Leita í fréttum mbl.is

Aðalatriðin um kjör aldraðra

er að finna í grein Vilhjálms Bjarnasonar alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag. Þeim fjölmörgu sem ekki sjá Mogga vil ég fá auka leti með því að setja textann hér:

"Það eru margar þversagnir sem þarf að berjast við. Ein er sú að í bók er skráð að ekki sé til önnur kynferðisleg öfughneigð en einlífi. Aðra baráttu háði Jón sveitungi minn Ólafsson Grunnvíkingur. Hún var sú að leiðrétta villur sem aðrir framleiddu. Víst er að gnógt er af snillimælum sem hljóma vel og hafa mikla eftirspurn. Stundum er það svo að menn hrærast hvergi þó kraftmiklir lygarar taki með öllu sjónina frá heilli þjóð og ræni hana öllu skynsamlegu viti.

 

Aldraðir

Þannig er í þeirri baráttu sem nú stendur yfir í kosningum til Alþingis að upp úr virðist standa eitt mál; það er svar við spurningunni: Hvað ætlar þú að gera fyrir gamla fólkið? Það kann að hljóma illa að svara: Ég ætla ekki að gera neitt! Annað svar er það að auðvitað sé sjálfsagt og rétt að hækka eftirlaun hæstaréttardómara, þeir eru vissulega í hópi gamla fólksins. Auðvitað er þetta útúrsnúningur og skætingur en varla er annað hægt eins og spurt er. Á þessu hausti hefur reynst erfitt að nálgast þann hóp er í mestri nauð og er jafnvel órétti beittur. Sá óréttur stafar oftar en ekki af því að reynt er að ná fram „jöfnuði“. Sá er þetta ritar hefur horft á bótakerfi almannatrygginga og lífeyrissjóði í samhengi. Því til viðbóta er að sjálfsögðu frjáls sparnaður einstaklinga. Það er rétt að afgreiða frjálsa sparnaðinn út af borðinu í þessari grein með einfaldri athugasemd, því það er svo einfalt að frjáls sparnaður er skattlagður í raun vel yfir hæstu skattlagningu launatekna og stundum vel yfir 100% raunskattlagningu.

Í sem stystu máli er kerfi almannatrygginga byggt upp á þremur meginþáttum. 

*Grunnlífeyrir sem allir fá þegar ákveðnum aldri er náð kann að hækka ef töku grunnlífeyris er frestað. 

*Tekjutrygging er hugsuð til að hver og einn einstaklingur hafi framfærslu ef viðkomandi hefur engar aðrar tekjur. 

*Tekjutrygging skerðist við launatekjur, lífeyristekjur og fjáreignatekjur. 

*Við tekjutryggingu getur bæst heimilisuppbót og hugsanlega aðrir bótaflokkar.

 

Jöfnuður, réttlæti og óréttlæti

Ýmsum finnst það nokkurt óréttlæti að þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð standi jafnfætis þeim sem hafa greitt fullar greiðslur af lágum launum í lífeyrissjóð. Þetta heitir jöfnuður. Það er því nokkuð augljóst að hér takast á réttlæti og jöfnuður. Hvorugt er í boði nema menn telji að réttlæti og jöfnuður sé einn og sami hluturinn. Jöfnuðurinn þýðir í raun mikla raunskattlagningu.

Í hópi þeirra sem þurfa að þola hlutfallslega mestar skerðingar eru þeir sem hafa verið á lægstum launum. Þá er rétt að spyrja hverjir eru það sem eru verst settir?

Sá er þetta ritar telur að þeir sem eru verst settir séu eftirtaldir hópar.

* Öryrkjar, sem aldrei hafa haft nokkra möguleika til að afla sér tekna. Það er óþarfi að útskýra tilvist þess hóps fólks sem er meðal okkar minnstu bræðra og systra og okkur ber að veita sérstaka vernd.  Konur sem fóru seint út á vinnumarkað og hafa jafnvel unnið hlutastörf. Þær hafa ekki haft möguleika á að afla sér lífeyrisréttinda. 

*Konur sem hafa farið í gegnum hjónaskilað eða slit á sambúð, þar sem stærsta fjáreign heimilisins kom ekki til skipta. Með stærstu fjáreign heimilisins er átt við lífeyrisréttindi maka.

* Þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð því þeir hafa kerfisbundið komið sér undan því. Það kann að fara saman við skattsvik. 

*Vissulega er þetta ekki endanleg upptalning en er lýsandi. Samúð mín er öll með ofangreindum hópum nema ef til vill þeim síðasta en grái herinn virðist gleyma öllum nema þeim sem komið hafa sér undan því að greiða skatta og skyldur og í lífeyrissjóði.

Þegar hallar á ævikvöldið kann að taka við vist á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vist á dvalarheimili kostar 4-5 milljónir á ári. Vist á hjúkrunarheimili kostar 9-10 millj- ónir á ári.

Rangfærsla

Það er ein rangfærsla sem gengur að tekjutrygging eigi að vera hluti af grunnlífeyri og óskert. Það var vissa þeirra er stóðu að stofnun lífeyrissjóða um 1970 að almannatryggingakerfið gæti aldrei staðið undir eftirlaunum þeirra stóru hópa sem fæddust um og eftir síðasta stríð. Því yrði að safna í sjóð í stað gegnumstreymiskerfis. Sjóðasöfnun hefur byggt upp þokkalega sterkt lífeyriskerfi en betur má ef duga skal. Því hefur löggjafinn í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins heimilað viðbótarlífeyrissparnað. Greiðslur úr þessum sjóðum skerða tekjutryggingu með líkum hætti og atvinnuleysisbætur fá þeir einir sem ekki eru í starfi.

Ef hugsun gráa hersins nær fram að ganga, það er óskert tekjutrygging, kann það að leiða til þess að tvö- falda þurfi greiðslu tryggingagjalda en þá er farið að nálgast tvöfalt lífeyriskerfi, það er gegnumstreymiskerfi og sjóðasöfnunarkerfi. Ekki er víst að jöfnuður aukist við það ellegar að ekki verði til nýir hópar sem verði þeir verst settu.

Hagsmunir

Hinir stóru hagsmunir eldri borgara eru ekki hvað ríkið borgar í lífeyri. Það er ávöxtun og umgengni um lífeyrissjóði. Að ekki sé talað um frjálsan sparnað. Hagsmunirnir ná yfir langan tíma en geta aldrei orðið stundarhagsmunir.

Það er enn mikið verk að vinna fyrir Jón heitinn Ólafsson að leiðrétta allar þær villur og rangfærslur sem reynt er að fleyta nú um stundir.

Hagsmunir unga fólksins eru öflugt atvinnulíf sem greiðir góð laun. Þau góðu laun eru undirstaða þess að hægt verði að greiða góð eftirlaun eftir farsælan starfsaldur.

Því er aldrei meiri þörf en nú að ræða aðalatriði í málinu en ekki aukaatriði og láta ræna sig öllu skynsamlegu viti."

Hér eru aðalatriði kerfisins dregin fram. Hversvegna er ekki rétt að greiða öllum tekjutryggingu er "Erroribus" sem vinstri menn hjálpa á fætur með blekkingum. Það myndi kosta tvöföldun tryggingagjaldsins sem er að sliga atvinnureksturinn.

Samfylkingin ætlar að skattleggja útgerðina um 200 milljarða á ári og borga þetta og fleira.Formaðurinn grætur það að hafa ekki hætt við að afnema auðlegðarskattinn þar sem hann hafi verið útbúinn með sólarlagsákvæði. Hún mun því styðja endurupptöku hans sem eins og kunnugt er lagðist mest á þá sem hlífa skyldi.

 

Sjálfstæðisflokkurinn fær núna aðeins fimmta hvert atkvæði samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Flokkar sem hafa sagt það og sumir sýnt það í verki að þeir geta tekið þátt í að koma Íslandi inn í hið brennandi hús Evrópusambandsins eru með nærri helming atkvæða.

Skoðum yfirboðin og loforðaflauminn. Skoðum svo hvernig aðstæður eru um þessar mundir í þjóðfélaginu. Mikil atvinna, miklar tekjur, sterkt gengi og lágt innflutningsvöruverð og lág verðbólga.

Hvar er þetta ónýta Ísland vegna ónýtrar stjórnarskrár? Þetta ónýta Ísland með verslunaráþjánina? Þetta ónýta Ísland sem er stórveldi í heimi íþróttanna? Þetta ónýta Ísland með mestu auðlindir jarðar? Þetta ónýta Ísland sem verður að fleygja sem fyrst á bál Evróputollasambandsins?

Það skiptir því greinilega engu máli um kjör aldraðra hvað þú kýst ef þú kýst ekki Sjálfstæðisflokkinn sem er búinn að gera það sem hann gat til áfangabóta.

Það skiptir í raun ekkert máli eftir kosningar ef þú kýst annað en Sjálfstæðisflokkinn því þá færðu 4-5 flokka ríkisstjórn með Össuri, Steingrími,Birgittu og Benedikt. Sú stjórn mun án efa ræða kjör aldraðra af mikilli einurð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 3420625

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband