Leita í fréttum mbl.is

Það sem er að

í íslensku samfélagi nú til dags, að það er búið að setja fjármagnið í efstu sæti mannvirðinga. Fólk sem starfar við útdeilingu fjármagns þykir sér misboðið ef það fær ekki álag á kaupið sitt. Engu fjárráði skal ráðið nema verðtryggingarelítan í lífeyrissjóðunum komi þar að. Fyrirferð þessara skrifstofumanna í atvinnulífinu er orðin stórskaðleg. þeir stjórna meirihluta af öllu atvinnulífi Íslands, sitja í stjórnum og ráðum og maka sína króka gagnkvæmt og allir fyrir einn.

Hversvegna þetta er orðið svona  getur enginn útskýrt fyrir mér. Hefur verið auglýst eftir tilboðum í þessi störf þegar fólkið krefst bónusa? Getur verið að þeir menn séu til sem getu líklega unnið þau án þess að fá sérstaklega borgað fyrir að vinna vinnuna sína?

Af hverju er þessi takmarkalausa virðing borin fyrir peningum en helst engin fyrir mannlegri reisn? Og fátækt er ekki mannleg né ásættanleg reisn í því íslensku þjóðfélagi sem við meirihlutinn viljum byggja en ráðandi minnihlutinn vill laga að sínum sérþörfum fjölmenningarinnar.

Þjóðfélagið snýst allt um hagsmuni fjármagnsins og flóttamanna og hælisleitenda. Það eru hagsmunir banka lífeyrissjóða að verðtrygging sé á öllum fjárskuldbindingum, það eru hagsmunir lífeyrissjóða að iðgjöld til þeirra verði hækkuð í 15.5 %. Það eru hagsmunir banka að hafa óverðtryggða vexti svo háa að enginn með normaltekjur geti tekið lán sem einhverju skipta.

Það eru hagsmunir banka og stjórnmálaflokka að stórir verktakar einir fái lóðir svo þeir geti selt íbúðir á 600.000 kr/m2 án þess að nokkur samkeppni ríki á markaðnum. Það er þó ekki lögmál að ávöxtun fjár í lífeyrissjóði skuli vera minnst 3.5 % heldur misvitur eldgömul tilskipun. Það er ekkert sem bannar að lána manni einu sinni á 0% vöxtum með verðtryggingu til húsbyggingar.

Það eru ekki hagsmunir fólksins að byggingarreglugerðir setji íþyngjandi kröfur til bygginga sem stórhækka byggingakostnað. Það eru ekki hagsmunir fólksins að sveitarstjórnir gefi ekki leyfi til að byggja gámahús eða ódýr timburhús á lóðum sem eru seldar þannig að fyrsta útborgun komi 6 mánuðum eftir að húseigandinn er fluttur inn. Það eru ekki hagsmunir fólksins að byggð séu eingöngu fallbyssuheld steinsteypuvirki með öllu því besta fáanlega í stað ódýrs húsnæðis þar sem fólk getur búið út af fyrir sig. 

Þessir sjúkdómar er sérlega áberandi á höfuðborgarsvæðinu. Betra ástand er víða á landsbyggðinni hvað varðar lóðamál, sem leiða til lægri framkvæmdakostnaðar þegar allir geta fengið lóð við sitt hæfi. Hótel Mamma er ekki í sama eftirspurnarklassa þar og hér.

Ungt fólk stenst ekki greiðslumat íbúðalánasjóðs né banka við þessar aðstæður hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefðum við hin eldri heldur ekki gert á okkar tíð. Ungt fólk getur allt sem það vill með bjartsýninni ef ekki eru trénaðir embættismenn sífellt til staðar til að hindra það með úreltum paragröffum.

Nú er að koma inn á lífeyrismarkaðinn fólk sem missti allt sitt í hruninu eða þar áður. Á ekki neitt nema eitraða kennitölu sem fær hvergi vinnu og heilsuleysi og skert þrek til viðbótar.Ekki batnar ástandið við það. Of lífeyrisréttindi erfast ekki sem leiðir til enn verra ástands.

Svo er það unga fólkið okkar  sem stenst ekki greiðslumat og á ekkert heldur. Öllum virðist sama um þetta fólk nema prumphænsnum í leit að ódýru þingsæti. Skiljanlegt er að unga fólkið vilji ekki búa í svona vonleysisþjóðfélagi fyrir meðaljóninn þar sem engin framtíð er sjáanleg vegna óleysanlegra húsnæðismála og peninga-og verðtryggingartilbeiðslu.

Þau stjórnmálaöfl sem ætla að hunsa þessar grafalvarlegu staðreyndir skulu ekki verða hissa þó að gamlir fylgismenn þeirra nenni ekki lengur að kyssa á rass þeirra og leit á önnur mið.

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa brugðist fólkinu að verulegu leyti. Lífeyrissjóðirnir eru víða komnir undir stjórn fjárplógsafla sem eru löngu hætt að bera hagsmuni eigendanna fyrir brjósti.

Tilgangslaust áframhald slita og skilanefnda í sjálftöku fjár án hirðis fer í taugarnar á fólki í stað einfalds gjaldþrots að lögum. Fíflagangur einnar slíkrar kostaði milljarð út um gluggann í töpuðu máli Glitnis í New York. Var einhver gerður ábyrgur fyrir því? Nei, skilanefndin situr enn og treður í gúlana.

Fiskiveiðistjórnarkerfið er varið af málaliðum sem segja það best í heimi. Fólkið er þessu ósammála, hversu margar greinar Hannes skrifar. Fólkið vill breytingar. Ef þær fást ekki með góðu þá verða þær sóttar með illu. En að það lafi meðan ég lifi hugsa sumir í pólitíkinni eins og Loðvík 15. Því væri nær að reyna að stýra breytingum skynsamlega en að berja bara hausnum við grjótið.

Einhverjir ráðamenn hafa ákveðið að fara í stríð við Rússa. Ekki af því að þeir hafi skemmt okkur með hernaði í Úkraínu. Nei, vegna þess að Þjóðverjar og Frakkar segja okkur að gera það í gegn um ESB. Sem sjálfir skrúfa ekki fyrir kaup sín á gasi frá Rússlandi á meðan þeim er sama um að makrílsalan og ferðamannaiðnaðurinn hjá Íslendingum fari í rúst. Ætlum við bara að þegja þetta í hel? Ættum við ekki frekar að, rísa upp og segja hingað og ekki lengra?

Þetta er meðal annars það sem er að í íslensku þjóðfélagi samtímans.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Helvíti ertu góður segi ég bara á íslensku mannamáli. 

Ómar Ragnarsson, 6.8.2015 kl. 21:32

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir að lesa Ómar, takk fyrir uppörfunina.

Halldór Jónsson, 7.8.2015 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband