Leita í fréttum mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason

skrifar skemmtilega grein um alvarleg mál í Morgunblaðið í dag.

Hann fer yfir þau mál á gamansaman og háðskan hátt hvernig yfirboð á pólitíska sviðinu leiða til langtíma útgjalda fyrir þjóðina. Hann leiðir rök að þjóðin sjálf hafi borgað skuldaleiðréttinguna sem hún fékk 2014. Ennfremur að þjóðin hafi ekkert um það að segja að hér skuli alið sauðfé handa útlendingum að éta án þess að nokkur nauðsyn komi til.

Hver þingspekingur sem er geti komið með byltingarkenndar tillögur í stjórn peningamála sem ganga þvert á það sem Seðlabankinn er að reyna að gera til að halda einhverri stjórn á efnahagsmálum.Og undanskilur hann ekki starfandi forsætisráðherra sem kom fram með margar furðulegar kenningar í áramótaávarpi sínu.

Grein Vilhjálms er svofelld:(Bloggari feitletrar að eigin smekk)

 

" Af öllu því ófullkomna sem mennirnir hafa skapað eru seðlabankar ófullkomnastir. Jafnframt er það svo að með því fullkomnasta sem Guð hefur skapað er fullkominn forsætisráðaherra. Þannig er það víða um lönd en sannast sagna er hann hvergi jafn fullkominn og á Íslandi. Þar er forsætisráðherra og seðlabankastjóraefni í einum og sama manninum. Alvarlegur karlmaður setur sér hvergi mark nema í starfi sínu. Það er aðeins fyrir fullkomnun starfsins sem maðurinn verður máttugur. Og maður sem gefur konu hænsn, hann er séní.

 

Guðsglettni og Nobel

 

Jafnframt var það mikil guðsglettni örlaganna, að á síðasta kjörtímabili Alþingis áttu sæti tveir mestu hagfræðingar veraldar í samanlagðri kristni. Annar þeirra var tilnefndur til verðlauna sænska seðlabankans, sem kölluð hafa verið Nóbelsverðlaun í hagfræði. Hinn tók nokkrum sinnum sæti varamanns í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis en átti að sjálfsögðu að vera aðalmaður vegna djúpstæðrar þekkingar sinnar.

 

Með slíkt lið innan borðs er þess að vænta að efnahagsstjórn nálgist fullkomnun og verði með öllu mistakalaus. Enda er það svo að Ísland hefur náð að byggja upp digrar gjaldeyriseignir og »að erlendar eignir landsmanna reyndust meiri en skuldir okkar erlendis. Þetta eru sannarlega tímamót í hagsögunni«. Þessu til viðbótar hafa heimili og fyrirtæki minnkað sínar skuldir með því að greiða þær.

 

Peningamálastjórn í ólestri?

 

Hvernig má það vera að slíkt gerist þegar peningamálastjórn Seðlabanka Íslands er í jafn miklum ólestri og heyra má í áramótaræðu hins fullkomna forsætisráðherra?

 

Hagstjórn er leikjafræði. Þegar einn gerir eitthvað þá kemur mótleikur annars. Vera má að leikar séu lítt jafnir því annar aðilinn í leiknum hefur meira afl en hinn. Til að mynda við innstreymi lánsfjár vegna vaxtamunarviðskipta getur sá er tekur við innstreyminu sett það sem inn kemur í »sultukrukku« í formi bundins vaxtalauss reiknings. Vaxtalaus reikningur hefur svipuð áhrif og gerilsneydd sultukrukka.

 

Stýrivextir

 

Þessi árangur sem forsætisráðherra lýsti náðist með þeirri peningamálastjórn Seðlabanka Íslands, sem byggist að verulegu leyti á beitingu stýrivaxta og lausafjárbindingu í vaxtamunarviðskiptum. Forsætisráðherranum og seðlabankastjóraefninu kann að þykja stýrivextir háir. Það er áleitin spurning.

 

Stýrivextir Seðlabanka eru sambland raunvaxta og verðbólguvæntinga. Raunvextir eru háir til að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og til að örva sparnað. Álag vegna verðbólguvæntinga er fyrirbyggjandi aðgerð til þess að koma í veg fyrir verðmætaflutninga með óstjórn, sem leiðir af verðbólgu.

 

Efnahagsaðgerð í veraldarsögunni

 

Ein mesta efnahagsaðgerð í veraldarsögunni, að áliti þáverandi forsætisráðherra, átti sér stað á Íslandi árið 2014. Aðgerðin fólst í svokallaðri »skuldaleiðréttingu«. Í raun var það svo að ríkissjóður tók á sig hluta af verðrýrnun lánsfjár umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans.

 

Aðgerðin átti að koma til framkvæmda á fjórum árum. Kostnaður við hana nam 4% af landsframleiðslu. »Kostnaðurinn« af »leiðréttingunni« átti að greiðast af þrotabúum hinna föllnu banka. Með röksemdafærslu varðandi nauðsyn stöðugleikaframlags og að einangra það frá raunhagkerfinu, þá má leiða rök að því að þær greiðslur til »leiðréttinga« voru innistæðulausar og í raun peningaprentun.

 

»Skuldaleiðrétting« og verðbólga

 

»Skuldaleiðréttingin« skapaði um 1% verðbólgu í fjögur ár. Á þessu þurfti Seðlabanki Íslands að taka í ákvörðunum sínum um stýrivexti.

 

Annar hluti af fjármögnun »leiðréttingar« kom af skattlagningu á skuldir banka. 0,376% skattur á skuldir banka virðist hafa leitt til samsvarandi hækkunar á raunvöxtum verðtryggðra lána. Það segir beinn samanburður á vöxtum á lánum hjá lífeyrissjóðum og bönkum í dag. Það má einnig leiða rök að því að eftirspurnaráhrif »leiðréttingar« hafi leitt til 0,25% hærri raunvaxta að öðru óbreyttu.

 

Til viðbótar öllum leiðréttingum hafa allir landsmenn fengið sína »leiðréttingu« með auknum kaupmætti launa, sem sumpart hefur verið étinn upp með hækkun fasteignaverðs hjá þeim sem ekki áttu fasteignir fyrir.

 

Leikjafræðin

 

Þessir einföldu hlutir sýna einungis það að leikjafræðin virkar alveg fullkomlega. Fjármálastjórn og peningamálastjórn spila saman. Aðgerðir í fjármálum ríkisins snerta með beinum hætti lánamarkað og hafa áhrif á vexti á lánamarkaði.

 

Og svo er annað; það er eitt hliðarmarkmiða seðlabanka að stuðla að sem fullkomnastri nýtingu framleiðsluþátta. Seðlabanki hefur með sinni peningamálastjórn á undanförnum árum algerlega látið afskiptalausa framleiðslu á kindakjöti.

 

Seðlabanki og sauðfé

 

Þaðan af síður hefur Seðlabankinn nokkru sinni haft afskipti af því að Alþingi og ríkisstjórn hafa í sem næst heila öld reynt að stríðala velmegandi þjóðir á íslensku lambakjöti. Það er alls ekki framleitt með sjálfbærum hætti. Græn reikningsskil við framleiðslu á lambakjöti eru harla döpur.

 

Kann að vera að stefna í málefnum landbúnaðarins allar götur frá 1924 hafi áhrif á vaxtastig í dag, en það var árið 1924 sem íslenskur landbúnaður varð endanlega ósamkeppnisfær við sjávarútveg um vinnuafl. Fortíðarhyggja hefur nefnilega áhrif á vaxtastig.

 

Aðrar leiðir

 

Á það hefur verið bent að fjölmörg fyrirtæki koma sér undan íslenskri peningamálastjórn með lántökum í erlendri mynt hjá erlendum bönkum og gjalda fyrir það með gengisáhættu. Hafa ber í huga að einungis örlítill hluti mannkyns á kost á að taka lán í þungavigtarmyntinni íslenskri krónu. Það kann að verða of áhættusamt ef allir, einstaklingar og fyrirtæki, gera slíkt. Slíkt væri þó útlátalaust ef íslenskir bankar byggju við raunverulega samkeppni. Það hefur ekki gerst og jafnvel dregið úr henni með aukinni samþjöppun fjármálafyrirtækja.

 

Niðurstaðan verður ávallt einföld

 

Stjórnmálamenn, sem útdeila annarra manna gæðum og telja sig konunga þegar þeir eru einungis fjallkóngar, eiga sinn þátt í því að hækka raunvexti og gera peningamálastjórn ómarkvissa."

 

Mér  finnst Vilhjálmur sleppa því að taka á aðalmeininu í íslenskri efnahagsstjórn. Það er hversu auðvelt það er  fyrir einstaka þrýstihópa að útdeila sér launahækkunum með ofbeldi og gíslatöku.

Nú stendur yfir enn ein kjarakollsteypan sem er meðfram kynt upp af ákvörðun kjararáðs um stórhækkun launa þingmanna eins og Vilhjálms. 44 % byrjunarútspil hins opinbera er auðvitað ekki til að lækka kröfur á almennu markaði.

Nú er að myndast stjórn þar sem ofurhæfileikar og þekking á peningastefnumálum munu vera í forgrunni. Handstýrt gengisfall og lækkun vaxta er ofarlega í hugarheimi aðstandenda þegar eftirspurnarþensla eftir hótelbyggingum þjakar þjóðfélagið.

 

Við þær aðstæður mega Nóbelshæfileikar í hagfræði sín lítils hvaða vaxtastigi sem menn annars vilja keppa að. Enn hefur enginn íslenskur stjórnmálamaður haft kjark til að tala beint út hvað raunverulega stjórnar verðbólgunni á Íslandi. Það gæti móðgað einhvern kjósandann að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Því er bæði praktiskt og getur verið skemmtilegt að tala undir rós um hlutina, einkanlega ef maður stefnir að endurkjöri.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Það gleymist einnig, að það að vera með annað vaxtastig en nágrannaþjóðir, eins og td Noregur , er hagfræðilegur ómöguleiki.

Stefán Þ Ingólfsson, 6.1.2017 kl. 10:41

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þú býrð á Íslandi Stefán er ekki svo? Lifir þú í óraunveruleika? Mér sýnist nú ýmislegt mögulegt ef vel er að farið.

Halldór Jónsson, 6.1.2017 kl. 11:55

3 identicon

Fyrsta setningin er full af glettni og heimspeki sparisjóðsstjórans. Samt sem áður er ég engu nær. Hvað þá heldur að ég skilji Nobel og guðsspaug eða setninguna "... mestu hagfræðingar veraldar í samanlagðri kristni." Þó hef ég lesið Birting og Paradísarheimt.

Getur verið að þetta séu  hugleiðingar fyrir innvígða? Hef lengi langað að fara á fund hjá flokksfélögum, en ekki þorað að trufla það bræðralag skoðanna. Óska Vilhjálmi alls þess besta í þingstörfum.

Sigurður Antonsson (IP-tala skráð) 6.1.2017 kl. 17:21

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er fyllilega óásættanlegt að vextir séu valdboðnir í einu þjóðfélagi. Vextir eiga að vera frjálsir manna á milli. Vaxtaformúla Sveins heitins Valfells er sú eina rétta. Hún er svona:

"Veztir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga." 

Hvað annað í frjálsu hagkerfi?

Halldór Jónsson, 6.1.2017 kl. 17:35

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Vextir en ekki Veztir

Halldór Jónsson, 6.1.2017 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 3420088

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband