Leita í fréttum mbl.is

Bréf Árna Páls

til flokksmanna var ég að lesa orð til orðs. Sem flesti ættu að gera það til þess að átta sig á því hverskonar maður Steingrimur J. Sigfússon er og hverskonar ódó Jóhanna Sigurðardóttir var sem stjórnmálamaður.

Bréfið er hér:

"Kæru vin­ir og sam­herj­ar.

Eft­ir umræðu und­an­far­inna vikna hef­ur fram­kvæmda­stjórn ákveðið að efna til lands­fund­ar og for­manns­kjörs í vor. Ég fagna þeirri ákvörðun. Við vild­um öll vera að tala um breyt­ing­arn­ar sem þarf að gera. Hvernig við byggj­um upp nýtt efna­hags­kerfi, til að koma í veg fyr­ir að sömu menn­irn­ir skammti sér aðstöðu og rík­is­eign­ir, eins og í Borg­un­ar­hneyksl­inu nú og ótal slík­um hneyksl­um áður und­an­farna ára­tugi. Við ætt­um að vera að tala af krafti fyr­ir fleiri vel launuðum störf­um og betri vel­ferðarþjón­ustu, til að halda í fólkið sem nú leit­ar sér að framtíð í öðrum lönd­um. Og við ætt­um að vera að tala um lausn­ir í hús­næðismál­um. En at­hygl­in hef­ur verið ann­ars staðar og því verður að breyta. 
Með ákvörðun sinni bregst fram­kvæmda­stjórn við áskor­un­um ým­issa flokks­manna upp á síðkastið um lands­fund og að for­ysta end­ur­nýji umboð sitt. Það er at­hygl­is­vert að fólki ber sam­an um að frek­ari aðgerða er þörf og að skýr­inga á stöðu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sé ekki að leita ein­vörðungu hjá for­ystu flokks­ins. 
Mér þykir óend­an­lega vænt um Sam­fylk­ing­una og er afar stolt­ur yfir því trausti sem ég hef notið til að starfa í henn­ar þágu. Þess vegna lít ég á það sem skyldu mína sem for­manns að gang­ast fyr­ir því að við horf­um lengra og dýpra. Við þurf­um að skapa sátt og traust okk­ar á milli og gagn­vart þjóðinni.

Við leyst­um stóru verk­efn­in
Sjálf­ur held ég að það skipti í sjálfu sér engu máli hver verður formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar ef Sam­fylk­ing­in horf­ist ekki í augu við sjálfa sig og hvernig hún kem­ur fram og nálg­ast fólkið í land­inu. Við tök­um ekki á rót vand­ans með mann­fórn, án heiðarlegr­ar umræðu um or­sak­ir þess­ar­ar stöðu.
Við get­um nefni­lega verið gríðarstolt af verk­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Okk­ur hef­ur verið legið á hálsi fyr­ir að tak­ast ekki vel upp í „stóru mál­un­um“. En hvaða mál eru stærri en að tak­ast á við 220 millj­arða halla á rík­is­sjóði, banka­kerfi á hliðinni, 18% stýri­vexti og at­vinnu­leysi sem stefndi í á ann­an tug pró­senta? Það er stóra verk­efnið sem við leyst­um vel og höfðum alltaf fólk í for­gangi. Lág­marks­bæt­ur al­manna­trygg­inga hækkuðu um meira en 50% og voru ekki skert­ar um eina krónu í óhjá­kvæmi­leg­um niður­skurði hruns­ins. Árang­ur okk­ar í viðsnún­ingi eft­ir hrun hef­ur vakið at­hygli og aðdáun um all­an heim. Útgjöld­in lögðust á hópa með hærri tekj­ur, og fólk á meðal­tekj­um og lág­um tekj­um bar minni byrðar en dæmi eru um á Vest­ur­lönd­um. Á sama tíma juk­um við fram­lög í tækniþróun, tók­um á at­vinnu­leysi ungs fólks, byggðum hjúkr­un­ar­heim­ili, styrkt­um sam­keppn­is­lög­gjöf og sett­um Íslands­met í sam­göngu­fram­kvæmd­um, svo fá­ein dæmi séu nefnd.  
En þrátt fyr­ir allt, nut­um við ekki þess­ara góðu verka í síðustu Alþing­is­kosn­ing­um og ger­um það ekki nú í hug­um kjós­enda.
Við búum við al­var­leg­an skort á trú­verðug­leika, sem kem­ur í veg fyr­ir að fólk styðji okk­ur. Við verðum að viður­kenna það og tak­ast á við það. Öll, ekki bara sum.
 
Við gerðum mis­tök
Þrátt fyr­ir góð verk gerðum við ýmis mis­tök, allt frá því að við geng­um í rík­is­stjórn 2007.
Við geng­um þá inn í valda­kerfi hinna gömlu flokka, án þess að gera kröfu um grund­vall­ar­breyt­ing­ar. Þar með vor­um við ófær um að tak­ast á við fjöl­breytt hags­muna­tengsl pen­inga og stjórn­mála – sem enn eru ráðandi – og þá blindu á hætt­ur sem var ríkj­andi í aðdrag­anda hruns. Ingi­björg Sól­rún hef­ur sjálf lýst þessu ágæt­lega og af miklu hug­rekki og beðist af­sök­un­ar á sín­um hlut í því. 
En við fór­um svo með all­an þenn­an vanda óupp­gerðan með hraði í nýtt sam­band með VG.
Flest okk­ar mis­tök fólust í því sama: Að ganga grónu kerfi á hönd án þess að gera kröfu um grund­vall­ar­breyt­ing­ar. Flokk­ur­inn sem var stofnaður um ný vinnu­brögð, íbúa­lýðræði og al­manna­rétt lokaði að sér og forðaðist sam­tal og neitaði þjóðinni um aðkomu að stór­um ákvörðunum í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.
Kjarn­inn okk­ar Við misst­um það nána sam­band sem við höfðum haft við verka­lýðshreyf­ing­una og tal­sam­bandið við at­vinnu­lífið. 
Ices­a­ve  Við studd­um samn­ing um Ices­a­ve sem varði ekki ítr­ustu hags­muni þjóðar­inn­ar og mælt­um gegn þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hann.
Aðild­ar­um­sókn­in Við byggðum aðild­ar­um­sókn að ESB á flóknu baktjalda­sam­komu­lagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðild­ar­viðræður, sem hefði bundið alla flokka við um­sókn­ar­ferlið.
Skuld­ir heim­il­anna Þegar fólk var að drukkna í skulda­feni tók­um við að okk­ur í of rík­um mæli að út­skýra fyr­ir fólki að það ætti að borga skuld­ir sín­ar, í stað þess að taka okk­ur stöðu með fólki gegn fjár­mála­kerfi.
Fisk­veiðistjórn­un­in Við lofuðum breyt­ing­um á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi en týnd­um okk­ur í lang­vinn­um samn­ing­um fyr­ir lukt­um dyr­um við sam­starfs­flokk­inn um út­færsl­ur á breyt­ing­um, sem strönduðu svo hver á eft­ir ann­arri. Þess í stað hefðum við sem lýðræðis­flokk­ur átt að leita til al­menn­ings um stuðning í glím­unni við sér­hags­muna­öfl­in.
Stjórn­ar­skrá­in Við höfðum for­göngu um stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar, en dróg­um það alltof lengi að áfanga­skipta verk­efn­inu til að koma mik­il­væg­ustu breyt­ing­un­um í höfn. Ég tók um síðir af skarið, en í stað þess að sam­talið væri lif­andi og allt uppi á borðum var upp­lif­un fólks sú að ég hefði brugðist og fórnað mál­inu og allt hefði klúðrast.
Þetta allt þarf að ræða til að hreinsa loftið, jafnt mín verk og allra annarra. Í þeirri umræðu mega ekki vera nein tabú eða helg vé. Mark­miðið er ekki að finna söku­dólg, held­ur að axla sam­eig­in­lega ábyrgð á sam­eig­in­leg­um mis­tök­um, svo þjóðin viti að við höf­um lært af þeim og að kjós­end­ur geti óhrædd­ir treyst Sam­fylk­ing­unni fyr­ir at­kvæði sínu á nýj­an leik. Við þurf­um sam­an að senda skýrt þau skila­boð að við mun­um ekki fara aft­ur í rík­is­stjórn án þess að gera kröfu um grund­vall­ar­breyt­ing­ar.

Samstaða og traust okk­ar á milli
Við höf­um nefni­lega sem hreyf­ing og sam­fé­lag ít­rekað misst af tæki­fær­inu til að axla sam­eig­in­lega ábyrgð á mis­tök­um, en frek­ar kosið að fórna ein­stak­ling­um til að koma öðrum í skjól. Ingi­björg Sól­rún baðst af­sök­un­ar á sín­um hlut. Sú af­sök­un­ar­beiðni átti að vera okk­ur fagnaðarefni og tæki­færi til að auðvelda flokkn­um að tak­ast á við mis­tök í þeirri rík­is­stjórn. Í staðinn var sú af­sök­un­ar­beiðni nýtt sem synda­kvitt­un fyr­ir aðra. Flokk­ur­inn tók ekki fé­lags­lega ábyrgð á próf­kjör­um sem hann hafði efnt til, held­ur fórnaði Stein­unni Val­dísi einni. Fram­gang­an í Lands­dóms­mál­inu og fórn Stein­unn­ar Val­dís­ar hafa skilið eft­ir djúp sár um alla okk­ar hreyf­ingu og sáð fræj­um efa­semda um að við séum sam­hent sveit sem axli sam­an fé­lags­lega ábyrgð á mis­tök­um sem við ger­um sam­an. 
Ég hef oft sagt að Sam­fylk­ing­in þurfi sjálf að vera gott sam­fé­lag, ef hún ætl­ar að breyta sam­fé­lag­inu til góðs. Það er al­veg nóg af upp­hróp­un­um, yf­ir­gangi og afar­kost­um í dag­legri umræðu í sam­fé­lag­inu í dag og við eig­um ekki að til­einka okk­ur þá sam­skipta­hætti. Við þurf­um að breyta því hvernig við töl­um hvert við annað. Við þurf­um að tala bet­ur hvert um annað, verja hvert annað og sýna að við séum gott og eft­ir­sókn­ar­vert sam­fé­lag. Ef sótt er að for­ystu­fólki í flokki og eng­inn kem­ur því til varn­ar, upp­lif­ir þjóðin það sem skila­boð um sund­ur­laus­an flokk sem ekki sé treyst­andi. 

Við erum ólík og fögn­um fjöl­breyti­leik­an­um
Við þurf­um að leysa úr læðingi þann glaðsinna sköp­un­ar­kraft, sem ein­kenndi starf og fram­göngu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar lengi fram­an af. Okk­ur þótti svo mik­il­vægt að vera sam­an að við funduðum fram á næt­ur til að finna sam­eig­in­lega af­stöðu sem vit var í og all­ir gátu lifað við. Besti vitn­is­b­urður­inn um það er að fram­sæk­in öfl í sam­fé­lag­inu í dag beita enn sömu rök­um og við mótuðum í okk­ar starfi um auk­inn arð af sam­eig­in­leg­um auðlind­um, lýðræðis­um­bæt­ur, nýt­ingu og vernd nátt­úru­svæða og aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Í þess­um mál­um tókst okk­ur að skapa sátt um heild­stæða stefnu með al­manna­hags­muni að leiðarljósi. Í öll­um þess­um til­vik­um þorðum við að leita svara með breiðum hópi fólks, inn­an sem utan flokks og leituðum bestu þekk­ing­ar og reynslu. 
Sam­fylk­ing­in þarf nefni­lega líka að svara þeirri spurn­ingu af heiðarleika hvort hún er til­bú­in að vera breið fjölda­hreyf­ing. Vill hún vera framtíðarflokk­ur, sem tek­ur sér stöðu í sam­fé­lag­inu miðju og fagn­ar sam­vinnu við verka­lýðshreyf­ingu og at­vinnu­líf, þekk­ing­ar­sam­fé­lagið og frjáls fé­laga­sam­tök? Er Sam­fylk­ing­in til­bú­in að rúma ólík­ar skoðanir en sam­ein­ast um meg­in­lín­ur fé­lags­legs rétt­læt­is og jafnra tæki­færa, eða er gerð krafa um eina skoðun og eina leið í öll­um mál­um? Fyrri leiðin er leið fjölda­hreyf­ing­ar jafnaðarmanna. Seinni leiðin er leið hefðbund­ins vinstri flokks. Við verðum að velja þar á milli. 

 
Leiðin fram
Við þurf­um núna að eiga sam­tal um þetta allt, til að skapa sátt og traust. Við eig­um að gera það sjálf, en líka kalla til leiks fólk sem er hætt að starfa með okk­ur eða er á jaðri flokks­ins. Við þurf­um að funda um allt land og all­ir eiga að fá rödd í þess­ari umræðu. Það eina sem ég bið um er að við ger­um þetta af heil­ind­um. Ég mun helga mig því verk­efni næstu vik­ur að greiða fyr­ir þess­ari umræðu og taka full­an þátt í henni. Seinna mun ég svo taka af­stöðu til þess hvort ég gefi kost á mér á nýj­an leik sem formaður flokks­ins.
Með bestu kveðju,
Árni Páll

Þurfa landsmenn eitthvað samtal við Samfylkinguna? Ég kem ekki auga á það alveg hreint út sagt.

Þurfum við ekki frekar að eiga samtal við Steingrím J. Sigfússon sem ráðstafaði eignum þjóðarinnar til einkavæðingar bankanna til útlendinga og gaf þeim um leið skotleyfi á heimilin í landinu en handvaldi þá sem fengu afskrifað og framhaldslíf. Maðurinn sem smeygði sér inn um bakdyrnar hjá þjóðinni með því að svíkja mest af öllum stjórnmálamönnum þegar hann sveik hugsjónir sínar og kosningaloforð og lét kjósa sig á fölskum forsendum, mannninn sem reyndi að hengja Icesave á þjóðina ekki einu sinni heldur oft.

Þurfum við ekki að eiga samtal við Jóhönnu Sigurðardóttur sem braut lög opinberlega og sveik flest sem hægt var og sótti um aðild að ESB án hverskyns samráðs við þjóðina.

Þarna eru samtölin ef einhver þarf að eiga við þau öfl sem gerðu hrunið verra en það þurfti að verða og sköðuðu allan almenning sem aldrei fæst bætt.

Landsdómur er sá vettvangur sem þau völdu fyrir andstæðing sinn Geir H. Haarde. Er ekki komið að þeim báðum núna?

Bréf Árna er góð upprifjun á hruninu og hverjir léku þar aðalhlutverkin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er gaman. Sjálfstæðisflokkurinn kom hvergi nærri Hruninu. Bara þeir sem reyndu að hreinsa til í brunarústunum.

Ómar Ragnarsson, 13.2.2016 kl. 00:35

2 identicon

Árni Páll hoppaði upp um nokkur sæti á vinsældarlistanum.

sh (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 00:53

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nú reynir á rústabjörgunarsveit Samfó eftir síðustu sambúð.Kemst hún heil út úr því sambandi?
 

Helga Kristjánsdóttir, 13.2.2016 kl. 04:36

4 identicon

var samfylking í aðalhlutverki í hruninu ????. Söguna verður að skrifa . Nýr vinkil óneitanlega.

Höddi (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 14:26

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Ómar, þið Samfó voruð ekki stuðningsmenn Hrunstjórnarinnar, var það nokkuð? Samó var ekki einu sinni í henn, var það  nokkuð. Geir var sakfelldu fyrir að geta ekki treyst einum ráðherranum úr Samfó því hann kjaftaði frá öllu. 

Höddi, nei auðvitað kom Samfó hvegi nálægt hruni Lehmans bræðra.Það var helvítið hann júnóhú sem allir vita. Þeir í Sovét kunnu að skrifa söguna svo hún passaði við það sem skeði og notuð lausblaðabækur svo hægt væri að segja nýja sögu þegar þess þurfti.

Halldór Jónsson, 13.2.2016 kl. 15:48

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ómar, mer synist hann vera að tala um frammistöðuna í eftirmála hrunsins, þótt hann raunar berji sér á brjóst fyrir það góða í störfum hrunstjórnarinnar, sem hann var þátttakandi í.

hér er ekki verið að hvítþvo sjálfstæðisflokkinn í þeirri stjórn heldur er verið að viðurkenna að hluta bresti samfylkingarinnar þar og afneitunnar hennar á þær staðreyndir í eftirmálanum. Afneitunina, galdrabrennuna.

Hér er verið að benda á að lýðræðið var hunsað í ESB málinu og stjórnarskrármálinu. Það sýndarlýðræði sem birtist í grasrótarvinnu um stjörnarskránna var frá framsókn komið, en framsókn setti það sem skilyrði fyrir stuðningi við bráðabirgðarstjórnina að stjórnlagaþing yrði sett um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Samfylkingin vildi það ekki og hafnaði aðkomu þjóðarinnar á öllum stigum. Sýndarþjóðaratkvæði um málið nefndi ekki höfuðtilgang breytinganna, sem var að heimila fullveldisframsal.

Þá komum við að því sem Árni nefnir ekki og virðist ekki hafa hugmynd um, en það er sú staðreynd að stjórnarskrármálið og ESB umsóknin voru og eru sama málið.

http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

2009 átti að koma okkur með hraði í evrópusambandið, en til þess að svo gæti orðið þurfti að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá. M.a. óskorðaða heimild til valdaframsals í grunnþáttum stjórnsyslunnar. Þetta átti fyrst að gera mevð að breyta ákvæði um tveggja þinga samþykkt og láta þjóðaratkvæði skera úr um breytingarnar. Það stoppaði framsókn með kröfu um stjórnlagaþing.

í upphafi þessa var leitað til Feneyjanefndar evrópusambandsins 2009 um álitsgerð og greiningu á því hverju þyrfti að breyta í stjórnarskrá til að vera gjaldgeng í sambandið sem og að geta hafið aðlögunnarviðræður með lögmætum hætti. Þessi skýrsla var svo klár 2010 og var grundvöllur laga um stjórnlagaráð, þar sem m.a. Undirstrikað í 7. Verklið að taka þyrfti á framsalsgreinum.

allir þekkja svo sirkúsinn sem eftir fylgdi, sem varð til þess að þjóðin fór að upplifa þetta sem aðskilin mál. Lýðskrum um þjóðareign auðlinda var einn frasinn og aldrei minnst á að það breytti engu því ráðstöfunarvaldið endaði eftir sem áður í höndum þingsins.

Þegar hið vafasama stjörnlagaráð skilaði svo tillögum sínum, voru þær rakleiðis sendar til Feneyjanefndarinnar til blessunnar, sem sendi álitsgerð sína til stjórnarinnar 2013 með falleinkun. Niðurstaðan var sú að nýju drögin væru gagnslaus með tilliti til esb umsóknar vegna þess m.a. að of margir fyrirvarar voru á framsali valds. Þessi nýju drög voru reyndar verri en gamla stjórnarskráin í þessu tilliti auk annarra annmarka.

Þetta varð til þess að bæði stjórnarskrarmálið og umsóknin féllu dauð á sama augnabliki. Ekki varð lengra komist. Það mátti ekki einu sinni opna þá kafla er sneru að framsali. Þetta hafði örugglega þegar komið fram í rýniskýrslum sambandsins, sem ekki hafa verið birtar enn og sveipaðar eru leyndarhjúp einmitt af þessum sökum, ef ætla má.

Þessu var ekki sagt frá heldur fengu spunafyrirtæki út í bæ það verkefni að umorða staðreyndirnar svo sannleikurinn yrði ekki opinber. Hlé, var sagt. Umsóknin á ís.

reyndin er sú að það átti að kaupa tíma til að leiðrétta forganginn. Þ.e. Breyta stjórnarskranni fyrst til að gera okkur gjaldgeng í stað þess að reyna að gera þetta samhliða eins og reynt var með klækjapólitík. Þessvegna er ekki minnst á umsóknina nú en áfram sótt hart að koma breytingum á stjórnarskrá i gegn.

Óheiðarleikinn er því enn til staðar og allt gert til að láta líta út fyrir að málin séu aðskilin.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.2.2016 kl. 19:51

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Steinar Ragnarsson

Mér líkar þessi greining þín stórvel og ég get ekki annað séð en að hún fylgi staðreyndum. Þatta var allt klækjapólitík til að blekkja fólk og fá það til að trúa því að það væri verið að gera allt annað en það sem var verið að gera. Þetta er sama platan og Hitler spilaði því hann fyrirleit þýska almúgann eins og aðrir sósíalistar gera. Hann spilaði inn á heimsku massans sjálfum sér aðeins til framdráttar. Hann vissi allan tímann að hann yrði  að ná alræðisvöldum því það er ekki hægt að blekkja allt fólk alltaf.   

Halldór Jónsson, 13.2.2016 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband