Leita í fréttum mbl.is

Marta Guðjónsdóttir

greinir vanda Reykjavíkurborgar á glöggan hátt í grein í Mogga í dag. Þar segir hún:

"Á síðasta borgarstjórnarfundi lagði ég fram eftirfarandi tillögu: <ská>Borgarstjórn samþykkir að hefja viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut. Markmið viðræðnanna fælist í því að að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina.

 Tillagan sem týndist

Tillagan var samþykkt samhljóða - en þar með er ekki sopið kálið: Sambærileg tillaga var flutt í borgarstjórn af okkur sjálfstæðismönnum í október 2013. Sú tillaga var einnig samþykkt, henni vísað í borgarráð og þaðan í umhverfis- og skipulagsráð. Þá týndist hún í borgarkerfinu en henni skaut aftur upp kollinum tæpum þremur árum síðar, í umhverfis- og skipulagsráði, sem þá vísaði henni til umsagnar á umhverfis- og skipulagssviði.

 Á umhverfis- og skipulagssviði fékk málefnið prýðilega umsögn samgöngustjóra sem fjallar m.a. um Sundabraut í ljósi hins nýja aðalskipulags og bendir á meginmarkmið þess: »að stuðla að eins skilvirkum og öruggum samgöngum og kostur er án umfangsmikilla gatnaframkvæmda.« Hann fjallar einnig um Sundabraut í ljósi samnings ríkisstjórnar Steingríms J. og og Jóhönnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um frestun stórra vegaframkvæmda á samningstímanum, frá 2012-2022.

Meginmarkmið samningsins er »að tvöfalda a.m.k. hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum«.

Hér mætti líklega bæta við: »Með góðu eða illu.«

Meginniðurstaða samgöngustjóra er svo eftirfarandi:

»Segja má að breyttar áherslur í skipulagsmálum hafi frestað byggingu Sundabrautar.

« Þetta segir allt sem segja þarf, enda engin tilviljun að eftir umsögn samgöngustjóra hvarf tillagan og hefur síðan ekkert verið aðhafst í málinu.

 

Ég mun því fylgja minni tillögu vel eftir svo hún ekki hverfi á tilviljunarkenndu flakki milli ráða og sviða borgarkerfisins.

  

Að gera eða gera ekki

 Meginstefnu núverandi borgarstjórnarmeirihluta verður best lýst með einu orði: Framtaksleysi.

Slóðaskapurinn er réttlættur með þeirri »hugsjón« að betra sé að gera ekkert en að gera eitthvað því ef maður geri eitthvað þá stuðli maður að mengun.

Svona speki hrannar upp mótsögnum eins og best kemur fram í stefnunni í samgöngumálum.Sú stefna

eykur stöðugt slysahættu í umferðinni,

dregur úr öryggi borgaranna með því að hægja á viðbrögðum lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutingafólks

og með því að loka neyðarbrautinni,

þrengir tengibrautir og beinir þar með bílaumferð inn í íbúðarhverfi þar sem skólabörn eru á ferli,

leggur tímaskatt á vegfarendur með því að lengja ferðatíma þeirra og

eykur jafnframt eldsneytisnotkun sífellt fleiri farartækja í lausagangi og þar með umferðarmengun.

  

Neyðarástand í húsnæðismálum

 

Í skipulagsmálum er borgarstjórnarmeirihlutinn, öðrum fremur, ábyrgur fyrir neyðarástandi í húsnæðismálum ungs fólks með lóðaskortsstefnu sinni sem þau nefna »þéttingu byggðar«.

»Þétting byggðar« var einnig á dagskrá hjá vinstri meirihlutanum 1978-82 en þá voru engin ný íbúðahverfi skipulögð og lóðaskorturinn algjör.

Það segir líklega alla söguna, að 1994-2016 fjölgaði Reykvíkingum um 19 prósent á meðan fjölgun í nærliggjandi sveitarfélögum var 70 prósent.

 

Sundabraut hefur verið í bígerð í rúma fjóra áratugi, hefur verið á Aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1975, var talin ein meginforsendan fyrir byggð í Grafarvogi, fyrir sameiningu Kjalarneshrepps við Reykjavík og er almenn forsenda frekari þróun byggðar til norðurs og norðaustur á höfuðborgarsvæðinu.

 Uppbygging í Geldinganesi

  Sundabraut myndi draga verulega úr ófremdarástandinu sem nú ríkir í umferðarmálum höfuðborgarinnar.

Lagning fyrsta áfanga myndi

létta mjög á umferðarþunga á Gullinbrú, Höfðabakka og Ártúnsbrekku,

dreifa umferðinni,

auka umferðaröryggi,

stytta vegalengdir og

draga úr umferðarmengun.

Síðast en ekki síst yrði hún mikilvæg öryggis- og flóttaleið ef til hamfara kæmi.

 

Gert er ráð fyrir að árið 2030 muni rúmlega 30 þúsund bílar fara um Sundabraut á sólarhring þó ekki sé gert ráð fyrir byggð í Geldinganesi.

En með tilkomu Sundabrautar myndi ferðatími frá efstu hverfum Grafarvogs að Miðbæ Reykjavíkur verði rúmlega helmingur þess sem hann er nú.

Þar með væri Geldinganesið komið í hlaðvarpann á Laugarnesinu og 101.

Geldinganesið er tilvalið landsvæði fyrir íbúðabyggð en

það er á stærð við allt Hringbrautarsvæðið að viðbættri Norðurmýri, eða frá Ánanaustum að Rauðarárstíg og frá Sæbraut að Hringbraut.

Það er því löngu orðið tímabært að bretta upp ermar, hefjast handa,

leggja Sundabraut og

úthluta ungu fólki byggingarlóðum í Geldinganesi á viðráðanlegu verði.

Vilji og áræði er allt sem þarf."

Þessi grein Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa  Sjálfstæðisflokksins lýsir því vel hvílíkt stórslys fyrir Reykjavík öll valdatíð vinstri manna fra´Ingibjörgu Sólrúnu og Alfreð Þorsteinssyni  og nú síðasta valdaframlenging Dags Bergþórusonar í boði Pírata hefur verið fyrir Reykvíkinga.

Dagur B. Eggertsson og samstarfsmenn hans munu fara inn í söguna sem lélegustu stjórnendur og mestu fimbulfambarar sem nokkru sinni hafa verið í áhrifastöðum hjá Reykjavíkurborg eða jafnvel nokkru íslensku sveitarfélagi fyrr eða síðar. Skákir og tilfærslur fram og aftur, útþensla stjórnkerfisins og láréttar pappírstilfærslur og almennt froðusnakk læknisins Dags  og gagnfræðingsins Hjálmars  hafa engu skilað til framtíðar en miklu frekar skilið eftir sig ringulreið og rústir.

Það er þess vegna ástæða til að telja dagana fram að kosningum þegar tækifæri gefst loks til að hreinsa þessa óværu út af borðinu sem núverandi Borgarstjórnarmeirihlutinn er sem hefur dragbítandi áhrif á allt höfuðborgarsvæðið. 

Áfram með smjörið Marta Guðjónsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband