Eftir sem áður hef ég reynt að bera ábyrgð á eigin lífi.
Nú þykir það móðgun í háskólum þegar stúdentar fá lægri einkunn en 8,5. Einkunnin 9,0, sem er ágætiseinkunn, er hin almenna viðmiðun fyrir venjulegan nemanda. Að öðrum kosti er krafist prófdómara eða annars konar andmælaréttar.
Tekjujöfnuður
Í þeim kjaradeilum, sem nú standa, er útgangspunkturinn ójöfnuður. Það eru til heilir stjórnmálaflokkar, sem telja að þeir eigi að leggja sitt af mörkum til að draga úr ójöfnuði. Það er ekki alveg ljóst hvert er upphaf ójafnaðar. Fulltrúar þessara flokka telja að nota eigi tekjuskattkerfið til að auka jöfnuð. Það er ekki auðvelt að finna miklar bókmenntir í hagfræði, sem leiðbeina um aukinn jöfnuð með tekjuskatti. Tekjuskattur er í eðli sínu tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga. Vissulega hefur stighækkandi tekjuskattur áhrif til þess að lækka há laun.
Venjulega er velferðarkerfi til hliðar við skattkerfi til að tryggja þeim, sem verða utanveltu á vinnumarkaði, lágmarks tryggingu. Á Íslandi er velferðarkerfið svo harðdrægt að allt, sem gert er til að komast út úr gildrum, vinnur gegn bótaþega, vegna jöfnuðar.
Þetta leiðir hugann að grundvallarspurningu: Hvenær verður skattlagning eignarnám? Þegar meira en helmingur af tekjum er tekinn í skatt, er það eignarnám? Það má svara á móti að öll skattlagning sé eignarnám. Jafnvel skattlagning á veltu, þar sem skattborgari fær þjónustu á móti, án þess að þjónustan sé skilgreind nákvæmlega.
Þá er einnig grundvallarspurning um sameignarfélagsfyrirkomulag, sem nefnist hjónaband. Á að ástunda sérsköttun eða samsköttun hjóna? Femínískir fasistar telja að það beri að sérskatta hjón, vegna þess að karlmaðurinn í hjónabandi hefur oftar hærri tekjur en konan. Leiðir slíkur jöfnuður til réttlætis? Er það hlutverk femínista að úrskurða um það á hvern veg hjón ákveða að haga tekjuöflun heimilis?
Eiga femínistar alltaf að bera ábyrgð á lífi annarra?
Hvursu langt á fjármálaráðuneytið að ganga í kynjaðri hagstjórn til að láta eftir duttlungum femínista?
Jöfnuður og hjónaband
Þegar gagnmerkir en mjög misgáfaðir stjórnmálamenn tala um það eins og að drekka vatn, að auka eigi jöfnuð, þá vakna óneitanlega spurningar um háttalag frjáls fólks. Hvað gerist þegar flugstjóri giftist lækni? Vex jöfnuður eða minnkar? Svarið er augljóst. Það kann að vera að stighækkandi tekjuskattur dragi að nokkru úr ójöfnuði, sem fylgir slíku hjónabandi.
Augljóslega minnkar jöfnuður þegar tekjuháir einstaklingar maka sig saman. Það er þá stjórnmálaflokka að taka á slíkum ójöfnuði, og sennilega koma í veg fyrir slík hjónabönd með lagasetningu eða mjög sérstökum sköttum.
Jöfnuður og menntun
Ef baráttumál Bandalags háskólamanna um að menntun verði metin til launa, nær fram að ganga, þá vex ójöfnuður. Til hvers er BHM að berjast ef tekjuskattskerfi á að eyða ávinningi kjarabaráttu og þess sem vinnumarkaðurinn metur vinnuframlag. Það er misskilningur að laun ráðist einungis af kjarasamningum. Laun ráðast af verðmæti vinnuframlags.
Sama á við um sjálfvirknivæðingu og tæknivæðingu. Þar sem vinnuhöndin hefur horfið í framleiðsluferli og vélar komið í stað vinnuafls hefur komið fram annars konar vinnuafl. Það vinnuafl leggur fram sérfræðiþekkingu í vélfræði og tölvuþekkingu. Þessar stéttir eru á mun hærri launum en launum handaflsins. Þetta vinnuafl áskilur sér hluta af þeim ávinningi, sem vélvæðing hefur í för með sér. Ný frystihús auka sérstaklega á ójöfnuð, nema að tekið sé á tæknivæðingu í fæðingu.
Nú er misjöfn spurn eftir vinnuafli. Þannig er heilbrigðisstarfsfólk eftirsótt á vinnumörkuðum utanlands. Sennilega er rétt að reyna ekki að halda í það til að draga úr ójöfnuði.
Það er engin spurn eftir íslenskum bankastjórum utanlands. Það er augljóst hvað á að gera í tilfellum þeirra.
Sama á við með afgreiðslufólk í stórmörkuðum, það verður verr sett en þeir, sem hafa sérfræðiþekkingu á sjálfsafgreiðslukerfum í verslunum.
Það er því augljóst að aukin tæknivæðing og sjálfvirkni, sem krefst menntaðs vinnuafls, eykur ójöfnuð. Hvernig ætla gáfaðir stjórnmálamenn að taka á þeim ójöfnuði sem fylgir aukinni menntun? Sennilega er aðeins eitt ráð til þess, það er að draga úr menntun.
Þegar fleiri konur en karlar útskrifast úr háskólum þurfa femínistar að taka á því óréttlæti, sem kann að fylgja í kjölfarið. Með hvaða hætti verður sú kynjaða hagstjórn?
Réttlæti
Eitt af því sem fylgir atvinnuþátttöku er skylda til að greiða í lífeyrissjóði af launum, auk mótframlags vinnuveitanda. Þessi framlög eru forgangskröfur í þrotabú. Skylduaðild er lögð á launþega vegna þess að af launþeganum verður aldrei tekin ábyrgð á framfærslu eftir að starfsævi lýkur.
Með tekjutryggingu ellilífeyris fylgir að framlag almannatrygginga minnkar á móti hverri krónu, sem kemur úr lífeyrissjóðum. Hér verður þó að hafa í huga að þegar lífeyrissjóðakerfinu var komið á fót um 1970 var því ætlað að verða meginstoðin við greiðslu ellilífeyris. Almannatryggingum var ætlað að styðja þá, sem ekki nutu nægs lífeyris úr lífeyriskerfinu, en hugsunin var ekki sú að allir ættu að fá jafnt úr almannatryggingum.
Engu að síður finnst mörgum það nokkuð hart, sérstaklega þeim sem fá lítinn lífeyri úr lífeyrissjóðum, að sá lífeyrir skerði bætur almannatrygginga að fullu, þannig að ávinningurinn af þátttöku í lífeyrissjóði hverfur. Spurningin verður því sú, til hvers var greitt í lífeyrissjóði?
Sama á við um greiðsluþátttöku á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóði, greiða fyrir dvöl sína að hluta með lífeyrisgreiðslum, en þeir sem ekki hafa greitt í lífeyrisjóði, fyrir þá er greitt að fullu úr tryggingakerfi.
Nú kunna að vera mismunandi ástæður fyrir því að fólk hefur ekki greitt í lífeyrisjóði. Ein ástæðan er hjá konum sem fóru seint á vinnumarkað. Önnur ástæða er örorka, stundum frá fæðingu.
Alvarlegasta ástæðan eru skattsvik. Þá hefur viðkomandi ekki greitt fyrir þátttöku í samfélaginu með sköttum og þar af leiðandi ekki greitt í lífeyrisjóði. Sá fær svo greiddar bætur almannatrygginga og situr uppi með svipaða stöðu og þeir sem hafa greitt í lífeyrisjóði af lágum launum. Þetta réttlæti finnst fátækum lífeyrisþegum jafn hlægilegt réttlæti og að flá þá.
Þetta er kallað jöfnuður en þeim, sem hafa greitt að fullu, finnst þetta ekki réttlæti.
Skammdegi, sekt og réttlæti
Þegar skammdegið er að láta undan birtunni, sést að skammdegið og réttlætið er af sama toga, maður skilur það best á vorin þegar sólin skín, að þau eru bæði vond.
Jóni Hreggviðssyni var sama hvort hann var sekur eða saklaus, hann vildi aðeins eitt réttlæti, en það var að hafa bátinn sinn í friði, til þess að geta borið ábyrgð á eigin lífi."
Nú þegar kjaftagangurinn um nauðsyn jöfnuðar ríður húsum allstaðar í þjóðfélaginu og meira á eftir að koma, þá er þessi skarplega athugun Vilhjálms nokkuð sem menn mega hugleiða með sér áður en æpt er upp yfir sig.
Athugasemdir
Vilhjálmur Bjarnason er góður Garðbæingur. Hann hefur vel svarað í spurningakeppnum fyrir bæinn sinn. Hjarta hans ræður oft í skrifum hans um samfélagið. Hann skrifar í dag um jöfnuð og réttlæti og lítið eitt um feminista.
Ábending hans um Jón Hreggviðsson, sekur eða saklaus,vildi hann hafa bátinn sinn í friði til að geta borið ábyrgð á eigin lífi, var gott innlegg fyrir daginn í dag.
Einhver mektarmaður spurði, hvort Vilhjálmur væri rétti maðurinn til að reka banka VR manna í náinni framtíð?.
Eg þekki ekki Vilhjálm Bjarnason persónulega, en við heilsumst eins og aðrir góðir Garðbæingar.
GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 17.3.2019 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.