Leita í fréttum mbl.is

Beislum vindinn

er fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins í dag eftir Þorbjörn Þórðarson.

Þar er skrifað af mikilli skynsemi um beislun vindorkunnar.Hún er umhverfisvænasta orkuöflunarleið sem til er. Og það sem meira er þá er hún nærri 100 % afturkræf. Við getum sett upp vindmyllu og afskrifað hana á líklega 12-20 árum. Tekið hana þá niður ef okkur sýnist svo og það sést varla neitt eftir. 

Við sættum okkur við háspennuturna þó núna í minna mæli en áður. Við sættum okkur við 20 hæða stórhýsi sem blasa við í sjóndeildarhringnum þegar maður kemur af Hellisheiðarvegi. Þetta eru að miklu leyti óafturkræfar byggingar sem eru búnar að standa þarna í nær tvo áratugi. Á Hellisheiði eru háspennuturnar úti um allt.

Hver er munurinn á þeim og vindmyllu? Spaðarnir snúast og hreyfing vekur athygli augans. Háspennuturnarnir hafa verið þarna í meira en hálfa öld. Fara varla fljótlega.

Er ekki hægt að sættast á að veita vindmyllum 25 ára starfsleyfi og skulu þær fjarlægðar að þeim tíma liðnum? Nema kannski að þá megi fólk greiða atkvæði um málið? Nýtt fólk, ný sjónarhorn?

En leiðari Þorbjörn er svona fyrir þá sem ekki hafa lesið:

"Vinnsla rafmagns úr vindorku er einhver umhverfisvænasta aðferð sem þekkist til að búa til rafmagn. Verkefnisstjórn um rammaáætlun og löggjafinn ættu að veita vindorkuverkefnum brautargengi og stuðla þannig að því að gera samfélagið minna háð óafturkræfum virkjunum.

 

Náttúruvernd snýst ekki bara um rómantískar hugmyndir um að viðhalda náttúrunni ósnortinni og sjálfbæra auðlindanýtingu. Hún snýst um fyrirhyggju, ábyrga umgengni við auðlindir og tillitssemi við kynslóðir framtíðarinnar. Þannig endurspeglar hún ekki síður ást á framtíðarafkomendum en virðingu fyrir öðrum tegundum í vistkerfinu. Ef maðurinn elskar börnin sín, þá elskar hann náttúruna.

Vindurinn er ótæmandi auðlind og vinnsla rafmagns með vindmyllum hefur ekki í för með sér neinn mengandi útblástur. Uppsetning vindmylla hefur hins vegar sjónræn áhrif á umhverfið og getur þannig gengið í berhögg við hagsmuni í öðrum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu. Varanleg umhverfisáhrif af vindmyllum eru samt lítil og að mestu afturkræf. Þannig er hægt að reisa vindmyllur, framleiða rafmagn í einhvern tíma og taka þær síðan niður án mikillar röskunar fyrir umhverfið.

Landsvirkjun reisti tvær vindmyllur í tilraunaskyni á Hafinu svokallaða norðan Þjórsár í lok árs 2012 og hafa þær framleitt rafmagn frá ársbyrjun 2013. Niðurstöður benda til þess að aðstæður til virkjunar vinds séu óvenju hagstæðar á þessu svæði. Aðliggjandi fjallgarðar mynda trekt fyrir vind ofan af hálendinu sem streymir þarna í gegn. Landsvirkjun hannaði í kjölfarið vindmyllugarð á þessu sama svæði og á hraun- og sandsléttu sunnan Þjórsár. Garðurinn hefur fengið heitið Búrfellslundur og hefur þegar farið í gegnum umhverfismat.

Það verða allt að 67 vindmyllur í Búrfellslundi með framleiðslugetu upp á 200 MW. Það var niðurstaða verkefnisstjórnar í 3. áfanga rammaáætlunar að setja Búrfellslund í biðflokk og því bíða stjórnendur Landsvirkjunar eftir verkefnisstjórn og Alþingi áður en fyrirtækið getur hafið framkvæmdir á svæðinu. Áður hafði verkefnisstjórn samþykkt að setja Blöndulund í Húnavatnshreppi í orkunýtingarflokk en það er vindmyllugarður með framleiðslugetu upp á 100 MW.

Í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar kemur fram að það eru helst neikvæð áhrif á gönguferðir á nærliggjandi svæðum sem mæla gegn Búrfellslundi. Í skýrslunni kemur fram að vindmyllurnar sjáist langt að og hafi því mikil sjónræn áhrif. Þær muni gera umhverfið minna náttúrulegt í hugum ferðamanna og „upplifun þeirra á landslaginu og svæðinu í heild, verður síðri“.

Þetta er auðvitað mjög huglægt og sjónræn áhrif eru einstaklingsbundin. Í ljósi átaka sem einkenna umræðu um virkjanir og nýtingu fallvatns má velta fyrir sér hvort vinnsla rafmagns úr vindorku sé ekki leið sátta og málamiðlana. Röskun sem fylgir beislun vindsins er aðallega sjónræn og eiginleg mengun er engin.

Það hlýtur því að vera von umhverfisverndarsinna sem skynja mikilvægi ábyrgrar auðlindanýtingar að stjórnmálamenn beri gæfu til að tryggja framgang virkjanakosta á sviði vindorku."

Hér er talað af yfirvegaðri skynsemi.

Steingrímur Erlingsson og fyrirtæki hans Biokraft vill reisa vindlund við Þykkvabæ með 15 vindmyllum. Það reisti 2 vindmyllur þar fyrir nokkrum árum. Þær hafa nú gengið þar snurðulaust og hefur nýtingin ekki verið miklu síðri en við Búrfell. Þær hafa verið í sátt við búsmalann og fuglana á svæðinu. Fuglarnir sækja í að verpa undir spöðunum þar sem þeir virðast veita vernd gegn ræningjum.Kindur og hross leita skjóls í skugganum þegar heitt er. Enginn fugl hefur sannanlega flogið á spaðana. Flestir íbúa yppta öxlum aðspurðir um óþægindi. Einstöku eru hinsvegar hatrammlega á móti. Erfitt er alltaf að gera svo öllum líki.

Þarna við Þykkvabæ eru stórir flákar af ónýttu landi þar sem vindlundurinn skal standa. Vindskilyrði eru þarna svipuð og í Búrfelli.Hvort af þessu verður er alls óvitað vegna andstöðu nokkurra íbúa.Hvort skilyrtur vinnslutími gæti haft áhrif á afstöðu náttúrverndarsinna er ekki vitað.

Það merkilega við þesar vindmyllur er að þær sjást illa þegar maður keyrir niður Þykkvabæjarveg. Þær falla einhvern veginn svo í landslagið, himininn og sjóinn að maður kemur ekki auga á þær fyrr en maður er kominn nálægt þeim.Vindmyllur við Búrfell myndu líklega sjást mun lengra að enda líka mun fleiri.

Eins og er vantar rafmagn í landið. Álverið í Helguvík fær ekki straum og stendur hálfkarað.Bjarni Benediktsson sér ekki fyrir sér frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar og framhald stórvirkjana. Er ekki vindlundur heppilegt millispil? Afturkræf framkvæmd sem skilur landið eftir ósnortið eftir örfá ár?

Og er ekki annars gott á bölvað rokið að beisla það til einhvers annars en að svekkja okkur lífverurnar sem reynum allstaðar að skapa skjól til að leita í til dæmis með trjágróðri og skjólgirðingum  þar sem við viljum búa? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég segi alltaf hvervegna vindmillu búskap. Er þetta til þess að þjóna einhverri löngun því þetta er ekki hagkvæmt. Ég hef heyrt að rafmagn frá vindmillum sé það næstdýrasta sem til er og Jarðgufu hverflar eins og í hellisheiðavirkjun sé það dýrasta. Það er hægt að setja upp smá vatnsaflsrafstöðvar á mörg hundruðum bæjum sérstaklega suðurlandsundirlendið og það verður engin sjónmengun af þeim. Þegar ég var strákur þá rafvæddi ég dalinn í Miðfirði með fyrstu raforkuverinu í þeim dal.Þetta var reiðhjóla dínamór og 6 volt og minnir 6 wött og auðvita var hægt að lesa við þetta en rafmagn kom ekki fyrr en 20 árum síðar.   

Valdimar Samúelsson, 11.10.2016 kl. 17:02

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Halldór í ára tugi hef ég fylgst með þessum vindmillubúskap en hér fann ég grein frá Forbes en þetta hefir ekkert breyst http://www.forbes.com/2011/07/19/wind-energy-carbon.html

málið er að menn fóru út í þetta út af styrkjunum sem voru teknir að og ég er viss um að ú eftir að allir eru búnir að skrifa undir grænhúsa dæmið þá byrjar þetta aftur. Enron fór á hausinn með allar vindmillurnar sem eitt dæmi. Dæmið mun ekki ganga upp nema það sé borgað með því.

Valdimar Samúelsson, 11.10.2016 kl. 17:17

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég ætla ekki að kaffæra þig en hér er Enron og sagt fyrirfram að þetta mun aldrei ganga upp...https://www.masterresource.org/enron-corp/the-day-enron-saved-the-u-s-wind-industry-january-7-1997/

Valdimar Samúelsson, 11.10.2016 kl. 17:19

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hver og einn ætti að huga að þessu. Hversvegna að hlaða niður vindmyllum, tvist og bast og þurfa síðan að flytja orkuna um langan veg til notandans? Af hverju beislar ekki notandinn orkuna hjá sér sjálfum og leiðir inn á eigin stofn? Relluspaðar eru ekkert verri sjónmengun en gerfihnattadiskar utaná húsum, ef því er að skipta. Kominn tími til að taka Kára í gagnið, ef svo má að orði komast, án þess Stefánsson móðgist.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.10.2016 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 3420590

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband