Leita í fréttum mbl.is

Traust?

'Óli Björn Kárason gerir nauðsyn trausts í stjórnmálum að umtalsefni í Morgunblaðinu í dag. Vitnar til Bjarna Benediktssonar eldri og Davíðs Oddsonar sem báðir voru lengi formenn Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir m.a.:

".... Engar þær aðstæður eru í þjóðfélaginu sem knýja á að kastað sé höndunum til þess eins og mynda meirihlutaríkisstjórn. Hitt er rétt að ólíkar »skoðanir mega ekki leiða til þess, að menn geti ekki unnið saman að augljósum hagsmunamálum allra« svo vitnað sé til áramótaávarps Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, á gamlársdag 1963.

 »Skoðanamunur stafar sjaldnast af illvilja hvað þá samsærishug heldur ólíkum sjónarmiðum. Aukið víðsýni og umburðarlyndi létta lausn margs vanda.«

 Þessi orð Bjarna Benediktssonar eru ágætur leiðarvísir fyrir þá sem leita leiða til að vinna saman í ríkisstjórn. »Víðsýni og umburðarlyndi« auðvelda örugglega andstæðum fylkingum í pólitík að ná saman um skynsamlegan málefnasamning - ekki síst þeim sem lengst er á milli. 

En eitt er að skrifa málefnasamning og annað að koma þeim verkefnum í framkvæmd sem sammælst er um. Málefnasamningur er ekki mikils meira virði en það traust og trúnaður sem skapast á milli þingmanna stjórnarflokka, jafnt óbreyttra sem ráðherra.

 Í stefnuræðu í október 1997 benti Davíð Oddsson, forsætisráðherra, á að Ísland væri land samsteypustjórna:

 »Við þær aðstæður ræður mestu um hvort vel takist til um stjórn landsmála að samstarf sé gott og trúnaður ríki á milli manna innan ríkisstjórnar og þingmenn stjórnarliðsins séu bærilega sáttir við hvernig mál gangi fram. Þessar forsendur hafa verið fyrir hendi í núverandi stjórnarsamstarfi og hefur það gert gæfumuninn. Auðvitað er togstreita á milli flokkanna um einstök mál, eins og sjálfsagt er. En slíkar glímur eru jafnan háðar undir formerkjum þess að ná niðurstöðu sem báðir flokkar geti unað við, en forðast er að setja samstarfsflokki óbilgjörn eða óaðgengileg skilyrði. Það er ekki síst vegna þessara vinnubragða að þeim áformum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála vindur vel fram.«

 Það eru ekki ný sannindi að traust og trúnaður milli samverkamanna eru forsendur þess að árangur náist. Pólitískir andstæðingar geta því aðeins tekið höndum saman og náð árangri við lausn verkefna að traust ríki á milli þeirra. Að sama skapi grefur tortryggni undan samvinnu, eitrar allt andrúmsloft jafnt milli samherja sem mótherja. Samstarf, þar sem vantrú og efasemdir ríkja, verður hvorki langlíft né nokkrum sem að því kemur til gæfu. Þá er betur heima setið en af stað farið.

 Nýrrar ríkisstjórnar bíða mörg krefjandi verkefni á komandi mánuðum og enn fleiri þegar litið er til næstu fjögurra ára. Framundan eru kjarasamningar sem ráða miklu um hvort okkur Íslendingum auðnast að nýta þau miklu tækifæri sem við okkur blasa til að bæta lífskjör og velferð almennings enn frekar, styrkja heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, treysta innviði samfélagsins.

 ...Í áðurnefndu áramótaávarpi sagði Bjarni Benediktsson að »Alþingi og ríkisstjórn hljóta að stjórna í samræmi við þá stefnu, sem kjósendur hafa valið við almennar kosningar«. Það væri merki um pólitísk hyggindi ef þingmenn, sem standa að næstu ríkisstjórn, hefðu þessi orð í huga, þegar gengið er frá málefnasamningi og verkefnin fastsett. Baráttumál einstakra stjórnmálamanna eða -flokka, sem hlutu lítinn hljómgrunn meðal kjósenda, eru þá sett til hliðar og sum jafnvel læst um ókomna tíð niðri í skúffu gleymskunnar.

 »Í frjálsu þjóðfélagi eins og okkar vísar hagnýting þekkingar og tækni öruggustu - og raunar einu - leiðina til bættra lífskjara,« sagði Bjarni Benediktsson sem óskaði þess að Íslendingar hættu »þeirri togstreitu stéttanna, sem engum færir ábata«:

 »Sameinumst um að gera þeim, er örðugast eiga, lífið léttara og búa þjóðinni allri hagsæld og frið í okkar ástkæra en erfiða landi.«

 Þrátt fyrir stórstígar framfarir og gjörbreytt lífskjör eru verkefni stjórnmálanna þau sömu árið 2017 og 1963; að búa þjóðinni hagsæld og frið með sterkum innviðum og traustu velferðarkerfi. Aðeins ríkisstjórn sem byggir á trausti getur leyst þessi verkefni með sóma."

Í ljósi þesarra orða spyr ég um traust mann til þeirra liðahlaupa úr Sjálfstæðisflokknum sem mynda stjórnmálaflokkinn Viðreisn. Fólk sem varð undir á Landsfundum Sjálfstæðisflokksins eða annarsstaðar. Hleypur saman gegn Sjálfstæðisflokknum í eigin hagsmunasókn og tækifærismennsku fylgdar við stjórnmálaöfl sem eiga í grunninn enga aðra langtímahugsjón en afsala fullveldinu til ESB. Og hnýtir sig hiklaust við samsinnað fólk sem hefur beðið kosningaósigur vegna þeirra skoðana.

Getur einhver Sjálfstæðismaður borðið nægilegt traust til Viðreisnar Bjartrar Framtíðar í þeim mæli að geta tileinkað sér ráðleggingar Bjarna Benediktssonar til að styðja þá í ríkisstjórn sem ráðherra efnahagsmála eða annarra málaflokka?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 3420087

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband