Leita í fréttum mbl.is

Er ekki nauðsynlegt að kjósa um ESB

til að slökkva á þeirri vitleysu sem er í gangi?

Það er viðtal í Bændablaðinu við varaformann Viðreisnar. Þar stendur:

"Stjórnmálaaflið Viðreisn fékk sjö þingmenn og 10,5% fylgi í síðustu alþingiskosningum. Eftir langan aðdraganda var mynduð ríkisstjórn þar sem Viðreisn á þrjá ráðherra, þar á meðal ráðherra landbúnaðarmála.

Í kosningabaráttunni voru landbúnaðarmálin ekki efst á blaði en þó kom fram í máli frambjóðenda Viðreisnar að hreyfingin vildi gera róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu. Fyrir mörgum er Viðreisn óskrifað blað en komandi mánuðir munu leiða í ljós áherslur þeirra við ríkisstjórnarborðið.

Blaðamaður Bændablaðsins hitti Jónu Sólveigu Elínardóttur, þingmann og varaformann Viðreisnar, að máli á dögunum. Þau ræddu meðal annars um stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum, nýjan landbúnaðarráðherra og endurskoðun búvörusamninga.

Viðreisn sem flokkur hefur talað fyrir Evrópusambandsaðild og telur ekkert að óttast fyrir íslenska bændur gerist Ísland aðildarland.

Mýrdælingur með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum

Jóna Sólveig Elínardóttir er alin upp á bænum Sólheimahjáleigu austur í Mýrdal þar sem fjölskylda hennar stundar búskap. „Ég sótti alltaf mikið í að fara heim og það var alltaf mikil sveitastelpa í mér. Innan fjölskyldunnar hefur alltaf verið mikill áhugi á að ræða stjórnmál og ég er komin frá miklu framsóknarheimili. Þrátt fyrir að það hafi komið snemma í ljós að ég væri ekki alltaf sammála fjölskyldunni í stjórnmálum þá hefur alltaf mátt vera ósammála og ræða málin. Við getum alveg tekist á um málin en við erum alltaf vinir,“ segir Jóna Sólveig.

„Eftir stúdentspróf fór ég beint í Háskóla Íslands og kláraði þaðan BA-gráðu í frönsku. Svo fór ég í alþjóðastjórnmálin og tók meistarapróf í alþjóðasamskiptum. Í meistaranáminu fór ég í starfsnám út til Parísar og vann í sendiráði Íslands. Eftir starfsnámið kom ég heim og skrifaði lokaritgerðina mína sem fjallaði um áhrif spænskra hagsmunaaðila á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.“

Eftir nám stofnaði Jóna Sólveig ráðgjafarfyrirtæki ásamt öðrum. „Það sérhæfði sig meðal annars í því að aðstoða lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki að nýta sér þá styrki sem ESB hefur upp á að bjóða. Meðfram vinnunni hjá ráðgjafarfyrirtækinu vann ég hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands ásamt því að stunda rannsóknir á því hvernig hagsmunaaðilar höfðu áhrif og upplifðu sig á meðan á aðildarviðræðum Íslands við ESB stóð. Þar skoðaði ég aðallega hagsmunaaðila tengda byggða-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.“

Jóna Sólveig og Viðreisn Jóna Sólveig segir að hún hafi byrjað hjá Viðreisn fyrir um það bil tveimur og hálfu ári þegar byrjað var að móta stefnu og starf flokksins.

„Ég sýndi þessari hreyfingu strax áhuga og tók þátt frá upphafi. Ég hafði í raun aldrei fundið flokkinn minn fyrr en Viðreisn varð til. Það sem heillaði mig var frjálslynd stefna Viðreisnar og áhersla þeirra á að tryggja góða stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Annað sem ég kann að meta við Viðreisn er hversu faglega er staðið að öllu og virkt málefnastarfið er í málefnahópunum.“

Viðreisn og landbúnaðurinn

„Við höfum talað fyrir breytingum á styrkjakerfinu þar sem dregið verð- ur úr framleiðslutengdum styrkjum og farið frekar í beina styrki með áherslu á stuðning til nýsköpunar, jarðræktar og umhverfisverndar. Við höfum aldrei talað um að draga úr styrkjum til bænda, heldur breyta samsetningunni á þeim með það að markmiði að auka frelsi bænda til að gera það sem þeim hugnast best.

Viðreisn er flokkur sem ber hag bænda fyrir brjósti og áttar sig á mikilvægi þess að viðhalda blómlegri byggð um land allt.“ Tækifæri íslensks landbúnaðar Viðreisn hefur talað fyrir því að draga úr innflutningshömlum og segist Jóna Sólveig átta sig á því að það er viðkvæmt mál hjá bændum.

„Það er í raun ákveðinn partur af því að hugsa til neytenda og auka valfrelsi þeirra. Á móti viljum við auka frelsi bænda til að gera það sem þeim hugnast best. Ég held að það séu ýmis tækifæri í aukinni sérhæfingu og áherslu á að markaðssetja okkar hreinu landbúnaðarafurðir bæði á erlendum mörkuðum en líka gagnvart erlendum neytendum hér heima. Þá sér í lagi gagnvart ferðamönnum sem hafa stækkað innlenda markaðinn svo um munar. Í þessu leika meðal annars alþjóðlegar gæðavottanir lykilhlutverk. Þær vottanir myndu sannreyna fyrir erlendum kaupendum að íslenskar landbúnaðarvörur eru mjög hreinar og erum við til að mynda að nota miklu minna af lyfjum en annars staðar í heiminum.

Við eigum að halda áfram að framleiða gæðavöruna sem við erum að framleiða, en fá þá líka stimplana sem við þurfum til að koma henni inn á stóru hágæðamarkaðina.“ Það felast í því mikil tækifæri fyrir bændur að selja vörur sínar beint til neytenda að mati Jónu Sólveigar.

„Í því samhengi má horfa til ýmissa landa Evrópu, en þar þykir eðlilegt að bændur selji sínar vörur heima á bæ. Mér finnst að fólk ætti að eiga val um að kaupa beint af þeim bændum sem vilja selja beint og milliliðalaust heiman frá sér. Þeir bændur sem eru tilbúnir að taka á móti fólki og leyfa því að skoða það umhverfi sem framleiðslan á sér stað í eiga að vera frjálsir til að selja neytandanum vöruna ef honum líst vel á.

Til þess að þetta sé mögulegt þarf að einfalda regluverkið til að auka möguleika bænda til beinnar sölu á sinni framleiðslu, án þess þó að slaka á eðlilegum heilbrigðis- og hreinlætiskröfum,“ segir Jóna Sólveig.

Þorgerður Katrín sem landbúnaðarráðherra

„Ég held að það séu tækifæri falin í því að fá einhvern inn í landbúnaðarráðuneytið sem spyr gagnrýninna spurninga, er ekki alinn upp í kerfinu og einhvern sem að getur komið inn með nýja sýn og getur horft á hlutina frá öðrum sjónarhóli. Mér finnst líka flott að það sé komin kona í þetta embætti, en hún er fyrsta konan sem er með landbúnaðarog sjávarútvegsráðuneytið.“

Breiðar áherslur við endurskoðun búvörusamninga

Meðal fyrstu yfirlýsinga nýs landbúnaðarráðherra var að endurskipa ætti í nefndina sem var falið að vinna að endurskoðun búvörusamninganna og bendir Jóna Sólveig á að nýr ráðherra sé búinn að funda með Bændasamtökum Íslands um málið.

„Það er verið að skoða endurskipun í nefndina sem er falið að vinna að endurskoðun samninganna, en ráðherra boðar breiðari aðkomu að samningagerðinni. Ráðherra er búinn að funda með Bændasamtökum Íslands og er á fullu að ræða við hagsmunaaðila. Það verða breyttar áherslur, en það er verið að skoða tollamálin, grænar áherslur og styrkjakerfið.

Það verður hugað að hag bænda, að hag neytenda og það verður hugað sérstaklega að umhverfinu,“ segir hún.

Landbúnaðurinn og Evrópusambandið

„Ég held að það séu mikil tækifæri fólgin í því fyrir íslenskan landbúnað að ganga í Evrópusambandið,“ segir Jóna Sólveig. Landbúnaður blómstri í Evrópu og það sé hægt að horfa til þess hvað ýmis ríki, meðal annars Danmörk, eru að gera þar með landbúnaðarstyrkjum frá ESB.

„Það má ekki gera lítið úr því að samningaviðræður eru samningaviðræður og Íslendingar geta samið við Evrópusambandið um landbúnaðarmál rétt eins og öll önnur ríki sem ganga þar inn. Það eru alls konar hlutir sem hægt er að horfa á, eins og þá sérstöku stöðu sem Ísland nýtur vegna legu landsins. Við liggjum mjög norðarlega og það eru sérstakir styrkir fyrir landbúnaðarsvæði sem liggja norðan við 62. breiddargráðu og ætti Ísland að geta notið góðs af því.

Svo eru ýmsir dreifbýlis- og byggðaþróunarstyrkir sem myndu standa Íslendingum til boða. Íslenskir bændur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að þeir fái minni styrki ef Ísland gengur í ESB. Í samningaviðræðum Íslands við ESB var alveg orðið ljóst að sambandið myndi ekki standa í vegi fyrir því að íslenska ríkið myndi sjá til þess að íslenskir bændur fengju jafn háa styrki fyrir og eftir inngöngu Íslands.“

Kom á óvart að IPA-styrkir voru afþakkaðir

„Í samningaviðræðum Íslands að ESB á sínum tíma áttu íslenskir bændur þess kost að fá svokallaða IPA-styrki. Þessir styrkir hefðu meðal annars hjálpað bændum að undirbúa sig fyrir nýtt styrkjaumhverfi með inngöngu í ESB. Það kom mér á óvart að þáverandi landbúnaðarráðherra neitaði að taka við þeim styrkjum.

Þessi ákvörðun hefði getað komið sér mjög illa fyrir íslenska bændur ef við hefðum lokið aðildarviðræðunum og gengið í ESB, því þá hefðu íslenskir bændur staðið á núllpunkti og ekki getað fullnýtt sér landbúnaðarstyrki ESB strax,“ segir Jóna Sólveig.

Aldrei talað fyrir því að draga úr stuðningi

„Viðreisn ber hag bænda fyrir brjósti og við höfum aldrei talað fyrir því að draga úr styrkjum til bænda. Við erum flokkur sem áttar sig á mikilvægi þess að viðhalda blómlegri byggð um land allt. Maður skilur alveg að fólk sé hugsi þar sem Viðreisn er nýr flokkur sem talar fyrir kerfisbreytingum í landbúnaði. Hins vegar höfum við alltaf talað um mikilvægi þess að auka hag og frelsi bænda til að gera það sem þeim hugnast best. Við teljum að það séu gífurlega mörg tækifæri falin í breytingum, en breytingar eru nauðsynlegar fyrir framþróun,“ segir Jóna Sólveig Elínardóttir, þingkona "

Þá hafa menn það. Betlilúkan er útrétt hjá þessum Evrópusambandsflokki Viðreisn. Það er einblínt upp í afturendann á Brüssel og beðið eftir að eitthvað detti í gin Íslendinga. Það er hugsjón þessa flokks og Samfylkingarinnar og hallast ekki á með flokkunum nema annar er dottinn úr tísku.

Ég held að það sé nauðsynlegt að kjósa um það hvort Íslendingar vilja ganga í ESB til að slökkva í þessari tímaskekkju í stjórnmálum okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, svona er hægt að fegra hlutina en veit þessi kona ekki hvers vegna Jóhönnustjórninni tókst ekki að semja við ESB? Það var vegna sjávarútvegsmála. ESB vildi komast inn í landhelgi okkar með sína togara en vinstristjórnin var ekki með heimild til þess að leyfa það. Þess vegna stoppaði málið.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 26.1.2017 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband