Leita í fréttum mbl.is

Kerfið

ver sig og virðist ósigrandi.

Svo segir í Morgunblaðinu:

 

"Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og einn fulltrúa í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar, segir Samtök atvinnulífsins hafa greint þróunina í ríkisfjármálum frá efnahagshruninu rétt. Vikið er að þeirri þróun í grein hér fyrir ofan. 

»Það hefur ekkert gengið í niðurskurðinum. Kerfið ver sig. Það er einfaldlega þannig. Það hefur reynst torvelt að fara í niðurskurð á ýmsum sviðum vegna þess að kerfið ver sig. Við höfum reynt að skera niður en reynslan hefur verið sú að undirstofnanir ríkisins verja sig með kjafti og klóm.« 

 Þannig að það er þín upplifun að það hafi ekki verið hagrætt sem neinu nemur í ríkisrekstrinum? 

»Nei, raunverulega ekki. Ég hef starfað í hagræðingarhópnum. Þar hefur ekki verið farið í margar tillögur til beins niðurskurðar, hagræðingar og sameiningar stofnana vegna þess að kerfið ver sjálft sig og notar fjölmiðla óspart til að mynda samúð með viðkomandi stofnun.«

- Hafið þið ekki pólitískt afl til að fara í slíkar aðgerðir?

 

»Jú, jú. Þetta snýst ekki um pólitík. Ég get tekið undir með Samtökum atvinnulífsins. Við hefðum getað farið í hraðari skattalækkanir ef ekki hefði verið fyrir þessa andstöðu.«

 

- Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar bundu margir vonir við störf hagræðingarhópsins. Áttu við að kerfið hafi hindrað að þið næðuð fram þeirri hagræðingu í ríkisrekstri sem þið vonuðust sjálf eftir? 

»Já, kerfið ver sig. Hver og einn sér um sig. Það eru því miklar hindranir á veginum og það er erfitt að snúa þróuninni í kerfinu við. Því sem er einu sinni búið að koma á er erfitt að taka til baka. Það er enginn tilbúinn að gefa eftir. Þrátt fyrir hið augljósa markmið um sparnað og ráðdeild í ríkisrekstri er það alltaf svo að þegar komið er að ákveðnum stofnunum, eða ákveðinni ákvarðanatöku, er sagt; »Nei, þetta eru mikilvægustu stofnanirnar. Við megum ekki skera hér niður«. Þetta er það sem ég upplifi.«

 Þannig að það hefur lítið verið hagrætt í ríkiskerfinu frá hruni?

 »Nei, nánast ekki neitt, miðað við tækifærin okkar og væntingar almennings til slíkra verka.«

 Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, segir að »ganga þurfi miklu lengra í því að hagræða og spara í ríkisrekstrinum«. »Ég óska eftir stuðningi frá aðilum vinnumarkaðarins í því efni. Hann er fyrst og fremst í orði en ekki á borði,« segir Guðlaugur Þór.

 »Ég get tekið undir þessa greiningu Samtaka atvinnulífsins. Það þarf að forgangsraða meira í ríkisrekstrinum og hagræða. Það er alger nauðsyn. Við erum að horfa á þrjá stóra útgjaldaflokka sem við þurfum að ná niður; vaxtagreiðslur ríkissjóðs, lífeyrisskuldbindingar og síðan þurfum við að forgangsraða vegna þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Það mun kalla á aukna eftirspurn eftir t.d. heilbrigðisþjónustu. Ég kalla eftir bandamönnum við þessa forgangsröðun.«

 Spurður um dæmi um leiðir til hagræðingar bendir Guðlaugur Þór á að Íbúðalánasjóður þurfi 5,3 milljarða framlag frá ríkinu í ár vegna tapreksturs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bent á að hægt sé að hætta þeim útgjöldum með því að loka sjóðnum. Hann hafi ekki orðið var við að aðilar vinnumarkaðarins séu fylgjandi því að loka sjóðnum.

Annað dæmi sé að mikið sé rætt um nauðsyn þess að taka á vandanum í lífeyrismálum, jafna réttindi almennra og opinberra starfsmanna og lengja lífeyrisaldurinn, og annað slíkt, án þess að nokkuð gerist. »Þegar á hólminn er komið virðast menn ekki tilbúnir í það og það er mál sem ekki gerist án atbeina vinnumarkaðarins.«"

Þá hafa menn það. Pólitíska valdið er máttlaust gagnvart ófreskjunni Medúsu sem ný höfuð vaxa á sé eitt af hoggið. Eins og krabbamein sem skorið er burt til þess eins að meinvarpið framleiðir ný æxli.

Sællar minningar eu áformin um að flytja Fiskistofu. Þetta apparat sem stofnað var í tíð Þorsteins Pálssonar og var ekki til áður, er orðið 80 manna apparat með sjálfstæðan vilja og tilveru. Það neitar að láta flytja sig norður og dreissugir starfsmennirnir neita að fara.Embættismenn ríkisins sem hafa skammtað sér verðtryggð lífeyrisréttindi eins og ráðherrar neita að hlýða og þar við situr.

Hefur honum Gulla ekki dottið í hug að loka bara sjoppunni í Kópavogi og færa ástandið til A.D. Þorsteinn?

Er þetta lýðræðið á Íslandi í dag? Eru hér þingkosningar um grundvallarmál?

Segja vitnisburðir þessara rösku þingmanna okkur ekki allt sem þarf? Er  Báknið á sjálfstýringu og vöxtur þess og viðhald sem ólæknandi krabbamein?

Kerfið bara ver sig og lætur ekki að stjórn Alþingis.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Halldór, þetta er alvarlegt mál. Tregðan í ríkiskerfinu við að skera niður hjá sér er með endemum snúin við að eiga. Flokkur þinn ætti nú að gera eitthvað í þessu! Báknið burt! var eitt sinn mottóið, en lítið hefur gerzt í því. Eru þessir menn getulausir (impotent) eða hvað?!

Styrmir Gunnarsson er á sinni vefsíðu* að benda á, hvernig ríkið hefur brugðizt rangt við aðsteðjandi vanda: í stað þess að draga sig saman, hefur það aukið skatta á fyrirtæki og almenning! Það virðist í lagi að fyrirtæki neyðist til að fækka starfsmönnum, en ekki má hrófla við heilögu kúnum á ríkisframfæri. RÚV er líka eitt dæmi þessa og fær bara enn meiri fyrirgreiðslu í viðbót eftir sinn fráleita eyðslurekstur og heldur áfram að sóa almannafé í dýra þætti sem engin þörf er á. 

Þetta er eitt allsherjar-'show' hjá starfslýð báknsins! – og svo bætist við bakreikningurinn: dýrasta lífeyrissjóðskerfi landsins ... fyrir ríkisstarfsmenn!

* http://styrmirgunnars.blog.is/blog/styrmir/entry/1560565/

Jón Valur Jensson, 29.12.2014 kl. 14:44

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Styrmir:

"Yfirleitt er það svo í rekstri að launakostnaður vegur þyngst og ekki er hægt að ná umtalsverðum árangri í niðurskurði nema fækka fólki. Þetta er ástæðan fyrir uppsögnum í einkageiranum.

Hvers vegna skyldi það sama ekki eiga við um opinbera geirann? Hvers vegna eiga ríki og sveitarfélög að komast upp með að hlífa sjálfum sér og öðrum við sársaukafullum uppsögnum á sama tíma og einkageirinn á engra annarra kosta völ?"

–––Hann hefur lög að mæla!

Jón Valur Jensson, 29.12.2014 kl. 15:00

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir Jón minn Valur. Takk fyrir að meta mig sem einhvern ráðamann í mínum flokki. Það er alltaf gaman að fá oflof.

En þetta er alvörumál sem þau þingsystkini lýsa. Kerfið er orðið máttugt í sjálfu sér. Humpfrey og Bernard láta ekki að sér hæða. Var það tilraun hjá Jóhönnu og Steingrími að brjóta upp gamlar hefðir í ráðuneytunum með hræringnum. Mér sýnist að Björn Bjarnason telji að einhver kúltúr hafi glatast úr dómsmálunum sem hafi hefnt sín í tilviki Hönnu Birnu.

Það er hárrétt að það er ekki hægt að byrja hagræðingarstarf með þeim orðum að ekki skuli segja upp fólki. Slíkan formála hafa menn oft yfir.

Halldór Jónsson, 29.12.2014 kl. 17:08

4 Smámynd: Steinar B Jakobsson

Ég tel þessa umræðu vera mjög gagnleg og bráðnauðsýnleg, en hvenær fáum við einhverja röggsama menn (karlar og konur)á þing (þar kvuð valdið vera!!), sem gera eitthvað í málunum?

Steinar B Jakobsson, 29.12.2014 kl. 17:54

5 identicon

Þetta hljómar meira eins og Vigdís og Guðlaugur eru að koma sér undan ábyrgð frekar en annað.

Vandamálið er í grunninn pólitískt.

Þingið setur lög sem bindur stofnanir ríkisins til að framkvæma vissa hluti. Yfirleitt þýðir það aukin fjárútlát fyrir stofnunina.

Þegar þingið ákveður síðan að skera niður í fjárlögum án þess að skera niður hlutverk stofnana þá lenda stjórnendur í vandræðum vegna þess að þeir þurfa að velja það að brjóta á lögbundnu hlutverki sínu eða þá að brjóta fjárlög.

Þannig að ef þingið vill minnka framkvæmdarvaldið, þá þarf það bara að breyta lögum og minnka hlutverk ríkisins.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 29.12.2014 kl. 19:38

6 Smámynd: Halldór Jónsson

 Já Steinar,

Eru þau ekki nógu röggsöm? ÉG held að það vanti fremur stuðning og áveðni á bak við.

Elfar, mér finnst þetta sem þau segja vera ákall um hjálp. Gulli biður um bandamenn. Eru það ekki við öll? 

Það verður að sekra niður stofnanirnar. Samkeppniseftirlitið, persónuverndina, fjármálaeftirlitið, Fiskistofa, og fleira og fleira.  margt af þessu handónýtt að mínu viti

Halldór Jónsson, 29.12.2014 kl. 21:08

7 identicon

Halldór, ég er hræddur um að það eru ekki við öll þar sem stór hluti Íslendinga er ósammála þeirra áherslum í forgangsröðunini.

En Gulli og Vigdís eru í stjórnarflokkunum, ef þau geta ekki komið málefnum sínum áfram þá er það ekki vegna þess að þjóðin er ekki á bakvið þau heldur vegna þess að þingmeirihlutin er það ekki.

Í staðin fyrir að skammast í ríkisstofnunum sem í lokin þau ráða yfir þá ættu þau að vera að akammast í samflokksfólki sínu sem allavegana í orði segir að skera eigi niður ríkisreksturinn.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 29.12.2014 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband