó einfaldari, hann skapast ekki af lélegri kjörsókn, þó taka megi undir sífellt meira vald embættismanna. Vandinn liggur innan þeirra sem sitja á Alþingi fyrir stjórnarflokkana. Kjarkleysi sumra sem þangað völdust fyrir þessa tvo flokka. Sem betur fer er það kjarkleysi þó ekki eins algert og innan þeirra flokka sem stjórnuðu landinu á hörmungarárunum 09 - 13, en nægt til að skemma fyrir.
Segja má að straumhvörf hafi orðið fyrir síksstjórnina á þingi í fyrra, í einu einstaka máli. Þann skaða á stjórnin eftir að búa við út kjörtímabilið. Þá fékk stjórnarandstaðan þau vopn og það afl sem hún þurfti.
Lagt var fram á Alþingi tillaga um að draga til baka aðildarumsóknina. Áður en tillagan var lögð fyrir þingið var hún kynnt og samþykkt í báðum stjórnarflokum. Jafn skjótt og fyrstu mótmæli stjórnarandstöðu heyrðist og bleðlar hennar fóru út á götur og torg, hlupust nokkrir stjórnarliðar undan merkjum. Teningnum var kastað.
Vegna þessa máls mun ríkisstjórnin ekki ná fram þeim breytingum sem hún boðaði, ekki nema auðvitað þeim sem þingmenn stjórnarandstöðu græða sjálfir á persónulega.
Ef ríkisstjórnin hefði staðið í lappirnar í þessu máli, sýnt hverjir skapa meirihluta á Alþingi og klárað málið, stæði hún sterkari í dag.
Gunnar Heiðarsson, 17.11.2014 kl. 22:00
Þú segir Gunnar að það hafi menn hlaupið fyrir borð úr okkar liði. Ég átta mig nú ekki alveg á þvíhverjir þetta eru. Geturðu nefnt einhvarja Framsóknarmenn nú og svo okkar menn. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að í okkar liði veæru Evrópusinnar.
Halldór Jónsson, 17.11.2014 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.