Leita í fréttum mbl.is

Misst af strætó-enn einu sinni

þegar enn eitt ferðamannasumarið fer í vaskinn vegna ömurlegs ráðleysis Alþingis. Milljón ferðamenn fá að traðka landið niður við Gullfoss og Geysi til dæmis án þess að ferðaþjónustan leggi neitt nema smáaura til efnahagslífsins.

Karen Elísabet Halldórsdóttir tekur þetta mál fyrir í ágætri grein í Mogga í dag. Hún rekur þar sögu ræfildómsins á skiljanlegu máli, hvernig stjórnvöld láta stjórnast af upphrópunum hagsmunaaðila. Grípum niður í greininni:(bloggarinn er á feitletursstönginni)

"..... Af því að við erum frekar hrifin af því að hafa öll eggin í sömu körfunni þá má núna finna stjórnlausa heimagistingu í hverju húsi, allir eru orðnir „gædar“ og sérfræðingar um landið þvert og endilangt og ferðamannaþjónustan blómstrar sem aldrei fyrr, meira segja sú sem gefin er upp til skatts.

..... En ferðamaðurinn er sannarlega búinn að átta sig á því með mögulega en vonandi ekki óafturkræfum slæmum afleiðingum fyrir náttúruna. Vandræðagangur okkar lýsir sér helst í því að ekki er hægt að ákveða einfalda gjaldtöku af túristanum til þess að vernda landið og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða. Keppnin um að fá sem flesta ferðamenn yfirgnæfir áköll þess efnis að stíga verður varlega niður til móður jarðar.

Eftir töluverðar greiningar og skýrslur var lagt fram gistináttagjald, því var mikið mótmælt en að lokum samþykkt ca 100 kall á nótt. Komugjöld hafa verið rædd, það var víst ómögulegt, hætt við það. Náttúrupassinn lagður til, það var víst ómögulegt, hætt við það. Svo kom einhver undarleg umræða um bílastæðagjöld, sem er í raun allt önnur umræða og ætti að ræða aukreitis við gjöld til uppbyggingar og verndunar á náttúrunni. Niðurstaðan var að setja þetta bara á fjárlög í fyrra og láta skattgreiðendur borga þetta. Ferðamaðurinn, þeir sem selja ferðir og nýta sér ókeypis inngöngu á niðurtroðnar náttúrperlurnar græða því helst á því.

Svo var stofnuð Stjórnstöð ferðamála til að skera á hnútinn og þau leiðindi sem fylgja opinberri ákvörðunartöku á Íslandi. Ákvörðunartöku sem einkennist af upphrópunum hagsmunaaðila, fólks sem neitar að borga annaðhvort komugjöld eða náttúrpassa til að skoða það sem „þjóðin“ á sjálf. Pólitískir popúlistar reyndu að segjast eiga Geysi og hálendið og þar af leiðandi mætti ekki rukka neinn eða neitt. Sjoppan á Geysi er enn sem komið er eini aðilinn sem hagnast á ferðamönnum á svæðinu og ber engar skyldur til uppbyggingar eða verndunar. Við getum bara vonað að Stjórnstöðin skili glæsilegri niðurstöðu áður en það verður of seint. Áður en við dettum úr tísku, áður en við höfum byggt of mörg hótel, áður en búið er að skíta í hvert horn vegna aðstöðuleysis, áður en of margir slasast eða deyja vegna óviðeigandi öryggiskrafna, áður en hér verður ekkert sjá nema myndir af því þegar náttúran naut vafans.

Það rífur í hjartað að sjá hversu erfitt er að komast að niðurstöðu í þessu máli. Náttúrupassinn var fín hugmynd ef fólk hefði gefið sér tvær mínútur til umhugsunar. Nútímaleg og hefði skilað miklum tekjum til ríkissjóðs sem hefði strax getað hafið uppbyggingu á vegum og aðstöðu til ferðamennsku. Komugjöld eru líka góð hugmynd og hefðu ekki skaðað neinn, einföld í afgreiðslu en af því að fólki, sem þarf að ferðast frá heimalandinu og til baka, fannst ósanngjarnt að borga þetta þá var því miður hætt við. Gistináttagjöld eru líka góð hugmynd en duga skammt óbreytt til að mæta kostnaði við að taka á móti milljón ferðamönnum oftar en einu sinni.

Neikvæð og hávær umræða í samfélaginu um gjaldtöku vegna uppbyggingar ferðamannastaða hefur því að mínu mati gert að verkum að ágætistillögum, s.s. náttúrupassa og komugjöldum, er frekar hent út af borðinu heldur en að þær séu slípaðar og mótaðar áfram.

Við höfum misst okkur í magnvæðingu ferðamanna og tapað sjón á því hvað það er sem ferðamenn vilja hingað sækja. Þeir vilja sjá og hitta hinn sjálfumglaða og sérstaka Íslending sem tekur vel á móti fólki, er stoltur af þjóð sinni, landi og frumkrafti. Þeir vilja finna lyktina af einstakri náttúrunni sem er víðfeðm og ósnert. Að lokum vilja þeir upplifa fá- mennið og kyrrðina. Það stefnir í að við getum bara selt það einu sinni, þar sem magnvæðingin og hraðinn er að verða okkur ofviða og enn eitt sumarið fer forgörðum."

Hér er gripið á vandanum sem við er að etja. Endemis ræfildómur Alþingis sem vegna leti og aumingjaskapar þingmanna leggur alla byrðina á sláturdýrin þeirra, okkur skattgreiðendur landsins. Ferðamaðurinn borgar ekkert og þjónustuaðilarnir borga ekki einu sinni aðgang að klósettum verslunarkjarnans í Hveragerði, þegar 15 rútur með fullfermi stoppa á planinu og biðröðin á kvennaklósettið nær næstum út á þjóðveg meðan kallarnir míga bak við húsið í stað þess að missa það í buxurnar.

Vitleysan ríður ekki við einteyming hjá Íslendingum frekar en fyrri daginn. Við misstum af strætó enn einu sinni enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi.  Nýlegur pistill:

Stefnir í offjölgun ferðamanna? Hvað er til ráða?

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/2171582/

Ágúst H Bjarnason, 20.5.2016 kl. 11:53

2 Smámynd: Halldór Jónsson

 Las þinn ágæta pistil. Mér finnst blasa við ef þessi fjölgun er svona rosaleg að það sé búið að fréttast að hér sé útsala. Verðið er of lágt hjá okkur, það verður að stýra með því að hækka eins og öllu öðru er stýrt. Ég hef meiri trú á því en að fara hægja á með því að láta ferðmaennnina b+iða etgir lest eða labba langar leiðir eins og í Stonehenge. Hér er oft kolvitlaust veður og ekkert gaman fyrir gædinn  að bagsa niður Almannagjá á móti austan þræsunni og týna farþegunum. 

Halldór Jónsson, 20.5.2016 kl. 13:14

3 identicon

Góðan daginn.

Hvernig var þetta nú með síldina forðum.?

Það eru flestir búnir að gleyma því, en eftir standa nokkur auð þorp.

Bestu kveðjur.

SB.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 20.5.2016 kl. 16:30

4 identicon

Hér er allt skattpínt uppí hæstu hæðir. Túristar líka. Þetta er bara spurning um að eitthvað af skattpeningunum drullist á rétta staði.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.5.2016 kl. 19:47

5 Smámynd: Elle_

Það er ekki alveg allt skattpínt upp í hæstu hæðir.  Það má aka og trampa niður landið með milljónir túrista í rútum og enginn nema ríkissjóður verður rukkaður fyrir skemmdirnar.  Ætli við finndum það erlendis?

Elle_, 20.5.2016 kl. 23:38

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvers vegna á öll önnur atvinnustarfsemi að greiða fullan virðisaukaskatt af rekstri sínum, en ferðaþjónustan einungis helming, eða minna? Undarlegur andskoti. Eg tel að skattleggja ætti atvinnustarfsemi eftir saurmagni. Leggja á skólpskatt. Það er eina vitið.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 21.5.2016 kl. 00:09

7 identicon

Sigmundur Davíð vildi breyta Landspítala í hótel og ríki og borg byggðu gervispítala á Fáskrúðsfirði í gegnum Minjavernd.  Biðröð á klósett er eitt - en það er bókstaflega verið að sturta niður skattpeningum í þetta rugl.  Í ofanálag fáum við fréttir af mansali og bakbrotnum ferðamönnum og allt sumarið framundan :) 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband