Leita í fréttum mbl.is

Ríkið á Reykjavíkurflugvöll.

Ég var sjálfur viðstaddur þegar Ólafur Thors tók við flugvellinum fyrir hönd íslenska ríkisins úr hendi Breta 1947.

Allir talnaturnar Dags B.Eggertssonar um gróða af lóðasölu eru reistir á sandi þar sem hann gengur út frá því að hann geti bara lokað flugvellinum, selt lóðirnar og grætt. Hann gleymir stjórnarskránni um friðhelgi eignarréttarins og fleiru smálegu í því sambandi.

Ekki er fyrirséð hvort afgangur verður þegar Dagur er búinn að borga nýjan flugvöll.

Jón Jónsson hæstaréttarlögmaður fer ofan í þetta mál í Morgunblaðinu í dag:

"Við umfjöllun um mikilsháttar mál virðast einfaldar reglur oft gleymast. Það getur verið vegna þess að umfang málanna byrgir mönnum sýn eða að einhverjir telja reglurnar ekki æskilegar vegna hagsmuna sem þeir vinna að. Dæmi um þetta var til dæmis Icesave-máið. Það þurfti ekki flókna umfjöllun til að skýra að engar reglur kváðu á um ríkisábyrgð á tryggingarsjóði innstæðueigenda, hvað sem liði ábyrgð ríkisins að standa að löggjöf um starfsemi slíks sjóðs.

Umfjöllun um Reykjavíkurflugvöll hefur lengi verið í sama farinu. Reglulega eru skipaðar nefndir til að greina stöðuna, m.a. í ljósi skipulagsáætlana um að flugvöllurinn víki. Settar hafa verið fram ýmiskonar vangaveltur um hvernig fjármagna megi nýjan flugvöll ef til kæmi.

Einfaldar reglur fela í sér að ef nýtt skipulag leiðir til þess að byggingar og mannvirki sem standa í skjóli fyrri skipulags- ákvarðana skuli víkja, ber sveitarfélag ábyrgð á að bæta það tjón sem eigandi mannvirkjanna verður fyrir. Um þetta má vísa til 50. og 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um eignarnám og um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna. Íslenska ríkið er eigandi flugvallarins.

Hafi ríkið ekki fyrirætlanir um að eyðileggja flugvöllinn, getur það haldið að sér höndum. Við skoðun samgönguáætlana kemur ekkert fram um að leggja eigi niður Reykjavíkurflugvöll. Stjórnvöld ríkisins eru bundin af samgönguáætlun.

Ef samgönguáætlanir gera ekki ráð fyrir að flugvöllurinn verði fjarlægður, þá getur varla komið til þess að íslenska ríkið veiti Reykjavíkurborg heimild til eignarnáms á flugvellinum.

Það er því í raun ekki til staðar óvissa um framtíð Reykjavíkurflugvallar á meðan gert er ráð fyrir flugvellinum í samgönguáætlun. Verðmæti Reykjavíkurflugvallar felst í mannvirkjum flugvallarins og landi, en einnig staðsetningunni bæði varðandi samgöngur og flugöryggi.

Ef skipulagsákvarðanir útiloka nýtingu svo sérhæfðrar eignar verður verðmætið helst fundið út með hliðsjón af því hvert endurstofnverð yrði á sambærilegum flugvelli. Um þetta gilda meginreglur um fjárhæð eignarnámsbóta.

Með öðrum orðum, Reykjavíkurborg þarf að greiða íslenska ríkinu fjárhæð sem nemur byggingarkostnaði nýs flugvallar. Umfjöllun borgarstjórnmálanna ætti að taka mið af þessari fjárhagslegu ábyrgð. Óeðlilegt er að gera ráð fyrir að fjárhagslegri ábyrgð verði velt yfir á ríkið. Það tekur flugvallarmálið úr samhengi almennra og einfaldra reglna.

Það væri ný tegund af „kjördæmapoti“ í samgöngumálum, ef fullvirkandi samgöngumannvirki yrði eyðilagt á kostnað almennra skattborgara."

Þetta er árétting á þeim eignaréttarákvæðum sem um Reykjavíkurflugvöll hljóta að gilda samkvæmt stjórnarskrá Íslands um friðhelgi eignarfréttarins. Sama hlýtur að gilda um mannvirki í einkaeigu á flugvellinum sem Reykjavíkurborg segist ætla að rífa bótalaust vegna þess að engin lóðaleigusamningur hefur verið gerður en lóðarleiga samt greidd í áratugi.

Þá er alveg horft fram hjá því hversu dýrmætur flugvöllurinn er fyrir framtíð Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands. Þegar nútímamenn koma næst til valda í Borgarstjórn er ég ekki í vafa að flug frá Reykjavíkurflugvelli  verður stóraukið bæði innanlands og til útlanda.

Slíkt tilheyrir nútímanum en ekki gömul og úrelt Kvosarrómantík með rauðvíns-og lattelepjum því ríkið á Reykjavíkurflugvöll og Reykjavík tilheyrir íslenska ríkinu sem höfuðborg þess í nútímanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við þetta má bæta að í allri umræðu um þetta mál láta flugvallarandstæðingar alltaf eins og að lóðaverðið, sem greitt verði fyrir, sé hreinn ágóði þjóðarinnar, rétt eins og þetta lóðaverð detti eins og manna af himnum ofan. 

En auðvitað er einhver sem borgar þetta lóðaverð og því aðeins um tilfærslu á peningum að ræða. 

Annað atriði: Tveir möguleikar: 

Annar felur í sér gerning flugvallarfénda, sem tala um að gera nýjan flugvöll. Sá gerningur er í þrennu lagi: 

1. Flugvöllur er lagður niður með ærnum kostnaði á svæði A. 

2. Reist er byggð á flugvallarstæðinu, svæði A. 

3. Reistur er nýr flugvöllur á svæði B. 

Hinn möguleikinn felur í sér sömu niðurstöðu en þrefalt einfaldari: 

1. Reist er íbúðabyggð á svæði B.  

Ómar Ragnarsson, 16.10.2017 kl. 16:09

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Trausti Valsson hefur stungið upp á að byggja íb´ðir á Lönguskerjum en láta flugvöllinn vera. Skynsmalegra og ódýrara.

Ef það vantar byggingarland þá benti Björn Kristinsson verkfræðingur á að það væri skítbillegt að þurrka Skerjafjörðinn upp og  með því stórstækka Borgarlandið. En ódýrast er auðvitað að hafa flugvöllinn þar sem hann er og þurfa ekki að byggja hann aftur.

Halldór Jónsson, 16.10.2017 kl. 21:26

3 identicon

Leið tvö sem Ómar bendir á er náttúrlega einfaldari, rökréttari og ódýrari.

Þess vegna munu stjórnmálamenn alltaf velja leið eitt.

ls (IP-tala skráð) 17.10.2017 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband