Leita í fréttum mbl.is

Bjarni Ben mun standa við orðin!

Grein í Morgunblaðinu:

Réttlætismál aldraðra

 

Eftir Bjarna Benediktsson

BB-mynd1"“Frelsi einstaklingins til að ráða sínum málum sjálfur, afla sér tekna og verja þeim að vild á ekki að ljúka þegar lífeyrisaldri er náð.”

Um daginn hitti ég mann sem er kominn yfir sjötugt. Hann sagði mér að hann væri hættur að vinna – aftur. Hann hafði hætt þegar hann komst á aldur en síðustu ár hefur orðið heldur þrengra í búi hjá honum og konu hans og þess vegna tók hann því feginshendi þegar honum bauðst vinna hjá sama vinnuveitanda og áður. Vinnan var ekki mikil og launin þannig séð ekki heldur, en hann hugsaði sem svo að það munaði um allt og svo var líka ánægjulegt að fara reglulega út úr húsi, starfið var skemmtilegt og vinnufélagarnir líka.

Hver var ávinningurinn?

Ekki leið á löngu þar til hann áttaði sig á því að þrátt fyrir að launin næmu 80.000 krónum á mánuði, jukust ráðstöfunartekjurnar ekki um nema rúmar 4.000 krónur á viku. Að hans sögn skilaði vinnan vegna skerðinga innan við 20.000 krónum betri stöðu í lok mánaðar. Þrátt fyrir að þessi maður hefði ánægju af starfinu og fengi þó meira en ella í vasann, sagði hann upp. Hann sagði að það hefði verið hæpið að það svaraði kostnaði fyrir hann að sækja vinnu enda fylgja því alltaf einhver útgjöld, ekki síst þegar aka þarf talsverða vegalengd, eins og í þessu tilviki, með bensínverðið eins og það er.

Þarna er maður, góður í sínu fagi, sem getur lagt til verðmæta þekkingu og nýtur þess að vera virkur á vinnumarkaði. En – honum sárnaði virðingarleysið sem fólst í því að skerða tekjur hans með þessum hætti og hvatinn til þess að vinna gufaði upp.

Ástæðan er sú að árið 2009 voru tekjumöguleikar aldraðra skertir með því að afnema rétt fólks yfir sjötugu til að vinna fyrir launum sem þessum án þess að það hefði áhrif á bætur.

Sé fólk í þeirri stöðu að geta og vilja vinna á það að hafa möguleika á því án þess að skerðingar bóta leiði til þess að allur hvati sé af því tekinn. Hér gæti einhver sagt að bætur væru einungis fyrir þá sem þurfa á þeim að halda og engar hafa tekjurnar. Það er rétt svo langt sem það nær en það er fleira sem hangir á spýtunni. Ef of langt er gengið í skerðingum upplifir fólk hvorki tilgang né sanngirni í þeim stuðningi sem stjórnvöld veita. Við verðum að gera kröfu um að lög og reglur styðji við sjálfshjálp, tryggi umbun fyrir að leggja sig fram og festi ekki aldraða í fátæktargildrum.

Þungar byrðar á aldraða

En þetta er ekki það eina sem hefur rýrt kjör eldri borgara á þessu kjörtímabili.

Tekjutengingar vegna maka- og fjármagnstekna hafa verið stórauknar. Grunnlífeyrir hefur verið skertur og stór hópur sem áður fékk slíkan lífeyri gerir það ekki í dag. Bætur hafa ekki haldið í við verðlag.

Þegar metnar eru breytingar á fjárlögum innan líðandi kjörtímabils kemur í ljós að aldraðir standa undir um 10% varanlegs niðurskurðar í ríkisrekstrinum. Samtals má áætla að ríkisstjórnin hafi dregið úr greiðslum til málaflokksins um a.m.k. 13 milljarða. En aldraðir hafa að sjálfsögðu ekki, frekar en aðrir þjóðfélagshópar, sloppið við skattastefnuna og þannig er sótt að þeim úr tveimur áttum.

Fjöldi eldri borgara, sem hafa orðið fyrir barðinu á svonefndum auðlegðarskatti, hefur litlar eða engar tekjur til að standa undir slíkum greiðslum. Um 300 manns með tekjur undir 80.000 krónum á mánuði reiddu fram 430 milljónir í þennan skatt árið 2011. Þennan skatt þarf að afnema hið fyrsta.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar einnig að afturkalla þá kjaraskerðingu, sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009. Skerðingum vegna greiðslna á ellilífeyri, krónu fyrir krónu, verður hætt og hann leiðréttur til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.

Réttlætismál

Sjálfstæðisflokkurinn mun bæta stöðu aldraðra. Draga aftur úr tekjutengingum og hjálpa fólki til sjálfshjálpar með því að leyfa öllum yfir 70 ára aldri að afla sér tekna án skerðinga. Hækka að nýju lífeyrisgreiðslur, tryggja að aldraðir á dvalarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði og eyða þeirri mismunun sem birst hefur í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár.

Frelsi einstaklingins til að ráða sínum málum sjálfur, afla sér tekna og verja þeim að vild á ekki að ljúka þegar lífeyrisaldri er náð. Aldraðir eiga að njóta efri áranna með reisn. Þeir eiga að hafa raunverulegt val um hvernig þeir haga lífi sínu, hvort sem það felst í að búa á dvalarheimili eða í eigin húsnæði, stunda vinnu eða ekki.

Það er réttlætismál að veita öldruðum raunverulegt frelsi til að njóta ávaxta ævistarfs síns. Í þágu þess réttlætismáls ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vinna".

Morgunblaðið 9. apríl 2013
Eftir Bjarna Benediktsson
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1461472

Nú eru að koma kosningar. Kjósendur hafa tækifæri til að bera saman orð og efndir.

Bjarni Benediktsson hefur heitið þvi að Sjálfstæðisflokkurinn undir sinni forystu muni færa sig nær miðjunni með því að gleyma ekki gildi samhjálparinnar og aðstoðar við þá sem minna mega sín.

Ef nokkrum íslenskum stjórnmálamanni er treystandi til að reyna af öllum mætti að standa við orð sín, þá er það Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

STÓRUNDARLEGT af þér, ágæti Halldór, að skrifa með þessum hætti, því að þessi kosningaloforð sín vottaði Bjarni formaður með hátíðlegum hætti í Morgunblaðinu 9. apríl 2013 og hefur nú haft meira en þrjú ár til að efna þau, en ennþá bólar ekkert á efndunum!

Eru þessi lokaorð þín kannski það oflof, sem í raun er háð?

Eða ertu bara að reyna að keyra sporann á Bjarna, svo að hann blygðist sín og efni þetta án tafar, áður en allt kjörtímabilið er úti? Já, setji þetta inn í þau fjárlög, sem nú er unnið að, en hefjist reyndar, eins og réttmætt er, nú þegar handa við að leiðrétta álagningaseðlana, sem sendir hafa verið út og ekki voru í samræmi við hans og flokksins gefnu loforð!

En hvar er Bjarni? Kannski enn á Flórída?

Jón Valur Jensson, 23.7.2016 kl. 21:38

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

PS. Upp með lífeyrisgreiðslur!

Niður með tekjutengingar lífeyrisgreiðslna!

Jón Valur Jensson, 23.7.2016 kl. 21:41

3 identicon

Ef allt hefði verið eins og hefði átt að vera þá væri enn eftir ár i kosningar og góður timi til að efna loforð öll  ..hja Sjálfstæðismönnum eins og Framsóknar sem i raun hafa staðið við öll sin ,,,svo eg tek undir með Halldóri að eg treysti BB að reyna sem hann getur ás þeim tima sem eftir er ...og vonandi að verði hætt við að kosningar verði á rettum tima að ári !

RAGNHILDUR H. (IP-tala skráð) 23.7.2016 kl. 23:22

4 identicon

Ég hef heyrt að staðan í húsnæðismálum sé þannig í dag að það sé búið að Hreinsa út úr gystiheimili, sem í bjuggu öryrkjar sem voru að bíða eftir félagslegu húsnæði.

Þar hýrðist þetta fólk í einu herbergi vegna þess að örorkubætur buðu ekki uppá neitt skárra á almennum markaði.

En nú er svo komið að þessu fólki er úthýst þaðan, vegna þess að það þarf að nota húsnæðið fyrir túrista, sem borga betur. Og ekkert bólar á lausn Eyglóar Harðardóttur. Ég veit um fólk sem er á götunni vega þessa. Sumir sofa í bílnum, allavega þeir sem eru svo heppnir að eiga bíl.

Það er hægt að nefna mögr fleiri dæmi um ömurleikann í húsnæðismálum á Íslandi. T.D. hitti ég konu um daginn sem sagði mér að hún ætti fjögur börn frá 20til 35 ára og þau eru öll ennþá heima, plús tengdabörn og barnabörn og staðan væri vægast sagt ekki góð.

Ég hef verið á sjó mest af mínum starfsferli. Ég veit ekki um einn eiasta Skipstjóra sem hefur gert ekkert í þrjú ár og haldið plássinu. En Halldóri og Ragnhildi finnst það flottur árangur.

Þessi ríkisstjórn hefur gert akkúrat ekkert í þrjú ár go það bólar ekki einusinni á einhverjum kosningagulrótum.

Við skulum bara óska Vestmannaeyjingum til hamingju með það að Eygló er ekki að vinna í fiski í Eyjum. Því þá væri hann allur ónýtur.

K,V

Steindór Sigurðsson

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 04:33

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir hvert orð Steindórs Sigurðssonar.

Hrólfur Þ Hraundal, 24.7.2016 kl. 09:08

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, þetta eru sannarlega eftirtektar- og virðingarverð orð frá Steindóri Sigurðssyni, þarna er um allstóran -- nei, allt of stóran -- hóp afskipts fólks að ræða sem býr við gersamlega óviðunandi aðstæður.

Það verður væntanlega tekið eftir því ekki seinna en nú um helgina í Valhöll, að hinn mikli og trúi sjálfstæðis- og Morgunblaðsmaður Hrólfur Hraundal, skuli hafa séð sig tilknúinn af réttlætisástæðum til að taka hér undir þessi afhjúpandi sannleiksorð Steindórs Sigurðssonar.

Jón Valur Jensson, 24.7.2016 kl. 10:07

7 identicon

Hér er ágætt yfirlit yfir hvernig þessu hefur verið háttað undanfarið. Enginn mun trúa orðum BB um þessi mál í aðdraganda næstu kosninga

http://gudmundsson.blog.is/blog/bjorgvin_gudmundsson/#entry-2176979

Þórir N. Kjartansson (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 10:40

8 identicon

Kæri Halldór !  Hvað er að gerast með þig sem hefur skýrt okkur frá spillingunni varðandi sjávarauðlindina, með skrifum þínum um Færeysku leiðina. Spilling er varðar sjávarauðlindina   og sem er framreidd af bláu höndinni, og dreyft til gæðinga með fjósaskóflu framsóknarmanna.  Eða munum enn við hvernig atkvæði voru greidd af Bjarna Ben. og húskarla og húskerlinga hans þegar atkvæðagreiðsla fór fram með nafnakalli á alþingi s.l vetur, og ekki var réttlætiskenndin meiri hjá framsóknarliðinu. Halldór við sem ættum að þekkja til hlutanna ættum ekki að láta ljúga að okkur lengur.  Núverandi stjórnarflokkar eru svikular liðleskjur.

Ekki trúi ég því að gamlir og góðir sjálfstæðismenn ætli að gera Unni Brá að leiðtoga lífs síns, eða núverandi ritara sjálfstæðisflokksins

Kannski verða sumir kjósendur bernskir og auðtrúa og láta segja sér eins og kerlingunni var sagt forðum. Kjósa D,  því D sé fyrir drottinn.embarassed  

Eðvarð Lárus Árnason (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 12:06

9 identicon

Menn þurfa að vera ansi einfaldir til að trúa BB

DoctorE (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 17:29

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón minn Valur

án þess að ég ætli að hreykja mér eitthvað sem ég hef ekki stærð til, þá minni ég á orð Einars Ben þar sem hann sagði "mitt er að yrkja, ykkar að skilja" Ég skil hinsvegar ekki allt sem  ég yrki eða hugsanlega vil að ekki.

Eddi lögga, gleymum ekki því sem vel er gert. Unnur Brá stóð eins og klettur þegar aðrir brugðust í Icesave. Fyrir það á hun sess í mínu hjarta þó að okkur hafi orðið sundurorða núna.

Steindór, ef þú vildir hleypa mér og Stólpi-Gámar að með gámaeiningar þá myndum við  útrýma skortinum og okrinu líka. Að íslenskir byggingaaðilar skuli geta selt á 700 þús kall fermetrann þegar hann kostar 100 þús i Póllandi. Það er bara markaðsbrestur með lóðir hérna svo það getur enginn gert neitt. Þetta er allt svo helfrosið. 

Hvaða standard þarf ég? Þarf ég flísalagt bað? Þarf ég flókið eldhús og klakavél?

Halldór Jónsson, 24.7.2016 kl. 18:16

11 identicon

Já Halldór , þú mátt ekki taka þessi orð mín eins og þetta sé allt þér að kenna. En að reyna að hrósa svona hyski, það bara skil ég ekki, það bara einfaldlega er ekki hægt. En vita máttu að ef þetta væri á mínu valdi væri ég fyrir lifandislöngu búinn að gefa þér leyfi til að leysa vandann. Og ég er alveg 100% sammála þér að það þarf engar lúxusíbúðir eins og snyllingarnir eru á fullu í byggja. Þeir byggja tveggjaherbrgja íbúðir sem á að selja á 50.000.000 kr. Ég bara spyr fyrir hvern eru þær? Og þú mátt heldur ekki taka því þannig að ég sé að mæla með síðustu ríkisstjórn , Hún var hálfu verri ef eitthvað er. Þeir settu svo fáránlegar reglur að það er bara ekki hafandi eftir það rugl.

En vandinn er og hann verður að leysa strax, ekki seinna heldur strax. Ég er alveg handviss um að hluti af þessu fólki lifir ekki af veturinn ef ekkert er að gert.

En aðalvandinn er sá að það er ekkert nothæft fólk í pólitík og ástæðan er sú að nothæfa fólkið er upptekið í vinnu. Það eina sem þessum pólitíkusum dettur í hug er að ræða málin á lýðræðislegan hátt. En að gera eitthvað, nei það er ekki með.

Góðar stundir.

Steindór Sigurðssom

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 19:46

12 identicon

Sæll Halldór.

Orðalagið "Mitt er að yrkja, ykkar að skilja"
hafa flestir listamenn á Íslandi tekið undir
en Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal sagður
hafa svarað svo skólapiltum einhvern
tíma í kenslustund, er hann var beðinn um skýringu
á kvæði, sem hann hafði sjálfur ort.
Þessi vísa Gröndals er honum lík:

Slengdu þjer duglega sál mín um geiminn
sjóðandi kampavíns lífguð af yl,
kærðu þig ekkert um helvítis heiminn,
hoppaðu blindfull guðanna til.

Húsari. (IP-tala skráð) 25.7.2016 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband