Leita í fréttum mbl.is

Guðmundur Jaki

heitinn var í stórfróðlegum þætti á Hringbraut í fyrradag.

Kynni okkar Guðmundar spönnuðu langt tímabil og voru með ýmsum hætti framan af. Eitt sinn hringdi ég í hann þegar ég var ungur og óreyndur kapítalisti. Þar kom að samræðurnar snérust upp í það að Guðmundur tók mig svoleiðis í nefið og hellti sér yfir mig. Vissi óvænt flestar mínar tiltektir í daglega lífinu, tilraunir mínar til að komast inn  í steypu fyrir  Framkvæmdanefnd Byggingaráætlunar bakdyramegin, sem átti að vera leyndó. Ég fékk þvílíka yfirhalningu frá þessum reynda bardagamanni úr miklum orrustum að það hálfa hefði verið nóg. Hann endaði samtalið  með því að hann sagðist ekki nenna að tala við svona menn eins og mig í vinnutímanum og skellti á.

Ég lá eiginlega steinrotaðar og skjálfandi á eftir. Hafði aldrei lent í þvílíkri orðasennu áður Ég var bálreiður út í Guðmund lengi á eftir.

Svo hittumst við aftur og þá var hann ekkert nema elskulegheitin við mig sem ég auðvitað endurgalt. Eftir þetta vorum við vinir ævilangt og hann eyddi fúslega tíma í að tala við mig og mér þótti ákaflega gaman að fá að ausa úr viskubrunni hans. Þvílíka yfirsýn og reynslu sem þessi maður hafði og skilning og samúð með öllum sem höllum fæti stóðu. Óvænt lét hann Dagsbrún lána Steypustöðinni peninga af því að við byggðum starfsmannaaðstöðu af myndarskap  sem bankanum þótti of fín á þeim tíma. En þessi bygging var mikil endurbót frá hreysunum sem við höfðum fyrir þótt nú sé önnur öld komin og menn farnir að meta umhverfi hins vinnandi manns á annan og betri hátt en áður. Hann var fljótur að meta það sem vel var gert fyrir verkamennina hans.  

Guðmundur rifjaði í þættinum upp það aðstöðuleysi sem verkamönnum var boðið upp á í gamla daga. Drekka kalt kaffi úr mjólkurflöskum. Látnir borða hálffreðið nesti sitt úti á berangri. Hann lofsamaði Svein B. Valfells og Vinnufatagerðina  iðulega í mín eyru fyrir að hafa fært verkamönnum þessa lands gæruúlpuna og vinnuvettlingama sem gerbreytti líðan þeirra úti.En þá voru margir í gömlum sparifötum með trefla, jafnvel vettlingalausir við vinnu hvernig sem viðraði. Öllu þessi breytti Sveinn heitinn sem þekkti vosbúðina sjálfur frá uppvexti sínum á Mýrunum. Þá stóð hann í bæjarlæknum á morgnana til þess að bólgan minnkaði í fótunum svo hann kæmist í skóna sína til að sitja yfir ánum.

Guðmundur rifjaði upp hvernig Verkamannabústaðirnir risu við Hringbraut. Hvernig fólk kom úr sveitunum og stóð í biðröð eftir að fá að komast í bað.Hvernig menn fluttu inn sérstaka potta til þess að hægt væri að nota rafmagnseldavélar í þessum húsum. Hann sagði átakanlega frá örbirgðinni og allsleysinu meðal verkamanna, engar tryggingar, ekkert öryggi.

Þarfur samanburður við blaðurskjóðupólitíkinni sem nú ríkir þegar með  allri nútímatækninni sem hér ríkir er ekki hægt að leysa húsnæðisvanda verkafólks eins og var gert með Framkvæmdanefndinni sem byggði 1000 íbúðir á viðráðanlegum kjörum á 3 % vöxtum til 35 ára sem dekkaði aðeins helming skortsins þá fyrir hálfri öld síðan. 

En þá fyrst hurfu braggarnir, Pólarnir og Höfðaborgin sagði Guðmundur með áherslu og menn fóru að fá skilning á hugtakinu mannsæmandi lífskjör eins og hann lýsti þessu. Merkilegt hefði honum þótt úrræðaleysi samtímans, hálfri öld síðar þegar nokkur þúsund íbúða skortur er óleysanlegur fyrir okkar stjórnmálamenn úr hvaða flokki sem er. Hefur kaliberinn smækkað svona?  hefði ég kannski spurt hann Gvend minn Jaka um núna.

Allt þetta brann á Guðmundi. Þess vegna hafði hann skilning á að mögulegt væri að bæta lífskjörin öðruvísi en með verkföllum og verðbólgu og gerðist liðsmaður þjóðarsáttar með Einari Oddi, vini sínum Gunnari Birgissyni, Ásmundi Stefánssyni og fleiri góðum mönnum sem svínbeygðu marga pólitíkusana að skynsemi með undirritun kjarasamninga 2.febrúar 1990. Þetta var merkasta efnahagslega afrek aldarinnar sem markaði betri tíma sem ekki hafa enn sungið sitt síðasta þótt ræður barnanna á 1. maí síðasta bendi í aðrar áttir.

Guðmundi förlaðist heilsa allt of snemma, áratuga barátta hafði sjálfsagt tekið sinn toll. Við hittumst síðast á planinu fyrir framan Hamraborg 1 og þar áttum við langt og gott samtal í gegn um bílgluggann hans. Hann skeytti engu um óþolinmæði bílstjórans, hann var að tala við mig. Þessu samtali gleymi ég aldrei enda var hann allur skömmu síðar.

Þegar ég hugsa um þetta núna geri ég mér grein fyrir að mér beinlínis þótti vænt um þennan mann mér alveg óskyldan. Hann var svo góður maður og víðsýnn, var fullur af væntumþykju fyrir öllum sem höllum fæti stóðu. Hann beinlínis þroskaði mann með viðtölum og frásögnum.  Maður sem hafði svo mörgu að miðla á sinn sérstaka hátt.Einn mesti neftóbaksmaður allra tíma held ég og er þá séra Jens á Setbergi varla undanskilinn.   

Líkar hans Guðmundar Jaka eru ekki á hverju strái lengur að manni finnst núna þegar ellin sækir á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Virkilega góð grein hjá þér.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.5.2018 kl. 15:05

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk Rafn Haraldur, þetta var maður hann Guðmundur

Halldór Jónsson, 6.5.2018 kl. 16:13

3 identicon

Það sorglegasta við húsnæðiskrísuna nú er, að hún er heimasmíð sveitarfélaganna. Sveitastjórnirnar búa til og viðhalda skorti á lóðum og skapa uppsprengt verð með uppboðum á fágætum lóðum, þ.e. byggingarrétti á lóðunum. Hinir kjörnu fulltrúar, sem eiga að vera þjónar almennings, reynast vera eitthvað annað. Allt annað en þjónar.

Gunnar Ingi Birgisson Kópavogsjarl var trúlega síðasti stjórnmálamaðurinn af því kaliberi sem Jakinn og Bjargvætturinn voru líka.

Þórhallur Jósepsson (IP-tala skráð) 6.5.2018 kl. 22:37

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Mikið rétt Þórhallur. Þessir menn höfðu allir kynnst misjöfnu um dagana og voru ekki aldir upp á bómullarundirlagieins og nú tíðkast meira.

Einar Oddur er mér ógleymanlegur þegar hann talaði fyrir þjóðarsáttinni. Endalaust tuggði hann þolinmóður á ótal fundum upp  sannindin fyrir fólkið eins og krakka í 7 ára bekk. Og þar kom að þeir skildu það og þetta varð að veruleika sem vi búum enn að.

Oft sátu þeir  Guðmundur J. og Gunnar Birgisson hið næsta honum og studdu við leiðtogann í ræðum sínum. Að fundum loknum var stundum talsvert neftóbak á gólfinu undir borðum frummælendanna enda var dr.Gunnar heldur enginn aukvisi í snússinu á þeim árum.

Nú er Gunnar hættur í pólitík en farin að vinna sem bæjarstjóri í tveimur bæjum í Fjallabyggð. En vinnuharkan hefur ekki breyst og  hann slær ekki af þrátt fyrir nokkrar nýlegar banalegur. Það er gerðin sem virðist hafa sitt að segja um svona karla. Nú er meira talað um hin mjúku mál í pólitíkkinni eins og annarssataðar og margt gengur því hægar meðan orðin verða fleiri hjá starfshópum og nefndum.

Halldór Jónsson, 7.5.2018 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband