Leita í fréttum mbl.is

Gat hann Gálmur nokkuð annað gert?

 

Það er laugardagsmorgun hjá mér og klukkan er eitthvað fjögur.Milli svefns og vöku svíf ég inn og út.

Á náttborðinu mínu lggur Sturlunga og búin að vera lengi.

Ég er nýbúinn að vera í jarðarförum ættingja þer sem eru sungnir sálmar fornir og nýir.

 

Kannski þess vegna finnst mér ég vera kominn í timburkirkju litla og forna.

Mér finnst ég skynja að  það situr maður í bekk fyrir framan  mig. Ég veit að þetta er Kolbeinn Tumason veraldlegur höfðingi í Skagafirði og skáld.

 

Það berast til mín hendingar bornar af þýðum karlmannsrómi.

 

Heyr, himna smiður,

hvers skáldið biður..

komi mjúk til mín

miskunnin þín.

 

 

Þegar ég bíð eftir næstu línu heyri ég þrusk við útidyr. Ég veit líka einhvernveginn að þarna er kominn Guðmundur dýri Þorvaldsson. Hann hvíslar:

 

Kolli minn, það er mál að hreyfa sig.Við eigum verk að vinna. Heima hjá tengdaföður hennar Ingibjargar dóttur minnar. Þú ætlar að hjálpa mér  með hann.

 

Kolbeinn rís á fætur og við einhvern veginn líðum út úr kirkjunni.

 

 Allt í einu erum við komnir að sveitabæ þar sem vopnaðir menn eru allt um kring. Inni fyrir eru líka vígbúnir men. Það er 7.maí 1197

 

Þorfinnur tengdasonur segir við Guðmund dýra: Það er illt að Ingibjörg dóttir þín er ekki hér. Guðmundur svarar að það sé vel að hún sé ekki en þó myndi það í engu fyrir standa. Er þetta hægt?

 

Þarna stendur Gálmur hinn sænski í dyrum. Einn auðugasti og besti bóndi í Eyjafirði og norðanlands Ég heyri að hann býður Guðmundi dýra aleigu sína til þess að hann hverfi á burt við svo búið.

 

Kolbeinn býður Gálmi þessum svo mikið af fé sjálfs síns sem hann vilji, bara  ef hann gangi út.

 

Gálmur svarar að þeir hafi oft gert grín að sér fyrir drykkjuskap og baðferðir. Nú sé enn boðið til baðs þó minna sé um mjöðinn. Hann gengur inn frá þeim Guðmundi og Kolbeini.

 

Komið þá með eldinn piltar segir Guðmundur. Munið það svo að þið eruð bara verktakar hér í vinnu hjá okkur Kolbeini. Allt sem fram fer hér er á okkar ábyrgð. Allir sem út koma úr bálinu verða drepnir hér á hlaðinu og sjáið þið um það.

 

Svo verður brátt um  Þorfinn tengdason og fleiri menn að hitnar á þeim.Þeir eru allir drepnir um leið og þeir koma út. En hvorki Gálmur né Önundur láta sjá sig.Og hún Ingibjörg er fjarstödd  sem betur fer finnst manni fyrir Guðmund dýra.

 

Brennunni lýkur um dagmál.

Gangið um rústirnar og drepið allt ef eitthvað finnst kvikt segir Guðmundur. Farið svo heim að mjólka strákar segir Kolbeinn. Við Gvendur sjáum um framhaldið og þið fáið senda greiðslu frá okkur.

 

Og það verða  að sönnu eftirmál eftir svona verknað. Jón Loftsson bjargar því sem bjargað verður en tekst samt hvergi þar sem hann er brátt allur.

 

Ég svíf með Kolbeini heim á Flugumýri. Húskarlar eru farnir á gegningar en við Kolbeinn förum í kirkjuna og setjumst í sömu sæti.

   

Hendingarnar svífa til mín:

 

Því heit eg á þig,

þú hefur skaptan mig,

ég er þrællinn þinn,

þú ert Drottinn minn.

 

Guð, heit eg á þig,

að græðir mig,

minnst, mildingur, mín,

mest þurfum þín.

 

Ryð þú, röðla gramur,

ríklyndur og framur,

hölds hverri sorg

úr hjartaborg.

   

Það er samt viss viss þótti í stílnum með tilbeiðslunni enda maðurinn líka veraldlegur  höfðingi sem þarf í mörg horn að líta. Samt er eins og hann viti að ekki sé allt með felldu með  samband hans við Guð.  Varla við öðru að búast. Sekur maður og blóðugur upp fyrir axlir.

Kolbeinn Tumason er  fjöldamorðingi sem og sálmaskáld. 1208 fær hann stein í hausinn í Víðinesbardaga við Guðmund Arason og sveina hans og rís ekki upp aftur.

Minning hans lifir samt  og ljóðlínurnar hans.

Hinn morðinginn Guðmundur dýri sér á langa sögu eftir þetta. Er um margt skemmtilegur fír og hugmyndaríkur. Hann  deyr sem munkur eftir litríkan feril.

Hverjir voru þessir menn í rauninni? Hvernig greinum við þá? Getum við það yfirleitt?

Þeir drápu báðir vin beggja hann Gálm  bónda. Gátu ekki afstýrt því. Það fylgir þeim sem og fleira óbætanlegt.

 

Þýð röddin hljómar enn um leið og ég svíf á braut heim í rúmið mitt

Gæt, mildingur, mín,

mest þurfum þín

helzt hverja stund

á hölda grund.

 

Set, meyjar mögur,

máls efni fögur,

öll er hjálp af þér,

í hjarta mér.

 

Ég er feginn að vera kominn aftur í nútímann þó næg vandamál séu uppi.

Ég hefði ekki viljað standa frammi fyrir honum Gálmi þarna í Lönguhlíð.

Gat hann Gálmur annars nokkuð annað gert?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband