Leita í fréttum mbl.is

Heilbrigðismálin

voru til umfjöllunar hjá Kára "klára" á stórfróðlegum og skemmtilegum fyrirlestri i Valhöll í gær.

Kári kom víða við. Byrjaði hinsvegar á haturspistli um Donald J. Trum bandaríkjaforseta og sagði að Bandaríkjamenn myndu og yrðu að skipta honum út vegna þess hversu vitlaus hann væri og ómögulegur. Meira að segja dóttir sín yrði að eyða öllum sínu tíma að skrifa á móti kallinum Trump.

Gamli komminn gaus þarna upp í kallinum Kára og hann sagði gamla sögu af sér og samrauðliðum sínum þegar þeir hertóku AFN í Keflavík og útvörpuðu andbandarískum áróðri í klukkutíma áður en herlögreglan kom og barði þá í út. Af þessu var dr. Kári greinilega stoltur.

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hann fengi 20 ára landsvist í USA vegna sérstakra laga frá Jimmy Carter. Hann talaði vel um þann tíma og bandaríska samfélagið sem hann kynntist og viðurkenndi sem væri einstakt þrátt fyrir sinn ófullkomleika og galla.

Kári taldi íslenska heilbrigðiskerfið um margt gott. Við gerðum engan mannamun, við líknuðum öllum, við sveltum engan. Þó kerfið hefði breyst gríðarlega á síðustu áratugum þá er það af nauðsyn að mörgu leyti en öðru ekki.

Spítalaþjónustan hefði verið miðjuð og sjúkrahúsum fækkað. Það væri ekki af illvilja gert heldur yrðu læknar að hafa ákveðin fjölda sjúklinga til að geta verið í æfingu á sínu sérsviði. Sumar aðgerðir ættum við eiginlega ekki að vera gera hér á landi vegna þess að tilfelli  væru ekki nægilega mörg til að halda læknum í æfingu.

Við settum sífellt meiri peninga í þetta kerfi án þess að hafa skýra markmiðssetningu. Hér vantaði algerlega gæðastýringu og gæðakerfi sem þyrfti til að hnitmiða stefnuna, hver ætti að gera hvað og hvernig. Afleiðing af þessu stefnuleysi birtist meðal annars í því að læknar í Íslandi drægju læknar þrefalt meira af hálskirtlum úr börnum en annarsstaðar gerrist og mátti heyra að Kári var mikið um þetta og taldi þetta mikla spillingu og misbeitingu læknavísinda í fjáraflaskyni.

Kári bauð síðan upp á föst skot á sig.Viðar Guðjohnsen benti á að Íslendingar hefðu á síðustu áratugum aukið meðalþyngd sína um 15 kíló. Alls kyns eiturlyfjaneysla og ofneysla og ræfilsskapur hefði aukist stórum skrefum. Væru Íslendingar ekki að eyða stórum fjárhæðum í að fást við lífstílstengda sjúkdóma.

Kári sagði að ekki væri auðvelt að forrita heilann í fólki. Ef hann segði því að gera þetta og hitt þá gerði fólkið það. Heilbrigðískerfið yrði að segja hvernig ætti að fara með þann sjúkdóm sem fyrir framan það stæði. Við fleygðum engum út, við neituðum engum um líkn.Það væri okkar meginstef. En auðvitað væri sárt að sjá hvernig fólk færi með heilsuna sína án þess að hugsa um afleiðingar.Kári hefur áður bent á að enginn fái til dæmis lungnaþembu sem ekki reykir. Þeir Viðar áttu snörp orðaskipti um þetta mál en Viðar er kunnur fyrir harðar skoðanir á ræfilsskap og fólki sem eyðileggur heilsu sína af yfirlögðu ráði.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Gunnlaugur Kristján Jónsson að jafnvel 70 % af kostnaði heilbrigðiskerfis okkar færu í að meðhöndla lífsstílstengda sjúkdóma. Það rennir óneitanlega stoðum undir að tilgáta Viðars Guðjohnsen eigi við rök að styðjast.

Gunnlaugur skrifar svo:

"Tölur sýna að u.þ.b. 70% fjármagns sem veitt er til heilbrigðisþjónustunnar fer til meðferðar á lífsstílssjúkdómum. Með öðrum orðum til viðgerða sem telja má afleiðingar rangra lifnaðarhátta. Ekki þarf að eyða orðum í áralanga umræðu um fjársvelti innan heilbrigðiskerfisins og ber Landspítalann þar hæst. Enginn ágreiningur er um nauðsyn þess að sjúkrahúsin í landinu geti sinnt hlutverki sínu. Hins vegar mun fátt breytast ef ekki kemur til gjörbreyttur hugsunarháttur almennings í þessum efnum. Yfirvöld, að óbreyttu, munu um ókomna tíð kljást við háværar kröfur um meira fjármagn, ekki síst í viðgerðaþjónustuna, enda fá teikn á lofti um að almenningur breyti lifnaðarháttum sínum og beri ábyrgð á eigin heilsu.

 

Oft er því haldið fram, að tiltölulega auðvelt sé að breyta viðhorfi fólks en allt annað mál væri að breyta atferli þess og venjum. Flestir viti hvað er rétt og rangt, hvað er hollt og hvað óhollt en láti sér það yfirleitt í léttu rúmi liggja, hagi lífi sínu að eigin geðþótta. Þegar heilsan síðan gefur sig er einfaldlega bankað á dyr heilbrigðiskerfisins og sagt: Hér er ég - nú takið þið við. Nútímaheilbrigðisþjónusta er ekki undanskilin þörfum markaðarins hverju sinni og virðist í ákveðnum tilvikum taka mið af lífstílssjúkdómum sem og kröfum um útlit og atgervi en á sama tíma ekki gera neinar kröfur til okkar sjálfra um ábyrga hegðun þessu tengda. Tæknin gerir okkur kleift að framlengja lífslíkur umtalsvert. En er það markmið í sjálfu sér? Ættu markmið heilbrigðisþjónustunnar og okkar sjálfra ekki frekar að beinast að auknum gæðum lífsins frekar en lengd þess? Sífellt kapphlaup um lífslengd meðal þjóða og tölfræðilega markmiðssetningu innan heilbrigðiskerfisins í þá átt, þjónar engum tilgangi í að efla lífsgæði og vellíðan einstaklinganna sem njóta heilbrigðiskerfisins eða mynda þjóðirnar. Heilbrigðisþjónusta kostar peninga og mikil áhersla er lögð á að ákveðinn hluti verðmætasköpunar í landinu sé settur í þennan málaflokk. Líklega er þetta stærsti einstaki liður samfélagsþjónustu okkar. Kostnaður samfélagsins í framtíðinni mun aukast vegna heilbrigðismála, m.a. vegna aukinna krafna samfélagsins en ekki síður vegna afleiðinga nútíma lífshátta og oft á tíðum óábyrgrar hegðunar okkar sem einstaklinga.

 

 

Óheilbrigðir lifnaðarhættir dýrir fyrir samfélagið

 

Stofnandi Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) og heilsustofnunar þess í Hveragerði (HNLFÍ), Jónas Kristjánsson læknir (f. 1870) hóf árið 1923 opinberlega að messa yfir landslýð um samspil lifnaðarhátta og heilsu. Hann stóð í þessari baráttu þar til hann lést árið 1960. Yfirleitt í mikilli andstöðu við aðra lækna og samtök þeirra, en flestir kollega Jónasar gerðu lítið úr hugmyndum hans um samspil lifnaðarhátta og heilsu. Í dag þykir grátbroslegt að Jónas átti á sínum tíma í harðvítugum deilum við Læknafélag Íslands sem hann gagnrýndi harðlega fyrir að birta tóbaksauglýsingar í tímariti félagsins.

 

En hvað er til ráða? Hvernig á að koma í veg fyrir að sífellt stærri hluti opinbers framlags til heilbrigðismála, u.þ.b. 70% í dag, fari til meðhöndlunar á afleiðingum óheilbrigðra lifnaðarhátta? Sú öfugþróun er ekki til þess fallin að tryggja heilbrigði landsmanna. Þessari óheillaþróun verður ekki breytt án almennrar hugarfarsbreytingar, en til þess að svo verði þarf ekki síst að koma til markviss stefnumörkun og umtalsvert fjármagn frá hinu opinbera.

 

Vissulega tala stjórnmálamenn og lykilaðilar innan heilbrigðiskerfisins mikið um mikilvægi fyrirbyggjandi starfs og heilsueflingar. Í október sl. samþykkti sérstök ráðherranefnd lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi.

 

Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að Íslendingar skuli vera meðvitaðir um að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu og að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt því slíkt leiði til betri heilsu og aukinnar vellíðanar. Þá segir að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu.

 

Þetta er nú allt gott og blessað. Lítur vel út á pappír. Þegar grannt er skoðað kemur hins vegar í ljós að þessum fögru orðum fylgir sáralítið fjármagn - einungis örlítið brot af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Þessi staðreynd vekur þá spurningu hvort hugur fylgi máli? Í þessu samhengi má benda á að í nýrri landbúnaðarstefnu kemur fram að auka eigi vægi lífrænnar framleiðslu - en aftur, þegar grannt er skoðað, eru opinber framlög til að auka vægi lífrænnar framleiðslu sáralítil í gildandi búvörusamningi.

 

Nánast sýndarmennska

 

Almennt skortir stjórnmálamenn framsýni, dugnað og kjark í þessum málum. Virðast með hugann við daginn í dag og þann tíma sem þeir hafa eitthvað um mál að segja. Sjóndeildarhringurinn miðast við kjörtímabilið hverju sinni. Við skulum ekki velkjast í vafa um að það tekur langan tíma að breyta hugarfari almennings í þá veru að vera ábyrgur gagnvart eigin heilsu, samfélaginu sem slíku og umhverfi.

 

Sá sem þetta ritar telur að það taki a.m.k. heila kynslóð, ef vel er á málum haldið, að færa hlutina til betra horfs. Ef ekki er tekið í taumana án tafar heldur heilbrigðiskerfið áfram að vera óseðjandi hít sem að óbreyttu setur ríkissjóð á hliðina innan örfárra ára og/eða stóreykur kostnaðarþátttöku almennings.

 

Innprenta þarf börnum strax og þau hafa vit til heilbrigða lifnaðarhætti og virðingu fyrir náttúrunni. Þegar þau hefja skólagöngu þarf að vera áframhald á með markvissri fræðslu. Þeir sem nú eru að vaxa úr grasi hafa flestir ekki þann nauðsynlega bakgrunn sem til þarf og því vart séð að almenn hugarfarsbreyting eigi sér stað fyrr en með nýrri kynslóð. Hér þurfa foreldrar ásamt ríki og sveitarfélögum að koma að málum.

 

Vonandi ber ný lýðheilsustefna vott um betri tíma. Fjárframlög henni tengd virðast hins vegar með þeim hætti að við hljótum að spyrja hvort hugur fylgi máli.

 

Í ávarpi fyrir rúmlega sjötíu árum sagði Jónas Kristjánsson læknir, þá forseti NLFÍ, m.a. eftirfarandi:

 

»Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau og skilyrði sem heilbrigði er háð. Vísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til, að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að huga nær eingöngu að meinunum sjálfum. Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd verður að byrja, áður en menn verða veikir. Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu, að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í.«

 

Svo mörg voru þau orð!

Kári nefndi líka í fyrirlestri sínum að honum virtist allir íslenskir stjórnmálamenn vera eins um leið og þeir settust í ríkisstjórn.Þá hyrfu öll séreinkenni þeirra og það væri alveg sem hver væri.

Það eru ekki allir eins og Donald J. Trump, sem Kára fannst nú vera afleitur í Bandaríkjunum, að leggja áherslu á að standa við það sem hann sagði fyrir kosningar. Kári sleppti því að finna neitt jákvætt við það enda málfylgjumaður mikill sem ekki hlustar mikið á mótrök lægri lífsforma.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góð gagnmerk og skemmtileg grein,en það tekur tíma að lesa hana,sannarlega þess virði,takk.

Helga Kristjánsdóttir, 16.2.2017 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 3420089

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband