Leita í fréttum mbl.is

Guðmundur Arason

stálmaður var mikill vinur minn í áratugi. Ég rakst á í tölvunni minningarorð sem ég skrifaði um hann 2014. Ég man ekki lengur hvort þetta birtist einhversstaðar. Nýlega er komin út bók um Guðmund eftir Jón Birgir Pétursson sem ég á eftir að koma höndum yfir.Mér dettur í hug að einhver hefði gaman að rifja þessi skrif mín upp sem heimild yfir seinni ár okkar Guðmundar.Þetta skrif hljóðaði svo: 

" Ég kynntist Guðmundi Arasyni fyrst þegar ég fékk vinnu á plötuversktæði Landsmiðjunnar, B-deild. Þar var Guðmundur verkstjóri.

Ég hafði æft hnefaleika í KR hjá Birgi Þorvaldssyni og hafði því áhuga á þeirri íþrótt. Ég vissi að Guðmundur átti að baki glæstan feril í þeirri grein í þungavigt. Hann var 18 árum eldri en ég og svo var líka búið að banna boxið þegar þarna var komið sögu. En ég fann að menn litu upp til Guðmundar  ekki endilega vegna í þróttaferils hans heldur sem fagmanns og verkstjóra. Hann var alltaf nálægur og sagði mönnum til eftir því sem tilefni gáfust.

Ég var þarna kominn vegna þess að það var skylda í verkfræðiskólanum minum í Stuttgart að vinna tvo mánuði í stálsmíði. Þarna var verið að smíða soðkjarnatæki held ég það hafi verið kallað, á gólfinu. Það var fullt af tönkum í því og þeir voru soðir saman með breiðari suðum en ég hafði áður séð. Ég hafði áhuga á að læra að sjóða og Guðmundur bað einhverja um að kenna mér fyrstu handtökin. Ég athugaði hinsvegar ekki að vera með gleraugun mín undir hjálminum og því sá ég ekki suðuna nógu vel og árangurinn hjá mér var heldur klénn. En seinna gat ég soðið betur þegar ég var með gleraugun en ég gekk ekki með þau þá.  En þarna unnu margir góðir menn sem ég kynntist og þekkti suma alla ævi síðan. Þarna var mötuneyti og oft étinn fiskur. Alli horfðu á þegar hún Ída gekk eftir gólfinu, það voru nú aldeilis línur í henni. Hún gifstist svo einum besta vini mínum honum Jóni Þ.  Ég hitti hana um daginn á elliheimili, orðin ekkja fyrir löngu en hún þekkti mig strax en hún var orðin ansi heyrnardauf blessunin. En hún var enn glæsileg kona.

Ég lærði mörg handtök sem ég kunni ekki.Ég lærði af Kalla Ísleifs að halda á sleggju þegar við vorum að berja kantana niður áður en við völsuðum í tankana og fleira og fleira. Þá var unnið á laugardögum og ég man að eitt sinn var ég svo þunnur eftir ballið á Borginni, sem var plaisið þá, að ég sat í lengi i bílnum fyrir utan áður en ég treystist til að fara inn og vinna og horfa framan í Guðmund. En ég held að Guðmundur hafi verið alger reglumaður á vín og tóbak alla tíð enda var hann sannur íþróttamaður.

Guðmundur sá til þess að ég fékk að kynnast ýmsum sviðum járnavinnunnar en auðvitað var ég alger byrjandi og þvældist í besta falli fyrir smiðunum. Því varð ég lítið annað en handlangari og aðstoðarmaður því þeir voru í akkorði að smíða verksmiðjuna sem var á gólfinu.

 Uppi á lofti voru þeir Jóhannes Zoega og Guðmundur Björnsson sem hönnuðu og skipulögðu. Undir lokin þegar minn tími var að enda þá kom fyrirspurn frá þeim hvort ég gæti ekki komið upp að hjálpa til í teikningum. Mikill heiður sem náði þó ekki lengra enda kunni ég lítið í því sem öðru nema að nota tússfjaðrir,mig minnir að  rapidógrafinn hafi verið  rétt ókominn. Ég kunni samt að teikna útflatninga sem voru mikið notaðir við smíðina og kjörna þá á rörin áður en þau voru skorin. Kannski hefði ég getað eitthvað hjálpað til á loftinu.

Þetta var fjölbreytt vinna en mér fundust dagarnir oft vera langir þar sem ég var hálf utanveltu innan um alla þessa fagmenn þó þeir væru aldeilis góðir við mig og vildu allt fyrir mig gera. Ég var auðvitað bara fyrir í grunninn tekið og vildi að ég hefði getað lært meira.

Svo kom einn daginn þegar liðið var á tímann að verið var að hífa einn ketilinn á krananum þegar festingin bilaði og helvítið datt á stórutána á mér. Þá hafði maður ekki stáltáaskó eins og síðar varð, bara gúmmístígvél. Þá varð nú Guðmundur alvarlegur og studdi mig inn á kontór til sín og klæddi mig úr stígvélinu og fór um mig nærgætnum höndum .Það sást ekki mikið utan á en hann lét keyra mig á slysó þar sem ég var myndaður og úrskurðaður brotinn á stóru tá og sendur heim. Ég man að þann dag leið ég algerar vítiskvalir í tánni og gat ekki legið kyrr i sóffanum heima. Fékk öngvar pillur eins og nú er tíðkað og ekkert var gert nema binda stórutána við þá næstu sagt að hafa það svona. Engin endurkoma eða svoleiðis. Eftir einhverja dag gat ég haltrað á Hótel Borg sem var þá aðalstaðurinn og drukkið mig fullann aftur með strákunum. Svo fór ég að geta dansað eitthvað með dúðaða tána. En mikið djöfull var vont þegar stigið var ofan á hana.

Ég fór víst ekki mikið meira á verkstæðið hjá Guðmundi en hann hringdi  og fylgdist með mér og tánni  eins og ég væri sonur hans.

Sumarið eftir lét hann senda mér ávísun sem minn hlut í akkorðinu sem var í gangi, hann tók ekki í mál annað en ég væri þáttakandi þó mér fyndist ég ekki verðskulda þetta sem liðléttingur .

Svo liðu árin. Ég kláraði skólann í þýskalandi, kvæmtist og eignaðist fjölskyldu og fór að vinna í Steypustöðinni. Þar var mikið smíðað úr járni og nú kom námið hjá Guðmundi að notum því ég gat rifið kjaft um marga hluti og þóttst vita hitt og þetta um stálsmíði og suður.  Og þá rakst ég aftur á Guðmund.

Nú höfðu þeir Sigurjón opnað verkstæði og stálsölu í Kópavogi og við fórum að kaupa af honum stál. Þetta þróaðist svo hjá Guðmunid fyrir í GA-smíðastál og okkar kynni urðu stöðug og góð. Ávallt var hann og Kári hinir bestu í öllum viðskiptum. ég keypti hjá þeim Guðmundi og Kára  sem þá voru komnir niður í Hafnarstræti stál í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli sem ég lét smíða. Svo hittumst við í Laugunum og svo í laugardagskaffiklúbbnum með Tolla í Síld og Fisk, Indriða í Shell, Hannesi í bankanum, Sigga Egils, Benna komma, Pétri Andrésar,Jóni Skafta,  Jóni Aðalsteini,  Þráni Valdemars, Óttari Möller og Kristjáni Ziemsen. Margir aðrir Laugafélagar komu við sögu þessara félaga, Jónas kennari, og Gils Guðmunds. En þarna var Guðmundur Arason fastagestur. Þessi  hópur át svo skötu árlega fyrir jólin og þar var kátt á hjalla en þá komu nokkrir félagar frá Agli Vilhjálmssyni til viðbótar. Svo fórum við í menningarferðir í fyrirtæki til að fá ókeypis veitingar. Guðmundur var hrókur alls fagnaðar og margt var skrafað.

Svo lenti ég í því að gefa út VOGA ,blað Sjálfstæðismanna í kópavogi í 17 ár.. Þá þurfti að fá auglýsingar og Guðmundur lét mig hafa stóra auglýsingu í hvert einasta blað og sagði aldrei nei.  Ég er viss um að ég naut tábrotsins enn. Þetta var ómetanlegur styrkur fyrir okkur  og kynni okkar urðu regluleg og náin. Hann  var svo eintaklega góður við okkur og mig alla tíð. Hann tók mig með á fótboltaæfingar hjá old boys í Ármanni. Hann var með boxsal  innan við skrifstofuna og þar æfðu þeir Þorkell og Björn Eyþórs, sem voru gamlir hnefaleikameistarar reglulega með honum Guðmundi. En ekki hætti ég mér þangað inn enda miklu yngri. Þetta voru miklir líkamsræktarmenn  allir og áttu góðan félagsskap saman sá maður.

Alla tíð var vinskapur okkar Guðmundar hinn besti og aldrei bar skuggann á í okkar samskiptum. Hann var afburða skákmaður og tefldi mikið en sá heimur er lokaður fyrir mér þannig að þar kom ég ekki. En við ortum stundum vísur í kring um skötuveislurnar sem eru nú víst líklega gleymdar.

Hann Guðmundur Arason var  einn besti maður sem ég hef kynnst, hjálpfús og hreinn og beinn. Við áttum alltaf góðar samræður um heima og geima því hann var athugull og hafði skoðanir. Hann talaði aldrei illa um nokkurn mann en lagði gott til málannna.

Það var heiður fyrir mig að eiga Guðmund Arason að vini í áratugi. Fyrir það verð ég ávallt þakklátur."

Ég þarf að útvega mér bókina um hann Guðmund hið fyrsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Halldór: jafnan, sem og aðrir gestir, þínir !

Þakka þér fyrir - drengilega og skemmtilega frásögu, þessa mæta heiðursmanns, sem Guðmundur Arason reyndist alla tíð vera.

Margir Málmiðnaðarmanna hér Sunnanlands, t.d.: minntust Guðmundar og starfsemi hans syðra, af miklum hlýhug og þakklæti, þá ég var viðloðandi greinina með virkri þáttöku, á mínum yngri árum / sem og hin seinni ár.

Var hann kunnur um allt land - af skörungsskap og orðheldni, um sína daga.

Með beztu kveðjum sem endranær: af Suðurlandi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.12.2017 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband