Leita í fréttum mbl.is

Verðtryggingarbullið

veður uppi. Á öllum rásum þusa spekingar um það að verðtrygging sé undirrót allrar ógæfu landsmanna.

Menn eru allir búnir að gleyma því af hverju hún var sett. Hún var nauðvörn. Án hennar ættu landsmenn enga von um sæmilegan ellilífeyri. Bankafífl hafa unnið gegn henni gagnvart almennum sparendum á allan hátt.

Einar S. Hálfdánarson lögfræðingur og endurskoðandi ritar skýra grein um málið í Morgunblaðið í dag. Hann segir:

"Fyrir Vilmundi heitnum Gylfasyni var réttlæti alfa og ómega. Hann sá sparnað gamla fólksins verða að engu í verðbólgu samtíma síns. Gamalt fólk verða fátækt að bráð vegna verðbólgu. Lögverndað rán.

Merkilegt nokk þá brugðust pólitískir andstæðingar hans við og komu á verðtryggingu. Sá sem átti fé skyldi ekki verða rændur því; hann skyldi a.m.k. fá það til baka sem hann hafði léð. Nú heitir það víst okur að fá til baka sömu verðmæti og lánuð voru óskert.

Íslenska þjóðsagan um að verðtrygging tíðkist hvergi í viðskiptum nema hér er svo eitt. Hver skyldi vera höfundur hennar?

En að því slepptu, eru breytilegir vextir virkilega áhættuminni fyrir lántakendur?

Ný verkalýðs hreyfing

Það er nú svo að engir njóta lágra vaxta í sama mæli og stórfyrirtækin. Þeir sem efast geta flett upp hlutabréfamörkuðunum þegar vaxtalækkun er tilkynnt. En ekki hvað?Lækkun vaxta eykur hagnaðinn samdægurs. Almenningur, eigendur sparifjárins, sér nú fram á nýja tíma.

Ný verkalýðshreyfing er komin til skjalanna. Kaupið skal margfaldast. Og hvar er nú fé að fá til þess? Jú, eftirlaunin eru greinilega of há. Afnám verðtryggingar hefur nefnilega hreint engin áhrif, nema verðbólga komi til skjalanna. Þangað skal stefnan aftur tekin.

Glittir ekki í gamlan útrásarvíking bak við hugmyndafræðina? Gamla trixið enn og aftur; nema hvað, ræna ellilífeyrinum – eina ferðina enn.

Vextirnir

Þau eru miklir spekingar þessir nýju verkalýðsleiðtogar. En eitt geta þau verið sammála um; 3% vextir ofan á verðbólgu eru okur.

Spurningin er þá þessi:

Hversu mikið skal ævisparnaðurinn rýrna ár hvert til að viðunandi sé að þeirra mati? Svari nú hvert þeirra fyrir sig.

Ég segi bara fyrir mig; vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti."

Þessi verðtryggingarsíbylja er orðin skelfileg. Líf manna á ekki byggjast upp á lánum heldur sparnaði.

Verðtryggingarbullið um skaðsemina fyrir lántakendur er lýðskrum af verstu tegund.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er nú meira rausið í þér karl. Verðtrygging á neytendalánum til almennings er hvergi í heiminum notuð nema hér. Útlendingar sem heyra af fyrirbærinu eru forviða enda þekkist þessi svikamylla hvergi nokkurs staðar nema til fagfjárfesta. Er hún ekki alveg makalaus fáfræðin að fleiri ríki taki ekki upp þessi frábæru leið, ef hún er sú eina sem getur skilað raunvirði láns til lánveitandans? En á Íslandinu góða er þetta álitin tær snilld af þinni kynslóð! Það er nú eina lýðskrumið í umræðunni!

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.11.2018 kl. 13:33

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Verðtryggingunni var komið á vegna afleiðinga af efnahagslegri óstjórn og spillingu. Hún tryggir að efnahagsleg óstjórn og spilling geti áfram viðgengist, en án þess að það rýri hlut lánveitenda.

Þorsteinn Siglaugsson, 17.11.2018 kl. 16:05

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Verðtrygging sem slík er ekki slæm.  En þá þarf líka að nota hana á öllum sviðum.  Hvað vextina varðar er þá líka leystur vandinn; með verðtryggingu á höfuðstól (skulda og eigna) er ekki þörf á hærri vöxtum (inn- og útlána) en gengur og gerist erlendis.  Þetta myndi virka í fjármálageiranum og jafna út mögulegri óstjórn og spillingu.

Kolbrún Hilmars, 17.11.2018 kl. 16:52

4 identicon

Neytendalán eru almennt ekki verðtryggð, einungis fasteignalán, og á lengri bílalán, og hefur fólk val um hvort tveggja.

Verðtrygging er notuð í þrem löndum utan Íslands, Ísrael, Brasilíu og Argentínu. Uppbyggingin svipuð, en verðtryggingargrunnur mismunandi, t.d. getur lán verið bundið gjaldmiðlakörfu, eða einhverjum einum gjaldmiðli, eins og t.d. Bandaríkjadollar.
Ákvörðun um vísitölutryggingar voru líka svipaðar og á Íslandi. Brasilía vegna sveiflna á olíu, Argentínu vegna hreinnar óstjórnar og Ísrael vegna gríðarlegs kostnaðar vegna stríða og uppbyggingar vegna aðfluttra gyðinga. Á Íslandi var það fiskurinn.

Verðtrygging tryggir ekki litla verðbólgu, einungis að þeir sem eiga fjármagn eru tryggðir fyrir verðbólgunni, en ekki hinir. Ungt fólk og efnalítið hefur þörfina fyrir lán, ekki þeir ríku.
Með því að hækka lánin stöðugt með verðtryggingu, er verið að taka burt möguleika þessa fólks til að mynda einhvern ævisparnað fyrir ellina. Sem sagt, Halldór, með því að halda verðtryggingunni, er verið að stela sparnaði, áður en hann verður til.

Á sínum tíma var verðtryggingu komið á vegna gríðarlegs taps bankanna, sem voru að stærstum hluta í eigu ríkisins, og Byggingarsjóðs. Sparnaður margra þeirra sem eru núna komnir eða að komast á eftirlaun var því í raun eignafærsla frá ríkissjóði (okkur) til þeirra sem skulduðu. Þeir einstaklingar sem þá töpuðu fé á inneignum, eru flestir komnir undir græna torfu.

Í dag er nákvæmlega ekkert sem mælir með verðtryggingu. Ekkert.
Verðtrygging getur aldrei komið í stað góðrar hagstjórnar. Og góð hagstjórn kemur ekki, ef stjórnmálamenn geta ekki staðið í lappirnar gegn kröfum um aukin útgjöld ríkissjóðs.

Hilmar (IP-tala skráð) 17.11.2018 kl. 17:02

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég man ekki betur en að í viðamiklum athugunum á mismunandi möguleikum í lánamálum eftir Hrunið hafi verðtryggingin komið skást út fyrir ákveðinn hluta lántakenda. 

Hvers vegna er þörf á að taka burt þennan möguleika, fyrst aðrir bjóðast samtímis? 

Á mestu verðbólgutímunum 1971-1989 voru hundruð milljarða króna á núvirði tekin af sparifjáreigendum, svo sem gamla fólkinu og líknarsjóðum og færð til lántakenda. 

Það var vegna þess að verðbólgan var miklu meiri en nam leyfilegum vöxtum. Dæmi um verðbólguna var þegar Alþingi samþykkti svokallaða þjóðargjöf á 1100 ára afmæli landnáms á Þingvöllum 1974, og þessi "gjöf" var orðin að nær engu á tíu árum. 

Þetta var í raun stórfelldasta rán í Íslandssögunni fram til 2008. 

Þetta 

Ómar Ragnarsson, 17.11.2018 kl. 17:25

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smá viðbót. Upp komu aðstæður á þessum tímum þessa mikla ráns að einstakir menn buðu leynilega einstaklingum upp á lán utan við bankakerfið. 

Þessir menn vildu hafa sitt á þurru og voru með hærri vexti en leyfilegir voru. 

En þegar verðbólgan var mest reyndust þessir vextir vera raunvextir þótt þessir menn fengju á sig eins konar ræningjastimpil og væru kallaðir "okurlánarar" og lagabrjótar. 

Ómar Ragnarsson, 17.11.2018 kl. 17:30

7 identicon

Verðtrygging er og verður alltaf eignaupptaka, þ.e. ef skilið er á milli vísitölu fjármagns og vinnulauna. Ef laun hækkuðu í samræmi við lánin þá væri eignaupptakan engin. En þá er líka farinn tilgangurinn með vísitölunni, sem er eignaupptaka. Lántakandinn situr alltaf uppi með kostnaðinn, en lánveitandinn hefur allt sitt á þurru.
Hætta lánveitenda verður svo enn minni, þar sem íbúðir verða alltaf skráðar í bókhaldi á því matsverði sem hentar lánveitandanum sjálfum.

Hrunið 2008-8 hefði ekki verið jafn slæmt fyrir almenning, ef vinstristjórnin hefði staðið við loforðin um Skjaldborgina um heimilin. En markmiðið var alltaf að hámarka endurheimtur ríkis, sveitarfélaga, lífeyrissjóða, en umfram allt þrotabúa bankanna, sem urðu þrotabú í eigu vogunarsjóða.

Hrunið verður alltaf besta dæmið um að vísitölubinding lána gengur ekki upp. Hrun kemur beint fram í hækkun skulda. Með lánum á föstum vöxtum gefst fólki oftast eitthvað ráðrúm til að mæta óvæntum aðstæðum, þar sem vextir eru ákvarðaðir á fimm ára fresti.
Það eitt er hvatning til lánastofnana að fara varlega í lánveitingar, þar sem ofþensla, samdráttur (og hrun) og aukin verðbólga getur sett banka á hausinn.

Með því að vísitölutryggja lán, er tekinn burt sá hvati sem lánastofnanir þurfa til að sýna ábyrga hegðun.

Hilmar (IP-tala skráð) 17.11.2018 kl. 18:31

8 identicon

Bara okkur lesendum þínum til fróðleiks, hvaða gamla útrásarvíking hefurðu í huga Halldór, þegar þú segir:

Glittir ekki í gamlan útrásarvíking bak við hugmyndafræðina?  Gamla trixið enn og aftur; nema hvað, ræna ellilífeyrinum – eina ferðina enn. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.11.2018 kl. 19:04

9 identicon

Annars vil ég segja að það er fágætt að sjá svo afburða þekkingargóðar athugasemdir á almennu athugasemdakerfi og koma fram hjá Hilmari.  Það segir mér aðeins eitt, að það er vert að lesa pistla Halldórs og þá sem skrifa þar athugasemdir.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.11.2018 kl. 19:07

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Allir skauta fram hjá því að verðtryggingin var fundin upp aðeins til að vernda eigur þeirra smáu.Ekki vegna lántakenda.

Halldór Jónsson, 17.11.2018 kl. 21:37

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Hiklmar er pikkfastur í sjónarmiðum lántakenda og getur ekki skilið það að verðtryggingin var sett til að bjarga fjármunum hiina snauðu.

Ef lántakendur fá afslátt kemur hann frá þeim sem áttu peningana. Svo einfalt er það. En lánabullararnir vilja ekki skilja þetta.

"Hrunið verður alltaf besta dæmið um að vísitölubinding lána gengur ekki upp. Hrun kemur beint fram í hækkun skulda. Með lánum á föstum vöxtum gefst fólki oftast eitthvað ráðrúm til að mæta óvæntum aðstæðum, þar sem vextir eru ákvarðaðir á fimm ára fresti.

Það eitt er hvatning til lánastofnana að fara varlega í lánveitingar, þar sem ofþensla, samdráttur (og hrun) og aukin verðbólga getur sett banka á hausinn.

Með því að vísitölutryggja lán, er tekinn burt sá hvati sem lánastofnanir þurfa til að sýna ábyrga hegðun."

Halldór Jónsson, 18.11.2018 kl. 11:26

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í mínum huga eru það fyrst og fremst vextir á lánum sem eru háir. Ég kvarta ekki yfir verðtryggingunni sem slíkri þótt ræða megi útfærsluna, en að vera með t.d. 5% vexti í ofanálag en ansi hart, sérstaklega á löngum lánum. Annars hafa verðtryggðu lánin bara komið ágætlega út í þeirri litlu verðbólgu sem verið hefur undanfarin ár. Liggur við að lítil vísitöluhækkun undanfarið sé búin að vinna upp "forsendubrestinn" sem varð eftir hrun.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.11.2018 kl. 11:59

13 identicon

Gefum okkur að það sé rétt hjá þér að Hilmar sé pikkfastur í sjónarmiðum lántakenda eins og þú orðar það, en þá má spyrja á móti:  Getur verið að þú sért pikkfastur í sjónarmiðum lánveitenda?

Mér finnst hér vert að taka undir orð Emils um að vitaskuld eru vextir ofan á verðtryggð lán allt of háir.  Ég mundi segja að 5% vextir ofan á verðtryggð lán séu ekkert annað en okur, fjárplógsstarfsemi. 

Í mínum huga ættu vextir ofan á verðtryggð lán að vera að hámarki 2% líkt og vextir eru í siðuðum löndum þar sem verðbólgusviptingar eru litlar sem engar og þeir vextir eru þar því óverðtryggðir.  Þetta segi ég sem talsmaður krónunnar, en að við sættum okkur við smá sviptingar með okkar litla gjaldmiðil, en að við sættum okkur ekki við okurvexti ofan á verðtryggðu fasteignalánin.  Væri það ekki hin raunhæfa sáttaleið sem allir gætu þolanlega við unað?   

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 18.11.2018 kl. 13:28

14 identicon

Halldór, vísitölubindingar eru ekki íslensk uppfinning.
Slíkar bindingar voru ALLS EKKI hugsaðar til að vernda hag litla fólksins, heldur til að vinna bug á óðaverðbólgu.
Bretar og Bandaríkjamenn íhuguðu að fara þá leið að vísitölubinda, á svipuðum tíma og við Íslendingar. Þeir hurfu frá því, þar sem ókostirnir voru taldir mun meiri en kostirnir.
Þess utan er vísitölubinding einungis hugsuð sem skammtímaaðgerð, ásamt öðrum efnahagsaðgerðum, til að stemma stigu við verðbólgu.

Helsta ástæða vísitölubindingar er sú staðreynd, að í óðaverðbólgu hverfa innlán. Ekki að þau rýrni, heldur af því að fólk nýtir féð í neyslu eða e-h annað sem skilar fénu ekki inn á reikninga.
Þess vegna fór íslenski ríkisjóðurinn að verðtryggja ríkisvíxla um miðbik áttunda áratugarins. Ástæða þess var náttúrulega sú, að ríkisbankarnir voru tómir, og vinstrimenn í eyðslufylleríi.
Og menn tóku enn heimskulegra skref, fóru að vísitölutryggja laun, sem að sjálfsögðu tryggði að hinar reglulegu gengisfellingar skiluðu sér beint í launahækkunum og aftur, aukinni verðbólgu.

Hilmar (IP-tala skráð) 18.11.2018 kl. 16:17

15 identicon

Og að litla fólkinu sem tapar ávöxtun á innlánum.

Við skulum ímynda okkur lítið fólk, sem leggur fé sitt inn á verðtryggðan innlánsreikning. Það nýtur engrar ávöxtunar, hún er neikvæð ef eitthvað er, og er þess utan skattlögð.
Almennir reikningar eru ekki vísitölutryggðir, og með lágmarksvöxtum. Þarna geymir þorri fólks sitt daglega fé.
Í verðbólgu töpum við öll á þessu, en ekki bankarnir, þar sem þeirra útlán eru tryggð, með vísitöluhækkunum. 

Litla fólkið sem gerði sér grein fyrir ofangreindu fór með sitt sparifé í verðbréfasjóði fyrir hrun. Þessir sjóðir eru ekki verðtryggðir, heldur fer ávötun eftir árangri á markaði. Við vitum öll hvernig fór með stóran hluta af þessum sparnaði.

Nú, ef þú berð hag litla fólksins fyrir brjósti, þá verður það varla smærra en fólk sem hefur ekki efni á húsnæði á þeim kjörum sem það býðst í dag. Ég myndi telja að sá sem hefur efni á því að leggja væna summu til hliðar, sé alls ekki í þeim sporum að teljast lítið fólk.

Og hagnaður bankanna, það er mikilvægur þáttur. 
Bankar þurfa að hagnast eins og önnur fyrirtæki. Íslensk bankamenning hefur svo sem ekki boðið upp á mikið öryggi í bankarekstri. Áratugum saman með ríkisbanka, þar sem útlán voru pólitísk, en ekki byggð á eðlilegum forsendum. Við þekkjum svo sögu einkabankanna eftir sölu ríkisbanka.

En málið er þetta. Banki sem hefur belti og axlarbönd þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af verðbólgu og ofþenslu, eða gengissigi með venjuleg útlán. Gegn þessu hefur bankinn tryggingu í gegnum verðbætur.
Bankinn er því stikkfrí þegar kemur að skynsamlegri efnahagsstjórnun. Hann ber enga ábyrgð, þó svo að hann dæli út peningum. Og eðli bankalána eru þau, að menn freistast alltaf til að taka of há lán, og bankar að veita þau. Nema náttúrulega, að bankar þurfi að axla ábyrgð á útlánastarfsemi.

Eina leiðin til að stöðva þennan vítahring, er að afnema verðtryggingu algerlega, og afnema ríkisábyrgðir af innlánum.
Þar með skiptir það meira máli fyrir banka að sýna traustan efnahag og eðlilegan afrakstur, öðruvísi fær hann ekki innlánsfé frá almenningi.

Fastir vextir í fimm ár, fær alla til að hugsa fram í tímann.
Í dag hefur venjulegt fólk ekki hugmynd um það hvernig efnahagslíf þróast næstu fimm ár, eða hvernig lánin koma til með að standa. En með fimm ára plan með föstum vöxtum, þá verður það auðveldara.

Hilmar (IP-tala skráð) 18.11.2018 kl. 16:44

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Æ Hilmar, þetta síðasta fannst mér ekki mikils virði í umræðunni og tengist rökunum með eða á móti alls ekki að mínu viti.

Halldór Jónsson, 18.11.2018 kl. 17:08

17 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér finnst að vextir ofan á verðtryggingu væru hæfilegir 1-2 % í hæsta lagi.

Halldór Jónsson, 18.11.2018 kl. 17:09

18 identicon

Af hverju að tryggja krónur, en ekki afkomu?

Ef landinu er illa stjórnað, við sitjum uppi með verðbólgu og versnandi afkomu, af hverju skyldu lánsfjáreigendur einir vera undanskyldir því að taka á sig byrðar sem fylgja minnkaðs verðmæti krónunnar?

Krónur eru ávísun á verðmæti, og í slakri afkomu, aukinni verðbólgu og versnandi utanríkisverslun, þá eru verðmætin á bak við krónuna minni og minnkandi. Það ætti líka að gildi um verðmæti útlána.

Sem dæmi þá getum við tekið fasteign með 80% veðsetningu miðað við kaupverð. Sá dagur getur komið, og hefur komið áður, að verðmæti eignarinnar standi í stað í ákveðið langan tíma. Á sama tíma hefur veðsetningarhlutfallið aukist umfram 100% af verðmæti vegna vísitölubindingar. 

Sé lánið með föstum vöxtum, þá helst veðsetningarhlutfallið svipað áfram, en afborganir hækka eftir ákveðinn tíma, þar sem vextir eru breytilegir. Þetta fer þó algerlega eftir hvers konar lán um ræðir. Þessi leið tryggir t.d. að fólk sem hefur tekjur, og getur staðið undir afborgunum, getur stækkað og minnkað við sig húsnæði, þar sem eiginfjárhlutfallið er lítið breytt. Sá sem skuldar umfram hreyfir sig ekki, og það þekkjum við.

Og nú er það spurningin sem þú þyrftir eiginlega að svara Halldór, af hverju er 20% eign (sparnaður)í húsnæði minna virði en þeirra sem eiga sparnaðinn í fé? Við vitum báðir að þorri fólks getur lítt sparað fyrir utan eignamyndun í húsnæði.

Og að lokum, það mætti halda að það sé byltingarkennd og jafnvel sósíalísk hugmynd að afnema vísitölubindingar. Það er nú bara þannig að einungis fjögur lönd í heiminum nota þessa aðferð, hin 200 gera það ekki. Það er ástæða fyrir því.

Hilmar (IP-tala skráð) 18.11.2018 kl. 18:50

19 Smámynd: Halldór Jónsson

Hilmar, þú neitar að skilja hversvegna Ólafslög voru sett.Markaðurinn tryggir verð fasteigna.Sparifé þarf að vernda. Lífeyririnn þinn er verðtryggður. En þú vilt gefa hann vegna skammtíma skulda þinna.

Halldór Jónsson, 19.11.2018 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 3419711

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband