Leita í fréttum mbl.is

Peningakerfið

er ritstjórnargrein í því afbragði sem  Bændablaðið er.

Hörður Kristjánsson ritstjóri skrifar svo þar um:

"Kannski er verið að bera í bakkafullan læk með því að minnast enn eina ferðina á þá peningastefnu sem Íslendingum er gert að búa við. Afleiðing þeirrar stefnu virðast þó því miður vera að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu, sjávarútveg og landbúnað.

Það kerfi sem ríkt hefur í fjármálum heimsins í meira en eina öld hefur margvíslega vankanta. Fyrir það fyrsta þá leiðir taka vaxta af peningum sjálfkrafa til þess að stokka verður kerfið upp með reglulegu millibili. Það gerist með flutningi rauneigna frá þeim sem þær skapa og til þeirra sem innheimta vextina, því vextir eru í sjálfu sér ekki ávísun á nein raunverðmæti.

Staðan á Íslandi er dálítið sérstök vegna þess hvernig peningakerfinu hefur verið leyft að þróast út í stjórnleysi. Seðlabankinn, sem á lögum samkvæmt að gefa út peninga og enginn annar, hefur þá heimild. Peningarnir eru ávísun á raunverðmæti sem verða til í þjóðfélaginu, með margvíslegri framleiðslu, m.a. matvæla.

Í mörg ár hefur það verið látið óátalið að viðskiptabankarnir hafa hrifsað til sín peningaútgáfuvaldið án þess í raun að spyrja kóng né prest. Þetta háttalag er afsprengi tölvuvæðingar og rafrænna viðskipta um alnetið. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi einn heimild til að gefa út peninga í hvaða mynd sem það er, þá hafa aðrir bankar komist upp með að gefa út rafmynt í gegnum sín tölvukerfi, án þess að greiða Seðlabankanum neitt fyrir þá útgáfu. Þeir eru því að búa til platverðmæti úr engu og bakka það upp með útgáfu skuldabréfa, m.a. vegna húsnæðiskaupa með greiðsluplani inn í framtíðina. Þetta er síðan skráð í bókhaldi bankanna sem útistandandi eignir en eru það í raun ekki.

Gallinn við þetta kerfi er margþættur. Eitt atriði er að Seðlabankinn, sem ætti að fá tekjur af því að lána bönkunum peninga til að nýta í sín viðskipti, fær ekkert fyrir sinn snúð. Þess í stað bakkar hann upp ruglið með því að halda uppi ofurháum stýrivöxtum sem bankarnir nýta sér til hins ýtrasta. Í skjóli þeirra leggja þeir enn hærri vexti á útlán á sínum platkrónum, sem eru peningar sem þeir hafa í raun hvorki unnið fyrir né hafa heimild til að nota.

Afleiðingin er að í efnahagskerfinu eru svífandi gríðarlegar reiknaðar peningastærðir sem engin raunverðmæti eru á bak við. Slíkt gengur auðvitað ekki upp til lengdar og því verður að leiðrétta kerfið annað slagið með tilheyrandi eignatilfærslum.

Niðurstaðan er alltaf sú að fjármálakerfið reynir að laga sína stöðu með því að draga til sín rauneignir, m.a. frá almenningi og fyrirtækjum, til að fá eign á móti innihaldslausum vöxtum og rafkrónum. Auðvitað væri þó réttasta leiðin að þurrka út loftbólueign fjármálakerfisins og aflétta óraunhæfum álögum af skuldurum.

Þegar allt peningakerfið er hins vegar orðið gegnsýrt af innihaldslausum og ímynduðum verðmætum myndi slík leiðrétting leiða til allsherjarhruns kerfisins. Gegn slíku mun fjármálakerfið alltaf berjast með kjafti og klóm.Vegna þessa falska hagkerfis verða til gríðarlegar rauneignatilfærslur til þeirra sem „eiga“ vaxtakröfurnar og innistæðulausu rafpeningana.

Örfáir einstaklingar eru í skjóli þessa að eignast stærsta hluta allra verðmæta mannkyns. Þótt allir hugsandi menn viti að þetta gengur ekki upp, þá er samt enn haldið áfram á sömu braut. Hinir ríku verða stöðugt ríkari á kostnað þeirra sem neðar standa í þjóðfélagspíramídanum.

Það er ekki lengur spurning um hvort, heldur hvenær þolinmæði fjöldans þrýtur. Það mættu þeir sem eru við stjórnvölinn í Seðlabanka Íslands líka hafa í huga þegar þeir móta sína vaxtastefnu. "

Hér er komið inn á grunnþátt fjármálakerfis Íslendinga.Seðlabankinn lætur ótakmarkaða framleiðslu rafeyris viðskiptabankanna óátalda. þeir lána út með verðtryggingu þessa peninga sem þeir væru eign lífeyrissjóðanna sem verða að fá 3.5 % raunávöxtun samkvæmt óbreytanlegu lögmáli líklega Móse eða Hammúrabís. Hvergi í heiminum eru peningum  tryggð önnur eins lífskjör. Nema ef einstaklingur á þennan pening, þá skal honum kerfisbundið eytt í verðbólgunni með neikvæðum vöxtum og skattlagningu.

Þetta er gersamlega óskiljanlegt kerfi og líklega jafn furðulegt og tillögur hæstvirts fjármálaráðherra um afnám íslenskra peningaseðla. Og upptaka löglegs erlends gjaldmiðils þá væntanlega fyrir svarta hagkerfið sérstaklega. 

Líklega hefur almenningu aldrei reynt að skilja það, að bankinn lánar þér peninga sem hann býr til með bankamargfaldaranum, sem gerir honum kleyft að lána mörgum sinnum það sem hann á  eða bara býr til með bókhaldi. Frosti Sigurjónsson hefur skrifað ágætlega um þetta mál. Seðlabankinn sem á að stýra peningamagni í umferð gerir það ekki en lætur vaða á súðum. Gefur út sem hæsta stýrivexti  sem bankarnir taka fegins hendi og rukka almenning um. Afsaka okrið með stýrivöxtunum sem eiga að fást við verðbólguna.Enginn leiðir hugann að sparandanum sem er í rauninni útdautt fyrirbrigði  á Íslandi nema þeir sem reyna að fresta eyðslu sinni um ein mánaðarmót.

Hvernig ungir menn með fasteignafélög geta allt í einu verið með tugi íbúða í útleigu eða milljarða byggingafélög skýrist af hugleiðingum ritstjórans Harðar. Þeir útvöldu fá allt en aðrir ekkert. Í gamla daga var talað um pólitíska bankastjóra sem lánuðu Sambandinu ótakmarkað en hinum ekkert. Ástandið í dag er ekkert öðruvísi nema þeir þykjast vera einhverjir fagmenn í dag sem þeir eru ekkert sérstaklega í flestum tilvikum, bara strákar og stelpur sem hafa dottið upp stigann fyrir tilviljun.

Það er auðséð að það er tómt mál að tala um aðskilnað viðskipta-og fjárfestingarbanka við þetta kerfi þegar það fyrra nærir hitt algerlega.

Á bak við tíuþúsund kallinn stendur í rauninni ekkert nema trú þín á að hann sé raunverulegur. Ef einhver ætlar að stela honum frá þér verður þú vondur og kýlir hann. Rafeyririnn sem er færður út af kortareikningnum þinum snertir þig síður. Þú bara ypptir öxlum meðan kortafyrirtækið stelur af þér án þess að þú veitir því mikla eftirtekt.Þú skynjar ekki verðmætið á sama hátt. Einn vinur minn ráðleggur manni að hafa tíuþúsund króna seðil í krukku á borðinu, taka hann upp reglulega, þefa af honum og handfjatla því hann sé það raunverulega verðmæti en ekki tölurnar á yfirlitsblaðinu sem þú skynjar ekki til fulls.

Peningar eru hinn nauðsynlegi milliliður allra milliliða eins Pétur  heitinn Benediktsson orðaði það.Við komumst ekki af án þess að skiptast á verðmætum.Það var reynt í kommúnismanum að afskaffa peninga og séreign. Það verður bið á að það verði reynt aftur þó að fjármálaráðherra vor  hafi nú lýst mögulegum fyrstu skrefum í þá átt.

Afnám peningakerfis almennings nema undir opinberu eftirliti lýsir ákveðnu hugarfari sem ekki er víst að eigi sér mikinn hljómgrunn meðal kjósenda. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband