Leita í fréttum mbl.is

Skynsamlegur leiðari

eftir Hörð Ægisson vakti athygli mína í Fréttablaðinu í dag. Yfirleitt leita ég nú ekki mikið eftir skynsemi á þeim bæ. Blaðið hefur veri fremur hallt undir Samfylkinguna og Evrópusæknina. En þarna er talað af raunsæi.  Hörður segir:

"Fyrr á árinu skipaði forsætisráðherra verkefnisstjórn sem á að koma með tillögur um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands. Óhætt er að segja að um sé að ræða eitt stærsta verkefni stjórnvalda.

Öllum má enda vera ljóst að núverandi stefna er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Endurskoða þarf peningastefnuna með hliðsjón af þeirri byltingu sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins, ekki hvað síst vegna tilkomu nýrrar og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Verkefnisstjórnin er hins vegar ekki í öfundsverðri stöðu.

Á meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar er djúpstæður ágreiningur um hvaða leiðir eigi að fara í þeim efnum – á meðan sumir telja réttast að bæta umgjörðina um krónuna halda aðrir að til séu patentlausnir til að ná fram auknum stöðugleika í efnahagslífinu og lægri vöxtum.

Fjármálaráðherra skipar seinni hópinn. Í grein í Fréttablaðinu í liðinni viku hafnaði hann krónunni sem gjaldmiðli og talaði fyrir fastgengisstefnu í formi myntráðs, sem áfanga í að taka upp evru í framtíðinni. Þótt sú skoðun ráðherrans sé vel þekkt eru slíkar yfirlýsingar – frá fjármálaráðherra landsins – augljóslega ekki til þess fallnar að auðvelda vinnu verkefnisstjórnarinnar.Eigi að takast að framfylgja fastgengisstefnu í gegnum myntráð er lykilatriði að það séu náin tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Því er alls ekki fyrir að fara í tilfelli Íslands og evrópska myntbandalagsins.

Hagsveiflan hér á landi hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum evrusvæðisins.Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, benti á þessu augljósu sannindi fyrir skemmstu og sagði hagsveiflu evrusvæðisins undanfarin ár hafa verið gjörólíka þeirri íslensku. Myntráðsleið, með tengingu krónu við evru, hefði falið í sér sameiginlega peningastefnu sem hefði alls ekki hentað hér á landi.

Á sama tíma og mörg evruríki hafa þurft að glíma við mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt, sem hefur þýtt að Evrópski seðlabankinn hefur haldið stýrivöxtum við núll prósent, þá er Ísland að upplifa fordæmalausan efnahagsuppgang sem endurspeglast meðal annars í gríðarlegri hækkun á raungengi krónunnar.

Þótt mikil styrking krónunnar sé farin að valda sumum útflutningsgreinum tímabundnum erfiðleikum þá hefur gengishækkunin skipt sköpum í að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum samhliða miklum vexti ferðaþjónustunnar og stuðlað að minni verðbólgu og lægri vöxtum.

Krónan hefur unnið sitt verk.

Það er ekki hlutverk gjaldmiðils að þjóðnýta misfjárfestingu tiltekinna atvinnugreina sem ættu, í stað þess að kvarta undan háu gengi krónunnar, fremur að leita leiða til hagræðingar og samþjöppunar við núverandi aðstæður.

Fastgengisstefna í gegnum myntráð myndi útheimta margfalt stærri gjaldeyrisforða en þann sem Seðlabankinn hefur byggt upp á síðustu árum. Að öðrum kosti myndi slíka stefnu skorta trúverðugleika og framkalla áhlaup um leið og alþjóðlegir spákaupmenn gerðu sér grein fyrir því að fastgengið væri ekki í samræmi við undirliggjandi efnahagsþróun og Seðlabankinn hefði hvorki getu né vilja til að verja það.

Verkefni stjórnvalda er því ekki að leggja upp í myntráðsvegferð þar sem lokatakmarkið er upptaka evru, sem nýtur hvorki pólitísks né almenns stuðnings og yrði aðeins til þess fallin að leiða til óþarfa átaka í samfélaginu, heldur að einblína á raunhæfar aðgerðir til að bæta hagstjórnina og umgjörð peningastefnunnar.

Þar eru ekki í boði."

Það er eiginlega merkilegt að menn skuli ræða það í alvöru að íslenska krónan sé svo óstöðugt að hún sé óbrúklegur gjaldmiðill.

Að sama fólkið sem segir þetta skuli aldrei tala um af hverju krónan sé óstöðug? Það er eins og þeir telji það til náttúrufyrirbrigða sem orsakist af sveiflum í útgeislun sólar eða gangi halastjarna?

Af hverju vilja menn aldrei tala um orsökina fyrir falli krónunnar í gegn um áratugina? Víxlgengi kaupgjalds og verðlags.

Þegar vel árar þá koma fram snjallir verkalýðsleiðtogar og gera skrúfur og keyra upp kaupgjald umfram það sem atvinnureksturinn þolir. Svo getur líka komið niðursveifla á mörkuðum erlendis sem veldur því að kaupgjaldið innanlands verður of hátt.

Engin innlend stjórnvöld hafa þorað að ganga á hólm við kjarabaráttufólkið heldur alltaf gefist upp og þvaðrað um hinn heilaga samningsrétt. Sem auðvitað stenst ekki.

Stjórnvald sem segði við launafólkið í landinu. Þið megið semja um það sem þið viljið. En ef það er umfram hagvöxtinn síðasta hálfa árið, segjum 3 % þá tökum við það af ykkur umsvifalaust með sköttum. Þið megið ráða því sjálf hvort við tökum 3.5 % af ykkur til að taka ekki nema 1 % af öryrkjum og öldruðum en öðruvísi verður það ekki. Ef þið semjið bara um 3 % þá verður allt óbreytt, gengi og verðlag. Kjararáð verður bundið af þessu líka. Ef það verður verðfall á mörkuðum erlendis þá verðuð þið að semja um engar kauphækkanir eða jafnvel verðum við að lækka allt kaupgjald i landinu um einhverjar prósentur jafnt yfir alla eða því sem næst.

Þannig væri krónan stöðugur gjaldmiðill. Er ekki nokkuð ljóst hvað veldur því að fólk er að tala svona ábyrgðarlaust um saklausa krónuna?  Það er ekki krónan sem er óstöðug. Það erum við sjálf.

Erum við hugsanlega að leysa vandann með því að skipta sjálfum okkur út með því að flytja inn óskyldar þjóðir í auknum mæli í formi hælisleitenda og flóttamanna? Verður þjóðin stöðugri með þeirri þróun? Mun hún verða rólyndari og minna byltingarsinnuð í kjaramálum?

Höfundur þessa skynsamlega leiðara gerði vel í að athuga forsendur óstöðugleika krónunnar okkar sem virðist samt hafa dugað Íslandi betur en nokkur önnur mynt hefði gert þegar allt er metið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Það er ekki krónan sem er óstöðug. Það erum við sjálf."

Tímabær og skynsamleg niðurstaða hjá þér, Halldór!

En ekki kemur það mér á óvart, að Hörður Ægisson talar af raunsæi og hyggindum í þessum leiðara, eins og hann hefur áður gert og eins og ég kynntist svo vel á Mogganum, þegar las margar frábærar greinar eftir hann í próförk.

Og sannarlega mega Viðreisnar-angurgaparnir, hálf-blindaðir af evru-aðdáun, reyna að lesa þennan leiðara sér til upplýsingar og betrunar.

Jón Valur Jensson, 29.7.2017 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband