Leita í fréttum mbl.is

Ragnar Þór Ingólfsson

gefur sér tíma frá kjararuglinu til að beita skynsemi á Lífeyrissjóðakerfið sem er löngu vaxið sér yfir höfuð.

Hann í segir í Morgunblaðinu að félögin sem vísað hafa kjaradeilu til ríkissáttasemjara vera sammála um að ráðast þurfi í gagngera endurskoðun á sjóðsöfnunarkerfi lífeyrissjóða á Íslandi. Kerfið sé dýrt og komi bæði niður á afkomu hjá atvinnurekendum og kaupgjaldi launþega.

Umrædd félög eru VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness.

Ragnar Þór rifjar upp að mótframlag atvinnurekenda hafi hækkað um 3,5% síðustu ár í 11,5%. Iðgjald launamanns sé nú 4% og framlagið í lífeyrissjóð því alls 15,5%.

Með þessari hækkun eigi lífeyrisréttindi að vera komin í 72-76% af meðallaunum miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Hlutfallið hafi áður verið 56%.

„Hins vegar verður þessi breyting ekki komin fram að fullu fyrr en eftir 40 ár. Eftir þessa hækkun getur iðgjald til söfnunar lífeyrisréttinda orðið allt að 21,5%, að teknu tilliti til framlags í séreignarsjóði, sem getur verið allt að 6%, eða 2-4% frá launþegum og 2% frá atvinnurekendum,“ segir Ragnar Þór.

Þessi viðbót gefi um 18,6%-28% réttindi sé reiknað á sama grunni og gert sé með samtryggingarkerfi lífeyrissjóðanna.

Allt að 104% af meðallaunum

„Félagsmaður sem greiðir í skyldubundið iðgjald og í séreignarsjóð ætti því að vinna sér inn 94,6% til 104% af meðallaunum miðað við 40 ára inngreiðslutíma,“ segir Ragnar Þór og bendir svo á að íslenskt launafólk sé lengur en 40 ár á vinnumarkaði, eða 48,8 ár að jafnaði. Þá séu margir lífeyrissjóðir með hærri réttindi en umsamið lágmark.

„Miðað við 15,5% framlag og inngreiðslur frá 16 til 67 ára aldurs vinnur sjóðfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna sér inn 105,1% lífeyrisréttindi af meðalævitekjum. Að viðbættri 6% séreign er ávinnslan 160,6% af meðalævitekjum,“ segir Ragnar Þór og rökstyður mál sitt.

Það má spyrja hvort iðgjöldin í lífeyrissjóðakerfið séu orðin of há ef lífeyrisréttindin eru komin yfir 100% af meðalævitekjum að meðaltali.

Sé hinn raunverulegi inngreiðslutími, sem er nær 50 árum en 40, hafður til hliðsjónar og séreignarsparnaði bætt við fást miklu hærri niðurstöður en 100%.

Það má því færa rök fyrir að kerfið sé bæði offjármagnað og spyrja hvort launatengd gjöld og iðgjaldahluti lífeyrissjóðanna séu hugsanlega farin að hafa neikvæð áhrif á lífskjör almennings til lengri tíma.

Það er margt sem bendir til að kerfið sé orðið of íþyngjandi fyrir hagkerfið og fyrir lífskjör almennt.“

Óraunhæf ávöxtunarkrafa

Þessi neikvæðu áhrif birtist meðal annars í „óraunhæfri ávöxtunarkröfu“ lífeyrissjóðanna. „Sé litið á ávöxtunarkröfuna á hagkerfið út frá innlendum eignum lífeyrissjóðanna eru þær á fimmta þúsund milljarðar og hærri en landsframleiðslan.

Lífeyrissjóðirnir taka því bróðurpartinn af hagvextinum til sín í kröfu á ávöxtun sjóðakerfisins. Það er meðal annars gert með því að halda uppi vaxtakostnaði almennings af húsnæðislánum og með því að halda uppi álagningu í smásölufyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir eiga.

Þetta gerist líka með því að lækka kaupgjaldið. Það er krafa um lægri vinnukostnað og hærri álagningu til að standa undir þessari kröfu. Þetta getur því haft neikvæð áhrif á kaupgjaldskröfuna.

Margt kallar á breytingar

Ragnar Þór segir aðspurður að verkalýðsfélögin séu tilbúin að skoða lækkun á iðgjaldi í lífeyrissjóðina gegn hækkun launa. „Það er fyrst og fremst kominn tími til að endurskoða þetta sjóðsöfnunarkerfi og þetta fyrirkomulag. Það er svo margt sem kallar á slíkar breytingar. Kerfið er orðið íþyngjandi fyrir almenning og félagsmenn okkar og sjóðfélaga.

Það má til dæmis rekja veikingu krónunnar að undanförnu til þess að lífeyrissjóðirnir eru að flytja fjármagn úr landi. Þeir eru að færa meira af sínum fjárfestingum sínum utan, sem er að mörgu leyti gott. Það þarf hins vegar að fara varlega í sakirnar. Ef þetta skerðir lífskjör með því að rýra kaupmátt fólks með veikingu krónunnar eru sjóðirnir enda farnir að vinna í mótsögn við sjálfa sig,“ segir Ragnar Þór.

Er ekki ástæða til að staldra við og hætta að gleypa allt hrátt sem frá lífeyrissjóðunum kemur um ágæti alls sem þeir gera?

Hefur ekki Ragnar Þór margt til síns máls?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ragnar Þór Ingólfsson hefur skilning á heilbrigðri hagfræði, og hefur barist fyrir þessu lengi.

Ég fagna því Halldór, að þú sjáir skynsemina í málflutningi Ragnars Þór, sem er maður sem er miklu nær sígildum grunngildum Sjálfstæðisflokksins, en forysta flokksins sem er að hrynja, hvað traust og atkvæðatölur varðar, skiljanlega! 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.1.2019 kl. 21:01

2 identicon

Ragnar er framsýnn og klár maður.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 16.1.2019 kl. 23:21

3 identicon

Eina vitið er að leysa upp lífeyrissjóðina. Þeir eru fyrir löngu farnir að ráðast á félagsmenn með þeirra eigin fé. Af minnsta tilefni fá sjóðsfélagar ekki lán vegna lélegs lánshæfismats,til að geta notað meira í áhættufjárfestingar. Lífeyrissjóðirnir hegða sér eins og spilafíklar. Það vekur furðu mína að verkalýðsforingjar skuli ekki gera kröfur til ríkissins um sparnað t.d í utanríkisþjónustunni,loka ríkissjónvarpi og hætta að styrkja menningu. Þetta eru gífurlegir fjármunir sem gagnast fátækum ekkert.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 17.1.2019 kl. 08:25

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór

Það er náttúrulega galið að launþegar skuli greiða hærri iðgjöld til lífeyriskerfisins en þeir greiða til síns sveitarfélags. Sér í lagi þegar lífeyrissjóðirnir ávaxta síðan það fé á áhættumarkaði. Við sáum hvað skeði í hruninu, 500 milljarðar af eigum lífeyrissjóðanna glötuðust á einum degi! Þetta samsvaraði um 25% af skráðum eignum sjóðanna!

Það er einnig glórulaust að skráðar eignir sjóðanna í dag skuli vera nærri tvöföld velta ríkissjóðs.

Þá getur það á engan hátt geta talist eðlilegt að lífeyrissjóðir skuli vera aðaleigendur í flestum fyrirtækjum landsins, sem eru á markaði. Í sumum tilfellum með yfir 50% eignarhlut. Þau fyrirtæki sem utan sjóðanna standa gætu þeir eignast fyrir hádegi, svo miklar eru eigur þeirra taldar og að auki allar einkaeigur landsmanna. Er þetta í lagi?

Við eru einungis 340.000 hræður hér á landi, svona eins og starfsmenn í þokkalegu fyrirtæki erlendis. Einn lífeyrissjóður væri meir en nóg, þ.e. ef menn vilja halda áfram að vera með söfnunarkerfi til þessara nota. Önnur þekkt aðferð er svokallaðir gegnumstreymis lífeyrissjóðir.

Hvað sem öllu líður er vissulega þörf á að endurskoða þetta kerfi, það er langt frá því að virka. Hægt væri að sætta sig við þessi ofboðslegu iðgjöld, ef þau skiluðu sér til lífeyrisþega.

Þar er nefnilega stæðsti vandinn. Lífeyrisþegarnir, það fólk sem sjóðirnir voru stofnaðir til handa, eru ekki að njóta þess sem þeim er ætlað! 

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 17.1.2019 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband