Leita í fréttum mbl.is

Óskastjórn Óla ?

Katrín vill verða forsætisráðherra

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja að Bjarni verði forsætisráðherra

Framsókn styður Katrínu

Flokkarnir hafa væntanlega frest til dagsins í dag til að komast að niðurstöðu miðað við orð forsetans M

Svo segir í Morgunblaðinu í dag í grein eftir Óla Björn Kárason þingmann Sjálfstæðisflokksins:

"Hvaða eiga framtaksmaðurinn, frumkvöðullinn og sjálfstæði atvinnurekandinn sameiginlegt? Þeir eru allir drifkraftar efnahagslífsins, aflvaki framfara og bættra lífskjara. Oftar en ekki sameinast þeir allir í einum og sama einstaklingnum. Með nýrri hugsun kemur hann auga á tækifærin og með nýjum aðferðum býður hann nýja vöru og þjónustu, skapar störf og eykur lífsgæði almennings með beinum og óbeinum hætti. Þjóðfélög sem ýta undir sjálfstætt framtak einstaklinga, með hagstæðri umgjörð skatta, einföldu regluverki og þróttmiklu menntakerfi, eru samfélög velmegunar og velferðar. Það er því ein af frumskyldum stjórnvalda á hverjum tíma að huga vel að umhverfi sjálfstæða atvinnurekandans – tryggja að til sé frjór jarðvegur svo frumkvöðullinn þrífist og dafni. Flestir sem hafa komið að rekstri fyrirtækja hafa kynnst flóknu kerfi hins opinbera og íþyngjandi reglum.

Í stað þess að styðja við sjálfstæðan atvinnurekstur hefur báknið komið upp hindrunum í formi hárra skatta og opinbers eftirlits með tilheyrandi gjöldum. Þannig er dregið úr framtakssemi. Dregið er úr virkri samkeppni með því að framtaksmönnum er gert erfiðara fyrir að hasla sér völl þar sem stórfyrirtæki eru fyrir. Báknið verður vörn hinna stóru. Atvinnulífið verður fábreyttara og afleiðingin er stöðnun. Neytendur og þjóðfélagið allt bera kostnaðinn.

Endurskoðun nauðsynleg

Þegar þetta er skrifað liggur ekkert fyrir um nýja ríkisstjórn. „Stóru málin“ svokölluðu eru viðfangsefni þeirra stjórnmálaflokka sem reynt hafa og munu reyna myndun ríkisstjórnar; heilbrigðismál, menntakerfið, samgöngur.

Uppbygging og nauðsynleg innviðafjárfesting hljómar í öllum fréttatímum. Verið er að velta fyrir sér „tekjugrunni“ ríkissjóðs (hækkun skatta) og hvernig hægt er að styrkja hag aldraðra og öryrkja. Minna er rætt um starfsumhverfi fyrirtækja.

Hugmyndir um hvernig samkeppnishæfni atvinnulífsins verði aukin eru ekki áberandi. Hvernig byggt er undir einyrkja, sjálfstæða atvinnurekendur og frumkvöðlana virðist ekki vekja mikinn áhuga stjórnmálamanna og enn síður fjölmiðla. Ný ríkisstjórn, sem ætlar að tjalda til lengri tíma en einnar nætur, kemst hins vegar ekki hjá því að endurskoða sífellt flóknara regluverk atvinnulífsins.

Markmiðið er að gera það einfaldara að stunda atvinnurekstur, búa til frjóan jarðveg fyrir ný fyrirtæki sem leggja grunn að bættum lífskjörum og störfum framtíðarinnar. Verkefnin eru mörg, sum eru flókin en önnur einföld. Tóninn við endurskoðunina er hægt að slá með því að endurskoða tryggingagjaldið.

Þungur baggi

Tryggingagjaldið er þungur baggi á atvinnurekstur. Gjaldið vinnur sérstaklega gegn litlum fyrirtækjum og getur hamlað möguleikum þeirra til vaxtar. Halda má því fram að 15 manna fyrirtæki sé í raun með sextánda starfsmanninn (skattmann) á launaskrá. Ég hef ítrekað haldið því fram að skattar á launagreiðslur séu vond aðgerð við að fjármagna útgjöld ríkisins. Dregið er úr umsvifum fyrirtækja, laun starfsmanna verða lægri og störfin færri. Tekjuskattur fyrirtækja verður lægri og hið sama á við um tekjuskatt einstaklinga. Útsvarstekjur sveitarfé- laga verða einnig lægri en ella.

Í mars síðastliðnum benti Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á athyglisverða staðreynd, sem skoðun á heildarálögum fyrirtækja árið 2016, leiddi í ljós: Tryggingagjaldið er meira en 90% álagðra gjalda hjá minnstu fyrirtækjunum. Hlutfallið lækkar niður í 40% hjá stærsta tíundarhluta íslenskra fyrirtækja.

Í svari við fyrirspurn um tryggingagjaldið tók ráðherra fram að ofangreindur mælikvarði væri ekki einhlítur en gæfi ákveðna vísbendingu: „Þegar rýnt er nánar í ársreikning einstakra fyrirtækja sést að hjá smærri fyrirtækjunum er launakostnaðurinn langstærsti kostnaðarliðurinn, en hjá þeim stærri vegur annar rekstrarkostnaður, eins og stjórnarkostnaður, markaðs- og auglýsingakostnaður og ýmis skrifstofukostnaður, hlutfallslega mun þyngra en launin.“

Mikilvægur tekjustofn

Árið 2000 var tryggingagjaldið 5,23% en fór hæst í 8,65% árið 2010 í vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Á síðustu árum hefur tekist að lækka gjaldið sem er nú 6,85%. Tryggingagjaldið er mikilvægari skattstofn fyrir ríkissjóð en tekjuskattur fyrirtækja. Sem hlutfall af heildartekjum var gjaldið 11,4% á síðasta ári. Aldamótaárið var hlutdeild þess 8,8%.

Um aldamótin var tryggingagjaldið sem hlutfall af landsframleiðslu um 2,8%. Á síðasta ári var hlutfallið rétt um 3,5% en í heild skilaði tryggingagjaldið 85,4 milljörðum króna í ríkiskassann. Í frumvarpi til fjárlaga 2018, sem lagt var fram í september (og ekki var afgreitt), er áætlað að tekjur ríkisins af tryggingagjaldi nemi 99,5 milljörðum eða liðlega 3,6% af áætlaðri landsframleiðslu á komandi ári. Ef hlutfallið yrði það sama og á síðasta ári yrði að lækka gjaldið um nær 4,3 milljarða króna. Ef gengið væri út frá því að hlutfall tryggingagjaldsins af landsframleiðslu væri það sama á komandi ári og aldamótaárið, yrðu tekjur ríkisins 76,4 milljarðar eða 23 milljörðum lægri en gengið var út frá í frumvarpinu.

En jafnvel þótt tryggingagjaldið sé mikilvægur tekjustofn verður ekki hjá því komist að endurskoða gjaldið. Raunar hafa flestir stjórnmálaflokkar sýnt því skilning og Sjálfstæðisflokkurinn hefur heitið því að halda áfram að lækka gjaldið, fái hann til þess stuðning. Einföld lækkun er nauðsynleg en það verður einnig að skoða hvort rétt sé og skynsamlegt að breyta álagningu þess og taka meira mið af því hve vægi þess í heildarálagningu opinberra gjalda er misjafnt eftir eðli og stærð fyrirtækja.

Tilgangurinn er að styðja við frumkvæði og virkja kraft nýsköpunar. Það væri ekki ónýtt fyrir íslenskt efnahagslíf til langrar framtíðar ef ný ríkisstjórn tæki afstöðu með sjálfstæða atvinnurekandanum, frumkvöðlinum og framtaksmanninum á næstu fjórum árum."

Telur Óli Björn það líklegt að Steingrímur J. og ráðgjafi hans séu líklegir bandamenn í því að "afsala ríkinu tekjustofnum" eins og V.G. álítur að landsmenn séu. Auðlind ríkissjóðs. 

Óli Björn er þingmaður. Hann hlýtur að hafa aðkomu að hugmyndum Sjálfstæðisflokksins um hvernig ríkisstjórn er líklegust til að vinna hugsjónum flokksins brautargengi.

Skyldu þeir Sjálfstæðismenn vera margir sem halda að innan V.G.sé það fólk sem er vænlegt til samstarfs í skattlækkunum og stuðningi við atvinnulífið?

Mun óskastjórn Óla vinna að hugsjónum hans hægri sem manns? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Góð grein hjá Óla Birni.

Ragnhildur Kolka, 8.11.2017 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband